Úrskurður umhverfisráðherra

Siv Firðleifsdóttir umhverfisráðherra kom ýmsum á óvart með því að ógilda úrskurð skipulagsstjóra um 480 þús. tn. álver í Reyðarfirði og menn eru ekki á einu máli um afleiðingarnar. Virkjana- og álverssinnar bera sig vel og fullyrða að gjörningur ráðherra flýti fyrir því að ráðist verði í byggingu 120 þús. tn. álvers og segja fráleitt að það breyti nokkru um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar. Umhverfissinnar eru á öðru máli, nú sé tími og lag til þess að vinna að lögformlegu mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Enn einu sinni stenst ekki sú fullyrðing, sem margsinnis hefur verið færð fram sem röksemd gegn lögformlegu mati, að til þess gefist ekki tími. Þrjóska virkjana- og álverssinna ríður hins vegar ekki við einteyming, þeir munu ekki gefa eftir í þessu máli ótilneyddir.

Og nú er spurning hvort ákvörðun Sivjar er ekki úthugsaður leikur í því erfiða tafli sem flokkur hennar hefur þvælt sér út í. Framsóknarmenn vilja ekki taka neinum umhverfisrökum, en arðsemisrökin eru óneitanlega farin að reynast þeim erfiður ljár í þúfu. Þeim finnst óþægilegt að sitja undir öllum greinunum og ræðunum frá hagspekingum, sem sjá ekkert hagrænt vit í áformunum um Reyðarál og þó fyrst og fremst Fljótsdalsvirkjun. Og sjálfstæðismönnum er farið að leiðast að bakka upp þessa vitleysu, sem þeir virðast hafa lofað að gera í skiptum fyrir einkavæðingu Landssímans. Það skyldi þó aldrei vera að flokksformennirnir hafi sest niður með Siv og fundið þessa leið til að tefja fyrir undirbúningnum í trausti þess að Norsk Hydro sæi þar með ástæðu til að draga sig út úr málinu! Þar með opnaðist leið til að hætta við þessar víðáttuvitlausu framkvæmdir, en varpa þó ábyrgðinni á annarra herðar.