Áfangi í kvennabaráttunni

Þessa dagana stendur yfir ráðstefna hjá Sameinuðu þjóðunum í New York þar sem reynt er að meta hvernig tekist hefur að framfylgja yfirlýsingu kvennaráðstefnunnar í Peking fyrir 5 árum. Þar svífur andi vonbrigða yfir vötnum þar eð lítið þykir hafa áunnist. Hlutfall kvenna í stjórnmálum og stjórnunarstörfum hefur t.d. ekkert aukist þegar á heildina er litið. Hagur kvenna hefur ekki batnað þegar litið er til menntunar og heilbrigðisþjónustu. Ólæsi er t.d. að 2/3 bundið við konur og víða er þeim haldið frá allri menntun. Konur njóta lakari heilbrigðisþjónustu og víða er tíðni dauðsfalla kvenna við barnsburð óhugnanlega mikil. Ofbeldi gagnvart konum er útbreitt um allan heim. Í því efni hefur ekkert breyst. Konum er nauðgað, þær eru kúgaðar, þrælkaðar, barðar og drepnar. Og þær eru í sívaxandi mæli fórnarlömb stríðsrekstrar.

Þetta er ekki fögur mynd af mannkyninu og því miður sönn, en að sjálfsögðu í mismiklum mæli eftir hinum ýmsu löndum. Margir vilja t.d. telja ástandið harla gott hér á Ísa- köldu -landi og er óhætt að samsinna því þegar litið er til landa eins og Afganistan, Íran eða Saudi-Arabíu. Hér hefur ýmislegt þokast í áttina til jafnstöðu kynjanna á undanförnum árum. En hvert einasta skref hefur kostað baráttu. Og skrefin eru mörg óstigin enn.

Einn mikilvægur áfangi náðist í kvennabaráttunni nú þessa dagana þegar Hæstiréttur dæmdi Ragnhildi Vigfúsdóttur sigur í máli sínu gegn Akureyrarbæ. Ragnhildur starfaði sem jafnréttis- og fræðslufulltrúi hjá Akureyrarbæ árin 1995 til 1998 og komst fljótlega að raun um að hún naut ekki sömu kjara og atvinnumálafulltrúi bæjarins, en störf þeirra höfðu þó verið álíka hátt metin í starfsmati. Föst laun Ragnhildar voru 78 þús. kr. lægri en atvinnumálafulltrúans auk þess sem hann naut betri sérkjara en hún í sambandi við eftirvinnu og akstur.

Ragnhildur kærði og var dæmdur sigur í héraði. En Akureyrarbær, sem þykist þó vera dálítið fyrir jafnrétti kynjanna, lét sér ekki segjast og áfrýjaði til Hæstaréttar. Hann hefur nú sagt sitt. Ragnhildur hefur haft fullan sigur í málinu og hefur þar með markað spor í jafnréttissöguna. Til hamingju, gamla vinkona!

Það er á vissan hátt kaldhæðnislegt að þessi dómur skyldi falla einmitt núna þegar þingað er um árangur kvennabaráttunnar í New York. Ráðamenn telja sig hafa efni á að hreykja sér yfir stöðu mála hér á landi, en í raun láta þeir ekki nokkurn skapaðan hlut af hendi að eigin frumkvæði. Stundum þarf jafnvel Hæstarétt til. Þetta dæmi sýnir enn einu sinni að hver einasti áfangi kostar mikla baráttu og þrautseigju. Í þetta sinn borgaði það sig og vonandi njóta margar konur góðs af.

Páll ruskar til

Engu er líkara en að Páll félagsmálaráðherra hafi allt í einu rankað við sér og fundist ástæða til að minna á tilveru sína. Það virðist hins vegar gert á þeim forsendum að betra sé illt að gera en ekki neitt. Gjörðir hans vekja vægast sagt furðu. Maður gæti haldið að hann hafi bara mætt í ráðuneytinu einn morguninn og valið tvo málaflokka af handahófi til að gera svolítið rusk.

Fyrst eru það málefni fatlaðra. Uppbygging þjónustu og húsnæðis fyrir fatlaða hefur gengið allvel á undanförnum árum alls staðar nema í tveimur kjördæmum, þ.e. á Reykjanesi og í Reykjavík þar sem reyndar þörfin hefur alla tíð verið mest. Ástandið er þar með ólíkindum erfitt. Þeir skipta hundruðum sem bíða eftir úrlausn sinna mála og væri þó kannski nær að segja að þeir skipti þúsundum vegna þess að vandinn snertir ekki aðeins hina fötluðu heldur einnig aðstandendur þeirra.

Og hvernig ætlar nú ráðherrann að leysa vandann? Jú, hann fær þá flugu í höfuðið að senda fólk norður í Hrísey af því að þar sé ónotað húsnæði sem fáist ódýrara en á suðvesturhorninu. Svo má ekki gleyma því að KEA var að flytja einhverja starfsemi úr eynni nýlega og það þarf að útvega eyjaskeggjum vinnu! Þetta er satt að segja of fáránlegt til að verða að veruleika. Hér er um að ræða málefni fatlaðra en ekki byggðavandann. Hér er um að ræða fólk en ekki fénað. Þetta fólk á rétt á úrlausn mála sinna í heimabyggð.

Kannski hefur ráðherrann séð sitt óvænna og ákveðið að snúa sér að öðru sviði. Og svo mundi hann e.t.v. eftir gagnrýninni sem hann fékk sem ráðherra húsnæðismála þegar sett var á laggirnar ný stofnun í þeim málaflokki að hann skyldi ekki nota tækifærið og koma henni fyrir úti á landi. Og svo hefur hann kannski snúið sér í nokkra hringi í ráðuneytinu sínu með lokuð augu og bent í austur og bent í vestur og séð fyrir sér skrifstofu jafnréttismála. Aha, best að flytja hana út á land!

Þessi atburðarás er ekki ólíklegri en hver önnur. Altént vissi ekki nokkur manneskja að þessi tilflutningur stæði fyrir dyrum. Ekki starfsfólk skrifstofunnar. Fréttin kom þeim algjörlega í opna skjöldu. Er hægt að fara svona með fólk? Og félagsmálanefnd Alþingis sem vann þó vikum saman á síðasta vetri að breytingum á jafnréttislöggjöfinni hafði ekki heyrt af þessum áformum ráðherrans. Hefði þó verið eðlilegt að reifa málið í því samhengi ef hugmyndin var þá fædd og ef nokkur vilji er til að standa sómasamlega að verki. Sú hugsun virðist ekki beinlínis uppi á borðinu því boðað er að allt verði um garð gengið fyrir 1. september!

Hvað er ráðherra eiginlega að hugsa? Skyldi hann hafa farið í reiðtúr hjálmlaus – og dottið af baki?

Ál eða lax

Nýlega birtist merkileg frétt í fjölmiðlunum sem glöddu marga, skyldi maður ætla. Þar sagði frá áformum um umfangsmikið eldi laxa í sjókvíum í Berufirði. Um er að ræða sameiginlegt verkefni íslenskra og norskra aðila og heildarfjárfesting áætluð um einn og hálfur milljarður króna. Framleiðslan yrði um 8 – 10 þúsund tonn af laxi á ári, sem er tvö- til þreföld núverandi ársframleiðsla á eldislaxi hér á landi. Við laxeldið sjálft munu starfa allt að 60 manns þegar reksturinn verður kominn í fullan gang.

Þetta er auðvitað stórfrétt og merkilegt hversu hljótt hefur verið um allan undirbúning sem hefur staðið í hálft annað ár. Það er sem sagt ekki aldeilis svo að Austfirðingar sitji allir með hendur í skauti og bíði eftir stórvirkjunum og stóriðju, þótt svo hefði mátt ætla af umfjöllun um atvinnumál í fjórðungnum. Eftir margs konar erfiðleika við uppbyggingu fiskeldis hér á landi virðist nú bjartara framundan í greininni og er óskandi að Austfirðingum gangi allt í haginn í þeim efnum.

Fréttin um laxeldið í Berufirði virtist þó ekki vekja mikla athygli og var ekki frekar um það fjallað. Enda var fréttin sú ekki fyrr komin á þrykk en þau Valgerður, Friðrik, Geir og einhver toppanna hjá Norsk Hydro blésu til fjölmiðlafundar í stíl Jóns Sigurðssonar og Jóhannesar Nordal á sinni tíð og kynntu nýjasta undirskriftaplaggið sitt. Óförum öllum í sambandi við Fljótsdalsvikjun og Eyjabakkalón og 120 þúsund tonna álver hefur nú verið sópað út af borðinu og engin smásmugu áform komin í staðinn. Nú er það Kárahnúkavirkjun og fleiri tengdar veitur og verksmiðja til framleiðslu 240 þúsund tonna áls. Stefnt er að allt að 480 þúsund tonna verksmiðju, en engar yfirlýsingar um hvaðan orka til slíks risaálvers eigi að koma.

Gleymd er rammaáætlun um nýtingu vatnsfalla og jarðvarma, sem augljóslega er óttalegt smámál í augum þessara ráðamanna. Ekki þykir ómaksins vert að tala um Ríósamþykktir og Kýótóbókanir. Umhverfismat? Já, sei, sei, allt fer auðvitað í umhverfismat lögum samkvæmt, en augljóslega er enginn efi í hugum öfgafullra orkubeislara (sbr. öfgafullra náttúruverndarsinna) hvernig afgreiða má slíka hluti. Þeir eru vissir um sig, enda Alþingi búið að úthluta tugmilljóna fé til vegalagna um virkjanasvæðin.

Og fjölmiðlar taka þessum fréttum öllum með furðu miklu æðruleysi. Álið er greinilega laxinum æðra.

Óráð að virkja í Bjarnarflagi

Enn eru öfgafullir orkubeislarar (sbr. öfgafullir náttúruverndarsinnar eins og sumum er tamt á tungu) að seilast inn á landsvæði þar sem ástæða er til ýtrustu varúðar gagnvart náttúrunni. Nú vilja þeir virkja í Bjarnarflagi vestan við Námafjall í Mývatnssveit sem nýtur þó sérstakrar verndar skv. lögum um verndun Mývatns og Laxár. Frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum slíkrar virkjunar hefur legið fyrir í tilskilinn tíma og frestur til að skila inn athugasemdum rennur út á morgun. Undirrituð sendi inn eftirfarandi athugasemdir í dag:

Til Skipulagsstofnunar

Laugavegi 166

105 Reykjavík

Efni: Mat á umhverfisáhrifum vegna jarðvarmavirkjunar í Bjarnarflagi í Mývatnssveit og háspennulínu frá henni að Kröflustöð.

Fyrir aldarfjórðungi var tekin stefnumarkandi ákvörðun um nýtingu jarðvarma í grennd við Mývatn og umhverfi þess, sem er eitt af sérstæðustu og dýrmætustu náttúrusvæðum Íslands. Á þeim tíma stóðu menn frammi fyrir miklum kröfum af hálfu orkugeirans að beisla þá miklu orku sem víða finnst á þessu svæði. Að vandlega yfirveguðu ráði var heimiluð jarðvarmavirkjun við Kröflu þrátt fyrir að það svæði var þá ósnortið og um margt fýsilegt til varðveislu. Verndun svæðisins nær Mývatni þótti einfaldlega mikilvægari þótt þar væri þegar orðin nokkur röskun. Um svipað leyti, þ.e. 2. maí árið 1974, voru sett sérlög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Um ofangreinda niðurstöðu hefur ríkt sæmilegur friður í 25 ár, enda ekki ástæða til annars. Nú hins vegar sækir Landsvirkjun það fast að fá heimild til að reisa 40 MW jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi vestan við Námafjall, enda þótt mikil orka sé enn óbeisluð á Kröflusvæðinu. Samkvæmt greinargerð Orkustofnunar frá því í nóvember 1999 er Kröflusvæðið í heild talið geta staðið undir allt að 375 MW raforkuvinnslu í 50 ár og þrjú önnur vinnslusvæði á sömu slóðum hafa verið könnuð og skilgreind. Að áliti Orkustofnunar “..mætti nú þegar byrja á virkjunarframkvæmdum við 30 MW einingu sem gæti verið tilbúin fyrir lok árs 2003…” og “Annar 30 MW áfangi á Víti-Hveragilssvæði gæti síðan verið tilbúinn til orkuvinnslu í lok árs 2005.” Með tilliti til þessa álits er óskiljanlegt hvers vegna verið er að sækjast eftir heimild til orkuvinnslu í Bjarnarflagi í stað þess að halda áfram vinnslu á Kröflusvæðinu ef þörf er fyrir frekari orkuöflun.

Eins og fram kemur í frummatsskýrslu er hreint ekki áhættulaust fyrir lífríki Mývatns ef heimiluð yrði jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi. Vitað er, eins og segir í skýrslunni, að “náttúrulegt afrennsli frá jarðhitakerfinu hefur um langan tíma farið út í Mývatn og er ein undirstaðan í sérstæðu lífríki þess”. Hver setningin af annarri í skýrslunni felur í sér vafaatriði og væri að sjálfsögðu með öllu óviðunandi að hætta lífríki á sérvernduðu svæði fullkomlega að óþörfu. Sjónræn áhrif vegna virkjunarinnar sjálfrar og háspennulínunnar frá henni að Kröflustöð yrðu einnig töluverð og hlytu að rýra gildi svæðisins til ferðamennsku.

Rétt er að minna á þá vinnu sem nú fer fram undir heitinu “Maður – nýting – náttúra”, þar sem leitast er við að meta verndargildi vatnsfalla og jarðhitasvæða. Eðlilegt og rétt væri að bíða með mat á einstökum virkjanahugmyndum þar til þeirri vinnu er lokið. Þá hefur Alþingi nýlega samþykkt breytt lög um mat á umhverfisáhrifum sem eðlilegt væri að taka tillit til.

Með hliðsjón af framansögðu leggst undirrituð gegn því að ráðist verði í virkjun jarðvarmans í Bjarnarflagi og telur að slíkar framkvæmdir og starfsemi færu í bága við markmið og tilgang laganna um verndun Mývatns og Laxár nr. 36/1974.

Það væri fullkomið óráð að ganga gegn þeirri stefnu sem mörkuð var um þessi efni fyrir aldarfjórðungi.

Seltjarnarnesi 15. maí 2000

Kristín Halldórsdóttir

Síldarrevía betri en Júróvisjón

Meðan 95 % þjóðarinnar horfði á Júróvisjón fór ég í Þjóðleikhúsið. Þar voru sveitungar mínir úr Reykjadalnum í Suður-Þingeyjarsýslu mættir til leiks með hið bráðskemmtilega leikverk Iðunnar og Kristínar Steinsdætra: “Síldin kemur & síldin fer”.

Menningin blómstrar svo sannarlega víðar en í henni Reykjavík, þótt annað mætti stundum ætla. Það er vel því maðurinn lifir ekki af brauðinu einu saman. Sérstaklega sönglist og leiklist eiga sér iðkendur marga um allt land, og stundum fer þetta hvort tveggja saman eins og í síldarveislu þeirra systranna. Mörg áhugaleikfélög hafa fært upp þetta leikverk víða um land við miklar vinsældir, en uppfærsla Reykdælinganna slær þó sennilega öll met í þeim efnum. Hróður þeirra hefur borist víða og varð til þess að þeim var boðið að sýna í sjálfu Þjóðleikhúsinu, sem hefur tekið upp þann ágæta sið að hýsa eina sérvalda áhugaleiksýningu á ári.

Meðal áhorfenda mátti sjá marga gamla Reykdælinga og einnig var gaman að sjá þó nokkra landsþekkta atvinnuleikara sem komu til að forvitnast um þessa rómuðu sýningu. Og smám saman rann upp fyrir áhorfendum hvers vegna þessi sýning hafði orðið svo vinsæl. Ástæðan er reyndar ekki ein, heldur margar. Í fyrsta lagi er auðvitað verkið sjálft ákaflega skemmtilegt, fjörugt og fyndið. Þeir sem kynntust af eigin raun þessum þætti í atvinnusögu landsins sjá þar gamalkunn minni í líflegum búningi. Það er mikið sungið, lögin þekkja allir og textarnir hæfa verkinu. Reykdælingar reyndust hafa mörgum ágætum söngvurum á að skipa, auk þess sem þeir fengu liðsstyrk frá Laugaskóla eins og þeir hafa gert á síðustu árum. Það hefur reynst vel á báða bóga. Eistlendingurinn Jaan Alavere sér um tónlistarstjórn og er greinilega betri en enginn. Margir leikaranna stóðu sig með miklum ágætum, þeir sungu og dönsuðu af hjartans lyst og sköpuðu margar góðar persónur. Stærsta þáttinn í þessari vel heppnuðu sýningu á þó vafalaust leikstjórinn Arnór Benónýsson. Þeir eru heppnir Reykdælingar að hann skyldi snúa aftur heim í heiðardalinn.

Þjóðleikhúsið var troðfullt þetta kvöld þrátt fyrir margumtalaða Júróvisjón sem Íslendingar voru svo gott sem búnir að vinna rétt eina ferðina áður en þeir fóru til Svíþjóðar! Og það var klappað og hlegið og að leikslokum risu allir úr sætum og þökkuðu fyrir sig með slíku lófataki að undir tók í allri Hverfisgötunni. Reykdælingar sýndu að þeir áttu erindi á svið Þjóðleikhússins.

Eftirminnilegt í Boston

Um síðustu mánaðamót sóttum við hjónin ráðstefnu alþjóðasamtaka ritstjóra, International Press Institute (skammstafað IPI), í Boston í Bandaríkjunum. Samtökin halda slíka ráðstefnu árlega í hinum ýmsu aðildarríkjum, þau taka yfirleitt mjög brýn málefni til umræðu hverju sinni og fá til þess áhugaverða fyrirlesara. Meðal ræðumanna að þessu sinni voru Al Gore, Edward Kennedy, Henry Kissinger, Emma Bonino, Christopher Patten og Walter Schimmer svo aðeins hinir þekktustu séu nefndir.

Sjálfri þótti mér sérlega gaman að hlusta á Sheilu Copps, kanadískan ráðherra, sem tók þátt í pallborði um ameríska menningu og flutti þar aðalræðuna. Fyrir um áratug las ég nefnilega bráðskemmtilega bók eftir þá ágætu konu. “Nobody’s Baby” var titill bókarinnar og þar lýsir hún innkomu sinni í kanadísk stjórnmál upp úr 1980 og reynslu sinni af þátttöku í þeim karlaheimi sem kanadísk stjórnmál eru enn frekar en t.d. hér á landi. Fannst mér það raunar enn fróðlegra þar sem ég hafði skömmu áður flutt erindi um íslenska kvennapólitík á stórri ráðstefnu í Ottawa og um leið átt þess kost að heimsækja þinghúsið, hlýða á umræður og fræðast um kanadísk stjórnmál. Konur voru þar og eru enn í miklum minnihluta eins og víðast annars staðar í heiminum, ekki síst þar sem kosningafyrirkomulagið byggist á einmenningskjördæmum.

Sheila lýsir í bók sinni á lifandi hátt kostum og göllum stjórnmálastarfanna og ekki síst þeim þröskuldum sem verða á vegi kvenna á því sviði. Titill bókarinnar vísar einmitt til þess. Konur þurfa oft að sæta því að vera ávarpaðar á lítillækkandi hátt og “Baby” var stundum viðkvæðið. Sheila kærði sig ekki um meðhöndlun af því tagi og lét samstarfsmenn sína heyra það: “I’m Nobody’s Baby”. Henni hefur greinilega tekist að koma mönnum í skilning um að hún stæði öðrum stjórnmálamönnum síst að baki og hefur nú gegnt ýmsum ráðherrastörfum síðan 1993. Hún flutti glimrandi ræðu á fyrrnefndri ráðstefnu og svaraði af öryggi og þekkingu spurningum sem að henni beindust.

Ekki var síður gaman að fylgjast með málstofum sem haldnar voru í Harwardháskóla einn daginn. Ein var t.d. um sambúð kynþátta og önnur um kynjafræði, sem ég hafði auðvitað sérlega gaman af. Málstofunni stjórnaði prófessor í Harward, Carol Gilligan, höfundur bókarinnar “In a Different Voice”, sem vakti ýmsar konur til dáða á sínum tíma. Þarna töluðu nokkrar kjarnakonur um stöðu kvenna í Bandaríkjunum og hvernig konur mundu smám saman breyta samfélaginu til hins betra. Mér fannst þessar ágætu konur tala svona nokkurn veginn eins og Guðrún, Sigríður og Kristín hér á Íslandi á níunda áratugnum!!

Þessi merku samtök, IPI, hafa nú starfað í 50 ár og var þess minnst á ýmsan hátt á ráðstefnunni í Boston. Á hátíðasamkomu í lokin voru 50 fréttamenn frá jafnmörgum löndum heiðraðir sérstaklega fyrir framlag sitt til upplýstrar umræðu. Allir höfðu á einhvern hátt lagt sig í líma til að draga sannleikann fram í dagsljósið og flestir jafnvel hætt lífi sínu og limum í þágu starfsins. 27 hinna tilnefndu sem “Press Freedom Heroes”gátu verið viðstaddir. Nokkrir þeirra eru landflótta frá Afríkuríkjum, en þar er nú víða afar slæmt ástand. Nokkrir hinna eru þegar látnir og sumir þeirra drepnir við störf sín. Einn þeirra er enn í fangelsi í Sýrlandi nær dauða en lífi eftir ómannúðlega meðferð og pyntingar. IPI hefur árum saman reynt að fá sýrlensk yfirvöld til að sleppa honum úr haldi, en þau hafna því nema að hann heiti því að láta af pólitískum skrifum. Nizar Nayyouf, en svo heitir fanginn, neitar jafn staðfastlega að fyrirgera rétti sínum til að tjá skoðanir sínar og mun hugsanlega gjalda fyrir það með lífi sínu.

Sú fræga Katharine Graham, eigandi og stjórnandi The Washington Post til fjölda ára, en einnig Newsweek, International Herald Tribune og nokkurra minni dagblaða og sjónvarpsstöðva í Bandaríkjunum, var fulltrúi Bandaríkjanna í 50 manna hópnum og flutti ræðu fyrir þeirra hönd. Hún vakti heimsathygli á þeim tíma þegar The Washington Post upplýsti Watergatemálið. Þá stóð hún sem klettur að baki sínu starfsliði og lét ekki hótanir stjórnvalda aftra sér frá því að tryggja framgang sannleikans. Hún kvaðst þó í ræðu sinni ekki eiga heima í hópi þeirra sem heiðraðir voru fyrir störf sín þennan dag, 3. maí sl. Staða þeirra flestra væri slík að þeir væru í stöðugri lífshættu. Þeir væru hinar raunverulegu hetjur. Og sú er raunin með marga fjölmiðlamenn, starf þeirra er meðal hinna hættulegustu í heiminum. Þetta var sannarlega eftirminnileg athöfn.

Áfangasigur í náttúruvernd

Kúvendingin í álvers- og virkjanamálum á Norðausturlandi opnar ný sóknarfæri fyrir náttúruvernd á Íslandi sem nýta þarf til fullnustu og hvergi láta undan síga.

Sigur vannst í glímunni um Eyjabakkasvæðið. Hann vannst vegna þrotlausrar baráttu náttúruverndarsinna ekki síst vegna aðgerða Umhverfisvina, sem söfnuðu undirskriftum ríflega 45 þúsund Íslendinga til stuðnings kröfunni um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar.

Kröftug barátta náttúruverndarsinna hefur haft mikil áhrif á þjóðfélagsumræðuna, sem hefur verið geysilega öflug og mikil að vöxtum mánuðum saman. Öll þessi umfjöllun leiddi í ljós ýmsar hliðar á málinu, sem mörgum voru áður huldar, ekki aðeins hvað varðar náttúru svæðisins, heldur einnig fjárhagslegar hliðar þessara áforma og hugsanlegar félagslegar afleiðingar þeirra.

Baráttan skilaði árangri þótt illa liti út á tímabili. Þar skipti aðkoma Norsk Hydro áreiðanlega sköpum. Forsvarsmönnum fyrirtækisins er ljóst að ímynd þess hefði beðið alvarlegan hnekki heima fyrir og annars staðar ef það hefði átt þátt í því að Eyjabökkum væri fórnað á altari virkjanaframkvæmda. Hitt er svo fróðlegt og raunar stórmerkilegt hvernig ráðamenn reyna að snúa sig út úr arðsemisklemmunni. Fjöldi hagfræðinga hrakti Landsvirkjunarmenn upp að vegg í rökræðunni um arðsemi Fljótsdalsvirkjunar. Sú umræða vakti með mörgum þá spurningu hvort þeir hefðu ekki vitað betur eða hvort þeir ætluðu einfaldlega að fela staðreyndir þar til ekki yrði aftur snúið. O nú er eftir að sjá hvernig þeim gengur að sannfæra sjálfa sig og aðra um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sem hafi það hlutverk eitt að sjá einu stykki álversflykki fyrir orku.

Umskiptin í álvers- og virkjanamálum nú gefa byr í seglin. Náttúruverndarsinnar þurfa að samhæfa kraftana sem aldrei fyrr. Stærsta ósnortna víðernis í Evrópu er í húfi. En svo er einnig um þróun atvinnumála á Austurlandi. Þar þurfa menn að setja lok á álverspottinn og horfa til fleiri átta.

Þingflokkur VG ályktaði á eftirfarandi hátt daginn sem Eyjabakkalónið var blásið af:

“1) Áhersla verði lögð á að ljúka vinnu við rammaáætlun um virkjanir vatnsafls og jarðvarma á Íslandi þar sem lagt verði mat á alla virkjanakosti og öll stóriðju- og virkjanaáform skoðuð í því ljósi.

2) Stjórnvöld taki þegar í stað upp viðræður við Austfirðinga um átak í atvinnumálum fjórðungsins, í ljósi þessarar stöðu og nýrra frétta af erfiðleikum í atvinnulífi eystra. Lagt verði umtalsvert fé í nýsköpunarvinnu með áherslu á hátæknigreinar og ferðaþjónustu. Þá verði hraðað vinnu að verulegum samgöngubótum á Austurlandi til að styrkja atvinnulíf og búsetu.

3) Hafist verði handa um verndaraðgerðir á Eyjabakkasvæðinu og undirbúning að stofnun Snæfellsþjóðgarðs. Ljóst er að ráðast þarf í talsverða vinnu til að búa þetta svæði undir vaxandi ferðamannastraum. Með markvissum aðgerðum væri engu að síður hægt að taka á móti stórauknum fjölda ferðafólks þegar á næsta ári en slíkt gæt orðið mikil tekjulind fyrir íbúa Austurlands.

Senn líður að því að Íslendingar verði að gera það upp við sig hvort þeir ætli að sólunda hreinum orkulindum sínar í mengandi stóriðju eða varðveita þær með tilliti til náttúruverndarsjónarmiða og möguleika á nýtingu þeirra til framleiðslu vistvænna orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis. Öll rök hníga að því að gert verði mat á umhverfisáhrifum fyrir stóriðjuhugmyndina í heild sinni eftir forskrift nýrra lag um slíkt mat sem að öllum líkindum verða samþykkt á Alþingi á þessu vori.”

Stórkarlalegt skal það vera

Þá er það skjalfest og borðfast að fjárfestar hafa ekki áhuga á að leggja fé í lítið og “huggulegt” álver til framleiðslu 120 þús.tn. á ári. Þeir vilja hafa þetta stórt og helst 480 þús.tn. flykki sem er meira en nú er framleitt samanlagt í Straumsvík og á Grundartanga. Slíkt risaálver kallar auðvitað á stórkarlalegar virkjanir á hálendinu norðan Vatnajökuls með tilheyrandi víðtækum og óbætanlegum spjöllum á landslagi og náttúru svæðisins.

Þetta eru út af fyrir sig ekki ný sannindi, þótt virkjana- og álverssinnar með Halldór og Finn í fararbroddi hafi sífellt hafnað þeim meðan þeir voru að troða Fljótsdalsvirkjun fram hjá umhverfismati. Stóra hættan núna er að þeir misbeiti rétt einu sinni valdi sínu og setji af stað framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun án þess að allt hitt sem gera þarf á svæðinu hafi farið í gegnum umhverfismat. Síðan verður meginröksemdin fyrir framhaldinu að annað sé óhagkvæmt hvað svo sem kemur út úr umhverfismati.

Til fróðleiks birti ég hér á eftir athugasemdir við frummat á umhverfisáhrifum vegna 480 þús. tn. álverksmiðju á Reyðarfirði sem ég sendi Skipulagsstofnun ríkisins í nóvember sl.

“Áformað er að reisa og reka álverksmiðju á Reyðarfirði með allt að 480 þús. tn. framleiðslugetu. Hér er um gríðarlega stóra verksmiðju að ræða sem ein og sér mun hafa mjög mikil áhrif bæði hvað varðar náttúrulegt og félagslegt umhverfi. Mengun frá verksmiðjurekstrinum verður mikil og langt umfram þau mörk sem Kyoto-bókunin setur. Afdrifaríkustu áhrifin af fyrirhuguðum verksmiðjurekstri eru þó fólgin í virkjunum til að framleiða raforku til verksmiðjunnar. Framkvæmdir í því skyni munu eyðileggja dýrmæt landsvæði norðan Vatnajökuls, skerða stórlega ósnortin víðerni og skaða ímynd lands og þjóðar. Það er algjörlega fráleitt að reyna að leggja mat á umhverfisáhrif vegna 480 þús. tn. álverksmiðju á Reyðarfirði án þess að hafa öflun raforkunnar með í þeirri mynd.

Framleiðslugeta fyrirhugaðrar álverksmiðju á Reyðarfirði er allt að 480 þús. tn. sem er meira en samanlögð framleiðslugeta þeirra álverksmiðja sem nú eru í rekstri hér á landi í Straumsvík og á Grundartanga. Jafnvel þótt þær nýttu til fulls þau leyfi sem þær hafa til aukins reksturs næmi sú framleiðsla samanlagt innan við 400 þús. tn. og þykir þó mörgum nóg um. Fullbyggð 480 þús. tn. álverksmiðja mun þurfa álíka mikla raforku til rekstursins eins og nú þegar er framleidd í landinu bæði til almennra nota og til stóriðjureksturs. Ykist þá enn til mikilla muna það hlutfall raforkunnar sem fer til álframleiðslu í landinu og verður það að teljast afar óskynsamlegt og líklegt til að valda sveiflum í hagkerfinu. Ennfremur er ljóst að þær virkjanir sem nú eru á borðinu vegna þessara stóriðjuáforma munu ekki framleiða nægilegt rafmagn til reksturs fullbyggðrar verksmiðju, en spurningum um frekari virkjanir er ósvarað. Ber því enn að sama brunni að stærsta ágreiningsefninu vegna álverksmiðju á Reyðarfirði er ýtt til hliðar.

Umfjöllun í frummatsskýrslunni um sannanlega og/eða hugsanlega mengun frá fyrirhugaðri verksmiðju er ekki traustvekjandi og allra síst sú niðurstaða skýrsluhöfunda að vothreinsibúnaður sé óþarfur fyrir 120 þús. tn. álver á Reyðarfirði. Mörk fyrir útblástur frá verksmiðjunni eru miðuð við svokallaða PARCOM-samþykkt frá 1994, sem er leiðbeinandi um viðmiðunarmörk losunar frá álverksmiðjum sem ná skal fyrir árið 2005, einkum varðandi flúor og ryk. Er þar um að ræða málamiðlun ríkja sem að samkomulaginu standa og fela í sér lægsta mögulega samnefnara innan þess hóps. Sum ríkin vildu þegar á þeim tíma mun strangari mörk og að gert yrði ráð fyrir vothreinsun til viðbótar við þurrhreinsun, en vothreinsun tryggir mun minni mengun af völdum brennisteins- og flúorsambanda og ryks. Það lýsir því litlum metnaði hjá ríki sem vill teljast til fyrirmyndar í umhverfismálum að láta sér nægja PERCOM-viðmiðanir þegar setja á losunarmörk fyrir álverksmiðju hér á landi og allra síst við aðstæður á Reyðarfirði. Gefið er til kynna að gerðar verði kröfur um vothreinsibúnað í fullbyggðri verksmiðju en slíkar kröfur ætti að gera þegar í fyrsta áfanga.

Þá vekur furðu það ábyrgðarleysi sem fram kemur í skýrslunni varðandi alþjóðlegar skuldbindingar í tengslum við Kyoto-bókunina sem reyndar er engan veginn til lykta leidd og verður væntanlega ekki á næstu mánuðum. Viðurkennt er að losun gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjunni verði umfram þau mörk sem nú eru skrifuð á Ísland, en látið að því liggja að ef ekki takist að breyta því verði væntanlega keyptur losunarkvóti á alþjóðamarkaði. Ekkert liggur fyrir um möguleika á því sviði né heldur kostnaður vegna slíkra kaupa. Hér er þó um það að ræða að við rekstur 480 þús. tn. álverksmiðju myndi losun ígilda koltvíoxíðs aukast um nær 40% frá því sem var árið 1990. Sú staðreynd ein ætti að nægja til að hafna frekari áformum um eflingu mengandi stóriðju hér á landi.

Nokkuð er fjallað um áhrif fyrirhugaðs verksmiðjureksturs á Reyðarfirði á samfélag, en þó kemur fram að fyrri athuganir hafa ekki verið unnar upp í öllum atriðum þrátt fyrir verulega breyttar forsendur og borið við tímaskorti. Ekki eru það trúverðug vinnubrögð að ekki sé fastar að orði kveðið. Ljóst er að nauðsynlegt vinnuafl er ekki fyrir hendi eins og er og að margra áliti ekki líklegt að störf í álverksmiðju verði til þess að laða fólk til búsetu á svæðinu. Auk þess er hér fyrst og fremst um að ræða störf fyrir karla, það sýna tölur um kynjaskiptingu í starfandi álverksmiðjum og engin merki um breytingu í þeim efnum. Þrátt fyrir svokölluð margfeldisáhrif er ljóst að bygging og rekstur risaálverksmiðju skapar hlutfallslega miklu færri störf fyrir konur en karla og er af þeim sökum afar óskynsamleg aðgerð í byggðamálum þótt öðru hafi verið haldið fram. Að sama brunni ber sú staðreynd að samþjappaðar stórframkvæmdir á tiltölulega litlum og fámennum stöðum geta skaðað bæði viðkomandi byggð og nágrannabyggðir og gagnast í engu fjarlægari byggðum.

Þá fer ekki hjá því að tilkoma risaálvers á Reyðarfirði með tilheyrandi raski vegna virkjana á hálendinu norðan Vatnajökuls mun gjörbreyta ásýnd og ímynd Austurlands og draga úr aðdráttarafli þess til ferðamennsku. Verulega ámælisvert er að engin tilraun er gerð til að bera saman álvinnslu og ýmsa aðra atvinnukosti á svæðinu sem gætu skilað fjölgun starfa og fjárhagslegum ávinningi fyrir Austurland og landið allt.

Af framansögðu má ljóst vera að undirrituð hefur margt að athuga við frumamatsskýrsluna. Þrátt fyrir augljósa viðleitni skýrsluhöfunda til þess að fegra þá mynd sem við blasir og draga upp jákvæða mynd af áhrifum fyrirhugaðra aðgerða eru fullyrðingar þess efnis ekki studdar sannfærandi rökum. Ljóst er að enn eina ferðina á ekki að gera ýtrustu kröfur um mengunarvarnir við álvinnsluna, mengunin er langt umfram leyfileg mörk samkvæmt Kýótóbókuninni, áhrif á samfélagið verða örugglega ekki að öllu leyti af hinu góða og verksmiðjureksturinn mun spilla ímynd svæðisins og Austurlands alls.

Stærsti ágalli frummatsins er svo fólginn í því að undanskilja mat á tilheyrandi virkjanaframkvæmdum. Álverksmiðjan skv. núverandi hugmyndum verður ekki reist né rekin á Reyðarfirði án þess að vatnasviði og landslagi norðan Vatnajökuls verði bylt og breytt þannig að aldrei verður aftur tekið. Fyrsta skrefið er Fljótsdalsvirkjun sem nú er harðlega deilt um í þjóðfélaginu. Hún er aðeins byrjunin á stórfelldri röskun ómetanlegs landssvæðis sem á með réttu að vernda og virða.

Það er bæði óábyrgt og óviðunandi með öllu að stjórnvöld skuli áfram vinna að eflingu stóriðju í landinu án þess að mótuð hafi verið heildarstefna um orkunýtingu með tilliti til sjónarmiða umhverfis- og náttúruverndar.”

Karlmaður er nefndur

Þátturinn “Maður er nefndur” hefur gengið í sjónvarpi allra landsmanna nú um margra mánaða skeið. Lífseigja hans gæti bent til þess að hann væri með vinsælli dagskrárliðum. Svo mun þó ekki vera, heldur mun leitun á þeim sem nenna að horfa á þennan þátt. Ástæðan er sennilega fyrst og fremst sú að engin minnsta tilraun er gerð til að höfða til áhorfenda á sjónrænan hátt. Viðfangsefnið er sett niður í hægindastól og spurt fremur áhugalítið um lífshlaup sitt á ca. hálftíma. Ekkert truflar þessa frásögn nema misjafnlega gáfulegar spurningar afar misgóðra spyrla, sem sitja andspænis viðfangsefninu, sumir hjárænulegir, sumir tilgerðarlegir, sumir eins og þeim hundleiðist verkefnið. Engar myndir frá æviferli viðkomandi eru sýndar til þess að lífga upp á, ekkert fær að spilla þessu tveggja manna tali sem virðist raunar ekki ætlað öðrum en þeim tveimur.

Hver er tilgangurinn með slíku sjónvarpsefni? Sú skýring hefur heyrst að hér sé verið að skrá heimildir, hindra að þær fari í glatkistuna. Enda augljóst að viðmælendur eru allir af léttasta skeiði, komnir á eftirlaunaaldurinn og hafa komið við sögu lands og þjóðar með ýmsum hætti. Nú kann það að vera hið besta mál að tryggja heimildir með þessum hætti og þeir sem á annað borð nenna að festa sig við sjónvarpsefni af þessu tagi heyra kannski eitt og annað sem er þess virði. Að vísu er til mýgrútur af viðtölum í safni útvarpsins og flestir eru þeirrar skoðunar að efni sem þetta eigi betur heima í útvarpi en sjónvarpi.

En úr því að menn þrjóskast við að halda þessum þætti úti mánuðum saman hlýtur maður að spyrja hvers vegna í ósköpunum er ekki reynt að tryggja eitthvert jafnræði á milli þjóðfélagshópa, að ekki sé nú minnst á jafnræði kynjanna. Ég vil fá að sjá og heyra viðtöl við merkiskonur eins og Sigurveigu Guðmundsdóttur, Margréti Guðnadóttur, Rannveigu Löve, Vigdísi Jónsdóttur, Málmfríði Sigurðardóttur, Svövu Jakobsdóttur, Guðrúnu P. Helgadóttur, Jónu Valgerði Kristjánsdóttur, Sigríði Thorlacius, Öddu Báru, Helgu Kristjánsdóttur o.fl. o.fl. sem svo sannarlega hafa látið að sér kveða í íslensku þjóðfélagi og hafa frá mörgu að segja. Ég er orðin hundleið á þessum eilífu karlaviðtölum. Vel á minnst: Hvers vegna heitir þátturinn ekki bara “Karlmaður er nefndur”?!!

Hreppaflutningar í krataflokkinn

Draumur margra vinstri manna á að rætast í maí að því er fréttir herma. Þá verður stofnaður flokkur upp úr því bandalagi A-flokka, Kvennalista, Þjóðvaka og einhverra óskilgreindra óháðra, sem buðu fram undir nafni Samfylkingar í síðustu kosningum. Augljóslega verður þar með kippt grundvellinum undan sérstöku starfi viðkomandi flokka hvers um sig, þótt upphaflega væri ítrekað fullyrt að þeir yrðu til eftir sem áður. Margir létu blekkjast af slíku tali eða létu a.m.k. yfir sig ganga í nafni einhverrar samstöðu eða tryggðar við sinn gamla, góða flokk. Nú kunna það að verða örlög sumra að verða dregnir inn í nýjan flokk vegna þeirra fáránlegu vinnubragða sem virðist eiga að viðhafa.

Ætlunin er að leggja hinum nýja flokki til félaga í slumpum með því að einstök félög og heildir gerist stofnendur nýja flokksins. Það er sem sagt ekki ætlunin að menn gerist félagar sem einstaklingar og af innri þörf og vilja hvers og eins, heldur verði fluttir hreppaflutningum eins og niðursetningar. Þetta er svona svipuð aðferð og við þann hinn fræga miðlæga gagnagrunn á heilbrigðissviði, þeir verða með sem ekki lýsa því sérstaklega yfir að þeir vilji ekki vera með. Og ekki er víst að allir hafi gert sér grein fyrir slíku.

En hvað er þá til ráða þeim sem ekki vilja verða stofnendur nýja flokksins? Þeim virðist það eitt ráð tiltækt að segja sig úr sínum gamla flokki, sem er reyndar mörgum afar erfitt og viðkvæmt mál. Svo mun t.d. vera um margar konur, sem starfað hafa árum saman í Kvennalistanum, þolað þar bæði súrt og sætt hver með annarri og glaðst yfir góðum árangri þessa merkilega anga kvennabaráttunnar, þótt á móti hafi blásið síðustu árin. Að segja sig úr Kvennalistanum er mörgum jafn sárt og að yfirgefa æskuheimilið eða að skilja við maka til margra ára. Það er hins vegar eina leiðin fyrir þær sem ekki vilja láta flytja sig hreppaflutningum yfir í stóra krataflokkinn, sem stofnaður verður að nokkrum vikum liðnum.