Klámbylgjan

Loksins, loksins virðist sem eitthvað eigi að gera til að stemma stigu við klámbylgjunni sem hvolfst hefur yfir okkur á undanförnum mánuðum. Í undrun og skelfingu hefur fólk fylgst með þessari bylgju magnast stig af stigi og birtast á sífellt fjölbreyttari hátt. Hún birtist með æ grófari hætti í fjölmiðlum, bæði í auglýsingum, greinum og viðtölum, hún hefur brotist inn á hvern skemmtistaðinn af öðrum og hún þrýstir æ fastar á þann ramma velsæmis sem til skamms tíma hefur notið þegjandi samþykkis í samfélaginu.

Fólk er varnarlaust gagnvart óþverra af þessu tagi og öðru nú á tímum einstaklings- og frjálshyggju þegar boð og bönn eru kennd við lopapeysur og sauðskinnsskó í lítilsvirðingarskyni. Það lokar augum og eyrum fyrir ýmsu áreiti því það óttast afturhaldsstimpilinn ef það andæfir. Sumt af því er ærið lúmskt og auðvitað umdeilanlegt hvaða tilgangi það þjónar. Ýmsir hafa m.a. tekið eftir því hvað fjölmiðlar eru orðnir ginnkeyptir fyrir tískumyndum, sem hreinlega tröllríða sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum. Hvers vegna þessi skyndilegi áhugi á tískumyndum? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að nú keppist hver hönnuðurinn um annan þveran að sýna sem mest af kvenlíkamanum. Allt er flegið og gegnsætt svo að andinn fær ekki tækifæri til að gruna nokkurn skapaðan hlut. Þannig er ýmsu þröngvað upp á fólk sem það kærir sig ekkert um, veldur því óþægindum og áhyggjum og vangaveltum um velsæmi og misnotkun.

En sem betur fer kemur að því að fólki ofbýður og það bregst við svo að verðuga athygli hefur vakið. Að frumkvæði Stígamóta hafa konur kynnt sér starfsemi klámbúllanna í Reykjavík og komist að þeirri niðurstöðu að þar fari fram grímulaust vændi sem byggist á því að íslenskir karlhundar nota sér neyð erlendra stúlkna. Aðgerðir kvennanna hafa ekki verið með öllu hættulausar og er kjarkur þeirra lofsverður.

Þá opnaði Guðrún Ögmundsdóttir umræðu utan dagskrár á Alþingi í dag um þetta efni. Fjöldi þingmanna tók þátt í umræðunni sem var alvarleg, málefnaleg og tilfinningaþrungin. Dómsmálaráðherra lýsti yfir fullum vilja til að taka á málinu og hefur þegar sett af stað vinnu í því skyni. Þessari umræðu þarf að fylgja eftir af fullum þunga.