Meðan 95 % þjóðarinnar horfði á Júróvisjón fór ég í Þjóðleikhúsið. Þar voru sveitungar mínir úr Reykjadalnum í Suður-Þingeyjarsýslu mættir til leiks með hið bráðskemmtilega leikverk Iðunnar og Kristínar Steinsdætra: “Síldin kemur & síldin fer”.
Menningin blómstrar svo sannarlega víðar en í henni Reykjavík, þótt annað mætti stundum ætla. Það er vel því maðurinn lifir ekki af brauðinu einu saman. Sérstaklega sönglist og leiklist eiga sér iðkendur marga um allt land, og stundum fer þetta hvort tveggja saman eins og í síldarveislu þeirra systranna. Mörg áhugaleikfélög hafa fært upp þetta leikverk víða um land við miklar vinsældir, en uppfærsla Reykdælinganna slær þó sennilega öll met í þeim efnum. Hróður þeirra hefur borist víða og varð til þess að þeim var boðið að sýna í sjálfu Þjóðleikhúsinu, sem hefur tekið upp þann ágæta sið að hýsa eina sérvalda áhugaleiksýningu á ári.
Meðal áhorfenda mátti sjá marga gamla Reykdælinga og einnig var gaman að sjá þó nokkra landsþekkta atvinnuleikara sem komu til að forvitnast um þessa rómuðu sýningu. Og smám saman rann upp fyrir áhorfendum hvers vegna þessi sýning hafði orðið svo vinsæl. Ástæðan er reyndar ekki ein, heldur margar. Í fyrsta lagi er auðvitað verkið sjálft ákaflega skemmtilegt, fjörugt og fyndið. Þeir sem kynntust af eigin raun þessum þætti í atvinnusögu landsins sjá þar gamalkunn minni í líflegum búningi. Það er mikið sungið, lögin þekkja allir og textarnir hæfa verkinu. Reykdælingar reyndust hafa mörgum ágætum söngvurum á að skipa, auk þess sem þeir fengu liðsstyrk frá Laugaskóla eins og þeir hafa gert á síðustu árum. Það hefur reynst vel á báða bóga. Eistlendingurinn Jaan Alavere sér um tónlistarstjórn og er greinilega betri en enginn. Margir leikaranna stóðu sig með miklum ágætum, þeir sungu og dönsuðu af hjartans lyst og sköpuðu margar góðar persónur. Stærsta þáttinn í þessari vel heppnuðu sýningu á þó vafalaust leikstjórinn Arnór Benónýsson. Þeir eru heppnir Reykdælingar að hann skyldi snúa aftur heim í heiðardalinn.
Þjóðleikhúsið var troðfullt þetta kvöld þrátt fyrir margumtalaða Júróvisjón sem Íslendingar voru svo gott sem búnir að vinna rétt eina ferðina áður en þeir fóru til Svíþjóðar! Og það var klappað og hlegið og að leikslokum risu allir úr sætum og þökkuðu fyrir sig með slíku lófataki að undir tók í allri Hverfisgötunni. Reykdælingar sýndu að þeir áttu erindi á svið Þjóðleikhússins.