Stórkarlalegt skal það vera

Þá er það skjalfest og borðfast að fjárfestar hafa ekki áhuga á að leggja fé í lítið og “huggulegt” álver til framleiðslu 120 þús.tn. á ári. Þeir vilja hafa þetta stórt og helst 480 þús.tn. flykki sem er meira en nú er framleitt samanlagt í Straumsvík og á Grundartanga. Slíkt risaálver kallar auðvitað á stórkarlalegar virkjanir á hálendinu norðan Vatnajökuls með tilheyrandi víðtækum og óbætanlegum spjöllum á landslagi og náttúru svæðisins.

Þetta eru út af fyrir sig ekki ný sannindi, þótt virkjana- og álverssinnar með Halldór og Finn í fararbroddi hafi sífellt hafnað þeim meðan þeir voru að troða Fljótsdalsvirkjun fram hjá umhverfismati. Stóra hættan núna er að þeir misbeiti rétt einu sinni valdi sínu og setji af stað framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun án þess að allt hitt sem gera þarf á svæðinu hafi farið í gegnum umhverfismat. Síðan verður meginröksemdin fyrir framhaldinu að annað sé óhagkvæmt hvað svo sem kemur út úr umhverfismati.

Til fróðleiks birti ég hér á eftir athugasemdir við frummat á umhverfisáhrifum vegna 480 þús. tn. álverksmiðju á Reyðarfirði sem ég sendi Skipulagsstofnun ríkisins í nóvember sl.

“Áformað er að reisa og reka álverksmiðju á Reyðarfirði með allt að 480 þús. tn. framleiðslugetu. Hér er um gríðarlega stóra verksmiðju að ræða sem ein og sér mun hafa mjög mikil áhrif bæði hvað varðar náttúrulegt og félagslegt umhverfi. Mengun frá verksmiðjurekstrinum verður mikil og langt umfram þau mörk sem Kyoto-bókunin setur. Afdrifaríkustu áhrifin af fyrirhuguðum verksmiðjurekstri eru þó fólgin í virkjunum til að framleiða raforku til verksmiðjunnar. Framkvæmdir í því skyni munu eyðileggja dýrmæt landsvæði norðan Vatnajökuls, skerða stórlega ósnortin víðerni og skaða ímynd lands og þjóðar. Það er algjörlega fráleitt að reyna að leggja mat á umhverfisáhrif vegna 480 þús. tn. álverksmiðju á Reyðarfirði án þess að hafa öflun raforkunnar með í þeirri mynd.

Framleiðslugeta fyrirhugaðrar álverksmiðju á Reyðarfirði er allt að 480 þús. tn. sem er meira en samanlögð framleiðslugeta þeirra álverksmiðja sem nú eru í rekstri hér á landi í Straumsvík og á Grundartanga. Jafnvel þótt þær nýttu til fulls þau leyfi sem þær hafa til aukins reksturs næmi sú framleiðsla samanlagt innan við 400 þús. tn. og þykir þó mörgum nóg um. Fullbyggð 480 þús. tn. álverksmiðja mun þurfa álíka mikla raforku til rekstursins eins og nú þegar er framleidd í landinu bæði til almennra nota og til stóriðjureksturs. Ykist þá enn til mikilla muna það hlutfall raforkunnar sem fer til álframleiðslu í landinu og verður það að teljast afar óskynsamlegt og líklegt til að valda sveiflum í hagkerfinu. Ennfremur er ljóst að þær virkjanir sem nú eru á borðinu vegna þessara stóriðjuáforma munu ekki framleiða nægilegt rafmagn til reksturs fullbyggðrar verksmiðju, en spurningum um frekari virkjanir er ósvarað. Ber því enn að sama brunni að stærsta ágreiningsefninu vegna álverksmiðju á Reyðarfirði er ýtt til hliðar.

Umfjöllun í frummatsskýrslunni um sannanlega og/eða hugsanlega mengun frá fyrirhugaðri verksmiðju er ekki traustvekjandi og allra síst sú niðurstaða skýrsluhöfunda að vothreinsibúnaður sé óþarfur fyrir 120 þús. tn. álver á Reyðarfirði. Mörk fyrir útblástur frá verksmiðjunni eru miðuð við svokallaða PARCOM-samþykkt frá 1994, sem er leiðbeinandi um viðmiðunarmörk losunar frá álverksmiðjum sem ná skal fyrir árið 2005, einkum varðandi flúor og ryk. Er þar um að ræða málamiðlun ríkja sem að samkomulaginu standa og fela í sér lægsta mögulega samnefnara innan þess hóps. Sum ríkin vildu þegar á þeim tíma mun strangari mörk og að gert yrði ráð fyrir vothreinsun til viðbótar við þurrhreinsun, en vothreinsun tryggir mun minni mengun af völdum brennisteins- og flúorsambanda og ryks. Það lýsir því litlum metnaði hjá ríki sem vill teljast til fyrirmyndar í umhverfismálum að láta sér nægja PERCOM-viðmiðanir þegar setja á losunarmörk fyrir álverksmiðju hér á landi og allra síst við aðstæður á Reyðarfirði. Gefið er til kynna að gerðar verði kröfur um vothreinsibúnað í fullbyggðri verksmiðju en slíkar kröfur ætti að gera þegar í fyrsta áfanga.

Þá vekur furðu það ábyrgðarleysi sem fram kemur í skýrslunni varðandi alþjóðlegar skuldbindingar í tengslum við Kyoto-bókunina sem reyndar er engan veginn til lykta leidd og verður væntanlega ekki á næstu mánuðum. Viðurkennt er að losun gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjunni verði umfram þau mörk sem nú eru skrifuð á Ísland, en látið að því liggja að ef ekki takist að breyta því verði væntanlega keyptur losunarkvóti á alþjóðamarkaði. Ekkert liggur fyrir um möguleika á því sviði né heldur kostnaður vegna slíkra kaupa. Hér er þó um það að ræða að við rekstur 480 þús. tn. álverksmiðju myndi losun ígilda koltvíoxíðs aukast um nær 40% frá því sem var árið 1990. Sú staðreynd ein ætti að nægja til að hafna frekari áformum um eflingu mengandi stóriðju hér á landi.

Nokkuð er fjallað um áhrif fyrirhugaðs verksmiðjureksturs á Reyðarfirði á samfélag, en þó kemur fram að fyrri athuganir hafa ekki verið unnar upp í öllum atriðum þrátt fyrir verulega breyttar forsendur og borið við tímaskorti. Ekki eru það trúverðug vinnubrögð að ekki sé fastar að orði kveðið. Ljóst er að nauðsynlegt vinnuafl er ekki fyrir hendi eins og er og að margra áliti ekki líklegt að störf í álverksmiðju verði til þess að laða fólk til búsetu á svæðinu. Auk þess er hér fyrst og fremst um að ræða störf fyrir karla, það sýna tölur um kynjaskiptingu í starfandi álverksmiðjum og engin merki um breytingu í þeim efnum. Þrátt fyrir svokölluð margfeldisáhrif er ljóst að bygging og rekstur risaálverksmiðju skapar hlutfallslega miklu færri störf fyrir konur en karla og er af þeim sökum afar óskynsamleg aðgerð í byggðamálum þótt öðru hafi verið haldið fram. Að sama brunni ber sú staðreynd að samþjappaðar stórframkvæmdir á tiltölulega litlum og fámennum stöðum geta skaðað bæði viðkomandi byggð og nágrannabyggðir og gagnast í engu fjarlægari byggðum.

Þá fer ekki hjá því að tilkoma risaálvers á Reyðarfirði með tilheyrandi raski vegna virkjana á hálendinu norðan Vatnajökuls mun gjörbreyta ásýnd og ímynd Austurlands og draga úr aðdráttarafli þess til ferðamennsku. Verulega ámælisvert er að engin tilraun er gerð til að bera saman álvinnslu og ýmsa aðra atvinnukosti á svæðinu sem gætu skilað fjölgun starfa og fjárhagslegum ávinningi fyrir Austurland og landið allt.

Af framansögðu má ljóst vera að undirrituð hefur margt að athuga við frumamatsskýrsluna. Þrátt fyrir augljósa viðleitni skýrsluhöfunda til þess að fegra þá mynd sem við blasir og draga upp jákvæða mynd af áhrifum fyrirhugaðra aðgerða eru fullyrðingar þess efnis ekki studdar sannfærandi rökum. Ljóst er að enn eina ferðina á ekki að gera ýtrustu kröfur um mengunarvarnir við álvinnsluna, mengunin er langt umfram leyfileg mörk samkvæmt Kýótóbókuninni, áhrif á samfélagið verða örugglega ekki að öllu leyti af hinu góða og verksmiðjureksturinn mun spilla ímynd svæðisins og Austurlands alls.

Stærsti ágalli frummatsins er svo fólginn í því að undanskilja mat á tilheyrandi virkjanaframkvæmdum. Álverksmiðjan skv. núverandi hugmyndum verður ekki reist né rekin á Reyðarfirði án þess að vatnasviði og landslagi norðan Vatnajökuls verði bylt og breytt þannig að aldrei verður aftur tekið. Fyrsta skrefið er Fljótsdalsvirkjun sem nú er harðlega deilt um í þjóðfélaginu. Hún er aðeins byrjunin á stórfelldri röskun ómetanlegs landssvæðis sem á með réttu að vernda og virða.

Það er bæði óábyrgt og óviðunandi með öllu að stjórnvöld skuli áfram vinna að eflingu stóriðju í landinu án þess að mótuð hafi verið heildarstefna um orkunýtingu með tilliti til sjónarmiða umhverfis- og náttúruverndar.”