Áfangi í kvennabaráttunni

Þessa dagana stendur yfir ráðstefna hjá Sameinuðu þjóðunum í New York þar sem reynt er að meta hvernig tekist hefur að framfylgja yfirlýsingu kvennaráðstefnunnar í Peking fyrir 5 árum. Þar svífur andi vonbrigða yfir vötnum þar eð lítið þykir hafa áunnist. Hlutfall kvenna í stjórnmálum og stjórnunarstörfum hefur t.d. ekkert aukist þegar á heildina er litið. Hagur kvenna hefur ekki batnað þegar litið er til menntunar og heilbrigðisþjónustu. Ólæsi er t.d. að 2/3 bundið við konur og víða er þeim haldið frá allri menntun. Konur njóta lakari heilbrigðisþjónustu og víða er tíðni dauðsfalla kvenna við barnsburð óhugnanlega mikil. Ofbeldi gagnvart konum er útbreitt um allan heim. Í því efni hefur ekkert breyst. Konum er nauðgað, þær eru kúgaðar, þrælkaðar, barðar og drepnar. Og þær eru í sívaxandi mæli fórnarlömb stríðsrekstrar.

Þetta er ekki fögur mynd af mannkyninu og því miður sönn, en að sjálfsögðu í mismiklum mæli eftir hinum ýmsu löndum. Margir vilja t.d. telja ástandið harla gott hér á Ísa- köldu -landi og er óhætt að samsinna því þegar litið er til landa eins og Afganistan, Íran eða Saudi-Arabíu. Hér hefur ýmislegt þokast í áttina til jafnstöðu kynjanna á undanförnum árum. En hvert einasta skref hefur kostað baráttu. Og skrefin eru mörg óstigin enn.

Einn mikilvægur áfangi náðist í kvennabaráttunni nú þessa dagana þegar Hæstiréttur dæmdi Ragnhildi Vigfúsdóttur sigur í máli sínu gegn Akureyrarbæ. Ragnhildur starfaði sem jafnréttis- og fræðslufulltrúi hjá Akureyrarbæ árin 1995 til 1998 og komst fljótlega að raun um að hún naut ekki sömu kjara og atvinnumálafulltrúi bæjarins, en störf þeirra höfðu þó verið álíka hátt metin í starfsmati. Föst laun Ragnhildar voru 78 þús. kr. lægri en atvinnumálafulltrúans auk þess sem hann naut betri sérkjara en hún í sambandi við eftirvinnu og akstur.

Ragnhildur kærði og var dæmdur sigur í héraði. En Akureyrarbær, sem þykist þó vera dálítið fyrir jafnrétti kynjanna, lét sér ekki segjast og áfrýjaði til Hæstaréttar. Hann hefur nú sagt sitt. Ragnhildur hefur haft fullan sigur í málinu og hefur þar með markað spor í jafnréttissöguna. Til hamingju, gamla vinkona!

Það er á vissan hátt kaldhæðnislegt að þessi dómur skyldi falla einmitt núna þegar þingað er um árangur kvennabaráttunnar í New York. Ráðamenn telja sig hafa efni á að hreykja sér yfir stöðu mála hér á landi, en í raun láta þeir ekki nokkurn skapaðan hlut af hendi að eigin frumkvæði. Stundum þarf jafnvel Hæstarétt til. Þetta dæmi sýnir enn einu sinni að hver einasti áfangi kostar mikla baráttu og þrautseigju. Í þetta sinn borgaði það sig og vonandi njóta margar konur góðs af.