Hreppaflutningar í krataflokkinn

Draumur margra vinstri manna á að rætast í maí að því er fréttir herma. Þá verður stofnaður flokkur upp úr því bandalagi A-flokka, Kvennalista, Þjóðvaka og einhverra óskilgreindra óháðra, sem buðu fram undir nafni Samfylkingar í síðustu kosningum. Augljóslega verður þar með kippt grundvellinum undan sérstöku starfi viðkomandi flokka hvers um sig, þótt upphaflega væri ítrekað fullyrt að þeir yrðu til eftir sem áður. Margir létu blekkjast af slíku tali eða létu a.m.k. yfir sig ganga í nafni einhverrar samstöðu eða tryggðar við sinn gamla, góða flokk. Nú kunna það að verða örlög sumra að verða dregnir inn í nýjan flokk vegna þeirra fáránlegu vinnubragða sem virðist eiga að viðhafa.

Ætlunin er að leggja hinum nýja flokki til félaga í slumpum með því að einstök félög og heildir gerist stofnendur nýja flokksins. Það er sem sagt ekki ætlunin að menn gerist félagar sem einstaklingar og af innri þörf og vilja hvers og eins, heldur verði fluttir hreppaflutningum eins og niðursetningar. Þetta er svona svipuð aðferð og við þann hinn fræga miðlæga gagnagrunn á heilbrigðissviði, þeir verða með sem ekki lýsa því sérstaklega yfir að þeir vilji ekki vera með. Og ekki er víst að allir hafi gert sér grein fyrir slíku.

En hvað er þá til ráða þeim sem ekki vilja verða stofnendur nýja flokksins? Þeim virðist það eitt ráð tiltækt að segja sig úr sínum gamla flokki, sem er reyndar mörgum afar erfitt og viðkvæmt mál. Svo mun t.d. vera um margar konur, sem starfað hafa árum saman í Kvennalistanum, þolað þar bæði súrt og sætt hver með annarri og glaðst yfir góðum árangri þessa merkilega anga kvennabaráttunnar, þótt á móti hafi blásið síðustu árin. Að segja sig úr Kvennalistanum er mörgum jafn sárt og að yfirgefa æskuheimilið eða að skilja við maka til margra ára. Það er hins vegar eina leiðin fyrir þær sem ekki vilja láta flytja sig hreppaflutningum yfir í stóra krataflokkinn, sem stofnaður verður að nokkrum vikum liðnum.