Enn eru öfgafullir orkubeislarar (sbr. öfgafullir náttúruverndarsinnar eins og sumum er tamt á tungu) að seilast inn á landsvæði þar sem ástæða er til ýtrustu varúðar gagnvart náttúrunni. Nú vilja þeir virkja í Bjarnarflagi vestan við Námafjall í Mývatnssveit sem nýtur þó sérstakrar verndar skv. lögum um verndun Mývatns og Laxár. Frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum slíkrar virkjunar hefur legið fyrir í tilskilinn tíma og frestur til að skila inn athugasemdum rennur út á morgun. Undirrituð sendi inn eftirfarandi athugasemdir í dag:
Til Skipulagsstofnunar
Laugavegi 166
105 Reykjavík
Efni: Mat á umhverfisáhrifum vegna jarðvarmavirkjunar í Bjarnarflagi í Mývatnssveit og háspennulínu frá henni að Kröflustöð.
Fyrir aldarfjórðungi var tekin stefnumarkandi ákvörðun um nýtingu jarðvarma í grennd við Mývatn og umhverfi þess, sem er eitt af sérstæðustu og dýrmætustu náttúrusvæðum Íslands. Á þeim tíma stóðu menn frammi fyrir miklum kröfum af hálfu orkugeirans að beisla þá miklu orku sem víða finnst á þessu svæði. Að vandlega yfirveguðu ráði var heimiluð jarðvarmavirkjun við Kröflu þrátt fyrir að það svæði var þá ósnortið og um margt fýsilegt til varðveislu. Verndun svæðisins nær Mývatni þótti einfaldlega mikilvægari þótt þar væri þegar orðin nokkur röskun. Um svipað leyti, þ.e. 2. maí árið 1974, voru sett sérlög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.
Um ofangreinda niðurstöðu hefur ríkt sæmilegur friður í 25 ár, enda ekki ástæða til annars. Nú hins vegar sækir Landsvirkjun það fast að fá heimild til að reisa 40 MW jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi vestan við Námafjall, enda þótt mikil orka sé enn óbeisluð á Kröflusvæðinu. Samkvæmt greinargerð Orkustofnunar frá því í nóvember 1999 er Kröflusvæðið í heild talið geta staðið undir allt að 375 MW raforkuvinnslu í 50 ár og þrjú önnur vinnslusvæði á sömu slóðum hafa verið könnuð og skilgreind. Að áliti Orkustofnunar “..mætti nú þegar byrja á virkjunarframkvæmdum við 30 MW einingu sem gæti verið tilbúin fyrir lok árs 2003…” og “Annar 30 MW áfangi á Víti-Hveragilssvæði gæti síðan verið tilbúinn til orkuvinnslu í lok árs 2005.” Með tilliti til þessa álits er óskiljanlegt hvers vegna verið er að sækjast eftir heimild til orkuvinnslu í Bjarnarflagi í stað þess að halda áfram vinnslu á Kröflusvæðinu ef þörf er fyrir frekari orkuöflun.
Eins og fram kemur í frummatsskýrslu er hreint ekki áhættulaust fyrir lífríki Mývatns ef heimiluð yrði jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi. Vitað er, eins og segir í skýrslunni, að “náttúrulegt afrennsli frá jarðhitakerfinu hefur um langan tíma farið út í Mývatn og er ein undirstaðan í sérstæðu lífríki þess”. Hver setningin af annarri í skýrslunni felur í sér vafaatriði og væri að sjálfsögðu með öllu óviðunandi að hætta lífríki á sérvernduðu svæði fullkomlega að óþörfu. Sjónræn áhrif vegna virkjunarinnar sjálfrar og háspennulínunnar frá henni að Kröflustöð yrðu einnig töluverð og hlytu að rýra gildi svæðisins til ferðamennsku.
Rétt er að minna á þá vinnu sem nú fer fram undir heitinu “Maður – nýting – náttúra”, þar sem leitast er við að meta verndargildi vatnsfalla og jarðhitasvæða. Eðlilegt og rétt væri að bíða með mat á einstökum virkjanahugmyndum þar til þeirri vinnu er lokið. Þá hefur Alþingi nýlega samþykkt breytt lög um mat á umhverfisáhrifum sem eðlilegt væri að taka tillit til.
Með hliðsjón af framansögðu leggst undirrituð gegn því að ráðist verði í virkjun jarðvarmans í Bjarnarflagi og telur að slíkar framkvæmdir og starfsemi færu í bága við markmið og tilgang laganna um verndun Mývatns og Laxár nr. 36/1974.
Það væri fullkomið óráð að ganga gegn þeirri stefnu sem mörkuð var um þessi efni fyrir aldarfjórðungi.
Seltjarnarnesi 15. maí 2000
Kristín Halldórsdóttir