Áfangasigur í náttúruvernd

Kúvendingin í álvers- og virkjanamálum á Norðausturlandi opnar ný sóknarfæri fyrir náttúruvernd á Íslandi sem nýta þarf til fullnustu og hvergi láta undan síga.

Sigur vannst í glímunni um Eyjabakkasvæðið. Hann vannst vegna þrotlausrar baráttu náttúruverndarsinna ekki síst vegna aðgerða Umhverfisvina, sem söfnuðu undirskriftum ríflega 45 þúsund Íslendinga til stuðnings kröfunni um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar.

Kröftug barátta náttúruverndarsinna hefur haft mikil áhrif á þjóðfélagsumræðuna, sem hefur verið geysilega öflug og mikil að vöxtum mánuðum saman. Öll þessi umfjöllun leiddi í ljós ýmsar hliðar á málinu, sem mörgum voru áður huldar, ekki aðeins hvað varðar náttúru svæðisins, heldur einnig fjárhagslegar hliðar þessara áforma og hugsanlegar félagslegar afleiðingar þeirra.

Baráttan skilaði árangri þótt illa liti út á tímabili. Þar skipti aðkoma Norsk Hydro áreiðanlega sköpum. Forsvarsmönnum fyrirtækisins er ljóst að ímynd þess hefði beðið alvarlegan hnekki heima fyrir og annars staðar ef það hefði átt þátt í því að Eyjabökkum væri fórnað á altari virkjanaframkvæmda. Hitt er svo fróðlegt og raunar stórmerkilegt hvernig ráðamenn reyna að snúa sig út úr arðsemisklemmunni. Fjöldi hagfræðinga hrakti Landsvirkjunarmenn upp að vegg í rökræðunni um arðsemi Fljótsdalsvirkjunar. Sú umræða vakti með mörgum þá spurningu hvort þeir hefðu ekki vitað betur eða hvort þeir ætluðu einfaldlega að fela staðreyndir þar til ekki yrði aftur snúið. O nú er eftir að sjá hvernig þeim gengur að sannfæra sjálfa sig og aðra um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sem hafi það hlutverk eitt að sjá einu stykki álversflykki fyrir orku.

Umskiptin í álvers- og virkjanamálum nú gefa byr í seglin. Náttúruverndarsinnar þurfa að samhæfa kraftana sem aldrei fyrr. Stærsta ósnortna víðernis í Evrópu er í húfi. En svo er einnig um þróun atvinnumála á Austurlandi. Þar þurfa menn að setja lok á álverspottinn og horfa til fleiri átta.

Þingflokkur VG ályktaði á eftirfarandi hátt daginn sem Eyjabakkalónið var blásið af:

“1) Áhersla verði lögð á að ljúka vinnu við rammaáætlun um virkjanir vatnsafls og jarðvarma á Íslandi þar sem lagt verði mat á alla virkjanakosti og öll stóriðju- og virkjanaáform skoðuð í því ljósi.

2) Stjórnvöld taki þegar í stað upp viðræður við Austfirðinga um átak í atvinnumálum fjórðungsins, í ljósi þessarar stöðu og nýrra frétta af erfiðleikum í atvinnulífi eystra. Lagt verði umtalsvert fé í nýsköpunarvinnu með áherslu á hátæknigreinar og ferðaþjónustu. Þá verði hraðað vinnu að verulegum samgöngubótum á Austurlandi til að styrkja atvinnulíf og búsetu.

3) Hafist verði handa um verndaraðgerðir á Eyjabakkasvæðinu og undirbúning að stofnun Snæfellsþjóðgarðs. Ljóst er að ráðast þarf í talsverða vinnu til að búa þetta svæði undir vaxandi ferðamannastraum. Með markvissum aðgerðum væri engu að síður hægt að taka á móti stórauknum fjölda ferðafólks þegar á næsta ári en slíkt gæt orðið mikil tekjulind fyrir íbúa Austurlands.

Senn líður að því að Íslendingar verði að gera það upp við sig hvort þeir ætli að sólunda hreinum orkulindum sínar í mengandi stóriðju eða varðveita þær með tilliti til náttúruverndarsjónarmiða og möguleika á nýtingu þeirra til framleiðslu vistvænna orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis. Öll rök hníga að því að gert verði mat á umhverfisáhrifum fyrir stóriðjuhugmyndina í heild sinni eftir forskrift nýrra lag um slíkt mat sem að öllum líkindum verða samþykkt á Alþingi á þessu vori.”