Karlmaður er nefndur

Þátturinn “Maður er nefndur” hefur gengið í sjónvarpi allra landsmanna nú um margra mánaða skeið. Lífseigja hans gæti bent til þess að hann væri með vinsælli dagskrárliðum. Svo mun þó ekki vera, heldur mun leitun á þeim sem nenna að horfa á þennan þátt. Ástæðan er sennilega fyrst og fremst sú að engin minnsta tilraun er gerð til að höfða til áhorfenda á sjónrænan hátt. Viðfangsefnið er sett niður í hægindastól og spurt fremur áhugalítið um lífshlaup sitt á ca. hálftíma. Ekkert truflar þessa frásögn nema misjafnlega gáfulegar spurningar afar misgóðra spyrla, sem sitja andspænis viðfangsefninu, sumir hjárænulegir, sumir tilgerðarlegir, sumir eins og þeim hundleiðist verkefnið. Engar myndir frá æviferli viðkomandi eru sýndar til þess að lífga upp á, ekkert fær að spilla þessu tveggja manna tali sem virðist raunar ekki ætlað öðrum en þeim tveimur.

Hver er tilgangurinn með slíku sjónvarpsefni? Sú skýring hefur heyrst að hér sé verið að skrá heimildir, hindra að þær fari í glatkistuna. Enda augljóst að viðmælendur eru allir af léttasta skeiði, komnir á eftirlaunaaldurinn og hafa komið við sögu lands og þjóðar með ýmsum hætti. Nú kann það að vera hið besta mál að tryggja heimildir með þessum hætti og þeir sem á annað borð nenna að festa sig við sjónvarpsefni af þessu tagi heyra kannski eitt og annað sem er þess virði. Að vísu er til mýgrútur af viðtölum í safni útvarpsins og flestir eru þeirrar skoðunar að efni sem þetta eigi betur heima í útvarpi en sjónvarpi.

En úr því að menn þrjóskast við að halda þessum þætti úti mánuðum saman hlýtur maður að spyrja hvers vegna í ósköpunum er ekki reynt að tryggja eitthvert jafnræði á milli þjóðfélagshópa, að ekki sé nú minnst á jafnræði kynjanna. Ég vil fá að sjá og heyra viðtöl við merkiskonur eins og Sigurveigu Guðmundsdóttur, Margréti Guðnadóttur, Rannveigu Löve, Vigdísi Jónsdóttur, Málmfríði Sigurðardóttur, Svövu Jakobsdóttur, Guðrúnu P. Helgadóttur, Jónu Valgerði Kristjánsdóttur, Sigríði Thorlacius, Öddu Báru, Helgu Kristjánsdóttur o.fl. o.fl. sem svo sannarlega hafa látið að sér kveða í íslensku þjóðfélagi og hafa frá mörgu að segja. Ég er orðin hundleið á þessum eilífu karlaviðtölum. Vel á minnst: Hvers vegna heitir þátturinn ekki bara “Karlmaður er nefndur”?!!