Forvarnir gegn fóstureyðingum

Ríkisstjórnin er búin að uppgötva vandamál sem hún ætlar að taka á með fræðslu og forvarnarstarfi. Þetta vandamál felst í fjölgun fóstureyðinga og ótímabærum þungunum ungra stúlkna. Lái mér hver sem vill að mér skyldi detta í hug málshátturinn kunni um barnið og brunninn. Hefðu stjórnvöld verið skjótari í viðbrögðum og tekið meira mark á viðvörunum áhugahópa og fagmanna að ógleymdri löngu gerðri samþykkt samþykkt Alþingis væri ástandið ekki jafn slæmt og nú er raunin.

Fyrir hálfu 14. ári eða nánar tiltekið 19. mars 1987 samþykkti Alþingi að frumkvæði undirritaðrar svohljóðandi tillögu: “Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að efla verulega fræðslu um kynferðismál meðal almennings með það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir og hindra útbreiðslu sjúkdóma. Sérstök áhersla skal lögð á að upplýsa fólk á aldrinum 15 – 19 ára um kynlíf og barneignir.”. Rökstuðningur fyrir tillögunni var hinn sami og nú er hafður uppi og raunar einnig þegar lögin um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir voru sett árið 1975. Ótímabær þungun er mikið áfall fyrir unga stúlku og fóstureyðing er alltaf neyðarúrræði.

Það gekk svo sem ekki þrautalaust að fá háttvirta alþingismenn til að samþykkja þessa tillögu okkar þriggja sem þá sátum á Alþingi fyrir Kvennalistann sáluga. Ég hafði ítrekað reynt að vekja athygli á þessum vanda með fyrirspurnum og tillögum m.a. um lækkun kostnaðar vegna getnaðarvarna en uppskar lítið annað en tómlæti flestra samþingmanna. Ofannefnda tillögu þurftum við að flytja oftar en einu sinni áður en hún hlaut blessun viðkomandi þingnefndar og reyndar óvíst að hún hefði fengist samþykkt nema fyrir þá sök að um þær mundir gaus upp mikil umræða um alnæmi sem menn óttuðust að yrði að hreinum faraldri. Illar tungur sögðu að þá fyrst hefðu sumir þingkarlar séð nauðsyn þess að efla fræðslu um kynlíf þegar þeim varð ljóst að líka karlar gátu orðið veikir af soddan háttalagi. Svo mikið er víst að lítið fór fyrir umræðum um erfiða stöðu ungra stúlkna sem verða fyrir ótímabærum þungunum. Og því miður hefur alltof lítið farið fyrir framkvæmd tillögunnar.

En betra er seint en aldrei og nú hefur sem sagt heilbrigðisráðherra séð ljósið og lýst upp hugskot félaga sinna í ríkisstjórninni. Því ber að fagna og óska verkefninu góðs gengis. Ekki veitir af því þróunin er áhyggjuefni. Meðan fóstureyðingum meðal stúlkna undir tvítugt hefur fjölgað jafnt og þétt hér á landi á síðustu árum hefur þeim fækkað á hinum Norðurlöndunum og annars staðar á Vesturlöndum.

Vatnajökulsþjóðgarður

Árviss fundafiðringur er nú algleymingi meðal landsmanna eftir skemmtana- og letilíf sumarmánaðanna. Hver ráðstefnan rekur aðra og margar áhugaverðar. En það verður að velja og hafna og satt að segja var ekki erfitt að velja ráðstefnu Landverndar um Vatnajökulsþjóðgarð sem haldin var á Kirkjubæjarklaustri í gær, þ.e. föstudaginn 29. september.

Náttúran skartaði sínu fegursta á leiðinni austur og var eins gott að leggja tímanlega af stað til að geta ekið hægt og notið haustlita og fegurðar fjalla og jökla. Við erum ekki lítið lánsöm að búa í svona fallegu landi. En vandi fylgir vegsemd hverri og mál málanna er hvort við höfum vit á að varðveita það á réttan hátt svo að afkomendur okkar njóti ekki síðri gæða heldur en við. Ein leiðin er vissulega að stofna þjóðgarða á þeim svæðum sem brýnast er að varðveita.

Ráðstefnuna sóttu yfir 100 manns og slíkur var áhuginn að menn hreyfðu sig varla úr sætum allan tímann sem hinir fjölmörgu fyrirlesarar fluttu mál sitt og því lauk ekki fyrr en á seinni tímanum í 8 um kvöldið. Auðfundið var að yfirgnæfandi meirihluti ráðstefnugesta var hlynntur stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og að hann verði sem stærstur og vel að honum staðið á allan hátt. Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt að unnið verði að stofnun þjóðgarðsins en mönnum þykir það heldur þunnur þrettándi að hann miðist eingöngu við jökulröndina að viðbættum Skaftafellsþjóðgarði eins og áform eru um.

Hugmyndasmiðja hefur verið að störfum á vegum Landverndar síðan í vor og er óhætt að segja að ráðstefnugestum leist vel á hugmyndirnar sem smiðirnir kynntu. Samkvæmt þeim er gengið út frá stofnun víðáttumikils þjóðvangs allt frá sjávarströnd sunnan Vatnajökuls og norður til sjávarstrandar í Öxarfirði. Innan þess þjóðvangs, sem er nýtt hugtak á þessu sviði, myndu svo rúmast ýmsar gerðir verndarsvæða, þjóðgarðar, ósnortin víðerni, vernduð rannsóknarsvæði o.fl. Þarna eru á ferðinni merkilegar hugmyndir sem vonandi verða þróaðar áfram. Ómar Ragnarsson endaði umfjöllun hugmyndasmiðjunnar með sýningu myndbands frá þessum slóðum og klykkti út með því að syngja ljóð sitt og lag um náttúru Íslands sem Diddú og Egill Ólafsson sungu í sjónvarpsþáttum hans um þessi svæði sem sýndir voru fyrir tæpu ári. Sannaðist þar enn og aftur að hann Ómar er óborganlegur með öllu.

Tveir erlendir gestir miðluðu af þekkingu sinni og reynslu í sambandi við þjóðgarða og því næst voru flutt erindi um þjóðgarð og virkjanir, um þjóðgarð og búskap, þjóðgarð og ferðamennsku, þjóðgarð og stjórnsýslu og þjóðgarð og vísindarannsóknir. Tveir eða fleiri ræddu hvern þessara þátta frá ýmsum hliðum og spunnust út frá erindum þeirra ágætar umræður sem héldu síðan áfram fram eftir kvöldi yfir góðum mat og glasi af víni.

Landvernd á heiður skilinn fyrir að efna til þessarar ráðstefnu sem er þarft innlegg í þá vinnu sem framundan er til að fullvinna hugmyndina um Vatnajökulsþjóðgarð sem Hjörleifur Guttormsson lagði fram á Alþingi og fékk samþykkta þar á sínu síðasta þingi. Ráðherra setti síðan á laggirnar starfshóp sem skilaði skýrslu sl. vor og lagði raunar til að Vatnajökulsþjóðgarður yrði framlag Íslands í tengslum við “Ár fjalla 2002″ á vegum Sameinuðu þjóðanna. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að tímaþröng, afstaða sveitarstjórna og óvissa um mörk þjóðlendna og eignarlanda setti verkefninu þær skorður að rétt væri að miða þjóðgarðinn við jökuljaðarinn einvörðungu auk Skaftafellsþjóðgarðs og það er sú tillaga sem ríkisstjórnin er tilbúin að styðja.

Niðurstaða starfshópsins olli auðvitað vonbrigðum en er að vissu leyti skiljanleg, einkum með tilliti til þess umfangsmikla verks sem óbyggðanefnd á fyrir höndum. Og öll skref eru betri en engin í þessu efni. En ef þessi tillaga verður að veruleika hljóta allir náttúruverndarsinnar að leggja mikla áherslu á að ekki verði látið þar við sitja heldur verði áfram kannaðir möguleikar á að bæta við svæðum utan jökulrandar. Þar má sérstaklega benda á Lónsöræfi, Eyjabakka, Kringilsárrana, Kverkfjöll og Krepputungu með Hvannalindum og Herðubreiðarlindum svo og Lakagíga. Þessum svæðum þarf að bæta við þjóðgarðinn eftir því sem starfi óbyggðanefndar vindur fram og eftir því sem samkomulag getur tekist við hlutaðeigandi. Framtíðarmarkmiðið hlýtur að vera að tryggja varðveislu sem flestra verðmætra svæða á þessum slóðum. Tillögur hugmyndasmiðjunnar sem fyrr er lýst eru einmitt góður grunnur að byggja á í því efni.

Hver býður best í veðrið

Fyrr á þessu ári kom til kasta útvarpsráðs sú hugmynd markaðsdeildar að leita til aðila um kostun veðurfregna í sjónvarpinu eins og tíðkast hefur mánuðum saman hjá Stöð 2. Mörgum þótti þar seilst inn á grátt svæði þar sem í útvarpslögum er skýrt tekið fram að ekki sé heimilt að afla kostunar við gerð frétta eða fréttatengdra þátta og er hnykkt á því enn frekar í kostunarreglum Ríkisútvarpsins. Vakti það undrun margra þegar útvarpsréttarnefnd sá ekki ástæðu til að gagnrýna þá ráðstöfun Stöðvar 2 að láta Tal færa landsmönnum veðrið eins og sagt er. Hvað sem því líður hlaut RÚV að taka sjálfstæða ákvörðun í því efni.

Svo fór eftir nokkrar umræður í útvarpsráði að gengið var til atkvæða um þá tillögu formanns útvarpsráðs að kostun veðurfregna yrði heimiluð í sjónvarpi RÚV og var tillagan samþykkt með atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Innan tíðar má því allt eins búast við að við fáum veðurfregnir sjónvarpsins í boði Landsvirkjunar eða einhvers annars fyrirtækis sem þarf að bæta ímynd sína. Fulltrúar Samfylkingar virðast nú telja sig hafa gengið þessa götu á enda miðað við nýlegar yfirlýsingar í fjölmiðlum.

Undirrituð sem er fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í útvarpsráði greiddi atkvæði gegn tillögunni ásamt fulltrúa Framsóknarflokksins. Í fundargerð þess fundar frá 28. mars sl. segir m.a. svo: “KH lýsti sig andvíga því að Ríkisútvarpið leitaði kostunar veðurfregna. Hugsanlega væri verið að færa í form kostunar tekjur sem annars myndu skila sér í auglýsingum. RÚV hefur ákveðnar skyldur við landsmenn umfram aðra fjölmiðla, það á að veita ákveðna þjónustu og það er skylda stjórnvalda að gera því kleift að veita hana án þess að fyrirtæki geti keypt sér velvild út á það. Í rauninni þarf að endurskoða frá grunni reglur um kostun með sérstakt hlutverk RÚV í huga og varast að eltast um of við stefnu einkastöðvanna.”

Hér eru að sjálfsögðu dregnar saman í stuttu máli þær ástæður sem ég lagði til grundvallar minni afstöðu. Af sömu ástæðum lýsti ég mig mótfallna þeirri hugmynd sem nú er til athugunar hjá markaðsdeild að skjóta auglýsingum inn í sýningar kvikmynda í sjónvarpi RÚV og ítrekaði um leið að móta þyrfti skýrari stefnu RÚV hvað auglýsingar og kostun varðar. Framhjá því verður ekkert litið að Ríkisútvarpið hefur algjöra sérstöðu meðal fjölmiðla og þá sérstöðu ber að tryggja og rækta. Rúv gegnir afar mikilvægu menningarlegu hlutverki og hefur ríkar skyldur gagnvart landsmönnum. Þótt fjárhagurinn sé oft þröngur ber Rúv að halda ákveðinni reisn og forðast að láta markaðsöflin taka völdin. Þau eiga ekki að ráða dagskrá RÚV, hvorki í útvarpi né sjónvarpi.

Og nú skátarnir!

Ekki var ég fyrr búin að skrifa jákvætt hér í minnisbókina um nýjan stíl Landsvirkjunar en Friðrik forstjóri birtist á mynd í Morgunblaðinu í skátahandabandi við formann Skátasambands Íslands. Tilefnið var nýgerður 5 ára samstarfssamningur Landsvirkjunar og Skátasambandsins um umhverfisverkefni og fræðslu um útivist og orkumál. Mikill er máttur peninganna.

Skátarnir fá sitt lítið af hverju frá hinni hugljúfu og velmeinandi stofnun Landsvirkjun, m.a.s. lítinn og sætan pallbíl! Auðvitað gengur Landsvirkjun ekkert annað en gott til þótt svo heppilega vilji til að með þessu fær hún aldeilis ljómandi tækifæri til að fegra ímynd sína í augum æskulýðsins. Ekki veitir nú af því það er ekki síst ungt fólk sem á erfitt með að sjá nauðsyn þess að umbylta óviðjafnanlegum svæðum í náttúru landsins til orkuöflunar fyrir mengandi stóriðju. Þannig eru reyndar viðhorf æ fleiri þótt náttúruverndarsinnar hafi lítið annað en orðsins brand í glímunni við orkubeislarana.

Hvað skyldi koma næst? Hversu langt ætlar Landsvirkjun að ganga í að kaupa sér velvilja?

Stjórnmál á hausti

Þá eru nú haustvindarnir teknir að blása. Að baki er yndislegt sumar í íslenskri náttúru, dvöl á æskuslóðum, heimsóknir til nýrra staða, gönguferðir, hestaferðir, berjatínsla í bláum mó. Við slíkar aðstæður er auðvelt að tileinka sér áhugaleysi á því sem kallaðir eru fréttnæmir viðburðir og láta vera að taka þátt í umræðum um stjórnmál líðandi stundar. Þetta er sem sagt afsökun fyrir vanrækslu heimasíðunnar sem ég hef ekki hreyft við síðan í júlí. Næg hafa þó tilefnin verið, bæði á sviði umhverfismála og kvennabaráttu sem yfirleitt standa hug mínum næst.

Nýr stíll Landsvirkjunar

Enn er Norðausturlandið helsti vettvangur átaka milli umhverfisverndarsinna og þeirra sem vilja beisla náttúruöflin og brjóta þau undir sig. Mörgum sem leið lögðu inn að Snæfelli og Kárahnjúkum í sumar brá illa við að sjá allt raskið sem þegar er orðið við vegagerð og annan undirbúning á svæðinu. Ekki er að efa að hart verður tekist á um framtíð þessa svæðis á næstu mánuðum og árum. Þá er þess að gæta að forkólfar Landsvirkjunar hafa tekið upp algjörlega nýjan og jákvæðari stíl í samskiptum við bæði náttúruvísindamenn og umhverfisverndarsinna. Þeir lýsa yfir vilja til samstarfs og vandvirkni í vinnubrögðum, þeir greiða kostnað við landvörslu og þeir fá sérfræðinga á Náttúrufræðistofnun til rannsókna vegna umhverfismats. Einkum það síðastnefnda orkar óneitanlega tvímælis en á heildina litið hafa viðhorf og aðferðir batnað. Hins vegar sjást jábræður þeirra á Austurlandi ekki fyrir í ofstækinu og hneyksluðu flesta með innrás sinni í samtök náttúruverndarsinna á Austurlandi. Þau vopn snerust svo gjörsamlega í höndum þeirra að það verður lengi í minnum haft.

Framhaldssagan í Mývatnssveit

Þá er framundan úrskurður um kísilgúrvinnsluna úr Mývatni sem er með ótrúlegri framhaldssögum síðari ára. Allt Mývatnssvæðið er hrein paradís, þótt margir mundu líklega vilja undanskilja mýið þeirri paradísarhugsun. Þetta svæði á ekki sinn líka í víðri veröld og sorglegt ef skammsýni og gróðasjónarmið verða ofan á í deilunni um framtíð þess. Sú hugsun var mér ofarlega í sinni í gönguferðum sunnan vatns í sumar á slóðum sem ég hafði ekki áður farið.

“Fórnfúsa gæðakonan” að hverfa?

Í kvennabaráttunni kraumar hvarvetna undir niðri og kæmi ekki á óvart þótt þar yrðu nokkur tíðindi á næstu mánuðum. Konur gerast nú æ ósvífnari í launakröfum svo að gjörvallt karlveldið stendur á öndinni. Þær leyfa sér m.a.s. að spilla ímyndinni um hina fórnfúsu gæðakonu sem annast börn og sjúklinga og gamalmenni fyrir nánast ekki neitt og hafa skapað ófremdarástand í umönnunargeiranum sem svo er kallaður. En bíðum við: Hafa þær skapað þetta ástand? Hverjir hafa ákveðið launin fyrir þessi störf?

Það verður fróðlegt að fylgjast með tilraunum stjórnenda til að manna hin erfiðu forsmáðu láglaunastörf á öldrunarstofnunum, leikskólum og sambýlum fatlaðra næstu vikurnar. Skyldi þeim detta í hug að hækka launin?

Dómsmálaráðskonan brást

Ein af meginkröfum kvenna síðustu áratugi hefur snúist um fjölgun kvenna í stjórnunarstörfum. Hugsunin hefur að sjálfsögðu verið sú að aukin völd kvenna yrðu til þess að rétta hlut þeirra almennt, konur skildu konur, konur treystu konum o.s.frv. Og konur hafa verið að fá aukin völd. Þeim hefur fjölgað víða þar sem ráðum er ráðið, m.a. í ríkisstjórninni þar sem nú sitja konur í 4 af 12 ráðherrastólum (því auðvitað þurfti að fjölga ráðherrastólunum til að hafa rúm fyrir konurnar í samræmi við kröfur nútímans). Það er mikil breyting frá því sem áður var.

En hefur sú breyting reynst til hins betra? Sú spurning verður áleitin þegar kona í embætti dómsmálaráðherra skipar í stöðu hæstaréttardómara karl úr hópi ráðuneytisstjóra sem aldrei hefur gegnt dómstörfum og gengur um leið framhjá 3 einkar hæfum konum sem allar hafa mikla reynslu af dómstörfum. Með því hefur Sólveig Pétursdóttir brugðist trausti hinna fjölmörgu sem fögnuðu þegar hún fékk húsfreyjuvaldið í dómsmálaráðuneytinu.

Kafað í Kísilgúrsjóðinn

Fyrsti þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra, fyrrverandi samgönguráðherra og núverandi forseti Alþingis, opnaði glaður og hreykinn nýtt safn á Ystafelli í Köldukinn á dögunum. Þar er um að ræða mikið safn gamalla bíla og vinnuvéla sem safnað hefur verið á undanförnum 5 áratugum eða svo og sannast sagna ekki verið til mikillar prýði í túninu á Ystafelli. Nú hefur verið byggður þarna stærðar sýningarskáli yfir gripina sem minna á sitthvað í samgöngusögu Íslendinga og munu væntanlega laða að sér fjölda áhugasamra gesta. Í frétt Morgunblaðsins af opnun safnsins segir m.a.: “Halldór, sem manna mest hefur stuðlað að því að gera þetta glæsilega safn að veruleika, þakkaði sérstaklega stuðning Alþingis, Kísilgúrsjóðs, bílaumboða og fjölda sjálfboðaliða.”

Opnun safnsins er hið besta mál. Það snart mig hins vegar illa að sjá að hinn þaulreyndi þingmaður, sem treyst hefur verið til margvíslegra trúnaðarstarfa á stjórnmálaferlinum skyldi m.a. hafa kafað í Kísilgúrsjóðinn svonefnda til að fjármagna byggingu yfir gamla bíla á Ystafelli í Köldukinn. Og skammast sín ekki fyrir að viðurkenna það, heldur þvert á móti hreykir sér af því. Var þó sjóðurinn sá hreint ekki stofnaður til að byggja yfir bílasafn í Köldukinn, heldur til að stuðla að aukinni fjölbreytni atvinnulífs í Mývatnssveit og vinna þannig gegn neikvæðum áhrifum af lokun kísilgúrverksmiðjunnar á samfélag sveitarinnar. Sú lokun hefur legið fyrir allt frá upphafsárum vinnslunnar.

Þetta ráðslag Halldórs og félaga sýnir auðvitað ljóslega hug þeirra til þróunar atvinnulífs og samfélags í Mývatnssveit. Á þeim bæ hefur aldrei annað staðið til en að keyra kísilgúrvinnsluna áfram á fullri ferð og hundsa þann vilja Alþingis og stjórnvalda sem liggur að baki sjóðnum og hlutverki hans. Kjósendur Halldórs í Mývatnssveit vilja fá að halda áfram að krukka í botn Mývatns og kjósendur Halldórs á Húsavík vilja að höfnin þar hafi áfram tekjur af því að flytja gúrinn út. Náttúruverndargildi Mývatns- og Laxársvæðisins er létt á metum þegar Mammon krefst sinna fórna.

Nýfallinn úrskurður Skipulagsstjóra ríkisins um áframhaldandi kísilgúrvinnslu vekur bæði hryggð og furðu og verður vafalaust kærður til umhverfisráðherra. Því miður benda gjörðir þess ráðherra ekki til þess að hann hafi hagsmuni umhverfisins og náttúrunnar alltaf í fyrirrúmi.

Veisla í Víðidalnum

Landsmót hestamanna 4. – 9. júlí sl. verður án efa ógleymanlegt þátttakendum sem áhorfendum. Hestakosturinn og reiðmennskan voru hreint ótrúleg veisla fyrir augað. Dag eftir dag fengum við að sjá hvert stólpahrossið af öðru og ótrúlega mörg undan Orra frá Þúfu sem skilaði vinningshöfunum í A- og B-flokki gæðinga, fyrstuverðlauna stóðhesti, hæst dæmda stóðhesti í 4 vetra flokki og öllum hæst dæmdu hryssunum í flokki 4, 5 og 6 vetra, þeirri 5 vetra reyndar í gegnum son sinn Þorra. Fjölmörg önnur afkvæmi Orra náðu góðum árangri í ýmsum greinum. Það var því með réttu hápunktur mótsins á lokadaginn þegar Orri sjálfur sýndi gamalkunnar hreyfingar við tvítaum í fylgd kjólklæddra hestamanna.

Veðrið útheimti heilmikinn skjólklæðnað til að byrja með og reglubundin kaffihlé, en fór sífellt batnandi svo að helgardagana sat fólkið léttklætt í áhorfendabrekkum og fór sólbrunnið heim. Undirrituð var ein þeirra sem fylgdust nánast óslitið með alla dagana, horfði, spáði, spekúleraði og skráði niðurstöður. Þannig voru úrslitakeppendurnir orðnir vel kunnir og einkar gaman að sjá hvernig þeir stóðust lokaprófið. Fjölbreytnin var mikil og erfitt að velja á milli valla. Flestir kusu að horfa á gæðingakeppni og sýningar kynbótahrossanna og því tiltölulega fámennt í brekkunni við Hvammsvöll þar sem stærstur hluti keppni barna og ungmenna fór fram. Þeirra hlutur var þó afar góður að allra mati og ótrúlega gaman að sjá úrslitakeppnina í þessum flokkum. Það þarf því ekki að efast um úrval knapa í framtíðinni.

Sýningar ræktunarbúa voru misjafnar en yfirleitt mjög skemmtilegar. Sum búin buðu upp á mjög vandaðar sýningar og gagnlegar fyrir hugsanlega viðskiptavini, önnur virtust aðallega stíla á hraða og læti. Tónlistin var oft óþægilega hávær og lagaval stundum algjörlega út úr kú. Um þverbak keyrði þegar Vatnsleysubúið sýndi hrossin sín á óðaspretti við ærandi hávaða. Í ofanálag voru sýnendur hjálmlausir í þessum látum, sem var nánast einsdæmi þessa daga sem betur fer.

Aðstaðan í Víðidal er að flestu leyti afar góð enda mikið búið að vinna á svæðinu undanfarna mánuði. Keppendur og sýnendur hrossa voru sérlega ánægðir með aðbúnað hrossanna þar sem Fáksmenn opnuðu undantekningarlítið hús sín upp á gátt og buðu ókeypis afnot af þeim fyrir hesta og reiðtygi svo og aðstöðu til snyrtingar og fataskipta. Höfðu margir orð á því að aldrei hefðu þeir haft betri aðstöðu og atlæti fyrir hross á landsmóti. Hins vegar söknuðu margir tjaldbúðalífsins eins og við mátti búast. Ekki kann ég skýringar á því hvers vegna ekki var sköpuð aðstaða fyrir tjaldbúðir í grennd við mótssvæðið.

Veislan í Víðidalnum var þó ekki hnökralaus. Ýmislegt fór úrskeiðis í framkvæmd og má velta fyrir sér hvort útboðsstefnan í stóru og smáu réði ekki nokkru þar um. Til dæmis réðu veitingasalar ekki við hlutverk sitt á álagstímum, höfðu greinilega sparað nokkuð í mannahaldi og aðföngum. Alvarlegasti ljóðurinn á framkvæmd mótsins var gallað tölvukerfi sem tafði ítrekað keppni, einkum hjá yngri flokkunum. Verra var þó að kerfinu brást tvívegis bogalistin við útreikning í úrslitakeppni, annars vegar ungmenna og hins vegar í töltkeppninni sem alltaf er stórt númer á landsmóti. Mistökin voru leiðrétt daginn eftir og skipt um sæti tveggja efstu í báðum greinum auk þess sem þeir fengu flugferð í sárabætur. Þetta klúður setti ljótan blett á framkvæmd mótsins og er auðvitað algjört hneyksli.

Það er staðreynd að enginn viðburður dregur að sér jafn marga erlenda gesti eins og landsmót hestamanna. Því miður tökum við ekki nógu vel á móti þeim og má raunar undrum sæta hversu iðnir þeir eru að fylgjast með sýningum og keppni þrátt fyrir ýmsa þröskulda í vegi þeirra. Ekkert var gert til að auðvelda þeim að rata á svæðið og gildir það auðvitað um fleiri sem ekki hafa skýra hugmynd um tilvist Víðidalsins. Ekkert upplýsingaskilti var í miðborginni, engar leiðamerkingar fyrr en nákvæmlega þegar svæðið blasti við. Litlar upplýsingar var að fá á svæðinu sjálfu nema að spyrja næsta mann og undir hælinn lagt hvort túlkar á ensku og þýsku voru við kynningu fyrstu dagana. Stundum komust þeir ekki að fyrir ótrúlegum vaðli í kynningum á íslensku, einkum þegar afkvæmasýningar og sýningar ræktunarbúa fóru fram. Þetta sinnuleysi gagnvart okkar erlendu gestum er glópska. Þarna ætti Ferðamálaráð að koma að verki.

En þrátt fyrir hnökrana situr fyrst og fremst eftir í huganum minning um glæsileika og hæfileika hinna fjölmörgu hrossa og knapa sem gerðu þessa veislu í Víðidalnum ógleymanlega.

Hefði hjálmur bjargað?

Nýkomin heim úr þriggja daga stórkostlega vel heppnaðri hestaferð hlusta ég á fréttir helgarinnar. Kristnihátíðin á Þingvöllum tekur drjúgan tíma, en einnig fréttir af miður hugnanlegri samkomu í Húsafelli og hræðilegar fréttir af Hróarskelduhátíð þar sem 8 manns tróðust undir á tónleikum. Og innan um allt þetta er sagt frá tveimur slysum í tengslum við hestamennsku. Kona féll af baki á Blönduósi og önnur á Selfossi. Báðar liggja nú þungt haldnar á sjúkrahúsi í Reykjavík vegna höfuðmeiðsla. Efalaust var það samhengið við nýafstaðna ferð mína sem olli því að einmitt þessar fréttir vöktu hvað mesta athygli mína.

Við vorum 10 manns með 22 hesta sem riðum saman um Holtin og Landssveit þessa þrjá daga í einmuna veðurblíðu svo að blessuðum hrossunum þótti víst nóg um og svitnuðu mikinn. Tvær nætur gistum við á Leirubakka þar sem aðstæður eru kjörnar fyrir hestamenn, hægt að slaka og mýkjast í heitum pottum og hafa alla sína hentisemi með mat, grilla í upphlöðnum tóttum eða kaupa mat hjá staðarhöldurum.

Þegar við lögðum upp frá Leirubakka heim á leið kallaði til mín maður að ég hefði gleymt að setja á mig hjálminn. Sem betur fer vorum við ekki komin langt svo að það var lítið mál að snúa við og sækja hjálminn sem hafði orðið eftir á stéttinni við húsið þegar ég tók ákvörðun um að vera aðeins á bol en ekki í peysunni minni vegna hitans. Það er þó aðeins skýring en engin afsökun og mest undrandi var ég á því að hafa ekki tekið eftir þessu sjálf eins og mér finnst sjálfsagt að vera alltaf með hjálm á hestbaki.

Hjálmurinn er jafn sjálfsagt öryggistæki og bílbelti. Þegar ég var á þingi flutti ég tvívegis frumvarp um skyldunotkun hjálma á hestbaki og fékk góðan stuðning bæði innan þings og utan þótt ekki yrði af samþykkt málsins því miður. Og vissulega heyrðust neikvæðar athugasemdir eins og oft vill verða þegar menn telja sig verða sviptir frelsi til þess að ráða eigin gerðum. Þó er hægt að nefna mörg dæmi um óbætanleg tjón og jafnvel dauðsföll vegna þess að þetta mikilvæga öryggistæki var ekki notað.

Mér varð óhjákvæmilega hugsað til þess hvort konurnar tvær sem nú liggja milli heims og helju voru með hjálm á höfði þegar þær féllu af hestbaki. Um það gat ekki í fréttunum en alvarleiki slysanna bendir óneitanlega til þess að fyllsta öryggis hafi ekki verið gætt. Ef til vill væru þær ekki jafn illa meiddar ef frumvarpið mitt hefði orðið að lögum.

Ríkisútvarpið og skjálftarnir

Ríkisútvarpið er eign og þjónn þjóðarinnar. Eðlilega gera því landsmenn ríkar kröfur til stofnunarinnar og eru ólatir við að gagnrýna hana þegar þeim býður svo við að horfa. Svo virðist reyndar sem menn séu nokkurn veginn einhuga í afstöðu til Rásar 1, eða “gömlu gufunnar” eins og hún er gjarna kölluð, og telji hana gegna með prýði því hlutverki að veita upplýsingar og hlúa að menningu þjóðarinnar. Rás 2 nýtur ekki jafn óskoraðrar hylli þótt hún njóti ekki síðri hlustunar samkvæmt mælingum.

Hins vegar er það Sjónvarpið sem liggur undir mestri gagnrýni og því miður alloft með réttu, nú síðast í tengslum við jarðskjálftana á Suðurlandi. Þar sem ég sit í útvarpsráði legg ég að sjálfsögðu eyrun við slíkri gagnrýni og hef hlustað á margar heitar og skömmóttar ræður á undanförnum dögum. Ekki er nú öll gagnrýnin byggð á réttum forsendum en þó að flestu leyti skiljanleg miðað við tilefnið.

Haldinn var aukafundur í útvarpsráði í gær til að fara yfir málið. Fundinn sátu auk útvarpsráðsmanna útvarpsstjóri, framkvæmdastjórar útvarps og sjónvarps, fráttastjórar beggja fréttastofanna og deildarstjóri tæknideildar. Þau lögðu fram skýrslur og gögn og skýrðu þau og fór ekki á milli mála að tekið hefur verið á málinu af fullri hreinskilni og vilja til að nýta reynsluna til framtíðar. Sú reynsla kom reyndar þegar til góða þegar síðari stóri jarðskjálftinn varð 21. júní.

Í þetta sinn, eins og reyndar oft áður, var það “fótboltadekrið” sem olli mestri reiði þeirra sem leituðu sér frétta í sjónvarpinu eftir að jarðskjálftinn reið yfir 17. júní sl. Það var að sjálfsögðu ósanngjörn krafa að sjónvarpið væri komið með myndefni í tengslum við jarðskjálftann örfáum mínútum eftir að hann átti sér stað. En það varð mörgum beinlínis áfall að sjá ekki annað en útsendingu frá Evrópukeppninni klukkutímum saman eftir að jarðskjálftinn varð. Að vísu var útsending rofin og skotið inn fréttum eftir því sem þær bárust, en það dugði ekki þeim sem ekki vildu láta þröngva sér til að horfa á fótbolta í trausti þess að fréttir kæmu kannski. Aðalfréttatíminn var ekki fyrr en 20.45 og eru allir sammála um að það voru mikil mistök að færa hann ekki fram til venjulegs tíma af þessu tilefni. Auk þess hefði átt að láta texta stöðugt renna yfir skjáinn með þeim upplýsingum sem tiltækar voru þótt leikurinn fengi að hafa sinn gang að mestu. Slík ráðstöfun hefði róað fólk og sannfært um að fréttaöflun væri á fullu.

En það eru fleiri ríkisstofnanir sem þurfa að draga lærdóm af nýliðnum atburðum. Hvorki Almannavarnir né Veðurstofan geta verið stikkfrí í þeirri umræðu. Ríkisútvarpið á erfitt með að gegna upplýsinga- og öryggishlutverki sínu án skipulegrar og markvissrar samvinnu við þessar tvær stofnanir fyrst og fremst og augljóst að í því efni þarf að gera miklu betur. Útvarpsstjóri hafði fyrr á þessu ári ítrekað óskað eftir fundi með fulltrúum Almannavarna til þess að ræða samskipti og viðbrögð við stórfelldri vá. Þær viðræður og skipuleg áætlun verða að eiga sér stað hið fyrsta. Staðreyndin er sú að það eru oftar en ekki fréttastofurnar sem veita þessum öryggisstofnunum samfélagsins fyrstu upplýsingar um náttúruhamfarir en ekki öfugt!

Hætta ber kísilgúrvinnslu úr Mývatni

Vegna mats á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni sendi ég eftirfarandi athugasemdir til Skipulagsstofnunar:

Mývatn er sérstæðasta og lífríkasta vatn landsins. Einstætt vistkerfi þess skapar því stöðu á heimsmælikvarða. Vatnasvæði Mývatns og Laxár er talið eitt af 40 mikilvægustu votlendissvæðum jarðar og er á sérstakri skrá um votlendi sem varðveita beri á forsendum Ramsarsamþykktar. Um Mývatns- og Laxársvæðið gilda sérstök lög umfram almenn náttúruverndarlög. Með tilliti til þessara staðreynda er ekki að undra þótt kísilgúrvinnsla úr Mývatni hafi sætt mikilli gagnrýni allt frá upphafi þeirrar iðju fyrir 34 árum.

Margir vísindamenn hafa rannsakað hina ýmsu þætti vistkerfis vatnsins. Hvatamenn áframhaldandi vinnslu styðja mál sitt m.a. þeim rökum að ekki hafi með óyggjandi hætti verið sýnt fram á skaðleg áhrif vinnslunnar á lífríkið. Á hinn bóginn hefur því síður tekist að sanna skaðleysi kísilgúrnámsins og eru sérfræðingar einhuga um að vara við því stórfenglega inngripi í lífríkið sem kísilgúrnámið er.

Norrænu vatnalíffræðingarnir þrír, sem að beiðni iðnaðarráðherra fóru yfir stöðu rannsókna og skiluðu skýrslu um málið fyrr á þessu ári, eru augljóslega á sama máli og íslensk starfssystkini þeirra. Þeir leggja áherslu á mikilvægi varúðarreglunnar við mat á umhverfisáhrifum í svo viðkvæmu vistkerfi sem þarna um ræðir og telja það grundvallaratriði að iðnrekstur eigi ekki heima á slíku svæði. Margt fleira í skýrslunni styður það sjónarmið að hætta beri vinnslu kísilgúrs úr vatninu.Við lestur hennar vekur furðu hvernig hvatamenn áframhaldandi vinnslu leyfa sér að túlka niðurstöður skýrsluhöfunda sem stuðning við málflutning sinn.

Frá upphafi kísilgúrvinnslunnar og reksturs verksmiðjunnar hefur það legið fyrir að hér væri um tímabundinn atvinnurekstur að ræða. Tvívegis hefur vinnslu- og rekstrarleyfi verið framlengt vegna mikils þrýstings þeirra sem þarna hafa atvinnu og hagnað af rekstrinum. Síðast í apríl 1993 var gefið út slíkt leyfi sem miðaði að því að tryggja rekstrargrundvöll Kísiliðjunnar allt til ársins 2010. Um leið var gert samkomulag milli umhverfisráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og Náttúruverndarráðs, þar sem fram kemur sá skilningur allra málsaðila að með útgáfu leyfisins væri verið að gefa svigrúm til að hætta kísilgúrtöku úr Mývatni.

Þá er rétt að minna á að á sama tíma var stofnaður sérstakur sjóður til að stuðla að aukinni fjölbreytni atvinnulífs í Mývatnssveit og vinna þannig gegn neikvæðum áhrifum af lokun verksmiðjunnar á samfélag sveitarinnar. Hvorki ríkisvaldið né sveitarstjórn hafa hins vegar gert nokkuð í því að búa samfélagið undir óhjákvæmilegar breytingar af völdum lokunar Kísiliðjunnar þrátt fyrir umræður og ítrekaðar áminningar. Ríkisvaldið hefur með því sýnt verulega ámælisvert ábyrgðarleysi. Framtaksleysi sveitarstjórnar sýnir væntanlega að þar vilja menn ekki gera ráð fyrir öðrum möguleikum en að halda vinnslunni áfram hvað sem það kostar.

Mývatns- og Laxársvæðið er einstakt í veröldinni fyrir náttúrufegurð og lífríki. Vatnið og umhverfi þess er rómað fyrir fegurð. Landslagið er óvenjulegt og jarðsaga þess sérstæð. Fuglalífið er fjölbreytt og sérstakt. Með hliðsjón af náttúruverndargildi Mývatns- og Laxársvæðisins og með tilliti til varúðarreglunnar telur undirrituð einboðið að hafna beri með öllu áframhaldandi vinnslu kísilgúrs úr Mývatni.

Seltjarnarnesi 14. júní 2000

Kristín Halldórsdóttir