Páll ruskar til

Engu er líkara en að Páll félagsmálaráðherra hafi allt í einu rankað við sér og fundist ástæða til að minna á tilveru sína. Það virðist hins vegar gert á þeim forsendum að betra sé illt að gera en ekki neitt. Gjörðir hans vekja vægast sagt furðu. Maður gæti haldið að hann hafi bara mætt í ráðuneytinu einn morguninn og valið tvo málaflokka af handahófi til að gera svolítið rusk.

Fyrst eru það málefni fatlaðra. Uppbygging þjónustu og húsnæðis fyrir fatlaða hefur gengið allvel á undanförnum árum alls staðar nema í tveimur kjördæmum, þ.e. á Reykjanesi og í Reykjavík þar sem reyndar þörfin hefur alla tíð verið mest. Ástandið er þar með ólíkindum erfitt. Þeir skipta hundruðum sem bíða eftir úrlausn sinna mála og væri þó kannski nær að segja að þeir skipti þúsundum vegna þess að vandinn snertir ekki aðeins hina fötluðu heldur einnig aðstandendur þeirra.

Og hvernig ætlar nú ráðherrann að leysa vandann? Jú, hann fær þá flugu í höfuðið að senda fólk norður í Hrísey af því að þar sé ónotað húsnæði sem fáist ódýrara en á suðvesturhorninu. Svo má ekki gleyma því að KEA var að flytja einhverja starfsemi úr eynni nýlega og það þarf að útvega eyjaskeggjum vinnu! Þetta er satt að segja of fáránlegt til að verða að veruleika. Hér er um að ræða málefni fatlaðra en ekki byggðavandann. Hér er um að ræða fólk en ekki fénað. Þetta fólk á rétt á úrlausn mála sinna í heimabyggð.

Kannski hefur ráðherrann séð sitt óvænna og ákveðið að snúa sér að öðru sviði. Og svo mundi hann e.t.v. eftir gagnrýninni sem hann fékk sem ráðherra húsnæðismála þegar sett var á laggirnar ný stofnun í þeim málaflokki að hann skyldi ekki nota tækifærið og koma henni fyrir úti á landi. Og svo hefur hann kannski snúið sér í nokkra hringi í ráðuneytinu sínu með lokuð augu og bent í austur og bent í vestur og séð fyrir sér skrifstofu jafnréttismála. Aha, best að flytja hana út á land!

Þessi atburðarás er ekki ólíklegri en hver önnur. Altént vissi ekki nokkur manneskja að þessi tilflutningur stæði fyrir dyrum. Ekki starfsfólk skrifstofunnar. Fréttin kom þeim algjörlega í opna skjöldu. Er hægt að fara svona með fólk? Og félagsmálanefnd Alþingis sem vann þó vikum saman á síðasta vetri að breytingum á jafnréttislöggjöfinni hafði ekki heyrt af þessum áformum ráðherrans. Hefði þó verið eðlilegt að reifa málið í því samhengi ef hugmyndin var þá fædd og ef nokkur vilji er til að standa sómasamlega að verki. Sú hugsun virðist ekki beinlínis uppi á borðinu því boðað er að allt verði um garð gengið fyrir 1. september!

Hvað er ráðherra eiginlega að hugsa? Skyldi hann hafa farið í reiðtúr hjálmlaus – og dottið af baki?