Eftirminnilegt í Boston

Um síðustu mánaðamót sóttum við hjónin ráðstefnu alþjóðasamtaka ritstjóra, International Press Institute (skammstafað IPI), í Boston í Bandaríkjunum. Samtökin halda slíka ráðstefnu árlega í hinum ýmsu aðildarríkjum, þau taka yfirleitt mjög brýn málefni til umræðu hverju sinni og fá til þess áhugaverða fyrirlesara. Meðal ræðumanna að þessu sinni voru Al Gore, Edward Kennedy, Henry Kissinger, Emma Bonino, Christopher Patten og Walter Schimmer svo aðeins hinir þekktustu séu nefndir.

Sjálfri þótti mér sérlega gaman að hlusta á Sheilu Copps, kanadískan ráðherra, sem tók þátt í pallborði um ameríska menningu og flutti þar aðalræðuna. Fyrir um áratug las ég nefnilega bráðskemmtilega bók eftir þá ágætu konu. “Nobody’s Baby” var titill bókarinnar og þar lýsir hún innkomu sinni í kanadísk stjórnmál upp úr 1980 og reynslu sinni af þátttöku í þeim karlaheimi sem kanadísk stjórnmál eru enn frekar en t.d. hér á landi. Fannst mér það raunar enn fróðlegra þar sem ég hafði skömmu áður flutt erindi um íslenska kvennapólitík á stórri ráðstefnu í Ottawa og um leið átt þess kost að heimsækja þinghúsið, hlýða á umræður og fræðast um kanadísk stjórnmál. Konur voru þar og eru enn í miklum minnihluta eins og víðast annars staðar í heiminum, ekki síst þar sem kosningafyrirkomulagið byggist á einmenningskjördæmum.

Sheila lýsir í bók sinni á lifandi hátt kostum og göllum stjórnmálastarfanna og ekki síst þeim þröskuldum sem verða á vegi kvenna á því sviði. Titill bókarinnar vísar einmitt til þess. Konur þurfa oft að sæta því að vera ávarpaðar á lítillækkandi hátt og “Baby” var stundum viðkvæðið. Sheila kærði sig ekki um meðhöndlun af því tagi og lét samstarfsmenn sína heyra það: “I’m Nobody’s Baby”. Henni hefur greinilega tekist að koma mönnum í skilning um að hún stæði öðrum stjórnmálamönnum síst að baki og hefur nú gegnt ýmsum ráðherrastörfum síðan 1993. Hún flutti glimrandi ræðu á fyrrnefndri ráðstefnu og svaraði af öryggi og þekkingu spurningum sem að henni beindust.

Ekki var síður gaman að fylgjast með málstofum sem haldnar voru í Harwardháskóla einn daginn. Ein var t.d. um sambúð kynþátta og önnur um kynjafræði, sem ég hafði auðvitað sérlega gaman af. Málstofunni stjórnaði prófessor í Harward, Carol Gilligan, höfundur bókarinnar “In a Different Voice”, sem vakti ýmsar konur til dáða á sínum tíma. Þarna töluðu nokkrar kjarnakonur um stöðu kvenna í Bandaríkjunum og hvernig konur mundu smám saman breyta samfélaginu til hins betra. Mér fannst þessar ágætu konur tala svona nokkurn veginn eins og Guðrún, Sigríður og Kristín hér á Íslandi á níunda áratugnum!!

Þessi merku samtök, IPI, hafa nú starfað í 50 ár og var þess minnst á ýmsan hátt á ráðstefnunni í Boston. Á hátíðasamkomu í lokin voru 50 fréttamenn frá jafnmörgum löndum heiðraðir sérstaklega fyrir framlag sitt til upplýstrar umræðu. Allir höfðu á einhvern hátt lagt sig í líma til að draga sannleikann fram í dagsljósið og flestir jafnvel hætt lífi sínu og limum í þágu starfsins. 27 hinna tilnefndu sem “Press Freedom Heroes”gátu verið viðstaddir. Nokkrir þeirra eru landflótta frá Afríkuríkjum, en þar er nú víða afar slæmt ástand. Nokkrir hinna eru þegar látnir og sumir þeirra drepnir við störf sín. Einn þeirra er enn í fangelsi í Sýrlandi nær dauða en lífi eftir ómannúðlega meðferð og pyntingar. IPI hefur árum saman reynt að fá sýrlensk yfirvöld til að sleppa honum úr haldi, en þau hafna því nema að hann heiti því að láta af pólitískum skrifum. Nizar Nayyouf, en svo heitir fanginn, neitar jafn staðfastlega að fyrirgera rétti sínum til að tjá skoðanir sínar og mun hugsanlega gjalda fyrir það með lífi sínu.

Sú fræga Katharine Graham, eigandi og stjórnandi The Washington Post til fjölda ára, en einnig Newsweek, International Herald Tribune og nokkurra minni dagblaða og sjónvarpsstöðva í Bandaríkjunum, var fulltrúi Bandaríkjanna í 50 manna hópnum og flutti ræðu fyrir þeirra hönd. Hún vakti heimsathygli á þeim tíma þegar The Washington Post upplýsti Watergatemálið. Þá stóð hún sem klettur að baki sínu starfsliði og lét ekki hótanir stjórnvalda aftra sér frá því að tryggja framgang sannleikans. Hún kvaðst þó í ræðu sinni ekki eiga heima í hópi þeirra sem heiðraðir voru fyrir störf sín þennan dag, 3. maí sl. Staða þeirra flestra væri slík að þeir væru í stöðugri lífshættu. Þeir væru hinar raunverulegu hetjur. Og sú er raunin með marga fjölmiðlamenn, starf þeirra er meðal hinna hættulegustu í heiminum. Þetta var sannarlega eftirminnileg athöfn.