Ál eða lax

Nýlega birtist merkileg frétt í fjölmiðlunum sem glöddu marga, skyldi maður ætla. Þar sagði frá áformum um umfangsmikið eldi laxa í sjókvíum í Berufirði. Um er að ræða sameiginlegt verkefni íslenskra og norskra aðila og heildarfjárfesting áætluð um einn og hálfur milljarður króna. Framleiðslan yrði um 8 – 10 þúsund tonn af laxi á ári, sem er tvö- til þreföld núverandi ársframleiðsla á eldislaxi hér á landi. Við laxeldið sjálft munu starfa allt að 60 manns þegar reksturinn verður kominn í fullan gang.

Þetta er auðvitað stórfrétt og merkilegt hversu hljótt hefur verið um allan undirbúning sem hefur staðið í hálft annað ár. Það er sem sagt ekki aldeilis svo að Austfirðingar sitji allir með hendur í skauti og bíði eftir stórvirkjunum og stóriðju, þótt svo hefði mátt ætla af umfjöllun um atvinnumál í fjórðungnum. Eftir margs konar erfiðleika við uppbyggingu fiskeldis hér á landi virðist nú bjartara framundan í greininni og er óskandi að Austfirðingum gangi allt í haginn í þeim efnum.

Fréttin um laxeldið í Berufirði virtist þó ekki vekja mikla athygli og var ekki frekar um það fjallað. Enda var fréttin sú ekki fyrr komin á þrykk en þau Valgerður, Friðrik, Geir og einhver toppanna hjá Norsk Hydro blésu til fjölmiðlafundar í stíl Jóns Sigurðssonar og Jóhannesar Nordal á sinni tíð og kynntu nýjasta undirskriftaplaggið sitt. Óförum öllum í sambandi við Fljótsdalsvikjun og Eyjabakkalón og 120 þúsund tonna álver hefur nú verið sópað út af borðinu og engin smásmugu áform komin í staðinn. Nú er það Kárahnúkavirkjun og fleiri tengdar veitur og verksmiðja til framleiðslu 240 þúsund tonna áls. Stefnt er að allt að 480 þúsund tonna verksmiðju, en engar yfirlýsingar um hvaðan orka til slíks risaálvers eigi að koma.

Gleymd er rammaáætlun um nýtingu vatnsfalla og jarðvarma, sem augljóslega er óttalegt smámál í augum þessara ráðamanna. Ekki þykir ómaksins vert að tala um Ríósamþykktir og Kýótóbókanir. Umhverfismat? Já, sei, sei, allt fer auðvitað í umhverfismat lögum samkvæmt, en augljóslega er enginn efi í hugum öfgafullra orkubeislara (sbr. öfgafullra náttúruverndarsinna) hvernig afgreiða má slíka hluti. Þeir eru vissir um sig, enda Alþingi búið að úthluta tugmilljóna fé til vegalagna um virkjanasvæðin.

Og fjölmiðlar taka þessum fréttum öllum með furðu miklu æðruleysi. Álið er greinilega laxinum æðra.