Dæmalaust er lán okkar Íslendinga og íslenskrar náttúru að hafa slíkan umhverfisráðherra sem hún Siv Friðleifsdóttir er. Víðsýn og vel að sér um alla þætti umhverfis- og náttúruverndarmála, öfgalaus, skilningsrík, rökföst og umfram allt málefnaleg. Þannig er henni best lýst. Um það eru ótal dæmi sem of langt yrði upp að telja.
Nýjasta sönnun þessara eðliskosta umhverfisráðherrans er snilldarleg framganga hans (herrans) í kísilgúrmálinu. Það virtist í rauninni dálítið flókið mál. Ein af undirstofnunum ráðuneytisins, Skipulagsstofnun ríkisins, lagði blessun sína yfir kísilgúrnám úr Syðriflóa Mývatns, að vísu með allströngum skilyrðum. En aðrar undirstofnanir ráðuneytisins, svo sem Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands, lögboðinn ráðgjafi ráðherrans, sem er Náttúruverndarráð, Líffræðideild Háskóla Íslands og ýmis óháð náttúruverndarsamtök komust að annarri niðurstöðu og lögðust ákveðið gegn frekara kísilgúrnámi úr Mývatni. Þrátt fyrir það vafðist niðurstaðan lítt fyrir íðilsnjöllum umhverfisráðherra landsins. Eftir alveg áreiðanlega mjög vandlega yfirferð og íhugun staðfesti hann úrskurð Skipulagsstofnunar.
Ráðherrann fékk nokkra gagnrýni fyrir þessa málsmeðferð, en hann fór létt með að hrinda þeirri gagnrýni. Og þvílík snilld. Allt liggur svo ljóst fyrir þegar ráðherrann hefur farið yfir málið til dæmis á fundi með Náttúruverndarráði, sem er skipað nokkrum sanngjörnum manneskjum, en þó aðallega öfgasinnuðum einstaklingum, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Gildir einu þótt þar séu nokkrir af helstu fræðimönnum landsins á sviði náttúruvísinda. Öfgasinnaðir eru þeir að sjálfsögðu úr því að ráðherra segir svo, enda eru þeir eilíflega til vandræða og á öðru máli en sjálfur ráðherrann. Það kom glöggt í ljós á samráðsfundi ráðherrans með þessu liði. Ráðherrann benti þeim höfðinglega á að gagnrýni þeirra væri alröng, sem er yfirleitt megin röksemdarfærsla ráðherrans, og þetta væri allt saman alveg ljóst, sem er hin megin röksemd ráðherra í flestum málum. Það er ekki annað hægt en að beygja höfuðið í aðdáun og auðmýkt gagnvart málefnalegri rökfestu ráðherra umhverfismála.
Og nú íhugar hin sanngjarna, rökfasta og málefnalega Siv Friðleifsdóttir að leggja niður Náttúruverndarráð, enda eins og fyrr segir að meirihluta skipað öfgamönnum. Það álit er dyggilega stutt af hinum öfgalausa og umhverfissinnaða framkvæmdastjóra Kísiliðjunnar, sem upplýsir á málefnalegan og traustvekjandi hátt í samtali við Dag, að Náttúruverndarráð sé “aukinheldur vitlaust ráð og fullt af kverúlöntum”.
Það kynni þó aðeins að flækja málið, að á síðasta Náttúruverndarþingi í lok janúar sl. var ítarlega fjallað um tilverurétt og hlutverk Náttúruverndarráðs einmitt vegna hugmynda ráðherra um að leggja það niður. Náttúruverndarþing komst að þeirri niðurstöðu að ráðið “…hafi gegnt veigamiklu hlutverki í umhverfis- og náttúruverndarmálum og þrátt fyrir ýmsar breytingar í stjórnskipan þessa málaflokks eigi ráðið að starfa áfram”. En það er náttúrlega minnsta mál fyrir hinn lýðræðissinnaða ráðherra umhverfismála að ganga gegn áliti geysifjölmennrar, lögboðinnar samkomu. Valdið er ráðherrans, og detti einhverjum í hug að gagnrýna hans gjörðir þá er það væntanlega “alveg ljóst” að sá hinn sami hefur “alrangt” fyrir sér og er mjög líklega glórulaus öfgasinni!