Öfgalaus rökfesta ráðherra

Dæmalaust er lán okkar Íslendinga og íslenskrar náttúru að hafa slíkan umhverfisráðherra sem hún Siv Friðleifsdóttir er. Víðsýn og vel að sér um alla þætti umhverfis- og náttúruverndarmála, öfgalaus, skilningsrík, rökföst og umfram allt málefnaleg. Þannig er henni best lýst. Um það eru ótal dæmi sem of langt yrði upp að telja.

Nýjasta sönnun þessara eðliskosta umhverfisráðherrans er snilldarleg framganga hans (herrans) í kísilgúrmálinu. Það virtist í rauninni dálítið flókið mál. Ein af undirstofnunum ráðuneytisins, Skipulagsstofnun ríkisins, lagði blessun sína yfir kísilgúrnám úr Syðriflóa Mývatns, að vísu með allströngum skilyrðum. En aðrar undirstofnanir ráðuneytisins, svo sem Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands, lögboðinn ráðgjafi ráðherrans, sem er Náttúruverndarráð, Líffræðideild Háskóla Íslands og ýmis óháð náttúruverndarsamtök komust að annarri niðurstöðu og lögðust ákveðið gegn frekara kísilgúrnámi úr Mývatni. Þrátt fyrir það vafðist niðurstaðan lítt fyrir íðilsnjöllum umhverfisráðherra landsins. Eftir alveg áreiðanlega mjög vandlega yfirferð og íhugun staðfesti hann úrskurð Skipulagsstofnunar.

Ráðherrann fékk nokkra gagnrýni fyrir þessa málsmeðferð, en hann fór létt með að hrinda þeirri gagnrýni. Og þvílík snilld. Allt liggur svo ljóst fyrir þegar ráðherrann hefur farið yfir málið til dæmis á fundi með Náttúruverndarráði, sem er skipað nokkrum sanngjörnum manneskjum, en þó aðallega öfgasinnuðum einstaklingum, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Gildir einu þótt þar séu nokkrir af helstu fræðimönnum landsins á sviði náttúruvísinda. Öfgasinnaðir eru þeir að sjálfsögðu úr því að ráðherra segir svo, enda eru þeir eilíflega til vandræða og á öðru máli en sjálfur ráðherrann. Það kom glöggt í ljós á samráðsfundi ráðherrans með þessu liði. Ráðherrann benti þeim höfðinglega á að gagnrýni þeirra væri alröng, sem er yfirleitt megin röksemdarfærsla ráðherrans, og þetta væri allt saman alveg ljóst, sem er hin megin röksemd ráðherra í flestum málum. Það er ekki annað hægt en að beygja höfuðið í aðdáun og auðmýkt gagnvart málefnalegri rökfestu ráðherra umhverfismála.

Og nú íhugar hin sanngjarna, rökfasta og málefnalega Siv Friðleifsdóttir að leggja niður Náttúruverndarráð, enda eins og fyrr segir að meirihluta skipað öfgamönnum. Það álit er dyggilega stutt af hinum öfgalausa og umhverfissinnaða framkvæmdastjóra Kísiliðjunnar, sem upplýsir á málefnalegan og traustvekjandi hátt í samtali við Dag, að Náttúruverndarráð sé “aukinheldur vitlaust ráð og fullt af kverúlöntum”.

Það kynni þó aðeins að flækja málið, að á síðasta Náttúruverndarþingi í lok janúar sl. var ítarlega fjallað um tilverurétt og hlutverk Náttúruverndarráðs einmitt vegna hugmynda ráðherra um að leggja það niður. Náttúruverndarþing komst að þeirri niðurstöðu að ráðið “…hafi gegnt veigamiklu hlutverki í umhverfis- og náttúruverndarmálum og þrátt fyrir ýmsar breytingar í stjórnskipan þessa málaflokks eigi ráðið að starfa áfram”. En það er náttúrlega minnsta mál fyrir hinn lýðræðissinnaða ráðherra umhverfismála að ganga gegn áliti geysifjölmennrar, lögboðinnar samkomu. Valdið er ráðherrans, og detti einhverjum í hug að gagnrýna hans gjörðir þá er það væntanlega “alveg ljóst” að sá hinn sami hefur “alrangt” fyrir sér og er mjög líklega glórulaus öfgasinni!

Lærdómur af riðufári

Mikið fár greip skyndilega um sig víða í Evrópu vegna frétta af hinum banvæna Kreutsfeldt Jacobs sjúkdómi sem fólk getur smitast af við neyslu sýkts nautakjöts. Og ekki að undra. Þessi sjúkdómur er einkar óhugnanlegur, fólk veslast upp á löngum tíma og á sér enga lífsvon. Það skelfilega er að hefðu bresk stjórnvöld brugðist við á réttan hátt fyrir nokkrum árum þegar vísindamenn bentu á hættuna og tengslin við nautakjötsneyslu hefði mátt koma í veg fyrir mrgan harmleikinn. En eins og svo oft áður voru skammtíma hagsmunir atvinnu og efnahags teknir fram yfir heilsu og velferð fólksins. Stjórnmálamenn hugsa sjaldnast lengra en til næstu kosninga, hvort sem þeir heita Thatcher eða Davíð.

Viðbrögð Þjóðverja við þessum fréttum voru bann við notkun alls dýramjöls að meðtöldu fiskimjöli, enda þótt engin rök liggi til þess að fiskimjöl komi við þessa sögu. Með harðfylgi tókst að bjarga málum fyrir horn í ESB og getum við þar fyrst og fremst þakkað hinni harðsnúnu Ritt Bjerregard sem þurfti að gæta hagsmuna Dana í þessu máli.

Nú varpa ýmsir hér öndinni léttar eftir þessi málalok. Það skrýtna er að fáir hafa orðið til að ræða hinar jákvæðu hliðar málsins hvað okkur varðar og hvað af því má læra. Og hver skyldi nú boðskapurinn vera? Jú, hann er auðvitað sá að við erum einstaklega lánsöm þjóð. Við búum við þær aðstæður að hér er tiltölulega lítil mengun, hér er vatnið tært og loftið hreint, og við höfum að mestu komist hjá alvarlegum sjúkdómum í eldisdýrum. Það getum við þakkað nokkrum framsýnum vísindamönnum sem höfðu vit fyrir okkur og tryggðu nægilega varfærni við fóðurnotkun og aðra umhirðu. Við getum líka þakkað það einangrun landsins sem fer þó æ minna fyrir. Miklar varúðarráðstafanir gegn innflutningi dýra og smitberandi afurða voru kannski ekki síður settar fyrir margt löngu til þess að vernda framleiðendur, en vernduðu okkur í raun gegn margs konar óáran í dýraeldi. Það er oft gott að vera fámenn þjóð í eylandi.

Við höfum sem sagt verið lánsöm. Og nú gefst gullið færi á að efla heilsusamlega framleiðslu til manneldis og koma henni á framfæri á mörkuðum þar sem sífellt strangari kröfur eru gerðar til heilbrigðis og annarra gæða. Við eigum að sjá og meta þá auðlegð sem býr í tiltölulega mengunarfríu umhverfi og náttúru landsins og kunna að nýta þá auðlegð án þess að skemma hana. Það er lærdómurinn.

Edda og auglýsingar

Edduverðlaunin voru afhent með pomp og pragt 19. nóvember. Athöfnin fór fram í Þjóðleikhúsinu og var send út beint í “Þjóðarsjónvarpinu”, þ.e.a.s. sjónvarpi Ríkisútvarpsins. Gaf nú aldeilis á að líta þegar konur og karlar svifu í salinn í sínu besta pússi og virtist reynt að gera þennan viðburð sem líkastan slíkum hátíðum úti í heimi. Því miður voru aðfarir of oft harla klaufalegar, jafnvel hallærislegar, einkum viðtöl í upphafi við líklega verðlaunahafa.

Enga skoðun ætla ég að hafa á réttmæti verðlaunaveitinga að þessu sinni, en auðvitað eru úrslit tiltölulega fyrirsjáanleg á okkar litla markaði. Hins vegar get ég rétt ímyndað mér að mörgum áhorfenda víðs vegar um landið hafi fundist þeir eitthvað utanveltu þegar kallaðir voru til leiks sjónvarpsmaður ársins annars vegar og Egill hinn silfraði hins vegar, menn sem tiltölulega lítill hluti þjóðarinnar hefur yfirleitt séð í vinnunni sinni. Hvað sem um það má segja mátti hafa gaman af þessari útsendingu og ánægjulegt að RÚV skyldi annast hana, en ekki Stöð 2 í læstri dagskrá eins og í fyrra.

Eitt setti þó afspyrnu ljótan blett á þennan dagskrárlið og það voru innskot auglýsinga. Tvívegis var dagskráin rofin til að koma að auglýsingum sem áhorfendur máttu sitja undir þar til beina útsendingin datt inn aftur og þá í miðju skemmtiatriði. Í annað skipti var klippt af söngatriði, í hitt skipti var eyðilagt leikatriði. Að mínum dómi var hér um að ræða hreint brot á lögum og reglum um flutning auglýsinga í útvarpi og sjónvarpi. Um það má vísa til 4. greinar útvarpslaga þar sem meginreglan er að auglýsingar séu skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni og fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða. Þó er sagt heimilt að rjúfa einstaka dagskrárliði með auglýsingatíma, “…enda leiði það ekki til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi…”.

Ef það er ekki “afbökun” og “röskun” að skera framan af dagskráratriðum eins og þarna átti sér stað þá kann ég ekki að skilgreina þau hugtök. Enn einu sinni hafa því ráðamenn RÚV sýnt undirlægjuhátt sinn gagnvart markaðsöflunum. Rétt er að taka fram að þetta einstaka mál hefur ekki verið til umfjöllunar í útvarpsráði, en kostun af ýmsu tagi hefur oft verið rædd. Þar sýnist sitt hverjum og hef ég reynt að standa í ístaðinu eftir föngum. Þá er þess skemmst að minnast að á síðasta fundi útvarpsráðs var felld tillaga um innskot auglýsinga í kvikmyndasýningar um helgar. Ég mun taka ofangreint mál til umfjöllunar á næsta fundi.

Auglýsingar og kostun í RÚV

Mikið hefur verið rætt um auglýsingar og kostun á fundum útvarpsráðs að undanförnu, enda brjótast nú starfsmenn markaðsdeildar um fast í leit að auknum tekjum. Þær eru ekki auðsóttar í greipar ríkisstjórnarinnar og þess sem mesta ábyrgð ber á rekstri Ríkisútvarpsins, þ.e. Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra. M.a. hefur markaðsdeildin sótt það fast að fá að skjóta auglýsingum inn í kvikmyndasýningar um helgar. Á síðasta fundi útvarpsráðs þriðjudaginn 14. nóvember gerðust hins vegar þau tíðindi að meiri hluti ráðsins hafnaði tillögu formanns um það efni. Við sem skipum minni hluta ráðsins, sem að þessu sinni voru auk mín þær Anna Kristín Gunnarsdóttir og Ása Richards, fengum óvænt liðsinni frá Þórunni Gestsdóttur, sem er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Áhorfendur geta því vonandi varpað öndinni léttar og horft í friði á kvikmyndir í sjónvarpi RÚV.

Þá tók ég einnig til umræðu kostun þáttanna um sjávarútveg sem nú eru sýndir í sjónvarpinu og lagði fram eftirfarandi bókun:

“Þáttaröðin um sjávarúveg á tímamótum undir heitinu “Aldahvörf” í umsjón Páls Benediktssonar hefur þegar vakið sterk viðbrögð í þjóðfélaginu. Sýndir hafa verið fimm þættir af átta og ekki enn tímabært að leggja dóm á efnisval eða efnistök þótt glöggt megi heyra að sitt sýnist hverjum í hópi áheyrenda. Hins vegar hljóta útvarpsráðsmenn að taka eftir og íhuga þessi viðbrögð sem opinbera með skýrum hætti þá miklu annmarka sem eru á því að fá hagsmunaaðila til að leggja fé til þáttagerðar í Ríkisútvarpinu.

Í 3. grein laga um Ríkisútvarpið er fjallað um markmið þess, hlutverk og skyldur. Þar er m.a. kveðið á um að það skuli “…gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð” og jafnframt er kveðið á um að það skuli “…veita almenna fræðslu og gera sjálfstæða dagskrárþætti er snerta Ísland og Íslendinga sérstaklega.”

Undirrituð er þeirrar skoðunar að kostun þátta í útvarpi og sjónvarpi Ríkisútvarpsins vegi að ofangreindum markmiðum og telur að við gerð þáttanna um sjávarútveg hafi gallar kostunar komið ótvírætt í ljós. Með því er ekki að svo stöddu verið að taka undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á efni þáttanna og efnistök heldur skal undirstrikuð sú staðreynd að kostun hagsmunaaðila veldur tortryggni og grunsemdum sem Ríkisútvarpið á ekki að þurfa að sitja undir. Þeim mun alvarlegri verða ágallarnir þegar því er eindregið hafnað af hálfu Ríkisútvarpsins að gefa upp kostnaðartölur og hvernig þær skiptast á milli kostenda. Ríkisútvarpið er sameign allra landsmanna og þeir eiga rétt á vitneskju um þessa þætti. Allir reikningar vegna þáttagerðar af þessu tagi eiga að vera opnir eigendum stofnunarinnar.

Upplýst hefur verið að settir hafi verið þeir sjálfsögðu varnaglar í samninga við einstaka kostendur “Aldahvarfa” að þeir hefðu engin afskipti af gerð þáttanna. Það breytir ekki þeirri staðreynd að kostun fjársterkra hagsmunaaðila býður heim efasemdum og tortryggni af því tagi sem fram hefur komið að undanförnu. Sú staðreynd ætti að sýna stjórnendum Ríkisútvarpsins að þeir eru á rangri leið við fjármögnun dagskrárgerðar. Í stað þess að fara sífellt lengra inn á braut kostunar verður að knýja menntamálaráðherra sem æðsta yfirmann stofnunarinnar til þess að tryggja henni fjármagn til rekstursins svo að hún geti staðið við þau markmið sem henni eru sett með lögum.”

Auk mín skrifuðu fulltrúar Samfylkingarinnar, Anna Kristín Gunnarsdóttir og Ása Rishards, undir þessa bókun.

Umhverfisráðherra iðrast ekki

Í gær fékk ég kærkomið bréf frá konu sem er búsett í Mývatnssveit. Ég þekki hana ekki persónulega, en við deilum sömu skoðunum og tilfinningum vegna þess hernaðar sem rekinn er gegn þeirri einstæðu náttúrugersemi sem Mývatn og umhverfi þess er. Þessi góða kona er sannarlega ekki sú eina sem brugðist hefur við grein minni sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember sl. undir fyrirsögninni “Áfram skal gramsað í Mývatni”. M.a. stöðvaði kona ein mig í Kringlunni sama dag og greinin birtist, og þótt við værum báðar á hraðferð ætluðum við seint að geta slegið botninn í samtal okkar. Hún þekkir einnig vel til í Mývatnssveit og hefur miklar áhyggjur út af þróun mála.

Þegar starfsmenn Kísiliðjunnar slógu upp veislu í tilefni af þeim úrskurði Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra að þeim væri óhætt að gramsa áfram í botni Mývatns þá er ljóst að þeir voru margir sem ekki sáu ástæðu til veisluhalda. Þeir hafa smám saman verið að láta til sín heyra að undanförnu, í einkasamtölum, með.greinaskrifum og ályktunum. Það er þungt í náttúruverndarsinnum og þeir hafa ekki sagt sitt síðasta. Þeim svíður hvað mest hvernig fagleg ráðgjöf er sniðgengin og lítilsvirt í þessu máli.

Á síðasta fundi Náttúruverndarráðs voru nýlegir úrskurðir umhverfisráðherra til umræðu og var mörgum heitt í hamsi. Ráðherra sat hluta þess fundar og var ekki hlíft við gagnrýni né áleitnum spurningum. Því miður komu þau skoðanaskipti ekki að miklu gagni. Ráðherra svaraði að miklu leyti með því einu að hafna allri gagnrýni og kom sér hjá því að svara óþægilegum spurningum jafnvel þótt ítrekað væri leitað svara. Á henni var ekki iðrunarmerki að sjá. Það er því miður deginum ljósara að náttúra Íslands á sér ekki málsvara í umhverfisráðherra.

Skammsýni Sivjar

Íslands óhamingju verður allt að vopni. Þvert ofan í tillögur og ráð hinna færustu vísindamanna og flestra lögboðinna ráðgjafa sinna hefur Siv Friðleifsdóttir umhverfisráherra heimilað áframhaldandi kísilgúrnám úr Mývatni og leyfir nú töku úr Syðriflóa. Þar með er talið að framhald kísilgúrnámsins sé tryggt til a.m.k. næstu 20 ára. Starfsmenn Kísiliðju brugðust við fregninni með því að slá upp sigurveislu og raða í sig góðgæti við píanóundirleik.

Þvílík skammsýni! Hvað er þetta fólk að hugsa? Á þetta að ganga svona til að eilífu? Á að halda áfram þar til skaðinn er orðinn bersýnilegur og óbætanlegur með öllu? Það er ekkert annað en ósvífinn útúrsnúningur iðjusinna á hinni vel þekktu varúðarreglu að telja sig í fullum rétti vegna þess að ekki liggi fyrir órækar sannanir fyrir skaðsemi kísilgúrnámsins. Það er framkvæmdaraðilans að sýna fram á skaðleysi athafna sinna á náttúru Mývatns og það hefur hann ekki gert.

Það hefur verið deginum ljósara allt frá upphafi kísilgúrnámsins að hér væri um tímabundna iðju að ræða af þeirri einföldu ástæðu að hún er fjarri því að vera sjálfbær þar sem nýmyndun er miklum mun hægari en brottnámið. Hvað halda menn að gerist eftir 20 ár? Ef að líkum lætur heldur áfram söngurinn um atvinnuhagsmuni kísiliðjumanna og yfirvofandi dauða samfélagsins ef þeir fái ekki að halda mokstrinum áfram. Síðast var með samkomulagi Náttúruverndarráðs, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra gefinn 15 ára frestur til að búa sig undir endalok kísilgúrvinnslunnar. Það samkomulag hefur nú verið svikið og ekkert raunverulegt hefur heldur verið aðhafst til að draga úr neikvæðum áhrifum af lokun Kísiliðjunnar.

Það er sorglegt hlutskipti sem Siv Friðleifsdóttir hefur kosið sér í embætti umhverfisráðherra. Í hverju embættisverkinu á fætur öðru tekur hún skammtíma hagsmuni atvinnurekstrar fram yfir langtíma hagsmuni þeirrar náttúru sem hún er sett til þess að gæta. Náttúran er aldrei í fyrsta sæti hjá umhverfisráðherra.

Óður til íslenskrar náttúru

Bókin sem margir hafa beðið eftir er komin út: “Hálendið í náttúru Íslands” eftir Guðmund Pál Ólafsson. Mér til mikillar gleði fékk ég hana í hendur nýútkomna og nýti nú marga lausa stund til að gæða mér á henni. Þessi merkilega bók er engin léttavara sem hægt er að taka með sér í rúmið. Hún er stór og þung og telur 439 blaðsíður. Hver einasta opna er prýdd myndum úr náttúru landsins sem höfundur hefur tekið flestar. Meginmálið er fleygað afmörkuðum tilvitnunum og ljóðum sem hæfa efninu. Þetta er listaverk sem hægt er að fletta aftur og aftur, skoða þessar stórkostlegu myndir, lesa fræðandi textann og ylja sér við ljóðin.

Ágúst H. Bjarnason gagnrýnir bók Guðmundar í Morgunblaðinu 25. október sl. Gagnrýni hans er svolítið sérkennileg og allt að því ólundarleg hvernig sem á því stendur. Ef til vill er þar um að kenna fullkomnunaráráttu fræðimanns sem finnur ekki nákvæmlega það sem hann helst vildi. Aðfinnslur einkennast sumar af smámunasemi og hann viðurkennir hálfpartinn treglega að hér sé á þrykk út kominn veglegur gripur. Kannski fer í taugarnar á honum grímulaus ást höfundar á landinu og óttinn við skemmdarverk stórvirkjana- og stóriðjusinnanna sem gengur eins og rauður þráður í gegnum allt verkið. Eða kannski hefur hann lagt sig fram um að láta enga hrifningu trufla gagnrýnina og það tekst honum sannarlega.

Sjálfri finnst mér það hljóti að vera dauður maður sem getur stillt sig um að láta í ljósi aðdáun og hrifningu á þessu verki sem er enn ein perlan í dagsverki Guðmundar Páls, sannkallaður óður til íslenskrar náttúru. “Hálendið í náttúru Íslands” ætti að vera skyldulesning allra sem vilja beisla öfl náttúrunnar, hrúga upp risastíflum, breyta árfarvegum og sökkva landi. Ef til vill rynni upp fyrir þeim hverju okkur hefur verið trúað fyrir.

Stóriðjufrekja

Það er skammt stórra högga á milli í stóriðjubransanum. Nú vilja forsvarsmenn Norðuráls byggja meira á Grundartanga og stækka álverksmiðjuna þar svo að hún ráði við framleiðslu 300 þúsund tonna af áli. Það slagar upp í áformin í Reyðarfirði svo að nú neistar heldur betur á milli landshorna.

Og hver eru viðbrögðin við hugmyndum Norðuráls? Jú, iðnaðarráðherra tekur vel í erindi Norðurálsmanna og býst til fundahalda með þeim, en minnir í leiðinni á álverksmiðjuna stóru í Reyðarfirði, þó nú væri! Gleymum ekki að verksmiðjan sú er í kjördæmi flokksformannsins hennar og reyndar hennar eigin líka eftir kjördæmabreytinguna. Þjóðhagsspámenn eru farnir að reikna þenslu og hagvöxt með bros á vör. Forsvarsmenn Landsvirkjunar eru strax með á nótunum og farnir að bollaleggja næstu virkjanir til að þjóna Norðuráli. Náttúruverndarsamtök Íslands og Sól í Hvalfirði eru ein um varnaðarorðin.

Viðbrögð fjölmiðla eru vægast sagt undarleg og valda vonbrigðum. Þeir flytja fréttirnar eins og hér sé eingöngu um atvinnumál að ræða og enn eina vítamínsprautuna inn í efnahagslíf landsins. Ekki orð um umhverfisáhrif. Ekkert rætt við umhverfisráðherra. Ekkert minnst á verkefni starfshóps um forgangsröðun virkjana. Ekkert spurt um stóraukna losun gróðurhúsalofttegunda. Er þó nýlokið kynningu á skýrslu um þau efni og framundan fundur um Kyotobókunina þar sem Íslendingar ætla rétt eina ferðina að reyna að komast undan ábyrgri þátttöku í því risaverkefni að draga úr mengun í lofti.

Enn einn ganginn fá náttúruverndarsinnar högg í andlitið. Enn einu sinni erum við minnt á stóriðjufrekjuna sem hefur kostað óbætanlegt rask í náttúru landsins. Ætla menn aldrei að læra og vitkast?

Bókun í útvarpsráði

Af einhverjum ástæðum virðast margir halda að fulltrúar í útvarpsráði séu stöðugt með hökuna á herðum starfsmanna og skipti sér af hverju smáatriði jafnt í fréttaöflun sem dagskrárgerð. Þetta er vitanlega alrangt enda er hlutverk ráðsins skilgreint svo í stuttu máli að það skuli taka “…ákvarðanir um hversu útvarpsefni skuli haga í höfuðdráttum innan marka fjárhagsáætlunar”. Þannig er ráðinu sem sagt ætlað að leggja línur en dagskrárgerð er að sjálfsögðu algjörlega á ábyrgð viðkomandi deilda og án beinna afskipta útvarpsráðs.

Hins vegar reyna ráðsmenn eftir föngum að fylgjast með dagskrá útvarps og sjónvarps og koma því til skila sem þeim þykir vel fara jafnt og því sem miður fer, ekki síst með tilliti til 3. gr. laga um Ríkisútvarpið þar sem hlutverki þess er lýst í alllöngu máli. M.a. er þar kveðið á um að það skuli “… gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð”.

Á fundi útvarpsráðs 10. október sl. ræddum við að venju nokkur atriði úr dagskrám útvarps og sjónvarp. M.a. ræddum við skemmtiþáttinn sem hóf göngu sína 7. október og fannst mörgum hann lofa góðu. Ég hlaut þó að gagnrýna harðlega kvikindislega umfjöllun þáttastýru og gests hennar um fjarstadda manneskju sem mér fannst ekki samrýmast því ákvæði laganna sem vitnað er til hér að ofan. Hafi sú umfjöllun átt að teljast skemmtiefni þá er víst að sú fyndni var einfaldlega lágkúruleg. Því lagði ég fram eftirfarandi bókun:

“Undirrituð gagnrýnir harðlega þann hluta skemmtiþáttarins “Milli himins og jarðar” sl. laugardag þar sem þáttastjórnandi Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og gestur hennar Jónína Benediktsdóttir sameinuðust í niðrandi umtali um fjarstadda manneskju Súsönnu Svavarsdóttur. Undirrituð beinir því til forsvarsmanna að Súsanna Svavarsdóttir verði beðin afsökunar á þessum afglöpum og séð til þess að þvílíkt gerist ekki aftur”.

RÚV í úlfakreppu

Ég brá mér á áheyrendapalla í Alþingi í dag til að hlusta á umræðu utan dagskrár um Ríkisútvarpið. Þegar ég kom til leiks var Þuríður Backman að mæla fyrir tillögu um eflingu lífrænnar ræktunar í landbúnaði. Ísólfur Gylfi stjórnaði fundi, Guðni ráðherra hlýddi á og Gísli S. Einarsson bjóst til ræðuhalda. Fleiri voru ekki viðstaddir. Óneitanlega kunnuglegt yfirbragð í þingsalnum. Svo fjölgaði smám saman og umræður urðu líflegar.

Umræðan um Ríkisútvarpið staðfesti allar verstu grunsemdir okkar sem viljum efla hag þess. Það hefur raunar lengi verið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið markvisst að því að hafa öll tögl og hagldir í þessari stofnun og svo hart hefur verið gengið fram að hún stendur varla lengur undir þeirri gamalkunnu einkunn að hún sé stofnun allra landsmanna. Svo rækilega hefur sjálfstæðismönnum verið plantað í hverja stjórnunarstöðuna af annarri innan RÚV að menn rak í rogastans á dögunum þegar ráðinn var nýr fjármálastjóri sem ekki mun hafa flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum. Skýringin er reyndar sú að sá hinn sami tengist framsóknarmönnum og nú ríður á að hafa þá góða.

Það kom líka í ljós í umræðunni í dag að framsóknarmenn láta ekki af þeim vana að snúast eins og vindhani á burst. Þeir ætla greinilega að styðja vini sína í Sjálfstæðisflokknum í því að breyta RÚV í hlutafélag. Einn þeirra gaf það beinlínis til kynna að sala Rásar 2 væri þeim ekki ógeðfelld. Það voru helstu tíðindi eða öllu heldur ótíðindi þessarar umræðu því sannast sagna hélt ég að það yrði eitthvert hald í framsóknarmönnum í baráttunni gegn einkavæðingu RÚV. Það verður greinilega ekki og ómögulegt að vita hvaða stefnu Samfylkingin tekur þegar til kastanna kemur. Það verða þá rétt eina ferðina aðeins vinstri grænir sem standa í ístaðinu.

Það var merkilegt að hlusta á stjórnarliða og þó einkum sjálfstæðismenn tala um kosti þess að breyta rekstrarformi RÚV í hlutafélag. Í rauninni hefði mátt spila aftur upptökur af þingfundum veturinn 1995-96 þegar menn rökræddu um framtíð Pósts og síma. Þá eins og nú voru rökin þau að tækninni fleygði fram og samkeppnin væri sívaxandi og í slíku umhverfi þyrfti stofnunin að geta brugðist skjótt við hvers konar samkeppni og tæknibreytingum og til þess væri hlutafélagsformið svo dæmalaust hentugt. Hins vegar væri ekkert verið að hugsa um að selja stofnunina einkaaðilum, sei, sei, nei, það væri ekkert inni í myndinni. Sú margendurtekna fullyrðing stóð svo auðvitað ekki lengi því eins og allir vita á nú að selja Símann hæstbjóðanda og það sem fyrst að sögn samgönguráðherra. Sporin hræða þegar kemur að Ríkisútvarpinu.

Ríkisútvarpið er í úlfakreppu. Verði það einkavætt verður sú aðgerð ekki aftur tekin og er deginum ljósara að það hefði í för með sér gjörbreytta þjónustu við landsmenn. Vafamál er að nokkur treysti sér til að reka Rás 1 með sama sniði og nú og yrði heldur betur sjónarsviptir að þeirri merku menningardagskrá sem þar er flutt. Rás 2 yrði hugsanlega gerð að enn einni gargstöðinni með síbyljutónlist og sjálfhverfu bulli ef henni yrði ekki bara einfaldlega slátrað til að losna við samkeppnina. Dagskrá sjónvarpsins yrði vafalaust rugluð og seld í áskrift sem yrði a.m.k. tvöfalt hærri en afnotagjald RÚV er nú. Ólíklegt er að elli- og örorkulífeyrisfólk nyti áfram 30% afsláttar. Sá hópur kynni því að verða allstór sem ekki hefði efni á neinni áskrift. Þjónusta við afskekkta staði leggðist trúlega af og bættist þar með enn í hóp þeirra sem ættu ekki möguleika á að njóta íslensks sjónvarps. Er það þetta sem menn vilja? Eða hafa menn ekki hugsað málið til enda?