Veisla í Víðidalnum

Landsmót hestamanna 4. – 9. júlí sl. verður án efa ógleymanlegt þátttakendum sem áhorfendum. Hestakosturinn og reiðmennskan voru hreint ótrúleg veisla fyrir augað. Dag eftir dag fengum við að sjá hvert stólpahrossið af öðru og ótrúlega mörg undan Orra frá Þúfu sem skilaði vinningshöfunum í A- og B-flokki gæðinga, fyrstuverðlauna stóðhesti, hæst dæmda stóðhesti í 4 vetra flokki og öllum hæst dæmdu hryssunum í flokki 4, 5 og 6 vetra, þeirri 5 vetra reyndar í gegnum son sinn Þorra. Fjölmörg önnur afkvæmi Orra náðu góðum árangri í ýmsum greinum. Það var því með réttu hápunktur mótsins á lokadaginn þegar Orri sjálfur sýndi gamalkunnar hreyfingar við tvítaum í fylgd kjólklæddra hestamanna.

Veðrið útheimti heilmikinn skjólklæðnað til að byrja með og reglubundin kaffihlé, en fór sífellt batnandi svo að helgardagana sat fólkið léttklætt í áhorfendabrekkum og fór sólbrunnið heim. Undirrituð var ein þeirra sem fylgdust nánast óslitið með alla dagana, horfði, spáði, spekúleraði og skráði niðurstöður. Þannig voru úrslitakeppendurnir orðnir vel kunnir og einkar gaman að sjá hvernig þeir stóðust lokaprófið. Fjölbreytnin var mikil og erfitt að velja á milli valla. Flestir kusu að horfa á gæðingakeppni og sýningar kynbótahrossanna og því tiltölulega fámennt í brekkunni við Hvammsvöll þar sem stærstur hluti keppni barna og ungmenna fór fram. Þeirra hlutur var þó afar góður að allra mati og ótrúlega gaman að sjá úrslitakeppnina í þessum flokkum. Það þarf því ekki að efast um úrval knapa í framtíðinni.

Sýningar ræktunarbúa voru misjafnar en yfirleitt mjög skemmtilegar. Sum búin buðu upp á mjög vandaðar sýningar og gagnlegar fyrir hugsanlega viðskiptavini, önnur virtust aðallega stíla á hraða og læti. Tónlistin var oft óþægilega hávær og lagaval stundum algjörlega út úr kú. Um þverbak keyrði þegar Vatnsleysubúið sýndi hrossin sín á óðaspretti við ærandi hávaða. Í ofanálag voru sýnendur hjálmlausir í þessum látum, sem var nánast einsdæmi þessa daga sem betur fer.

Aðstaðan í Víðidal er að flestu leyti afar góð enda mikið búið að vinna á svæðinu undanfarna mánuði. Keppendur og sýnendur hrossa voru sérlega ánægðir með aðbúnað hrossanna þar sem Fáksmenn opnuðu undantekningarlítið hús sín upp á gátt og buðu ókeypis afnot af þeim fyrir hesta og reiðtygi svo og aðstöðu til snyrtingar og fataskipta. Höfðu margir orð á því að aldrei hefðu þeir haft betri aðstöðu og atlæti fyrir hross á landsmóti. Hins vegar söknuðu margir tjaldbúðalífsins eins og við mátti búast. Ekki kann ég skýringar á því hvers vegna ekki var sköpuð aðstaða fyrir tjaldbúðir í grennd við mótssvæðið.

Veislan í Víðidalnum var þó ekki hnökralaus. Ýmislegt fór úrskeiðis í framkvæmd og má velta fyrir sér hvort útboðsstefnan í stóru og smáu réði ekki nokkru þar um. Til dæmis réðu veitingasalar ekki við hlutverk sitt á álagstímum, höfðu greinilega sparað nokkuð í mannahaldi og aðföngum. Alvarlegasti ljóðurinn á framkvæmd mótsins var gallað tölvukerfi sem tafði ítrekað keppni, einkum hjá yngri flokkunum. Verra var þó að kerfinu brást tvívegis bogalistin við útreikning í úrslitakeppni, annars vegar ungmenna og hins vegar í töltkeppninni sem alltaf er stórt númer á landsmóti. Mistökin voru leiðrétt daginn eftir og skipt um sæti tveggja efstu í báðum greinum auk þess sem þeir fengu flugferð í sárabætur. Þetta klúður setti ljótan blett á framkvæmd mótsins og er auðvitað algjört hneyksli.

Það er staðreynd að enginn viðburður dregur að sér jafn marga erlenda gesti eins og landsmót hestamanna. Því miður tökum við ekki nógu vel á móti þeim og má raunar undrum sæta hversu iðnir þeir eru að fylgjast með sýningum og keppni þrátt fyrir ýmsa þröskulda í vegi þeirra. Ekkert var gert til að auðvelda þeim að rata á svæðið og gildir það auðvitað um fleiri sem ekki hafa skýra hugmynd um tilvist Víðidalsins. Ekkert upplýsingaskilti var í miðborginni, engar leiðamerkingar fyrr en nákvæmlega þegar svæðið blasti við. Litlar upplýsingar var að fá á svæðinu sjálfu nema að spyrja næsta mann og undir hælinn lagt hvort túlkar á ensku og þýsku voru við kynningu fyrstu dagana. Stundum komust þeir ekki að fyrir ótrúlegum vaðli í kynningum á íslensku, einkum þegar afkvæmasýningar og sýningar ræktunarbúa fóru fram. Þetta sinnuleysi gagnvart okkar erlendu gestum er glópska. Þarna ætti Ferðamálaráð að koma að verki.

En þrátt fyrir hnökrana situr fyrst og fremst eftir í huganum minning um glæsileika og hæfileika hinna fjölmörgu hrossa og knapa sem gerðu þessa veislu í Víðidalnum ógleymanlega.