Ekki var ég fyrr búin að skrifa jákvætt hér í minnisbókina um nýjan stíl Landsvirkjunar en Friðrik forstjóri birtist á mynd í Morgunblaðinu í skátahandabandi við formann Skátasambands Íslands. Tilefnið var nýgerður 5 ára samstarfssamningur Landsvirkjunar og Skátasambandsins um umhverfisverkefni og fræðslu um útivist og orkumál. Mikill er máttur peninganna.
Skátarnir fá sitt lítið af hverju frá hinni hugljúfu og velmeinandi stofnun Landsvirkjun, m.a.s. lítinn og sætan pallbíl! Auðvitað gengur Landsvirkjun ekkert annað en gott til þótt svo heppilega vilji til að með þessu fær hún aldeilis ljómandi tækifæri til að fegra ímynd sína í augum æskulýðsins. Ekki veitir nú af því það er ekki síst ungt fólk sem á erfitt með að sjá nauðsyn þess að umbylta óviðjafnanlegum svæðum í náttúru landsins til orkuöflunar fyrir mengandi stóriðju. Þannig eru reyndar viðhorf æ fleiri þótt náttúruverndarsinnar hafi lítið annað en orðsins brand í glímunni við orkubeislarana.
Hvað skyldi koma næst? Hversu langt ætlar Landsvirkjun að ganga í að kaupa sér velvilja?