Ríkisútvarpið og skjálftarnir

Ríkisútvarpið er eign og þjónn þjóðarinnar. Eðlilega gera því landsmenn ríkar kröfur til stofnunarinnar og eru ólatir við að gagnrýna hana þegar þeim býður svo við að horfa. Svo virðist reyndar sem menn séu nokkurn veginn einhuga í afstöðu til Rásar 1, eða “gömlu gufunnar” eins og hún er gjarna kölluð, og telji hana gegna með prýði því hlutverki að veita upplýsingar og hlúa að menningu þjóðarinnar. Rás 2 nýtur ekki jafn óskoraðrar hylli þótt hún njóti ekki síðri hlustunar samkvæmt mælingum.

Hins vegar er það Sjónvarpið sem liggur undir mestri gagnrýni og því miður alloft með réttu, nú síðast í tengslum við jarðskjálftana á Suðurlandi. Þar sem ég sit í útvarpsráði legg ég að sjálfsögðu eyrun við slíkri gagnrýni og hef hlustað á margar heitar og skömmóttar ræður á undanförnum dögum. Ekki er nú öll gagnrýnin byggð á réttum forsendum en þó að flestu leyti skiljanleg miðað við tilefnið.

Haldinn var aukafundur í útvarpsráði í gær til að fara yfir málið. Fundinn sátu auk útvarpsráðsmanna útvarpsstjóri, framkvæmdastjórar útvarps og sjónvarps, fráttastjórar beggja fréttastofanna og deildarstjóri tæknideildar. Þau lögðu fram skýrslur og gögn og skýrðu þau og fór ekki á milli mála að tekið hefur verið á málinu af fullri hreinskilni og vilja til að nýta reynsluna til framtíðar. Sú reynsla kom reyndar þegar til góða þegar síðari stóri jarðskjálftinn varð 21. júní.

Í þetta sinn, eins og reyndar oft áður, var það “fótboltadekrið” sem olli mestri reiði þeirra sem leituðu sér frétta í sjónvarpinu eftir að jarðskjálftinn reið yfir 17. júní sl. Það var að sjálfsögðu ósanngjörn krafa að sjónvarpið væri komið með myndefni í tengslum við jarðskjálftann örfáum mínútum eftir að hann átti sér stað. En það varð mörgum beinlínis áfall að sjá ekki annað en útsendingu frá Evrópukeppninni klukkutímum saman eftir að jarðskjálftinn varð. Að vísu var útsending rofin og skotið inn fréttum eftir því sem þær bárust, en það dugði ekki þeim sem ekki vildu láta þröngva sér til að horfa á fótbolta í trausti þess að fréttir kæmu kannski. Aðalfréttatíminn var ekki fyrr en 20.45 og eru allir sammála um að það voru mikil mistök að færa hann ekki fram til venjulegs tíma af þessu tilefni. Auk þess hefði átt að láta texta stöðugt renna yfir skjáinn með þeim upplýsingum sem tiltækar voru þótt leikurinn fengi að hafa sinn gang að mestu. Slík ráðstöfun hefði róað fólk og sannfært um að fréttaöflun væri á fullu.

En það eru fleiri ríkisstofnanir sem þurfa að draga lærdóm af nýliðnum atburðum. Hvorki Almannavarnir né Veðurstofan geta verið stikkfrí í þeirri umræðu. Ríkisútvarpið á erfitt með að gegna upplýsinga- og öryggishlutverki sínu án skipulegrar og markvissrar samvinnu við þessar tvær stofnanir fyrst og fremst og augljóst að í því efni þarf að gera miklu betur. Útvarpsstjóri hafði fyrr á þessu ári ítrekað óskað eftir fundi með fulltrúum Almannavarna til þess að ræða samskipti og viðbrögð við stórfelldri vá. Þær viðræður og skipuleg áætlun verða að eiga sér stað hið fyrsta. Staðreyndin er sú að það eru oftar en ekki fréttastofurnar sem veita þessum öryggisstofnunum samfélagsins fyrstu upplýsingar um náttúruhamfarir en ekki öfugt!