Fyrsti þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra, fyrrverandi samgönguráðherra og núverandi forseti Alþingis, opnaði glaður og hreykinn nýtt safn á Ystafelli í Köldukinn á dögunum. Þar er um að ræða mikið safn gamalla bíla og vinnuvéla sem safnað hefur verið á undanförnum 5 áratugum eða svo og sannast sagna ekki verið til mikillar prýði í túninu á Ystafelli. Nú hefur verið byggður þarna stærðar sýningarskáli yfir gripina sem minna á sitthvað í samgöngusögu Íslendinga og munu væntanlega laða að sér fjölda áhugasamra gesta. Í frétt Morgunblaðsins af opnun safnsins segir m.a.: “Halldór, sem manna mest hefur stuðlað að því að gera þetta glæsilega safn að veruleika, þakkaði sérstaklega stuðning Alþingis, Kísilgúrsjóðs, bílaumboða og fjölda sjálfboðaliða.”
Opnun safnsins er hið besta mál. Það snart mig hins vegar illa að sjá að hinn þaulreyndi þingmaður, sem treyst hefur verið til margvíslegra trúnaðarstarfa á stjórnmálaferlinum skyldi m.a. hafa kafað í Kísilgúrsjóðinn svonefnda til að fjármagna byggingu yfir gamla bíla á Ystafelli í Köldukinn. Og skammast sín ekki fyrir að viðurkenna það, heldur þvert á móti hreykir sér af því. Var þó sjóðurinn sá hreint ekki stofnaður til að byggja yfir bílasafn í Köldukinn, heldur til að stuðla að aukinni fjölbreytni atvinnulífs í Mývatnssveit og vinna þannig gegn neikvæðum áhrifum af lokun kísilgúrverksmiðjunnar á samfélag sveitarinnar. Sú lokun hefur legið fyrir allt frá upphafsárum vinnslunnar.
Þetta ráðslag Halldórs og félaga sýnir auðvitað ljóslega hug þeirra til þróunar atvinnulífs og samfélags í Mývatnssveit. Á þeim bæ hefur aldrei annað staðið til en að keyra kísilgúrvinnsluna áfram á fullri ferð og hundsa þann vilja Alþingis og stjórnvalda sem liggur að baki sjóðnum og hlutverki hans. Kjósendur Halldórs í Mývatnssveit vilja fá að halda áfram að krukka í botn Mývatns og kjósendur Halldórs á Húsavík vilja að höfnin þar hafi áfram tekjur af því að flytja gúrinn út. Náttúruverndargildi Mývatns- og Laxársvæðisins er létt á metum þegar Mammon krefst sinna fórna.
Nýfallinn úrskurður Skipulagsstjóra ríkisins um áframhaldandi kísilgúrvinnslu vekur bæði hryggð og furðu og verður vafalaust kærður til umhverfisráðherra. Því miður benda gjörðir þess ráðherra ekki til þess að hann hafi hagsmuni umhverfisins og náttúrunnar alltaf í fyrirrúmi.