Þá eru nú haustvindarnir teknir að blása. Að baki er yndislegt sumar í íslenskri náttúru, dvöl á æskuslóðum, heimsóknir til nýrra staða, gönguferðir, hestaferðir, berjatínsla í bláum mó. Við slíkar aðstæður er auðvelt að tileinka sér áhugaleysi á því sem kallaðir eru fréttnæmir viðburðir og láta vera að taka þátt í umræðum um stjórnmál líðandi stundar. Þetta er sem sagt afsökun fyrir vanrækslu heimasíðunnar sem ég hef ekki hreyft við síðan í júlí. Næg hafa þó tilefnin verið, bæði á sviði umhverfismála og kvennabaráttu sem yfirleitt standa hug mínum næst.
Nýr stíll Landsvirkjunar
Enn er Norðausturlandið helsti vettvangur átaka milli umhverfisverndarsinna og þeirra sem vilja beisla náttúruöflin og brjóta þau undir sig. Mörgum sem leið lögðu inn að Snæfelli og Kárahnjúkum í sumar brá illa við að sjá allt raskið sem þegar er orðið við vegagerð og annan undirbúning á svæðinu. Ekki er að efa að hart verður tekist á um framtíð þessa svæðis á næstu mánuðum og árum. Þá er þess að gæta að forkólfar Landsvirkjunar hafa tekið upp algjörlega nýjan og jákvæðari stíl í samskiptum við bæði náttúruvísindamenn og umhverfisverndarsinna. Þeir lýsa yfir vilja til samstarfs og vandvirkni í vinnubrögðum, þeir greiða kostnað við landvörslu og þeir fá sérfræðinga á Náttúrufræðistofnun til rannsókna vegna umhverfismats. Einkum það síðastnefnda orkar óneitanlega tvímælis en á heildina litið hafa viðhorf og aðferðir batnað. Hins vegar sjást jábræður þeirra á Austurlandi ekki fyrir í ofstækinu og hneyksluðu flesta með innrás sinni í samtök náttúruverndarsinna á Austurlandi. Þau vopn snerust svo gjörsamlega í höndum þeirra að það verður lengi í minnum haft.
Framhaldssagan í Mývatnssveit
Þá er framundan úrskurður um kísilgúrvinnsluna úr Mývatni sem er með ótrúlegri framhaldssögum síðari ára. Allt Mývatnssvæðið er hrein paradís, þótt margir mundu líklega vilja undanskilja mýið þeirri paradísarhugsun. Þetta svæði á ekki sinn líka í víðri veröld og sorglegt ef skammsýni og gróðasjónarmið verða ofan á í deilunni um framtíð þess. Sú hugsun var mér ofarlega í sinni í gönguferðum sunnan vatns í sumar á slóðum sem ég hafði ekki áður farið.
“Fórnfúsa gæðakonan” að hverfa?
Í kvennabaráttunni kraumar hvarvetna undir niðri og kæmi ekki á óvart þótt þar yrðu nokkur tíðindi á næstu mánuðum. Konur gerast nú æ ósvífnari í launakröfum svo að gjörvallt karlveldið stendur á öndinni. Þær leyfa sér m.a.s. að spilla ímyndinni um hina fórnfúsu gæðakonu sem annast börn og sjúklinga og gamalmenni fyrir nánast ekki neitt og hafa skapað ófremdarástand í umönnunargeiranum sem svo er kallaður. En bíðum við: Hafa þær skapað þetta ástand? Hverjir hafa ákveðið launin fyrir þessi störf?
Það verður fróðlegt að fylgjast með tilraunum stjórnenda til að manna hin erfiðu forsmáðu láglaunastörf á öldrunarstofnunum, leikskólum og sambýlum fatlaðra næstu vikurnar. Skyldi þeim detta í hug að hækka launin?
Dómsmálaráðskonan brást
Ein af meginkröfum kvenna síðustu áratugi hefur snúist um fjölgun kvenna í stjórnunarstörfum. Hugsunin hefur að sjálfsögðu verið sú að aukin völd kvenna yrðu til þess að rétta hlut þeirra almennt, konur skildu konur, konur treystu konum o.s.frv. Og konur hafa verið að fá aukin völd. Þeim hefur fjölgað víða þar sem ráðum er ráðið, m.a. í ríkisstjórninni þar sem nú sitja konur í 4 af 12 ráðherrastólum (því auðvitað þurfti að fjölga ráðherrastólunum til að hafa rúm fyrir konurnar í samræmi við kröfur nútímans). Það er mikil breyting frá því sem áður var.
En hefur sú breyting reynst til hins betra? Sú spurning verður áleitin þegar kona í embætti dómsmálaráðherra skipar í stöðu hæstaréttardómara karl úr hópi ráðuneytisstjóra sem aldrei hefur gegnt dómstörfum og gengur um leið framhjá 3 einkar hæfum konum sem allar hafa mikla reynslu af dómstörfum. Með því hefur Sólveig Pétursdóttir brugðist trausti hinna fjölmörgu sem fögnuðu þegar hún fékk húsfreyjuvaldið í dómsmálaráðuneytinu.