Nýkomin heim úr þriggja daga stórkostlega vel heppnaðri hestaferð hlusta ég á fréttir helgarinnar. Kristnihátíðin á Þingvöllum tekur drjúgan tíma, en einnig fréttir af miður hugnanlegri samkomu í Húsafelli og hræðilegar fréttir af Hróarskelduhátíð þar sem 8 manns tróðust undir á tónleikum. Og innan um allt þetta er sagt frá tveimur slysum í tengslum við hestamennsku. Kona féll af baki á Blönduósi og önnur á Selfossi. Báðar liggja nú þungt haldnar á sjúkrahúsi í Reykjavík vegna höfuðmeiðsla. Efalaust var það samhengið við nýafstaðna ferð mína sem olli því að einmitt þessar fréttir vöktu hvað mesta athygli mína.
Við vorum 10 manns með 22 hesta sem riðum saman um Holtin og Landssveit þessa þrjá daga í einmuna veðurblíðu svo að blessuðum hrossunum þótti víst nóg um og svitnuðu mikinn. Tvær nætur gistum við á Leirubakka þar sem aðstæður eru kjörnar fyrir hestamenn, hægt að slaka og mýkjast í heitum pottum og hafa alla sína hentisemi með mat, grilla í upphlöðnum tóttum eða kaupa mat hjá staðarhöldurum.
Þegar við lögðum upp frá Leirubakka heim á leið kallaði til mín maður að ég hefði gleymt að setja á mig hjálminn. Sem betur fer vorum við ekki komin langt svo að það var lítið mál að snúa við og sækja hjálminn sem hafði orðið eftir á stéttinni við húsið þegar ég tók ákvörðun um að vera aðeins á bol en ekki í peysunni minni vegna hitans. Það er þó aðeins skýring en engin afsökun og mest undrandi var ég á því að hafa ekki tekið eftir þessu sjálf eins og mér finnst sjálfsagt að vera alltaf með hjálm á hestbaki.
Hjálmurinn er jafn sjálfsagt öryggistæki og bílbelti. Þegar ég var á þingi flutti ég tvívegis frumvarp um skyldunotkun hjálma á hestbaki og fékk góðan stuðning bæði innan þings og utan þótt ekki yrði af samþykkt málsins því miður. Og vissulega heyrðust neikvæðar athugasemdir eins og oft vill verða þegar menn telja sig verða sviptir frelsi til þess að ráða eigin gerðum. Þó er hægt að nefna mörg dæmi um óbætanleg tjón og jafnvel dauðsföll vegna þess að þetta mikilvæga öryggistæki var ekki notað.
Mér varð óhjákvæmilega hugsað til þess hvort konurnar tvær sem nú liggja milli heims og helju voru með hjálm á höfði þegar þær féllu af hestbaki. Um það gat ekki í fréttunum en alvarleiki slysanna bendir óneitanlega til þess að fyllsta öryggis hafi ekki verið gætt. Ef til vill væru þær ekki jafn illa meiddar ef frumvarpið mitt hefði orðið að lögum.