Árviss fundafiðringur er nú algleymingi meðal landsmanna eftir skemmtana- og letilíf sumarmánaðanna. Hver ráðstefnan rekur aðra og margar áhugaverðar. En það verður að velja og hafna og satt að segja var ekki erfitt að velja ráðstefnu Landverndar um Vatnajökulsþjóðgarð sem haldin var á Kirkjubæjarklaustri í gær, þ.e. föstudaginn 29. september.
Náttúran skartaði sínu fegursta á leiðinni austur og var eins gott að leggja tímanlega af stað til að geta ekið hægt og notið haustlita og fegurðar fjalla og jökla. Við erum ekki lítið lánsöm að búa í svona fallegu landi. En vandi fylgir vegsemd hverri og mál málanna er hvort við höfum vit á að varðveita það á réttan hátt svo að afkomendur okkar njóti ekki síðri gæða heldur en við. Ein leiðin er vissulega að stofna þjóðgarða á þeim svæðum sem brýnast er að varðveita.
Ráðstefnuna sóttu yfir 100 manns og slíkur var áhuginn að menn hreyfðu sig varla úr sætum allan tímann sem hinir fjölmörgu fyrirlesarar fluttu mál sitt og því lauk ekki fyrr en á seinni tímanum í 8 um kvöldið. Auðfundið var að yfirgnæfandi meirihluti ráðstefnugesta var hlynntur stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og að hann verði sem stærstur og vel að honum staðið á allan hátt. Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt að unnið verði að stofnun þjóðgarðsins en mönnum þykir það heldur þunnur þrettándi að hann miðist eingöngu við jökulröndina að viðbættum Skaftafellsþjóðgarði eins og áform eru um.
Hugmyndasmiðja hefur verið að störfum á vegum Landverndar síðan í vor og er óhætt að segja að ráðstefnugestum leist vel á hugmyndirnar sem smiðirnir kynntu. Samkvæmt þeim er gengið út frá stofnun víðáttumikils þjóðvangs allt frá sjávarströnd sunnan Vatnajökuls og norður til sjávarstrandar í Öxarfirði. Innan þess þjóðvangs, sem er nýtt hugtak á þessu sviði, myndu svo rúmast ýmsar gerðir verndarsvæða, þjóðgarðar, ósnortin víðerni, vernduð rannsóknarsvæði o.fl. Þarna eru á ferðinni merkilegar hugmyndir sem vonandi verða þróaðar áfram. Ómar Ragnarsson endaði umfjöllun hugmyndasmiðjunnar með sýningu myndbands frá þessum slóðum og klykkti út með því að syngja ljóð sitt og lag um náttúru Íslands sem Diddú og Egill Ólafsson sungu í sjónvarpsþáttum hans um þessi svæði sem sýndir voru fyrir tæpu ári. Sannaðist þar enn og aftur að hann Ómar er óborganlegur með öllu.
Tveir erlendir gestir miðluðu af þekkingu sinni og reynslu í sambandi við þjóðgarða og því næst voru flutt erindi um þjóðgarð og virkjanir, um þjóðgarð og búskap, þjóðgarð og ferðamennsku, þjóðgarð og stjórnsýslu og þjóðgarð og vísindarannsóknir. Tveir eða fleiri ræddu hvern þessara þátta frá ýmsum hliðum og spunnust út frá erindum þeirra ágætar umræður sem héldu síðan áfram fram eftir kvöldi yfir góðum mat og glasi af víni.
Landvernd á heiður skilinn fyrir að efna til þessarar ráðstefnu sem er þarft innlegg í þá vinnu sem framundan er til að fullvinna hugmyndina um Vatnajökulsþjóðgarð sem Hjörleifur Guttormsson lagði fram á Alþingi og fékk samþykkta þar á sínu síðasta þingi. Ráðherra setti síðan á laggirnar starfshóp sem skilaði skýrslu sl. vor og lagði raunar til að Vatnajökulsþjóðgarður yrði framlag Íslands í tengslum við “Ár fjalla 2002″ á vegum Sameinuðu þjóðanna. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að tímaþröng, afstaða sveitarstjórna og óvissa um mörk þjóðlendna og eignarlanda setti verkefninu þær skorður að rétt væri að miða þjóðgarðinn við jökuljaðarinn einvörðungu auk Skaftafellsþjóðgarðs og það er sú tillaga sem ríkisstjórnin er tilbúin að styðja.
Niðurstaða starfshópsins olli auðvitað vonbrigðum en er að vissu leyti skiljanleg, einkum með tilliti til þess umfangsmikla verks sem óbyggðanefnd á fyrir höndum. Og öll skref eru betri en engin í þessu efni. En ef þessi tillaga verður að veruleika hljóta allir náttúruverndarsinnar að leggja mikla áherslu á að ekki verði látið þar við sitja heldur verði áfram kannaðir möguleikar á að bæta við svæðum utan jökulrandar. Þar má sérstaklega benda á Lónsöræfi, Eyjabakka, Kringilsárrana, Kverkfjöll og Krepputungu með Hvannalindum og Herðubreiðarlindum svo og Lakagíga. Þessum svæðum þarf að bæta við þjóðgarðinn eftir því sem starfi óbyggðanefndar vindur fram og eftir því sem samkomulag getur tekist við hlutaðeigandi. Framtíðarmarkmiðið hlýtur að vera að tryggja varðveislu sem flestra verðmætra svæða á þessum slóðum. Tillögur hugmyndasmiðjunnar sem fyrr er lýst eru einmitt góður grunnur að byggja á í því efni.