Fyrr á þessu ári kom til kasta útvarpsráðs sú hugmynd markaðsdeildar að leita til aðila um kostun veðurfregna í sjónvarpinu eins og tíðkast hefur mánuðum saman hjá Stöð 2. Mörgum þótti þar seilst inn á grátt svæði þar sem í útvarpslögum er skýrt tekið fram að ekki sé heimilt að afla kostunar við gerð frétta eða fréttatengdra þátta og er hnykkt á því enn frekar í kostunarreglum Ríkisútvarpsins. Vakti það undrun margra þegar útvarpsréttarnefnd sá ekki ástæðu til að gagnrýna þá ráðstöfun Stöðvar 2 að láta Tal færa landsmönnum veðrið eins og sagt er. Hvað sem því líður hlaut RÚV að taka sjálfstæða ákvörðun í því efni.
Svo fór eftir nokkrar umræður í útvarpsráði að gengið var til atkvæða um þá tillögu formanns útvarpsráðs að kostun veðurfregna yrði heimiluð í sjónvarpi RÚV og var tillagan samþykkt með atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Innan tíðar má því allt eins búast við að við fáum veðurfregnir sjónvarpsins í boði Landsvirkjunar eða einhvers annars fyrirtækis sem þarf að bæta ímynd sína. Fulltrúar Samfylkingar virðast nú telja sig hafa gengið þessa götu á enda miðað við nýlegar yfirlýsingar í fjölmiðlum.
Undirrituð sem er fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í útvarpsráði greiddi atkvæði gegn tillögunni ásamt fulltrúa Framsóknarflokksins. Í fundargerð þess fundar frá 28. mars sl. segir m.a. svo: “KH lýsti sig andvíga því að Ríkisútvarpið leitaði kostunar veðurfregna. Hugsanlega væri verið að færa í form kostunar tekjur sem annars myndu skila sér í auglýsingum. RÚV hefur ákveðnar skyldur við landsmenn umfram aðra fjölmiðla, það á að veita ákveðna þjónustu og það er skylda stjórnvalda að gera því kleift að veita hana án þess að fyrirtæki geti keypt sér velvild út á það. Í rauninni þarf að endurskoða frá grunni reglur um kostun með sérstakt hlutverk RÚV í huga og varast að eltast um of við stefnu einkastöðvanna.”
Hér eru að sjálfsögðu dregnar saman í stuttu máli þær ástæður sem ég lagði til grundvallar minni afstöðu. Af sömu ástæðum lýsti ég mig mótfallna þeirri hugmynd sem nú er til athugunar hjá markaðsdeild að skjóta auglýsingum inn í sýningar kvikmynda í sjónvarpi RÚV og ítrekaði um leið að móta þyrfti skýrari stefnu RÚV hvað auglýsingar og kostun varðar. Framhjá því verður ekkert litið að Ríkisútvarpið hefur algjöra sérstöðu meðal fjölmiðla og þá sérstöðu ber að tryggja og rækta. Rúv gegnir afar mikilvægu menningarlegu hlutverki og hefur ríkar skyldur gagnvart landsmönnum. Þótt fjárhagurinn sé oft þröngur ber Rúv að halda ákveðinni reisn og forðast að láta markaðsöflin taka völdin. Þau eiga ekki að ráða dagskrá RÚV, hvorki í útvarpi né sjónvarpi.