Forvarnir gegn fóstureyðingum

Ríkisstjórnin er búin að uppgötva vandamál sem hún ætlar að taka á með fræðslu og forvarnarstarfi. Þetta vandamál felst í fjölgun fóstureyðinga og ótímabærum þungunum ungra stúlkna. Lái mér hver sem vill að mér skyldi detta í hug málshátturinn kunni um barnið og brunninn. Hefðu stjórnvöld verið skjótari í viðbrögðum og tekið meira mark á viðvörunum áhugahópa og fagmanna að ógleymdri löngu gerðri samþykkt samþykkt Alþingis væri ástandið ekki jafn slæmt og nú er raunin.

Fyrir hálfu 14. ári eða nánar tiltekið 19. mars 1987 samþykkti Alþingi að frumkvæði undirritaðrar svohljóðandi tillögu: “Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að efla verulega fræðslu um kynferðismál meðal almennings með það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir og hindra útbreiðslu sjúkdóma. Sérstök áhersla skal lögð á að upplýsa fólk á aldrinum 15 – 19 ára um kynlíf og barneignir.”. Rökstuðningur fyrir tillögunni var hinn sami og nú er hafður uppi og raunar einnig þegar lögin um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir voru sett árið 1975. Ótímabær þungun er mikið áfall fyrir unga stúlku og fóstureyðing er alltaf neyðarúrræði.

Það gekk svo sem ekki þrautalaust að fá háttvirta alþingismenn til að samþykkja þessa tillögu okkar þriggja sem þá sátum á Alþingi fyrir Kvennalistann sáluga. Ég hafði ítrekað reynt að vekja athygli á þessum vanda með fyrirspurnum og tillögum m.a. um lækkun kostnaðar vegna getnaðarvarna en uppskar lítið annað en tómlæti flestra samþingmanna. Ofannefnda tillögu þurftum við að flytja oftar en einu sinni áður en hún hlaut blessun viðkomandi þingnefndar og reyndar óvíst að hún hefði fengist samþykkt nema fyrir þá sök að um þær mundir gaus upp mikil umræða um alnæmi sem menn óttuðust að yrði að hreinum faraldri. Illar tungur sögðu að þá fyrst hefðu sumir þingkarlar séð nauðsyn þess að efla fræðslu um kynlíf þegar þeim varð ljóst að líka karlar gátu orðið veikir af soddan háttalagi. Svo mikið er víst að lítið fór fyrir umræðum um erfiða stöðu ungra stúlkna sem verða fyrir ótímabærum þungunum. Og því miður hefur alltof lítið farið fyrir framkvæmd tillögunnar.

En betra er seint en aldrei og nú hefur sem sagt heilbrigðisráðherra séð ljósið og lýst upp hugskot félaga sinna í ríkisstjórninni. Því ber að fagna og óska verkefninu góðs gengis. Ekki veitir af því þróunin er áhyggjuefni. Meðan fóstureyðingum meðal stúlkna undir tvítugt hefur fjölgað jafnt og þétt hér á landi á síðustu árum hefur þeim fækkað á hinum Norðurlöndunum og annars staðar á Vesturlöndum.