Vegna mats á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni sendi ég eftirfarandi athugasemdir til Skipulagsstofnunar:
Mývatn er sérstæðasta og lífríkasta vatn landsins. Einstætt vistkerfi þess skapar því stöðu á heimsmælikvarða. Vatnasvæði Mývatns og Laxár er talið eitt af 40 mikilvægustu votlendissvæðum jarðar og er á sérstakri skrá um votlendi sem varðveita beri á forsendum Ramsarsamþykktar. Um Mývatns- og Laxársvæðið gilda sérstök lög umfram almenn náttúruverndarlög. Með tilliti til þessara staðreynda er ekki að undra þótt kísilgúrvinnsla úr Mývatni hafi sætt mikilli gagnrýni allt frá upphafi þeirrar iðju fyrir 34 árum.
Margir vísindamenn hafa rannsakað hina ýmsu þætti vistkerfis vatnsins. Hvatamenn áframhaldandi vinnslu styðja mál sitt m.a. þeim rökum að ekki hafi með óyggjandi hætti verið sýnt fram á skaðleg áhrif vinnslunnar á lífríkið. Á hinn bóginn hefur því síður tekist að sanna skaðleysi kísilgúrnámsins og eru sérfræðingar einhuga um að vara við því stórfenglega inngripi í lífríkið sem kísilgúrnámið er.
Norrænu vatnalíffræðingarnir þrír, sem að beiðni iðnaðarráðherra fóru yfir stöðu rannsókna og skiluðu skýrslu um málið fyrr á þessu ári, eru augljóslega á sama máli og íslensk starfssystkini þeirra. Þeir leggja áherslu á mikilvægi varúðarreglunnar við mat á umhverfisáhrifum í svo viðkvæmu vistkerfi sem þarna um ræðir og telja það grundvallaratriði að iðnrekstur eigi ekki heima á slíku svæði. Margt fleira í skýrslunni styður það sjónarmið að hætta beri vinnslu kísilgúrs úr vatninu.Við lestur hennar vekur furðu hvernig hvatamenn áframhaldandi vinnslu leyfa sér að túlka niðurstöður skýrsluhöfunda sem stuðning við málflutning sinn.
Frá upphafi kísilgúrvinnslunnar og reksturs verksmiðjunnar hefur það legið fyrir að hér væri um tímabundinn atvinnurekstur að ræða. Tvívegis hefur vinnslu- og rekstrarleyfi verið framlengt vegna mikils þrýstings þeirra sem þarna hafa atvinnu og hagnað af rekstrinum. Síðast í apríl 1993 var gefið út slíkt leyfi sem miðaði að því að tryggja rekstrargrundvöll Kísiliðjunnar allt til ársins 2010. Um leið var gert samkomulag milli umhverfisráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og Náttúruverndarráðs, þar sem fram kemur sá skilningur allra málsaðila að með útgáfu leyfisins væri verið að gefa svigrúm til að hætta kísilgúrtöku úr Mývatni.
Þá er rétt að minna á að á sama tíma var stofnaður sérstakur sjóður til að stuðla að aukinni fjölbreytni atvinnulífs í Mývatnssveit og vinna þannig gegn neikvæðum áhrifum af lokun verksmiðjunnar á samfélag sveitarinnar. Hvorki ríkisvaldið né sveitarstjórn hafa hins vegar gert nokkuð í því að búa samfélagið undir óhjákvæmilegar breytingar af völdum lokunar Kísiliðjunnar þrátt fyrir umræður og ítrekaðar áminningar. Ríkisvaldið hefur með því sýnt verulega ámælisvert ábyrgðarleysi. Framtaksleysi sveitarstjórnar sýnir væntanlega að þar vilja menn ekki gera ráð fyrir öðrum möguleikum en að halda vinnslunni áfram hvað sem það kostar.
Mývatns- og Laxársvæðið er einstakt í veröldinni fyrir náttúrufegurð og lífríki. Vatnið og umhverfi þess er rómað fyrir fegurð. Landslagið er óvenjulegt og jarðsaga þess sérstæð. Fuglalífið er fjölbreytt og sérstakt. Með hliðsjón af náttúruverndargildi Mývatns- og Laxársvæðisins og með tilliti til varúðarreglunnar telur undirrituð einboðið að hafna beri með öllu áframhaldandi vinnslu kísilgúrs úr Mývatni.
Seltjarnarnesi 14. júní 2000
Kristín Halldórsdóttir