Indlandsferð III

Indland er ekki bara hallir og hof, kastalar, virki og grafhýsi. Indland er umfram allt mannlífið og menningin sem þar þrífst. Indland er suðupottur hefða og trúarbragða, landið þar sem gull og gimsteinar glóa í hróplegu ósamræmi við sóðaskap og ruslahauga. Indland er land öfganna, þar sem fólk býr við ótrúlegt ríkidæmi og sára örbyrgð og allt þar á milli.

P-in þrjú

Á ferð okkar um Rajasthan, sem ég lýsti í Indlandsferð II, höfðum við frábæran leiðsögumann, Amet að nafni. Hann reyndist hvers manns hugljúfi og varð vel við hvers kyns kröfum þessa margbreytilega hóps, sem samanstóð af fólki frá 9 þjóðlöndum. Auk þess var hann léttur og gamansamur og óþreytandi að fræða okkur um forna og nýja menningu og siði, um stjórnmál og brúðkaupssiði og hvaðeina sem okkur fýsti að vita. Hann lá t.d. ekki á þeirri skoðun sinni að ýmislegt mætti betur fara í indversku þjóðfélagi og sum vandamálanna illviðráðanleg. Stærstu vandamál Indlands eru p-in þrjú, sagði Amet, þ.e. “population, politicians og police” eða mannfjöldinn, stjórnmálamennirnir og lögreglan. Að hans mati þrífst mikil spilling meðal stjórnmálamanna og lögreglunnar.

Farsæld hennar í hans valdi

Sum okkar höfðu áhuga á að fræðast um stöðu kvenna á Indlandi, um möguleika þeirra til áhrifa á eigið líf og annarra, um tilhugalíf, brúðkaupssiði og sambúð hjóna. Enda vorum við rækilega minnt á þessi efni nánast daglega á ferð okkar, þar sem indversk brúðkaup eru mikil og langvinn hátíðahöld sem berast um götur og garða með skrúðgöngum, lúðrasveitum, dansi og háreysti. Þar er brúðguminn í aðalhlutverki, en brúðurinn situr heima og bíður þess að vera sótt og lætur lítið á sér bera. Með því er sleginn tónninn í lífi hennar að brúðkaupi loknu. Hennar hlutverk er að hugsa um heimilið, annast börnin og elda góðan mat handa manni sínum. Farsæld hennar er í hans valdi.

Hitti konuefnið í 2 mín. fyrir brúðkaupið

Amet fullyrti að 95 – 98 % indverskra hjónabanda væru skipulögð og umsamin af foreldrum hjónanna. Þar tíðkast að auglýsa eftir maka, t.d. í margra síðna fylgiriti helsta dagblaðs landsins á sunnudögum. Þar auglýsir t.d. myndarlegur, vel menntaður ungur maður, hindúatrúar með góða tekjumöguleika, eftir fallegri stúlku, sem er vel að sér í matreiðslu og heimilishaldi og ekki hærri en 1.60 á hæð! Mynd óskast. Svo streyma inn tilboðin og fjölskyldan sest á rökstóla, og ef saman gengur með foreldrum er væntanlegum hjónum stundum gefinn kostur á að hittast svolitla stund, jafnvel fara saman út að borða í fylgd með öðrum eða fara saman í bíó. Amet er sjálfur kvæntur og tveggja barna faðir og ákaflega ánægður með konu sína og syni. Hann hitti konuna aðeins í 2 mínútur fyrir brúðkaupið og leist bara vel á. Fjölskylda hans setti það fyrir sig hvað stúlkan var lágvaxin. Fjölskyldu hennar þótti það hins vegar ókostur að hann skyldi vera með gleraugu! Niðurstaðan varð að einn galli á hvoru þeirra væri viðunandi, og óðara var blásið til brúðkaups.

Skilnaðir fátíðir í Indlandi

Amet virtist mjög sáttur við þetta fyrirkomulag og benti á að skilnaðir væru fátíðir í Indlandi, hjónabönd þar héldu sem sagt mun betur en á Vesturlöndum þar sem fólk paraði sig á forsendum ástar. Hins vegar viðurkenndi hann að indversk hjón ættu ekki mikið val. Skilnaðir væru litnir hornauga, og slíkt háttalag spillti t.d. fyrir afkomendum sem væru þar með taldir óæskilegri á hjónabandsmarkaðinum þegar þar að kæmi. Þeir kynnu að vera óstöðugir í rásinni og ekki trausts verðir að mati hugsanlegs tengdafólks. Sem sagt fallnir í verði! Auðvitað blasir svo við að fráskilin kona er illa sett á Indlandi, en um það vildi Amet lítið ræða. Hins vegar lýsti hann blátt áfram og heiðarlega vinnudegi húsmóðurinnar, sem færi fyrst allra á fætur og gengi síðust allra til náða og virtist þykja þetta allt saman sjálfsagt og óumbreytanlegt.

Misrétti, svik og ofbeldi

Hvað stöðu kvenna varðar almennt eru öfgarnar miklar eins og á svo mörgum sviðum. Mörg dæmi eru þess að konum sé mikil virðing sýnd, þær láta til sín taka í stjórnmálum og á ýmsum öðrum sviðum, en svo virðist reyndar sem þar ráði fremur stéttarstaða, fjölskyldu- og ættartengsl en það hvort um karl eða konu er að ræða. Hin dæmin eru miklu, miklu fleiri, þar sem konur eru meðhöndlaðar sem annars flokks og annarra manna eign. Blöð og tímarit voru full af skelfilegum sögum um misrétti, svik og ofbeldi gagnvart konum. Löggjöf og lögregla breyta litlu þar um.

Innilokun eða lífið

Indverskar og erlendar kvennahreyfingar heyja harða baráttu fyrir réttindum og bættum hag kvenna, en mega sín sorglega lítils gagnvart aldagömlum hefðum. Í helstu borgum hafa þó orðið breytingar til batnaðar, en ævagamlir siðir eru rótgrónir í minni borgum, þorpum og sveitum landsins. Þar gefa foreldrar dætur sínar stráklingum og gömlum körlum og allt þar á milli og heimanmundur fylgir eftir efnum og ástæðum. Ef fjölskylda karlsins er ekki ánægð með heimanmundinn, kunnáttu stúlkunnar og þjónustu sætir hún oft illri meðferð og stundum hroðalegri. Lögregla og önnur stjórnvöld veita sjaldnast nokkurt skjól, og takist konunni að flýja kvalara sína er hún í raun dæmd til ævilangrar innilokunar ef hún vill halda lífi.

Eins og litskrúðug blóm

Ævi margra indverskra kvenna er í hróplegu ósamræmi við eðlislæga fegurð þeirra og yndisþokka. Þær eru eins og litskrúðug blóm í iðandi mannhafinu, alltaf vel greiddar og sveipaðar síðum marglitum klæðum, hvað sem þær eru að bjástra. Jafnvel sölukonurnar sem sátu á skítugri götunni í Jaipur að vigta hvítauk og baunir og gulrætur handa viðskiptavinunum. Jafnvel konurnar á ökrunum sem bogruðu við vinnu sína. Jafnvel konurnar í vegavinnunni sem báru steinahrúgu í körfu á höfði sér. Allar þessar konur báru hreinleg, litskrúðug klæði sem stungu í stúf við allt rykið og ruslið í kring. Að öllum líkindum áttu þær fyrir höndum að elda mat handa fjölskyldunni að vinnu lokinni.

Bókun í útvarpsráði

Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur og forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands skrifaði grein í Morgunblaðið 17. janúar sl. undir fyrirsögninni “Missagnir um áfanga í sögu kvenna”. Hún fjallaði þar um þátt Ómars Ragnarssonar um atburði 20. aldar, sem sendur var út 14. janúar sl. Í þættinum var m.a. fjallað um árið 1915, og því miður komu þar fram alvarlegar missagnir um kosningarétt kvenna og hvenær fyrstu sérframboð kvenna voru. Ég sá ekki þáttinn sjálf, en hefði annars tekið málið upp á næsta útvarpsráðsfundi 2 dögum síðar. Næsta fund þar á eftir, sem var 30. janúar, gat ég ekki sótt þar sem ég var erlendis. Hins vegar sendi ég ráðsmönnum bréf áður en ég fór og bað þá að fjalla um málið sem augljóslega þarfnaðist leiðréttingar. Það var gert, en eftir að ráðsmenn höfðu tekið fyrir athugasemdir Erlu Huldu og svör Ómars Ragnarssonar við þeim, komust þeir að þeirri niðurstöðu að málið væri á misskilningi byggt. Ekki var ég sátt við þessa afgreiðslu og lét því bóka eftirfarandi á fundi útvarpsráðs 13. febrúar sl:

“Þar sem ég gat ekki sótt fund útvarpsráðs 30. janúar sl. óska ég að fram komi eftirfarandi athugasemd við a)-lið 4. liðar í fundargerð þess fundar:

Að beiðni minni var á fundinum fjallað um missagnir í þætti Ómars Ragnarssonar frá 14. janúar sl. um atburði 20. aldar. Fyrir lágu grein Erlu Huldu Halldórsdóttur í Morgunblaðinu 17. janúar sl. svo og greinargerð Ómars Ragnarssonar um sama efni. Að því hvoru tveggja athuguðu er niðurstaða mín sú, að annað atriðið sem gagnrýnt var, þ.e. um fyrstu sérframboð kvenna, er þannig framsett, að það getur auðveldlega valdið misskilningi um tímasetningu þegar hlýtt er á það í upplestri. Hvað hitt atriðið varðar þá er í greinargerð ÓÞR viðurkennt réttmæti athugasemdar um þá fullyrðingu í þættinum að íslenskar konur hefðu fengið kosningarétt til jafns við karla árið 1915 og lýsir hann þeirri ætlan sinni að breyta textanum í endurflutningi. Þrátt fyrir þetta kemst ráðið að þeirri niðurstöðu að málið sé á misskilningi byggt.

Þar sem málið er tekið fyrir að mér fjarstaddri, en að minni beiðni, tel ég rétt að fram komi að ég er ekki sammála ofangreindri afgreiðslu ráðsins. Ég tel athugasemdirnar réttmætar og ekki á misskilningi byggðar.

Kristín Halldórsdóttir”.

Því er svo við að bæta að mér þótti leitt að sjá Ómar Ragnarsson svara grein Erlu Huldu með þeim hætti sem hann gerði í Morgunblaðinu. Svargrein hans var bæði yfirlætisleg og lítilsvirðandi í garð Erlu Huldu og ekki sæmandi svo ágætum og vel virtum sjónvarpsmanni sem ÓÞR vissulega er.

Indlandsferð II

Rajasthan heitir eitt hinna sögufrægu héraða Indlands, þar sem mógúlar og maharajar ríktu öldum saman og skildu eftir sig stórkostlegar minjar um veldisdaga sína. Þegar Indland varð lýðveldi árið 1947 var öllum smákóngunum í landinu gert að láta lönd sín af hendi, þeim var bannað að nota titla, en þeir máttu halda híbýlum sínum og höllum, sem margar hverjar eru nú nýttar í þágu ferðaþjónustunnar, t.d. sem söfn og/eða hótel. Um þetta hérað, Rajasthan, ferðuðumst við hjónin nýlega að lokinni alþjóðlegri ráðstefnu ritstjóra í Delhi dagana sem jörðin skalf í Gujarat eins og ég lýsti í síðasta pistli. Í Delhi urðum við mjög vör við umfjöllun um hamfarirnar miklu og viðbrögð við þeim og m.a. söfnunarátak til aðstoðar fórnarlömbum, en ekkert slíkt varð á vegi okkar um Rajasthan, þótt héraðið sé nær Gujarat.

Minnisvarði um ást

Agra er sá staður sem flestir vitja sem til Indlands koma, því þar er grafhýsið fræga, Taj Mahal, sem sumir kalla “ástarhofið”. Taj Mahal er með sanni eitt af sjö undrum veraldar og ber fagurt vitni um ást mógúlsins Shah Jahan til konu sinnar, Mumtaz Mahal, sem dó af barnsförum, þegar hún ól honum 14. barn þeirra. Hann syrgði hana svo ákaft að hann reisti henni þennan óbrotgjarna minnisvarða á árunum 1632 til 1654. Sagt er að 20 þúsund manns hafi unnið að byggingu Taj Mahal. Aðalarkitektinn, Isa Khan, var frá Persíu. 1000 fílar fluttu mjallhvítan marmarann 300 km. leið. Eðalsteinar voru fluttir alla leið frá Afríku, Persíu, Sri Lanka og Kína og perlumóður úr Indlandshafi. Í þessu undurfagra grafhýsi hvíla þau svo hlið við hlið, stórmógúllinn og hans elskaða eiginkona.

Djásnið dýrt og rusl í haugum

Sitthvað fleira merkilegt má sjá í Agra, sem er milljón íbúa borg og reyndar skelfing óræstileg, jafnvel á indverskan mælikvarða. Mannabústaðir eru þar hrörlegir og götur slæmar og hvarvetna moldryk, skítur og rusl í haugum, sem stingur illilega í stúf við við djásnið dýra, Taj Mahal. Og þannig er því miður víða í indverskum bæjum og borgum. Mannmergðin er gríðarleg og á götunum ægir öllu saman, gangandi fólki, stórum og smáum bílum, hestakerrum, úlföldum, reiðhjólum, fílum, mótorhjólum, hundum, geitum, grísum og kúm.

Ekkert bann við lausagöngu búfjár!

Þar um slóðir gildir ekkert bann við lausagöngu búfjár og eins gott að varast allan úrganginn úr blessuðum skepnunum. Tími hinnar heilögu kýr er öldungis ekki liðinn, menn nytja kýrnar sínar meðan þær gefa eitthvað af sér, en að svo búnu er þeim sleppt lausum. Þær lötra svo um götur og gangstéttir, garða og tún og þiggja það sem að þeim er vikið, þær leggjast til hvílu þar sem þær lystir, jafnvel á miðri umferðargötu og umferðin hlykkjast í kringum þær.

Engin leið er að skilja hvernig umferðin gengur fyrir sig í Indlandi, og reyndar sagði Amet, leiðsögumaður okkar, að bílstjórar þyrftu aðeins að hafa þrennt í lagi, nefnilega flautuna, bremsurnar og eigin heppni. Hvað sem því líður þá sáum við aldrei árekstur eða slys í þessari ótrúlegu ringlureið, en hér kemst maður varla nokkurn tíma Miklubrautina á enda án þess að sjá árekstur.

“Draugabærinn” Fatehpur Sikri

Best varðveitti bærinn frá tímum mógúlanna heitir Fatehpur Sikri og er aðeins 40 km. frá Agra. Einn mógúlanna lagði grunninn að bænum á 16. öld og ætlaði að gera hann að höfuðborg ríkisins. Vegna vatnsskorts var hann hins vegar aðeins nýttur til búsetu í fáein ár og er nú “draugabær”. Stórkostlegar byggingar standa þarna auðar og gagnslausar nema til yndisauka gestum. Ég hreifst mjög af Fatehpur Sikri, sem ég skoðaði þegar ég var í Indlandi 1997, en ekki í þetta sinn.

“Bleika borgin”

Jaipur er stundum kölluð “bleika borgin”, þar sem mörg húsanna í miðborginni eru með bleikum lit. Jaipur telur vel á 2. milljón manna og er höfuðborg Rajasthan. Þar eru hallir og kastalar og þar er stórmerkileg tímamælinga- og stjörnuathugunarstöð og ekki síst litríkt og iðandi mannlíf á götunum, smáverslanir og götusala við hvert fótmál. Uppi í hæðunum skammt utan borgarmarkanna er Amber-kastali, sem merkilegt er að skoða. Þangað er gjarna riðið á fílum, sem við og gerðum, og sennilega nægir mér sú fílareið fyrir lífstíð. Er ólíkt ljúfara að tölta á íslenskum hesti. Indverski fíllinn er annars stórmerkilegt dýr, skapgóður og auðtaminn og þjónar húsbændum sínum dyggilega ef vel er með hann farið.

“Bláa borgin”

Jodhpur er nær milljón íbúa borg nánast í jaðri mikillar eyðimerkur og gjarna kölluð “bláa borgin” vegna áberandi blámálaðra húsa. Þar er stærsta virkið í Rajasthan, Meherangarh, sannarlega heimsóknar virði með öllum sínum safngripum frá tímum maharajanna. Og ekki er síður skemmtilegt að ganga þaðan niður í borgina eftir þröngum götum, þar sem konur og börn sitja fyrir dyrum úti við margvíslega iðju. Í Jodhpur gistum við í stórglæsilegri höll, sem reyndar var byggð á fyrri hluta 20. aldar og hýsir nú bæði hótel og safn, auk þess sem afkomendur maharajanna eiga þar heimili.

Undir stjörnum og fullu tungli

Síðasta borgin sem við heimsóttum heitir Udaipur (pur þýðir borg). Á leiðinni þangað komum við að Jainshofi, en jainisminn á rætur sínar í hindúatrúnni. Fylgjendur leggja mikið upp úr heilbrigðu líferni og hafna öllu ofbeldi, og þangað sótti Mahatma Gandhi hugmyndafræði sína sem dugði til þess að frelsa Indland undan yfirráðum Breta. Við fengum að fylgjast með lokamessu dagsins við kertaljós og tunglskin og skoðuðum þetta stórkostlega hof með óteljandi mismunandi súlum undir leiðsögn æðsta prestsins. Þak var ekki yfir nema hluta hofsins, og fegurra hvolfþak gerist ekki í guðshúsi en heiður himinninn settur stjörnum og fullu tungli eins og þar og þá. Það var ógleymanleg stund.

“Borg vatnanna”

Udaipur er lítil borg á indverskan mælikvarða með aðeins nær 400 þús. íbúa. Vötnin þar setja svip á borgina, en þau eru nú með minnsta móti vegna þurrka undanfarin ár. Munar fleiri metrum á yfirborði vatnanna frá því sem best lætur. Eftir skoðunarferðir fyrri daga um kastala, virki og hallir reyndist höllin í Udaipur ekkert sérlega minnisverð. Hins vegar var gaman að ganga um bæinn og skoða t.d. glæsilegt Shiva-hof frá miðri 17. öld. Hápunkturinn var að gista á Lake Palace, sem er heimsfrægt hótel innréttað í fyrrum sumarhöll, byggðri um miðja 18. öld. Hótelið stendur á eyju í stóru vatni beint fram af aðalhöllinni. Hótelið er með glæsilegu útsýni og ótrúlega fallegt í sjálfu sér, þar sem nostrað hefur verið við hvert einasta smáatriði, hvern dyraumbúnað, hverja smátjörn, hverja veggskreytingu, allt. Ég á varla á minni ævitíð eftir að dvelja á fegurri gististað, gjörðum af manna höndum.

Indlandsferð I

Fyrir fjórum árum var ég fulltrúi Alþingis á ráðstefnu um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum sem Alþjóða þingmannasambandið hélt í Delhi á Indlandi. Ráðstefnan var bæði þörf og skemmtileg, og um leið tókst mér að fá örlitla nasasjón af landinu og þeirri litríku þjóð sem það byggir. Mér fannst þetta heillandi heimur og óskaði þess að mér gæfist færi á að kynnast honum betur. Það tækifæri kom þó fyrr en mig grunaði þar sem alþjóðasamtök ritstjóra,IPI, héldu þar sína árlegu ráðstefnu 27. – 30. janúar sl. Eiginmaðurinn er virkur félagi í IPI og ég fer stundum með honum á þessar ráðstefnur. Þær eru oft mjög áhugaverðar og skarta heimsfrægum ræðumönnum. Í þetta sinn vöktu mesta athygli tveir Nóbelsverðlaunahafar, sjálfur Dalai Lama, æðsti prestur útlagastjórnar Tíbeta, og hagfræðingurinn Amartya Sen, sem hefur breytt sýn margra á hagfræðina.

Jörðin skalf í Gujarat

Jarðskjálftinn ógurlegi í Gujarat 26. janúar setti svip sinn á ráðstefnuna eins og allt annað í Indlandi þessa dagana. Við urðum hans greinilega vör, stödd á 5. hæð hótels í Delhi, þótt við tryðum því tæplega að um jarðskjálfta væri að ræða. Þennan dag voru mikil hátíðahöld í gangi vegna lýðveldisdagsins, skrúðgöngur og hersýningar, fílatraðk og þotuflug. Við kenndum því um, þar til við sáum fréttirnar í sjónvarpinu. Og þvílíkar fréttir! Þær þöktu síður blaðanna hvern einasta dag, og smám saman varð ljóst hvílíkt manntjón og eyðilegging hefur átt sér þarna stað. Í fyrstu var talið að rúmlega þúsund manns hefðu farist, en sú tala hækkaði dag frá degi eftir því sem fyllri mynd fékkst af ástandinu. Hún er þó furðu brotakennd ennþá hálfum mánuði eftir hamfarirnar.

Fyrstu dagana eftir jarðskjálftann snerist umfjöllun fjölmiðla um tjónið á mönnum og mannvirkjum, og síður blaðanna voru þaktar reynslusögum einstaklinga og heilla fjölskyldna, sögum af hörmungum eða giftusamlegri björgun. Fljótlega fór svo að bera á gagnrýni vegna ótrúlega seinna viðbragða og ómarkvissra aðgerða stjórnvalda. Sú gagnrýni virðist sannarlega á rökum reist, því enn hefur t.d. engin opinber aðstoð borist til nokkurra staða sem þó er vitað að urðu fyrir tjóni.

Óhæfir stjórnmálamenn

Merkilegt var að fylgjast með umræðuþætti á vegum BBC, þar sem fjórum lykilpersónum var stillt uppi frammi fyrir fullum sal af fólki frá jarðskjálftasvæðunum. Þarna var innanríkisráðherra Gujarat, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, talsmaður björgunarsveita sjálfboðaliða og talskona kvennasamtaka, sem hvor tveggja þykja hafa unnið ómetanlegt starf og nutu augljósrar virðingar viðstaddra. Stjórnmálamennirnir riðu hins vegar ekki feitum hesti frá þessum umræðum. Fólkið í salnum var reitt og spurði vægðarlausra spurninga um reglur og eftirlit með byggingum, um óhæfa stjórnendur og fálmkennd viðbrögð. Stjórnandi umræðnanna fylgdi spurningunum fast eftir (væri gaman að sjá svipuð tilþrif hér!) og píndi stundum fram svör, en oftar en ekki fékkst ekki annað en tafs og rugl og ábyrgð vísað út og suður. Og fólkið í salnum gerði hróp að þessum augljóslega óhæfu pólitíkusum svo að þeir máttu oft vart mæla fyrir hávaða.

Margar sögur voru sagðar af heimskulegum stjórnarháttum. Einn sagði m.a. frá því hvernig skrifræðið hefði tafið losun flutningabíls með hjálpargögn í lengri tíma, þar sem krafist hefði verið uppáskriftar embættismanns, sem reyndist hafa farið heim að sofa. Hópur manna beið verklaus á meðan, en tilbúinn að tæma bílinn um leið og embættismaðurinn hefði skrifað nafnið sitt!

Spilling, ringulreið, skipulagsleysi

Sú staðreynd er hrikaleg að tugir þúsunda mannslífa fóru forgörðum í þessum hamförum fyrst og fremst vegna mannlegra mistaka, vegna brota á reglum og eftirliti með byggingum, vegna spillingar, ringulreiðar og skipulagsleysis. Í þessu stóra landi þessarar fjölmennu þjóðar, sem oft hefur mátt þola náttúruhamfarir af margvíslegu tagi, virðast stjórnvöld ófær um að bregðast við slíkum aðstæðum. Það er ótrúlegt. Sama dag og versti jarðskjálftinn reið yfir fór fram glæsileg skrúðganga eftir megin breiðstræti höfuðborgarinnar að viðstöddum erlendum gestum og helstu framámönnum þjóðarinnar. Hvert hérað Indlands sýndi hermenn í búningum síns fylkis, sumir þrammandi, aðrir ríðandi hestum eða fílum, auk þess sem hópar dansandi kvenna og barna í litskrúðugum klæðum settu svip á hátíðahöldin. Hermennirnir kunnu svo sannarlega að þramma í takt og snúa andlitinu allir sem einn á réttu augnabliki að stúku forsetans og tignargesta hans. Og flugmennirnir sýndu glæsileg tilþrif á þotunum sínum þegar þeir settu lokapunktinn aftan við þessa skrautsýningu. Á meðan kvaldist fólkið í Gujarat tugþúsundum saman undir rústum húsanna, sem fæst voru byggð samkvæmt settum reglum. Og það mátti sumt bíða lengi eftir hjálpinni, sem í mörgum tilvikum barst of seint. Margir misstu limi og jafnvel lífið vegna þess að læknishjálp var ónóg. Sums staðar hafði sjúkrahús hreinlega hrunið og læknar og hjúkrunarlið farist. Stórvirk tæki vantaði til að lyfta stoðum og vegghlutum ofan af fólki, og þá var helsta ráðið að aflima á staðnum til að ná manneskjunni undan farginu.

Munu þeir læra?

Forsætisráðherra Indlands heimsótti jarðskjálftasvæðin á þriðja degi. Hann fór um í fylgd fjölda eigin starfsmanna og embættismanna í Gujarat, sem á meðan sinntu ekki bráðnauðsynlegum aðgerðum. Fleiri stjórnmála- og embættismenn fylgdu í kjölfarið og að lokum voru slíkar heimsóknir eindregið afþakkaðar þar eð þeir þvældust bara fyrir og tefðu björgunarstarfið.

Talskona kvennasamtakanna sagði nauðsynlegt að læra af þessu öllu saman, það yrði að vera til áætlun og brýnt væri að koma á fót varasjóði að grípa til við slíkar aðstæður. Talsmaður björgunarsveitanna talaði um nauðsyn samræmdra aðgerða og manni varð hugsað til náttúruhamfara hér heima, viðbragða við þeim og allrar umræðunnar um tengsl eða tengslaleysi t.d. milli Almannavarna ríkisins og björgunarsveitanna. En þótt alltaf megi gera betur hér heima sem annars staðar getum við verið nokkuð viss um að við erum betur búin undir viðlíka hamfarir og áttu sér stað í Indlandi 26. jan. sl. heldur en systur okkar og bræður þar eystra.

Mannréttindi og kvennapólitík

Dómur Hæstaréttar í málefnum öryrkja snýst um mannréttindi og sjálfsvirðingu. Hann snýst um rétt hvers einstaklings til lágmarks lífeyris og efnalegs sjálfstæðis óháð stöðu og tekjum maka. Og hann er í eðli sínu kvennapólitískur vegna þess að hann varðar fyrst og fremst stöðu kvenna. Það eru einkum konur sem eru látnar gjalda þess sem einstaklingar, ef makar þeirra hafa tekjur yfir ákveðnu marki.

Um þetta snýst dómur Hæstaréttar. Hann snýst hins vegar ekki um það að greiðslur til öryrkja eru almennt of lágar. Þær eru svo lágar að það er þjóðfélaginu til vansa. Og sama er að segja um ellílífeyrisgreiðslur. En um það snýst ekki dómurinn. Það var ekki tilefni málssóknar Öryrkjabandalagsins, enda er það ekki Hæstaréttar að úrskurða um slíkt. Það er pólitískt úrlausnarefni.

Málið er tiltölulega einfalt og þess vegna alveg með ólíkindum hvernig sumir bregðast við dómi Hæstaréttar. Ráðherrarnir, einkum formenn stjórnarflokkanna, eru augljóslega sneyptir og móðgaðir yfir þeirri ráðningu sem í dómnum felst og leggja sig í líma við að lesa út úr honum eitthvað annað en þar stendur. Þeir reyna að slá ryki í augu almennings og tönnlast á því að menn hafi ekki áttað sig á að þetta mál varði aðeins lítinn hluta öryrkja, eða um 700 þeirra rúmlega 8 þúsund öryrkja sem eru í landinu. Þeir ásaka jafnvel forystumenn öryrkja og stjórnarandstöðuna um að hafa skapað væntingar meðal öryrkja um að þeir muni allir fá greiðslur aftur í tímann og verulega hærri greiðslur í framtíðinni. Ásakanir þessara manna eiga ekki við nein rök að styðjast. Þvert á móti eru það þeir sem gera sig seka um að drepa málinu á dreif, flækja það og snúa út úr. Það er ljótur leikur og ómerkilegur. Hins vegar er það hlálegt þegar þeir setja upp geislabaug og segjast vilja flýta endurskoðun laga og reglna til þess að tryggja að þeir sem minnst mega sín fái meira í sinn hlut! Einkennilegt að allt þetta skyldi þurfa til að þeir létu sér detta það í hug.

Kjarni málsins er sá að núverandi lágmarksgreiðsla, þ.e. sjálfur grunnlífeyririnn, er svo lág að hún getur ekki talist grunnlífeyrir. Greiðslur til öryrkja eru nú inntar af hendi í fjórum liðum, þ.e. grunnlífeyrir, tekjutrygging, heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót. Grunnlífeyririnn stendur engan veginn undir nafni, þar sem hann er nú aðeins kr. 18.424, en að viðbættri tekjutryggingu skríða þessar greiðslur yfir 50 þús. kr. Dómur Hæstaréttar gengur í raun út á það að þessir tveir liðir myndi það lágmark sem hverjum skuli ætlað til grunnlífeyris. Tekjur maka eigi ekki að hafa nein áhrif á þær greiðslur. Heimilisuppbætur eru svo greiddar einhleypingum og ekki öðrum, þannig að í því efni er tekið tillit til hjúskaparstöðu viðkomandi. Heimilisuppbæturnar geta nú numið allt að 22.556 kr., og það er sú upphæð sem einhleypingurinn tapar við það að efna til sambúðar eða hjónabands.

Málið er ekki flóknara en þetta. Sérkennileg viðbrögð ráðherra ríkisstjórnarinnar stafa annars vegar af skömmustu þeirra sem skynja sekt sína og hins vegar drambsemi þeirra sem aldrei þola að lúta í lægra haldi.

Vörumst mistök Norðmanna

Ólíkt höfðust þeir að æðstu ráðamenn á Íslandi eða í Noregi um aldamótin. Forystumenn íslensku stjórnarflokkanna sýndu að þeir hafa ekki þokast upp úr hjólförum gamaldags nýtingarstefnu, þegar náttúran er annars vegar. Að svo miklu leyti sem þeir viku orðum að þeim málaflokki var ljóst að þeim er ekki aukið tillit til náttúrunnar í huga. Í áramótaávörpum norskra ráðamanna kvað hins vegar við annan tón og nútímalegri. Sérstaka athygli vakti yfirlýsing norska forsætisráðherrans um að tími stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn og að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hætta við þrjár umdeildar virkjanir sem búið var að heimila.

Yfirlýsingunni var vel tekið af meirihluta fólks í Noregi og hún virðist njóta stuðnings allra þarlendra stjórnmálaflokka. Annað er uppi á tengingnum, þegar leitað er álits íslenskra ráðamanna, sem þykjast ekki skilja samhengi hlutanna. Norsk Hydro er að stórum hluta í eigu norska ríkisins, sem þarna hefur markað alveg nýja stefnu í virkjanamálum og til varðveislu ósnortinna víðerna. Norska ríkið getur því tæpast staðið að starfsemi hér á landi með þátttöku Norsk Hydro, sem hefði í för með sér önnur eins spjöll í íslenskri náttúru og fyrirhuguð Kárahnjúkavirkjun óhjákvæmilega ylli.

En íslenskir ráðamenn berja höfðinu við steininn. “Við eigum nóg víðerni”, segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Austurlandi og virðist þykja lítið til slíkra landsvæða koma. Aðrir taka í sama streng og láta að því liggja að hér sé lítið í húfi og staða Norðmanna allt önnur. Og reyndar er hún það. Ennþá. Þeir áttuðu sig hins vegar á því fyrir um áratug að þeir væru búnir að ganga svo á ósnortna náttúru lands síns að hún næði ekki yfir nema um 12% landsins. Þeir naga sig í handarbökin nú fyrir þá skammsýni og yfirgang að hafa ráðist í Alta-virkjun í Norður-Noregi þrátt fyrir harða andstöðu heimamanna þar. Gro Harlem Brundtland hefur viðurkennt að það voru mistök. En slík mistök verða ekki aftur tekin hversu mjög sem menn vildu. Stórvirkjanir og risastíflur marka varanleg skemmdarverk í ásjónu lands og náttúru.

Fyrir nokkrum árum fékk ég samþykkt á Alþingi að hugtakið “ósnortið víðerni” yrði skilgreint og síðan kortlögð þau svæði sem teldust falla undir slíka skilgreiningu. Tilgangurinn var auðvitað sá að hægt væri að gera sér grein fyrir umfangi þeirra og varðveislugildi.

Sérstakri nefnd var falið að skilgreina hugtakið og studdist þar við bandarískar og norskar skilgreiningar. Niðurstaðan rataði inn í ný lög um náttúruvernd og mun öðlast traustari sess þegar lögboðin náttúruverndaráætlun hefur séð dagsins ljós. En ekkert er enn farið að vinna að kortlagningu. Af einhverjum ástæðum virðist umhverfisráðherra ekki hafa áhuga á að hrinda því verki í framkvæmd þrátt fyrir einróma samþykkt Alþingis 1999. Það er auðvitað óviðunandi með öllu. Ekki einungis vegna þess að með því er ráðherra að hunsa vilja Alþingis, heldur ekki síður vegna þess að það vantar nákvæmar tölur og upplýsingar að vinna með.

Ósnortin víðerni Íslands eru fjársjóður sem aðrar þjóðir hafa glatað. Þær hafa flestar nýtt og manngert nánast hvern lófastóran blett í löndum sínum og geta ekki lengur notið þeirra lífsgæða sem felast í ósnortnum víðernum. Þau gæði eru ómetanleg með tilliti til rannsókna og vísinda, fræðslu og ferðamennsku og sem þáttur í ímynd lands og þjóðar. Við megum ekki láta stórvirkjanastefnuna eyðileggja þennan fjársjóð. Við eigum að læra af mistökum Norðmanna og taka stefnubreytingu þeirra til fyrirmyndar.

Við teljum okkur geta státað af stærsta ósnortna víðerni í Vestur-Evrópu og þótt víðar væri leitað. En hversu stór eru þessi svæði? Það eigum við að kanna og kortleggja.

Kryddsíld karla

Hefðbundinn reiðtúr á hinsta degi ársins varð að þessu sinni að víkja fyrir hálsbólgu og kvefi. Í staðinn horfði ég á Kryddsíldina á Stöð 2 og fannst hún satt að segja leiðinleg. Fúlast fannst mér að horfa upp á þann eindregna karlasvip sem á þættinum var. Þarna sátu þeir Karl og Sigmundur Ernir, sem börðust nýlega um fréttastjóratitilinn þegar Páll Magnússon fékk vel launað djobb hjá Kára klára, og spurðu fimm stjórnmálakarla hefðbundinna áramótaspurninga. Svörin voru fyrirsjáanleg og vöktu nákvæmlega engin hughrif. Hefur þessi þáttur virkilega alltaf verið svona leiðinlegur?

Edda var eina konan sem sást á skerminum milli auglýsinga og fyrir utan brosið, sem hún fór ekki spart með frekar en venjulega, hafði hún það hlutverk að taka á móti manni ársins að mati Stöðvarinnar. Sá var merkilegt nokk af karlkyni og hafði pabba sinn með sér. Að þættinum loknum datt einhverjum á heimilinu í hug að skipta yfir á Skjáinn, og sat þá ekki Egill súperspyrill þar umkringdur jakkafataklæddum fulltrúum fjögurra stjórnmálaflokka. Hvað er eiginlega að þessum körlum? Finnst þeim þeir vera ómissandi? Líklega er það svo.

Þá var nú Kastljósþátturinn kvöldið áður betri. Meirihluti þátttakenda var reyndar af karlkyni, en konur gegndu þar svo sannarlega veigamiklum hlutverkum. M.a. var maður ársins þar Vala Flosadóttir, sem hefði reyndar mátt fá betri spurningar. Af hverju fær þetta afreksfólk okkar í íþróttum alltaf svona ófrumlegar spurningar? “Segðu mér Vala, hvað hugsaðirðu eiginlega þegar þú stökkst yfir 4.50?”. “Hvað æfirðu marga klukkutíma á viku?”. “Og hvað tekur nú við hjá þér? Ha?”

Vala Flosadóttir á svo sannarlega inni fyrir öllum þeim heiðri og aðdáun sem hún hefur hlotið. Ekki einasta er hún afrekskona á sínu sviði, heldur er hún geislandi persónuleiki, einbeitt, jákvæð, dugleg, einlæg og hógvær í senn. Í einu orði sagt frábær, sem er líklega það lýsingarorð sem hún sjálf hefur notað hvað mest um reynslu sína á liðnu ári.

Satt að segja var ég ekki alveg í rónni fyrr en ljóst var orðið að Vala hafði verið kjörin íþróttamaður ársins. Það hefði verið alveg eftir þessum körlum að kjósa frekar karlkyns íþróttamann. En þeir stóðust mátið. Og það merkilegasta og sögulegasta við þetta kjör var sú staðreynd að í þremur af fjórum efstu sætunum voru að þessu sinni konur. Það er stórkostlegur árangur. Hver og ein þeirra, og Örn sundkappi að sjálfsögðu líka, hafði í raun unnið til þess að hampa þessum eftirsótta titli, ekki síst Kristín Rós, sem minnir um margt á Völu bæði hvað varðar afrek og persónuleika.

Konur sækja svo sannarlega sífellt í sig veðrið á öllum sviðum. En þvílík barátta! Viðhorfin og umhverfismótunin eru svo sterk að það má aldrei slaka á. Það fennir svo fljótt í sporin. Fyrir fáeinum árum hefði Kryddsíldin t.d. ekki litið út eins og nú síðast. Fyrir aðeins örfáum árum sátu þar þrjár konur og þrír karlar sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna. Var Kryddsíldin betri þá? Var hún skemmtilegri? Ég veit það ekki. En hún gaf altént réttari mynd af þessu samfélagi okkar.

Mikið vildi ég hafa komist í reiðtúrinn í þessu kalda en fallega veðri sem prýddi hinsta dag ársins. Það er ekki hollt að hleypa svona mikilli gremju inn á sig.

“Meinvill í myrkrunum”

Ungliðahreyfing Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs var stofnuð 18. nóvember sl. og hyggst láta til sín taka með ýmsu móti. Eitt það fyrsta sem unga fólkið á suðvesturhorninu tók sér fyrir hendur var að sanka að sér leikföngum við hæfi barna á ýmsum aldri og pakka þeim inn eina skemmtilega kvöldstund í desemberbyrjun. Það kom síðan í hlut undirritaðrar ásamt einum galvöskum ungliða að koma nokkrum pappakössum fullum af jólagjöfum til Mæðrastyrksnefndar í Reykjavík, sem sér um að þær lendi þangað sem þörfin er fyrir.

Ekki veit ég hvort þetta er algengt verkefni ungliðahreyfinga innan íslenskra stjórnmálaflokka, en er þó nær að halda að svo sé ekki. Illar tungur segja að þar sé aðaláherslan á æfingar í kappræðum og glasalyftingum sem séu nauðsynlegar til undirbúnings þátttöku í “alvöru” stjórnmálum. En svona eru þessir vinstri grænu, alltaf dálítið sér á parti. Sem betur fer.

Það var merkileg reynsla að fara með jólagjafakassana til Mæðrastyrksnefndar á Sólvallagötu 48. Við fórum með kassana baka til. Þar ægði saman ótal kössum með matföngum, fatnaði og jólagjöfum. Önnum kafnar konur smeygðu sér milli kassanna í leit að því sem við átti hverju sinni. Þær þökkuðu okkur og blessuðu í bak og fyrir og sögðu að ekki veitti nú af, slík væri aðsóknin og þörfin.

Það voru orð að sönnu. Tugir ef ekki hundruð manna mynduðu langa biðröð sem náði út á götu og fram með næstu húsum. Sumir voru niðurlútir og úr baksvipnum mátti lesa: Afsakið að ég skuli vera til. Aðrir voru með hörkusvip eins og þeir vildu segja: Mér er fjandann sama hvað aðrir segja, þetta er eina leiðin til að við getum haldið sæmileg jól.

Eftir götunni óku bílar. Einn þeirra stansaði og út vatt sér miðaldra vel búinn karlmaður. Hvað er hér um að vera?, spurði hann hátt. Ég varð fyrir svörum. Hann horfði á mig og svipur hans lýsti takmarkalausri undrun. En hann sagði ekki orð. Svo settist hann inn í fína bílinn sinn og ók á brott.

Af einhverjum ástæðum duttu mér í hug ljóðlínurnar úr sálminum “Heims um ból” sem vöfðust svo mjög fyrir mér í bernsku: “…en gjörvöll mannkind meinvill í myrkrunum lá”.

Til hamingju RÚV!

Ríkisútvarpið okkar á afmæli dag. Það er 70 ára. Eins og vera ber hefur þessara merku tímamóta verið minnst á ýmsan hátt, aðallega á flaggskipinu, Rás eitt, sem segja má að hafi haldið margra daga afmælisveislu. Engin leið hefur verið að hlusta á það allt, en nógu oft og mikið til að geta staðfest að veislan hafi tekist með ágætum.

Það er afskaplega gaman að rifja upp gömul kynni við útvarpsfólk liðinna ára, sem voru sannkallaðir heimilisvinir. Manni hlýnar um hjartaræturnar að heyra raddir þessa fólks sem skemmti og fræddi og stytti landsmönnum stundir, og manni verður á að bera sitthvað af þessu endurflutta efni við blaður- og síbyljuþætti hinna “frjálsu” stöðva nútímans, þar sem engin krafa virðist gerð um fagmennsku og vönduð vinnubrögð. Og þá þakkar maður hátt og í hljóði fyrir að Ríkisútvarpið er enn á sínum stað.

En hversu lengi fær það að vera a.m.k. í friði, að ekki sé nú minnst á að efla það? Ríkisútvarpið á verulega í vök að verjast um þessar mundir. Að því er sótt úr ýmsum áttum, en aðallega úr áttum einkavæðingar og frjálshyggju. Þar étur hver upp eftir öðrum að útvarps- og sjónvarpsrekstur sé best kominn í höndum einkaaðila og um leið er alið á óánægju með lögbundin afnotagjöld sem standa að drjúgum hluta undir rekstri RÚV. Með jöfnu millibili birtast lesendabréf í dagblöðunum, þar sem fólk kvartar yfir því að þurfa að greiða afnotagjöld af einhverju sem það notar aldrei, og sífellt er nöldrað yfir dagskrárliðum, einkum sjónvarpsins.

Rás eitt virðist reyndar njóta mikillar virðingar meðal landsmanna og það með réttu. Þar heyrist margt mjög gott og vel unnið efni. Rás tvö er umdeildari, en gegnir þó mikilvægu hlutverki. Hún á að ná til þeirra sem finnst efni Rásar eitt fullþungt og hámenningarlegt á köflum. Henni tekst það býsna vel, en er dálítið farin að hjakka í sama farinu og væri nauðsynlegt að gefa dagskrárgerðarfólki þar færi á að efla sig og bæta. Þegar metnaðarlausa bullið, sem kallað er dagskrárgerð á “frjálsu” stöðvunum, er borið saman við dagskrárgerð Rásar tvö eru yfirburðir hennar þó augljósir. Það vekur hins vegar ugg í brjósti að nú er að vaxa upp kynslóð sem hlustar mest og jafnvel eingöngu á síbyljuna og bullustrákana á “frjálsu” stöðvunum.

Samanburður sjónvarpsstöðvanna er erfiðari. Sjónvarp RÚV þyrfti svo sannarlega að bjóða upp á fleiri íslenska dagskrárliði og fyrst og fremst metnaðarfyllri dagskrá, sem einkennist um of af amerískum sápuóperum og kvikmyndum úr þeirri sömu átt. Þó eru þar margir vel unnir íslenskir dagskrárþættir sem hafa skapað sér sess á heimilum landsmanna, s.s. Mósaík, og aðrir nýtilkomnir sem vekja athygli, s.s. OK. Í þessum stutta pistli verður ekki fleira nefnt né farið í neinn samanburð. Þó vil ég nefna að mér finnst dæmalaust hvað Stöð 2 og einkanlega unglingurinn Skjár einn sleppa við gagnrýni á það dagskrárefni sem þessar stöðvar bjóða upp á. Sá misskilningur virðist t.d. afar útbreiddur að Skjár einn sé með nánast eingöngu íslenska dagskrá, og er það með ólíkindum þegar litið er yfir dagskrárkynningar í blöðunum, að ekki sé minnst á blygðunarlausa markaðshyggjuna sem þar ríður húsum.

Mig hefur oft undrað hversu lítið heyrist í hollvinum Ríkisútvarpsins, sem ég er reyndar sannfærð um að eru miklu fleiri en óvinir þess. Þeir ættu að slá skjaldborg um þessa menningarstofnun sem gegnir svo mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Heilög hamingjan forði okkar frá því að sitja uppi með eintóma lágkúru bullustöðvanna. Til hamingju Ríkisútvarp allra landsmanna!

Stækkun álvers óráð

Norðurál hf vill stækka verksmiðju sína á Grundartanga upp í allt að 300 þúsund tonna framleiðslugetu. Fyrirtækið hefur af því tilefni sett fram tillögu að áætlun um mat á umhverfisáhrifum, sem allir hafa rétt til að gera athugasemdir við. Eftirfarandi eru þær athugasemdir sem ég sendi Skipulagsstofnun:

Undirrituð gerir eftirfarandi athugasemdir við tillögu Norðuráls hf að matsáætlun fyrir 300 þúsund tonna álver á Grundartanga:

1.

Nú stendur yfir vinna á vegum stjórnvalda við svonefnda Rammaáætlun. Í henni er gert ráð fyrir víðtæku mati á verndun og nýtingu orkuauðlinda hér á landi. Þar til niðurstöður þeirrar vinnu liggja fyrir er tvímælalaust rétt að fresta öllum ákvörðunum og undirbúningi að frekari framkvæmdum á sviði stóriðju og tilheyrandi stórvirkjunum. Með tilliti til þess gerir undirrituð þá kröfu að mati á umhverfisáhrifum stækkaðrar álverksmiðju á Grundartanga verði frestað a.m.k. þar til Rammaáætlun liggur fyrir. Í því sambandi er vert að minna á að með tilliti til náttúruverndar við nýtingu orkulinda, svo og almennrar þarfar fyrir aukna orku vegna mannfjölgunar og vegna vistvænnar framleiðslu, er alls óvíst að hægt verði að auka orkuframleiðslu til stóriðjuverksmiðja.

2.

Í tillögu Norðuráls hf að matsáætlun kemur fram að til þess að fullnægja orkuþörf fyrirhugaðrar 300 þúsund tonna álframleiðslu þurfi um 3100 Gwst. til viðbótar þeirri orku sem notuð verður hjá Norðuráli á Grundartanga þegar stækkuninni í 90 þúsund tonna ársframleiðslu verður lokið. Einnig kemur fram að ekki liggur fyrir hvaðan né hvernig öll þessi orka gæti fengist. Ef ráðist verður í mat á umhverfisáhrifum vegna 300 þúsund tonna álframleiðslu á Grundartanga er það skýlaus krafa að samtímis fari fram mat á þeim virkjunum og orkuflutningi sem óhjákvæmilegur er vegna slíkrar álframleiðslu svo að hægt sé að gera sér grein fyrir málinu í heild sinni.

3.

Í tillögu Norðuráls hf að matsáætlun kemur fram hversu gríðarlega aukningu losunar á gróðurhúsalofttegundum fyrirhuguð álframleiðsla hefði í för með sér. Íslendingar eru nú þegar komnir fram úr þeim mörkum sem Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar gerir ráð fyrir. Losun gróðurhúsalofttegunda frá 300 þúsund tonna álveri á Grundartanga myndi samkvæmt framsetningu Norðuráls auka heildarlosun hér á landi um meira en 30%. Það er vitaskuld algjörlega óviðunandi og ljóst að með slíkar áætlanir í farteskinu næðist lítill árangur í samningum um útfærslu Kýótóbókunar.

4.

Í tillögu Norðuráls hf er sagt að kannað verði hvort ástæða sé til að setja upp vothreinsibúnað. Það er auðvitað sjálfsagt mál. Hérlendum stóriðjufyrirtækjum hefur hingað til tekist að koma sér hjá því að setja upp vothreinsibúnað, og orðalagið í tillögunni bendir til þess að Norðurál hf muni reyna að feta í þau fótspor. Verði af þessari miklu stækkun verksmiðjunnar er þó ljóst að gríðarleg aukning verður á losun brennisteinstvíoxíðs út í andrúmsloftið. Ekkert getur hamlað gegn því að neinu marki annað en vothreinsun. Í því sambandi má minna á umsögn Veðurstofu Íslands, þar sem gerð er krafa um vothreinsun til viðbótar við þurrhreinsun fyrir slíkt risaálver sem þarna er fyrirhugað. Taka ber undir álit Veðurstofunnar í þessu efni og gera vothreinsibúnað að ófrávíkjanlegri kröfu.

5.

Í tillögu Norðuráls hf að matsáætlun er lítillega vikið að losun PAH-efna, þungmálma og díoxíns og þess getið að um þessa þætti verði fjallað ef ástæða þyki til. Sú ástæða er þó sannarlega þegar fyrir hendi og má um það vísa til umsagnar Veðurstofu Íslands svo og til greinar eftir Berg Sigurðsson í Mbl. 6. desember sl. Er þar m.a. fjallað um PAH-mengun frá álverum. Nauðsynlegt er að fjalla af alvöru og vandlega um þessa þætti.

6.

Í tillögu Norðuráls hf er gert ráð fyrir að úrgangur eins og kerbrot verði nýttur til gerðar landfyllingar við Grundartangahöfn. Slík áform vekja furðu sé litið til þeirrar stefnu í förgun kerbrota sem hefur verið að þróast að undanförnu hérlendis sem erlendis. Meðal annars Hafrannsóknarstofnun hefur lýst því viðhorfi að slík meðferð kerbrota standist engan veginn lög um mengunarvarnir og náttúruvernd. Undir það er eindregið tekið.

7.

Í tillögu Norðuráls hf að matsáætlun er ekki ljóst hvernig ætlað er að standa að nauðsynlegum rannsóknum á lífríki Hvalfjarðarsvæðisins og eftirliti með mengunarmælingum og annarri vöktun. Það verður að koma skýrt fram.

8.

Loks er rétt að vekja athygli á þeirri tímaáætlun sem virðist eiga að vinna eftir. Gert er ráð fyrir að matsskýrslan verði auglýst í janúar 2001 og úrskurður Skipulagsstofnunar liggi fyrir í apríl á sama ári. Svo fráleit tímaáætlun fær engan veginn staðist ef ætlunin er að standa sómasamlega að verki.

Seltjarnarnesi, 14. desember 2000

Kristín Halldórsdóttir.