Mörg fjaran sopin

Nú get ég með sóma og sann horft í augu hesta minna, þeirra Víkings og Prúðs, og sagt með tilþrifum: “Við höfum marga fjöruna sopið saman!” Sú er niðurstaðan eftir fimmtu hestaferð okkar hjóna með Bjarna E. Sigurðssyni á Löngufjörurnar á Snæfellsnesi.

Þetta er sem sagt fimmta árið í röð sem við endum hestasumarið með vikuferð um Borgarfjörð og Snæfellsnes, mestmegnis á Löngufjörum, í fylgd með Bjarna og starfsfólki og nemendum reiðskóla hans, Þyrils. Oftast höfum við byrjað ferðina á Báreksstöðum rétt hjá Hvanneyri og riðið þaðan að Grímsstöðum undir Grímsstaðamúla, síðan í Lindartungu og út á fjörurnar frá Snorrastöðum. Eitt skipti hófum við ferðina á Oddsstöðum í Lundarreykjadal, og tvívegis höfum við farið fyrir Jökul, í annað skiptið byrjuðum við á Ingjaldshóli og í hitt skiptið enduðum við þar. Í þetta sinn byrjuðum við á hefðbundinn hátt en vorum svo heila fimm daga á fjörunum sjálfum, fórum vestur á Arnarstapa og langleiðina aftur til baka.

Ferðin núna var sérstök að því leyti að óvenju margir þátttakenda voru alls óvanir ferðum af þessu tagi og höfðu jafnvel lengst farið í fjögurra tíma reiðtúr um Heiðmörkina. Ég var því ögn kvíðin í upphafi að erfitt yrði að halda utan um lausu hrossin og ýmsir kæmu til með að mynnast við fósturjörðina eða saltan sjóinn. Þær hugrenningar fékk ég beint í hausinn aftur á verklegan hátt, sbr. upphafsorðin. Og það var algjört ævintýri að fylgjast með framförum og gleði nýliðanna sem efldust með degi hverjum og voru hver af öðrum síðustu dagana komnir í samkeppni um að halda uppi hraðanum í forreiðinni.

Skilyrðin á fjörunum voru líka mjög sérstök og allt öðru vísi en í fyrri ferðum okkar. Að sjálfsögðu er alltaf mikið af pollum, sem maður ríður einfaldlega beint yfir með tilheyrandi skvettum ef svo vill verkast. Nú kynntist ég hins vegar alveg nýrri tegund polla, sem erfitt var að vara sig á, en þeir voru í formi djúpra sjófylltra pytta sem buðu upp á óvænt bað hests og knapa og það henti mig sem sagt tvívegis. Í bæði skiptin lentum við upp fyrir haus með miklum skvettum og gusugangi. Engin slys hlutust af og í bæði skiptin tókst mér að halda mínum hesti, og því urðu þessi áhættuatriði nálægum vitnum til mikillar skemmtunar, í það minnsta eftir á. Og vegna þessa get ég nú sagt með sanni við mína ágætu hesta að við höfum marga fjöruna sopið saman.

Við fengum frábært veður alla dagana og sannreyndum hvað Veðurstofunni er lagið að spá vitlaust, því hún reyndi mikið að láta rigna á okkur. Sú rigning kom ekki fyrr en morguninn sem við vorum að láta hrossin á flutningabílana að ferðinni lokinni.

Þetta var sem sagt alveg stórkostleg og frábær ferð, enda óvíða skemmtilegra að njóta getu og hæfileika góðra hesta en á Löngufjörum. Eftir sitja í huganum ótal fallegar myndir og ein sú fegursta frá morgninum þegar við riðum frá Kolbeinsstöðum og niður með Haffjarðará að Stóra-Hrauni. Í morgunljómann var lagt af stað og allt logaði af dýrð eins og í ljóði Einars Ben. Morgunsólin glampaði á jöklinum og fimm svanir syntu á lygnu í ánni. Hestarnir virtust skynja að framundan væri skemmtileg glíma við hvítfyssandi haf og fjörusand og þurftu ekki hvatningu. “Betra á dauðlegi heimurinn eigi”.

HM íslenska hestsins í Austurríki

Hvað eftir annað var íslenski fáninn dreginn að húni á meðan þjóðsöngurinn okkar hljómaði. Hvarvetna á áhorfendapöllunum veifuðu stoltir áhangendur íslenska fánanum, glöddust, klöppuðu, hrópuðu og sungu. Pallarnir skulfu undan hoppum og stappi. Loftið titraði af spenningi og gleði. Hvar á erlendri grundu gæti slík stemmning skapast vegna afreka Íslendinga nema á heimsmeistaramóti íslenska hestsins? Ég fullyrði: Hvergi!

Stadl Paura, lítill bær með meira en 200 ára sögu sem miðstöð hestamennsku í Austurríki, myndaði umgjörðina um heimsmeistaramót íslenska hestsins 12. – 19. ágúst sl. Fallegt umhverfi, frábært veður og góðar aðstæður að flestu leyti áttu sinn stóra þátt í að gera þennan viðburð ánægjulegan og eftirminnilegan. Ýmsum þótti að vísu fullheitt í veðri og marga svíður jafnvel ennþá í sólbrennd nef og herðar. Lengi enn munu líka margir minnast allt að 8 klukkustunda rútuferða í 30 – 40 stiga hita milli flughafna og mótsstaðar. En mótið sjálft var allrar fyrirhafnar virði.

Fjórtán þjóðir sendu þátttakendur til leiks. Auk Íslendinga og Austurríkismanna voru Þjóðverjar, Svíar, Svisslendingar, Norðmenn, Danir og Hollendingar þar öflugastir, en þarna áttu líka fulltrúa sína Finnar, Frakkar, Ítalir, Lúxemborgarar, Bandaríkjamenn og loks Bretar, sem vegna gin- og klaufaveikinnar gátu ekki komið með eigin hesta, en fengu reiðskjóta lánaða í Austurríki.

Sigurður Sæmundsson landsliðseinvaldur gat sannarlega andað léttar og hrósað sigri í mótslok. Íslendingar áttu sviðið með heimsmeistara í helstu greinunum, töltinu, fjórgangi og fimmgangi og auk þess í nýrri tegund skeiðs sem væntanlega verður keppnisgrein á mótum síðari tíma. Þá höfðu Íslendingarnir slíka yfirburði að þeir áttu þrjá efstu í samanlögðu greinunum, Vigni Jónasson á Klakki, Svein Ragnarsson á Brynjari og Hugrúnu Jóhannsdóttur á Súlu. Í fjórum af sex flokkum kynbótahrossa stóðu íslenskfæddu hrossin efst, í tveimur stóðu þau næstefst þannig að enn einu sinni sönnuðust yfirburðir íslenskra knapa á hestum fæddum og uppöldum í sínu rétta umhverfi – á Íslandi. Þá má benda á að aðeins þriðjungur keppnishestanna var fæddur á erlendri grundu, hinir komu allir frá Íslandi.

Alla dagana var mikið um að vera og margt að sjá, en spennan og skemmtunin náði að sjálfsögðu hámarki síðustu tvo dagana, þegar keppt var til úrslita. B-úrslitin næstsíðasta daginn voru býsna spennandi, og þar stóðu Íslendingar sig vel í slaktaumatölti, sem þeir hafa ekki lagt mikla áherslu á hingað til. Sveinn Ragnarsson sló í gegn á Brynjari og náði m.a.s. upp í 3. sæti í A-úrslitum daginn eftir. Árangurinn innsiglaði hann á eftirminnilegan hátt með því að ríða hringinn með íslenska fánann hátt á lofti í annarri hendi og blómvönd í hinni án þess að snerta taumana og Brynjar brást ekki á þessu fína tölti. Rétt áður hafði Sigurbjörn Bárðarson skeiðað á Gordon í fyrsta sæti í 100 metra skeiði. Styrmir sigraði glæsilega í fjórgangi á Farsæli og Vignir sigraði í fimmgangi á Klakki eftir spennandi keppni við Magnús Skúlason í sænska landsliðinu. Íslendingar voru nefnilega ekki aðeins í íslenska liðinu, heldur mátti sjá a.m.k. 9 þeirra meðal knapa annarra þjóða. Hafliði Halldórsson sigraði svo á Valiant í sögulegum úrslitum töltsins, sem ævinlega er síðasta grein mótsins. Og þvílík úrslit! Þar var allt lagt undir og áhorfendur bókstaflega trylltir af æsingi. Merkilegt hvað keppnishestarnir þoldu af hávaða og látum. Þegar hraðatöltið var í algleymingi var baráttan orðin slík að skeifur, botnar og hlífar flugu um völl, einn þýsku knapanna reið næstum niður einn íslensku hestanna og annar náði ekki beygju og lenti út af vellinum. Þar með missti sá af verðlaunasæti og lán að ekki hlaust af slys.

Íslensku knaparnir sýndu bæði frábæra reiðmennsku og góða framkomu. Stærstu stjörnurnar voru hins vegar hrossin sjálf, sem með fegurð, hæfileikum, vilja og getu fengu mann hvað eftir annað til að grípa andann á lofti. Mér segir svo hugur að mörgum knapanum sé nú þungt fyrir brjósti að hafa orðið að skilja félaga sinn og vin eftir, því hross sem einu sinni eru flutt héðan frá Íslandi eiga ekki afturkvæmt. En þau halda áfram að vera glæsilegir fulltrúar íslenska hestsins og Íslands sjálfs á erlendri grundu. Betri sendifulltrúa eigum við ekki.

Á hestum kringum jökla

Það tekur tímann sinn að jafna sig á því að Fáksferð sumarsins er lokið, að átta sig á því á morgnana að maður vakni upp í sínu eigin góða rúmi, en ekki á dýnu í fjallakofa eða félagsheimili, að verkefni dagsins séu óháð veðri og vindum, að hestarnir bíði ekki úti í næsta haga. Viðbrigðin eru mikil og ekki laust við söknuð í huga.

Í þetta sinn var lagt upp frá innsta bæ í Fljótshlíð 20. júlí og riðið næstu daga í kringum Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul og endað í Gunnarshólma í Landeyjum 28. júlí. Hópurinn var alveg mátulega stór og félagsskapurinn góður, en það er afar mikilvægt í ferðum sem þessum. Þá er atlæti til munns og maga í Fáksferðum víðfrægt, en um það hafa í nokkur ár séð hjónin Rósa og Ómar með dyggri aðstoð Snúllu. Þau spara sér hvergi ómak við matseld og notalegheit.

Eins og nærri má geta kemur ýmislegt upp á í langri ferð 25 ríðandi manna með tæpt hundrað hesta, sem eiga það til að vilja fara eigin leiðir, einkum fyrstu dagana meðan þeir eru að samlagast og læra að lesta sig. Hross eru margvísleg í lund og annarri gerð, og oft eru með í ferð einstaklingar sem sífellt leitast við að stinga sér út úr rekstrinum og taka með sér aðra hesta. Erfiðast er við slíkt að eiga þar sem eru miklar brekkur og gil eða þegar farið er yfir ár eða vötn. Allt hefst þetta þó með góðri samvinnu ferðafélaga.

Spennan er alltaf mikil í ferðum sem þessari, og hver einasti dagur hefur sitt svipmót í minningunni, hvort sem það markast af veðri eða landslagi eða einhverju atviki. Fyrstu tvær dagleiðirnar voru stuttar eða áttu að vera það, aðeins 25 – 30 km. Kílómetrarnir urðu þó fleiri hjá þeim sem þurftu að eltast við óþekka hesta upp og niður fjallahlíðar norðan Einhyrnings, en þeir komu sigri hrósandi í áfangastað með “skálkana” í taumi. Þennan dag var Prúður minn í vondu skapi og gerði mér þann óleik að henda mér af baki í annað skipti í okkar sambúð. Hann á til dálítið róttæka ólund, en er að öðru leyti slíkur gæðagammur að ég fyrirgef honum fúslega dyntina. Hann sýndi ekkert nema allt sitt besta það sem eftir var ferðarinnar. Um kvöldið var mikið sungið í Hvanngili og ekki spillti að skálavörðurinn Örn Bjarnason trúbadúr lumar á meinfyndnum textum og sparar ekki strengjaplokkið.

Þriðja daginn var heldur betur sprett úr spori yfir Mælifellssand, sem ég hef reyndar riðið tvisvar áður og aldrei fengið betra leiði. Hraustleg rigning nóttina áður gerði sandinn þéttan og góðan undir fót og kom algjörlega í veg fyrir sandryk sem getur orðið til mikilla óþæginda. Síðan var riðin ákaflega falleg leið niður Álftaversafrétt, reyndar svolítið háskaleg á köflum þar sem lausu hestarnir fóru í loftköstum niður brekkurnar. Var þá betra að vera á traustum hesti og hafa taumhaldið í lagi. Næturstaður hestanna var sérlega fallegur í góðri girðingu við Hólmsá, þar sem gangnamenn á Álftaversafrétti eiga sér skjól, en við gistum í félagsheimilinu Tunguseli og liðkuðum aðeins dansfæturna fyrir svefninn.

Fjórða dagleiðin var nokkuð löng og strembin. Þá riðum við sandana austan Mýrdalsjökuls og ætluðum að njóta fjalla- og jöklasýnar, en fengum þungskýjað og rigningu í dagslok. Sandarnir voru þungir yfirferðar og nokkrar jökulár þurfti að þvera. Ein þeirra var býsna stríð og tókst að skella einum klárnum og knapanum með. Sá blotnaði upp að hálsi og mátti ríða þannig til kvölds, en væri hann spurður um kulda glotti hann við tönn eins og sönnum Íslendingi sæmir og kvaðst ekki kvarta. Næturstaður hestanna var í Kerlingardal, en þeir höfðu aðra skoðun en við á því hvar þeir skyldu fylla sig og hvílast og endaði dagurinn með eltingaleik um lautir og hlíðar þar sem víraflækjur lágu í leyni úti um allt. Þvílíkt sem búið er að dreifa um þetta land af gaddavírsflækjum sem menn nenna ekki að hirða upp eftir sig.

Það var gott að vakna upp í rjómablíðu í Vík í Mýrdal og ganga um þennan vinalega bæ og út með gróðri vöfðu Reynisfjallinu. Svo héldum við inn á Höfðabrekkuheiði og inn á afrétt Mýrdælinga og fórum þar ótrúlega fallegar og skemmtilegar leiðir sem fáir aðrir en heimamenn fara, enda nutum við þess að vera undir fararstjórn Valdimars Jónssonar sem er Mýrdælingur að uppruna. Ógleymanlegur dagur.

Næstu tvær nætur gistum við á Brekkum í Mýrdal og gáfum hestunum góðan tíma til hvíldar. Fórum reyndar í góðan reiðtúr í yndislegu veðri út í Dyrhólaey sem við könnuðum í krók og kring og gátum leyft okkur bæði slökun og góða spretti þar sem við vorum ekki með laus hross þann daginn.

Sjöunda daginn riðum við svo með Eyjafjöllum alla leið að Fitjamýri með útúrdúr yfir Holtsósinn. Guðmundur í Skálakoti stjórnaði ferð okkar af öndverðum bakka gegnum gemsa með Hannes rekstrarstjóra á hinum endanum og tókst það bærilega nema hvað lausu hestarnir höfðu engan gemsa og tóku strikið með miklum buslugangi þvert á öll fyrirmæli. Þetta uppátæki þeirra varð til þess að ekki fór ég þurr upp úr Holtsósnum nú frekar en fyrir nokkrum árum þegar við lentum reyndar óforvarandis á hrokasund. Slík óvænt atvik eru hins vegar ómissandi krydd í tilveruna, enda væri fátt til frásagnar ef allar ferðir væru bara sléttar og felldar.

Veðurstofan spáði heldur illyrmislega fyrir síðasta daginn okkar, sem við ætluðum að nota til að ríða léttan eftir bökkunum við Markarfljót. Hún var ekkert að skafa utan af hlutunum, slagveður skyldi það heita og jafnvel ofsaveður með köflum. Lánið var að við höfðum stífan vindinn í bakið eða á hlið mestalla leiðina að Gunnarshólma og úrkomuna herti ekki verulega fyrr en eftir að við höfðum komið öllum í áningarstað. Morguninn eftir var komið besta veður og hestarnir þurrir og hvíldir að sjá. Okkar hestar voru svo komnir í heimahaga í Kaldbak um miðjan dag og fá nú að njóta iðjuleysis fram að síðustu hestaferð sumarsins í ágústlok.

Óverjandi álversdraumur

Áform um mengandi stóriðju og hrikaleg náttúruspjöll vegna virkjana í tengslum við þau áform virðast engan enda ætla að taka. Nú er það álversdraumurinn sem árum saman hefur verið otað að Austfirðingum. Í dag rennur út frestur til að skila athugasemdum til Skipulagsstofnunar við skýrslu um mat á umhverfisáhrifum álvers á Reyðarfirði. Eftirfarandi eru athugasemdir mínar við skýrsluna:

Skipulagsstofnun

Laugavegi 166

150 Reykjavík

Seltjarnarnesi, 6. júlí 2001

Efni: Athugasemdir við skýrslu Reyðaráls hf um mat á umhverfisáhrifum álvers á Reyðarfirði með allt að 420 þúsund tonna framleiðslugetu á ári.

Skipulagsstofnun hefur nú öðru sinni til umfjöllunar skýrslu um mat á umhverfisáhrifum álvers á Reyðarfirði. Hin fyrri kom fram síðari hluta árs 1999 og miðaðist við byggingu og rekstur verksmiðju með allt að 480 þúsund tonna framleiðslugetu. Að þessu sinni er framleiðslugetan miðuð við 420 þúsund tonn, en til viðbótar er nokkuð fjallað um rafskautaverksmiðju, sem ekki var áður nefnd til sögunnar, en er nú af framkvæmdaraðilum talin bráðnauðsynleg. Eykur sú viðbót verulega umsvif og mengun frá fyrirhuguðum rekstri og þyrfti augljóslega meiri undirbúning og umfjöllun.

Undirrituð sendi Skipulagsstofnun athugasemdir við hið fyrra mat, dagsettar 18. nóvember 1999, og gæti raunar endurtekið þær hér og nú í meginatriðum, þar sem grunnforsendur hafa á engan hátt breyst.

Verður að líta á alla þætti sem verksmiðjunni tengjast

Hér er verið að efna til reksturs risaverksmiðju til mengandi framleiðslu, sem ein og sér hefði gríðarlega mikil umhverfisáhrif. Óhugsandi er hins vegar og óeðlilegt að meta áhrif verksmiðjunnar einnar og sér, heldur verður að líta á alla þá þætti sem henni tengjast og hafa samanlagt feiknarleg og vítæk áhrif, náttúrufarsleg, samfélagsleg, atvinnuleg og efnahagsleg.

Árleg framleiðslugeta fullbyggðrar álverksmiðju á Reyðarfirði yrði umtalsvert meiri en samanlögð framleiðslugeta álverksmiðjanna í Straumsvík og á Grundartanga, sem er nú um 250 þúsund tonn á ári. Og jafnvel þótt þær nýttu til fulls þau leyfi sem þær hafa til aukins reksturs næði samanlögð framleiðslugeta þeirra ekki 400 þúsund tonnum. Þykir mörgum reyndar nóg um fyrirferð þessara verksmiðja og áhrif þeirra á umhverfið. Hvað mun þá um ferlíkið sem Reyðarál hf vill nú setja niður í einum staðviðrasamasta firði landsins?

Mikil sjónræn áhrif

Í matsskýrslunni eru birtar nokkrar tölvumyndir þar sem á allt að broslegan hátt er reynt að láta líta svo út sem hér verði um heldur hógværar og fyrirferðarlitlar byggingar að ræða, kúrandi undir reisulegum fjallahlíðum og í skjóli frá þéttbýlinu undir náttúrulegum bergvegg sem er svo vinsamlegur að vera á hentugum stað. Tilgangurinn leynir sér ekki, en hann helgar ekki meðalið. Verksmiðjubyggingarnar munu hafa mikil sjónræn áhrif, m.a. séðar frá friðlandinu á Hólmahálsi.

Áhrif á atvinnulíf og mannlíf

Það vekur í rauninni bæði skelfingu og furðu að mönnum skuli yfirleitt detta í hug að efna til slíkrar risaverksmiðju í tiltölulega mjög smáu samfélagi. Dæmi eru um það í öðrum löndum að efnt hafi verið til stórra verkefna á borð við þetta í þeim tilgangi að reyna að snúa við óæskilegri byggðaþróun og það jafnvel tekist um skeið. Rannsóknir, t.d. í Kanada og Skotlandi, sýna hins vegar neikvæð áhrif til lengri tíma litið og þá er vandinn jafnvel enn verri og óleysanlegri. Ekki verður séð að skýrsluhöfundar hafi nýtt sér rannsóknir og skýrslur byggðar á slíkri reynslu og er það verulega gagnrýni vert.

Sú jákvæða mynd, sem dregin er upp í skýrslunni af áhrifum á atvinnulíf og mannlíf allt á Austurlandi, verkar ekki trúverðug og gæti allt eins snúist í andhverfu sína. Tilgangurinn er sagður sá að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og vinna gegn fólksfækkun á Austurlandi. Staðreyndin er þó sú að frekar hefur skort vinnuafl en atvinnu á þessu landsvæði á undanförnum árum og hefur m.a. þurft að sækja það til útlanda. Þessi eina “stoð”, risaálver á Reyðarfirði, gæti því augljóslega dregið máttinn úr öðrum atvinnugreinum og sömuleiðis úr öðrum byggðarlögum austan- og norðaustanlands. Þennan þátt málsins þyrfti að kanna miklu betur og gera öllum hlutaðeigandi skýra grein fyrir líklegum áhrifum á einstök byggðarlög. Framkvæmdaraðilar og stjórnmálamenn verða þá að svara því undanbragðalaust, hvort þetta sé sú stefna í atvinnu- og byggðamálum sem þeir vilja vinna að og bera ábyrgð á. Margt í skýrslunni bendir mjög til neikvæðra áhrifa hvað þetta varðar, þótt reynt sé að berja í brestina.

Önnur störf “hverfa”

Viðurkennt er í skýrslunni að framkvæmdir tengdar fyrirhugaðri verksmiðju svo og verksmiðjureksturinn sjálfur muni óhjákvæmilega draga að sér vinnuafl úr öðrum greinum atvinnulífsins á Austurlandi. Á opnum fundi sem haldinn var um þessi efni 21. apríl sl. svöruðu fulltrúar Reyðaráls hf spurningum um þetta efni á þann veg að þessar tilfærslur mundu fyrst og fremst bitna á loðnubræðslu og málmiðnaði og að um 120 störf “kynnu að hverfa” eins og það var orðað. Hvernig sú tala er fundin er algjörlega óskýrt og viðbúið að hún gæti reynst allt önnur og væntanlega hærri. Hér er því að vissu leyti verið að skapa ný vandamál í stað þeirra sem þessari framkvæmd er ætlað að leysa. Með henni er í raun verið að auka á einhæfni atvinnulífsins, leggja alltof mörg egg í eina körfu og tefla framtíð byggðarlagsins í umtalsverða hættu með því að gera það svo háð einu stórfyrirtæki.

Ýtt undir óhagstæða kynjaskiptingu

Því skal svo enn og aftur haldið til haga (sbr. athugasemdir undirritaðrar við fyrri skýrslu árið 1999) að hér er fyrst og fremst verið að skapa störf við hæfi karla þrátt fyrir þá staðreynd, sem viðurkennd er í skýrslunni, að einmitt á þessu landsvæði eru nú þegar mun fleiri störf við hæfi karla í boði. Gildir einu þótt skýrsluhöfundar rembist á allt að því hlægilegan hátt við að reyna að sanna hið gagnstæða m.a. með myndefni og einstökum athugasemdum. Má þar t.d. benda á myndir á bls. 132 og mynd 8.2 á bls. 85 með sérkennilega drýldnum texta: “Konur hasla sér jafnt og þétt völl í áliðnaði”. Sú þróun er þó að flestra mati með hraða snigilsins, enda mála sannast að konur eru ekkert sérlega velkomnar á þennan vettvang hvað sem sagt er. Með tilliti til þessa eru þessi áform afar óskynsamleg aðgerð í byggðamálum og geta í raun aukið óhagstæða kynjaskiptingu á svæðinu.

Efnt til þenslu og stórfelldrar röskunar

Umfang framkvæmda og tímasetning auka svo enn á mjög varhugaverð áhrif á efnahags- og atvinnulíf. Á örfáum árum er ætlunin að efna til svo gríðarlegra framkvæmda og umsvifa á þessu landsvæði að ekki verður annað séð en að hvarvetna annars staðar verði nánast að leggja þjóðfélagið í dvala svo að það fari ekki á hvolf.

Allt á að gerast á sama tíma, sem út af fyrir sig er ekki óeðlilegt nema fyrir þær sakir hversu umfangsmiklar, dýrar og mannaflafrekar allar þessar framkvæmdir eru: Stærstu virkjanaframkvæmdir sem nokkru sinni hafa verið áformaðar, lagning háspennulína, bygging álvers af stærstu gerð, hafnargerð, miklar vegaframkvæmdir, jarðgangagerð, bygging íbúða o.s.frv., allt á þetta að gerast á 5 – 10 árum! Verði af þessum áformum blasir við þensla og stórfelld röskun í atvinnulífi landsmanna. Um þennan þátt málsins er aðeins örlítið fjallað í skýrslunni og af furðulegu kæruleysi.

Sótt að lífeyrissjóðunum

Ekkert er heldur fjallað að gagni um fjármögnunarþátt allra þessara framkvæmda, sem munu samanlagt kosta a.m.k. 300 milljarða króna og raunar umtalsvert meira, eða líklega nær 400 milljörðum, þegar öll kurl verða komin til grafar og tillit hefur m.a. verið tekið til gengisþróunar og verðbólgu. Nefnt er að reiknað sé með “að um 40% af fjárfestingum Noralverkefnisins verði af innlendum uppruna”. Vitað er að forsvarsmenn verkefnisins sækja nú fast að lífeyrissjóðum landsins sem kallað hefur á harða andstöðu þeirra sem efast um ágæti þessara hugmynda. Það er mörgum alvarlegt kvíðaefni ef gæslumenn lífeyrissjóðanna ætla að leyfa sér að hætta sparifé landsmanna og tryggingu þeirra til elliáranna í fjárfestingu í framkvæmdum af þessu tagi.

Loksins vothreinsun

Í 6. kafla skýrslunnar er fjallað um losun mengunarefna út í andrúmsloftið og fyrirhugaðar ráðstafanir til að takmarka hana. Tvennt er þar sem horfir til verulegra bóta frá fyrri áætlunum. Annars vegar er það förgun kerbrota sem ætlunin er að urða á landi með frárennsli í sjó í stað förgunar í flæðigryfjum eins og hingað til hefur verið gert. Þó er ljóst að enn betur mætti gera með sérstakri hreinsun á frárennsli og hugsanlega endurnýtingu kerbrota.

Í öðru lagi eru svo ráðstafanir til að draga úr losun mengunarefna út í andrúmsloftið sem hingað til hefur verið takmörkuð eingöngu með búnaði til þurrhreinsunar. Nú á hins vegar að takmarka hana enn frekar með vothreinsun sem dregur verulega úr loftmengun af völdum brennisteinstvíoxíðs. Tregða við að nýta þann kost hefur lengi sætt mikilli gagnrýni sem hefur nú væntanlega orðið til þess að menn sjá sér ekki lengur fært að hafna þeirri leið sem kostar umtalsvert meira.

Alþjóðasamningar sniðgengnir

Svo sem nærri má geta og staðfest er í skýrslunni hefur fyrirhuguð álframleiðsla í för með sér mikla losun mengunarefna út í andrúmsloftið, eða að fullbyggðri verksmiðju samtals um 770 þúsund tonn ígilda koltvíoxíðs, sem þýðir hátt í 40% aukningu frá því sem var árið 1990. Þannig yrði freklega gengið gegn Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyotobókunin að sjálfsögðu gjörsamlega sniðgengin. Í því efni skýtur Reyðarál sér á bak við stefnu núverandi ríkisstjórnar. Sú stefna er óábyrg og hættuleg og getur reynst íslenskum stjórnvöldum fjötur um fót í erlendu samstarfi að öðrum brýnum hagsmunamálum á sviði umhverfismála.

Núll-umfjöllun um núll-kost

Gagnrýna verður harðlega litla og máttlausa umfjöllun skýrslunnar um svokallaðan núll-kost, þar sem rétt lauslega er farið yfir líklega stöðu mála ef ekki yrði af Noralverkefninu. Þar er fátt eitt nefnt til ráða og t.d. ekki minnst á skógræktina sem er í örum vexti á Héraði. Þykir þó mörgum vel horfa með æ fleiri störf í þeirri atvinnugrein á næstu árum og til framtíðar. Sama er að segja um lífræna ræktun, sem á í raun rætur sínar á Héraði. Þá er dregin upp heldur ókræsileg mynd af ferðaþjónustu og ekki minnst einu orði á þær hugmyndir sem fram hafa komið um þjóðgarð norðan Vatnajökuls sem yrði atvinnuskapandi og mikil lyftistöng fyrir Austurland ef myndarlega væri staðið að verki. Þeir möguleikar takmarkast verulega, ef áform um virkjanir og verksmiðjurekstur verða að veruleika.

Fyrirhuguð orkuöflun óverjandi aðgerð

Hins vegar er í skýrslunni varið drjúgu rými til að réttlæta álframleiðslu almennt, en alveg sérstaklega hér á landi með því að vatnsorkuver tryggi þeirri framleiðslu vistvænni svip. Er þá af fullkominni lítilsvirðingu gengið framhjá þeirri staðreynd að fyrirhuguð orkuöflun hefði í för með sér meiri óafturkræf náttúruspjöll en áður eru dæmi um hér á landi.

Síðastnefnt er einmitt þyngsta og veigamesta ástæða þess að áform um risaálver á Reyðarfirði eru óverjandi með öllu. Til þess að framleiða þá orku sem þarf til að knýja þetta álver er ætlun Landsvirkjunar að reisa svokallaða Kárahnjúkavirkjun, sem hafa mundi í för með sér meiri og víðtækari spjöll á náttúru landsins en nokkru sinni fyrr hefur verið efnt til. Með þeirri virkjun væri þó ekki allt fengið, heldur þyrfti að afla orkunnar víðar að og er þá horft til gufuaflsins við Kröflu og í Bjarnarflagi með tilheyrandi línulögnum og raski. Það er ótrúleg ósvífni að bera það á borð í fullri alvöru að bygging og rekstur þessa risaálvers sé verðugt framlag Íslands til umhverfismála á heimsvísu án þess að taka með í reikninginn þau hrikalegu óafturkræfu náttúruspjöll sem öll þessi orkuöflun hefði í för með sér. Að öðru leyti vísa ég um það efni til athugasemda minna, dagsettra 6. júní 2001, við skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Þess verður að vænta að Skipulagsstofnun leggist gegn þeim áformum á þeirri forsendu að svo víðtæk og alvarleg spjöll í náttúru landsins séu með engu móti réttlætanleg.

Veigamestu rökin gegn álverinu

Með vísan til þess sem þegar er sagt legg ég til að Skipulagsstofnun hafni þessari skýrslu, fyrst og fremst vegna eftirfarandi þátta:

1) Óhjákvæmilegt er að vega saman alla þá þætti sem tengjast byggingu og rekstri fyrirhugaðrar álverksmiðju. Orkuöflun til reksturs verksmiðjunnar hefði í för með sér gríðarleg óafturkallanleg og óbætanleg spjöll á óviðjafnanlegri náttúru með hátt verndargildi. Slík eyðilegging er með öllu óverjandi.

2) Verksmiðjan mundi fullbyggð losa 770 þúsund tonn mengandi efna út í andrúmsloftið og þannig fara langt umfram viðmiðanir Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og sniðganga þá stefnu sem mörkuð var í Kyotobókuninni.

3) Fullyrðingar skýrsluhöfunda um jákvæð áhrif framkvæmda og verksmiðjureksturs eru ekki studdar sannfærandi rökum og þyrfti að fara miklu betur ofan í alla þætti þeirrar hliðar þessa máls. Með hliðsjón af reynslu annarra þjóða af sambærilegum aðgerðum kynnu þessar aðgerðir að hafa veruleg neikvæð áhrif á atvinnulíf og samfélag þvert á boðaðan tilgang.

Kristín Halldórsdóttir

201039-4529

Fornuströnd 2

170 Seltjarnarnesi

Umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar

Ef áform Landsvirkjunar um Kárahnjúkavirkjun verða að veruleika hefði það miklu meiri og víðtækari áhrif á náttúru og umhverfi en áður hefur verið efnt til hér á landi. Svo stórfelld óafturkræf inngrip í þróun náttúrufars samkvæmt eigin lögmálum eru óviðunandi með öllu og verður að vona að Skipulagsstofnun leggist gegn þessum áformum í úrskurði sínum. Frestur til að skila inn athugasemdum við matsskýrslu Landsvirkjunar rennur út 15. júní og er mikilvægt að sem flestir láti til sín heyra. Eftirfarandi eru athugasemdir mínar til Skipulagsstofnunar:

Skipulagsstofnun

Laugavegi 166

150 Reykjavík

Seltjarnarnesi, 6. júní 2001

Efni:

Athugasemdir við skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar.

Ég undirrituð, Kristín Halldórsdóttir, hef kynnt mér eftir föngum skýrslu Landsvirkjunar og fylgigögn um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Hér er um efnismikla skýrslu að ræða og margs konar ítarefni, enda viðfangsefnið gríðarlega umfangsmikið. Fyrsta athugasemd mín er því sú, að tíminn sem gefinn er til athugunar og athugasemda er augljóslega alltof skammur og hætt við að margir sem vildu láta sig málið varða hafi ekki tök á því vegna tímaskorts. Þetta sýnir að brýnt er að endurskoða m.a. þetta ákvæði laganna um mat á umhverfisáhrifum.

Feiknarleg óafturkræf áhrif

Matsskýrslan og fylgigögn hennar eru um margt vel unnin og leiða skýrt í ljós gríðarlegt umfang fyrirhugaðra framkvæmda og þau feiknarlegu óafturkræfu áhrif sem þær hefðu á náttúru og umhverfi á þessum slóðum. Þarna yrði augljóslega um að ræða meiri umhverfisspjöll, meiri vatnaflutninga, meira jarðrask og meiri breytingar á landslagi og náttúru en áður hefur verið efnt til á landinu. Engu að síður kemst Landsvirkjun að þeirri niðurstöðu “…að umhverfisáhrif virkjunarinnar séu innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir.”

Engin haldbær rök eru færð fyrir þeirri niðurstöðu Landsvirkjunar, aðeins fullyrðingar. Engar upplýsingar fást heldur um arðsemi virkjunarinnar sjálfrar. Örfáir útvaldir eiga að fá vitneskju um orkuverðið, sem er þó ráðandi þáttur um hagkvæmni virkjunarinnar. Þó má leiða getum að því hversu hátt það þurfi að vera til þess að virkjunin borgi sig og ljóst að sú tala er umtalsvert hærri en núverandi orkuverð til stóriðju. Þetta er hins vegar ekki umfjöllunarefni matsskýrslunnar og verður ekki farið lengra út í þá sálma, enda í raun fullkomlega óeðlilegt að ætlast til þess að sá þáttur sé veginn upp á móti umhverfisáhrifum virkjunarinnar.

Í samantekt sem birt er í upphafi skýrslunnar og aftur orðrétt í niðurlagi hennar eru taldir upp þeir fjölmörgu þættir í náttúrunni sem breytast eða glatast með tilkomu virkjunarinnar, s.s. skerðing ósnortinna víðerna um 925 ferkílómetra, breytingar á landslagi vegna Hálslóns, sem mun ná yfir um 57 ferkílómetra svæði, kaffæra um 32 ferkílómetra af grónu landi og jafnframt stórmerkar jarðfræðiminjar, auk þess sem verðmætar vistgerðir og búsvæði plantna og dýra fara undir vatn, umtalsverðar breytingar á rennsli Jökulsár í Dal og Jökulsár í Fljótsdal og miklar breytingar á ásýnd hinna stórfenglegu Hafrahvammagljúfra. Þá er bent á mikla röskun beitar- og burðarsvæða hreindýra, aukið sandfok frá Hálslóni inn á Vesturöræfi, skerðingu friðlandsins í Kringilsárrana og miklar breytingar á fjölda fossa sem sumir munu hverfa alveg.

Þessar staðreyndir blasa við eftir þær rannsóknir sem unnar hafa verið, en hitt er ljóst að hér er um svo risavaxið og margþætt verkefni að ræða að rannsóknir og matsgerð þyrftu miklu lengri tíma en raun varð á og ámælisvert að ætla að reka málið áfram í tímaþröng.

Skýrslan er í raun einn samfelldur áfellisdómur um þessi framkvæmdaáform og undirrituð er gjörsamlega ósammála þeirri niðurstöðu Landsvirkjunar að þessi hrikalega eyðilegging og spjöll í náttúru landsins séu “innan viðunandi marka”. Þau eru þvert á móti algjörlega óviðunandi og ber að hafna með öllu.

Skerðing ósnortinna víðerna

Víða í gögnum Landsvirkjunar er vikið að ósnortnum víðernum, enda hefur landsmönnum orðið æ ljósara í seinni tíð hversu mikilvæg þau eru landi og þjóð. Í viðauka II, V20, er t.d. nokkur samantekt um ósnortin víðerni og sjónræn áhrif vegna Kárahnjúkavirkjunar og reynt að afmarka þau með tvenns konar viðmiðun. Annars vegar er miðað við 5 km fjarlægðarmörk frá mannvirkjum eins og kveðið er á um í skilgreiningu náttúruverndarlaganna, en hins vegar er miðað við 2.5 km fjarlægðarmörkin sem notuð voru í svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands. Svo virðist sem skýrsluhöfundar noti síðari viðmiðunina í því skyni að reyna að gera sem minnst úr áhrifasvæði virkjunarinnar hvað þetta varðar, en að sjálfsögðu ber að miða við hin lögfestu 5 km mörk skv. náttúruverndarlögunum.

Um hitt er ekki fjallað né reynt að meta, hver áhrif fyrirhuguð náttúruspjöll kunna að hafa á orðstír lands og þjóðar og möguleikana til þess að nýta ósnortin víðerni landsins til að styrkja ímynd þess og sérstöðu í samfélagi þjóðanna. Sá þáttur er t.d. ekki settur á hinar sérkennilegu vogarskálar á mynd 1.3 á bls. 18 í skýrslunni. Um þetta segir einfaldlega á bls. 66 í kafla 7.1 að það sé ekki talið vera á verksviði þessa matsverkefnis að reyna að “meta efnahagslegt gildi óbyggðra víðerna”.

Sama er að segja um þær ýmsu hugmyndir sem fram hafa komið um þjóðgarð á þessu landsvæði. Skipulagsstofnun mælti svo fyrir að í matsskýrslunni yrði gerð ítarleg grein fyrir hugsanlegri framtíðarnýtingu svæðisins. Reyndin er sú að síður en svo er um ítarlega greinargerð að ræða, heldur er farið lauslega yfir ýmsar hugmyndir og þar með um þjóðgarð og áhersla lögð á að virkjun útiloki ekki þjóðgarð, þótt viðurkennt sé að hún hefði umtalsverð áhrif til skerðingar.

Sérstaða Íslands á heimsvísu felst í náttúru landsins og ekki síst í ósnortnum víðernum þess, þeim stærstu í Vestur-Evrópu. Þar er fólginn sá fjársjóður sem okkur ber að varðveita og nýta til rannsókna og fræðslu, til ferðamennsku á forsendum sjálfbærrar þróunar og sem mikilvægan þátt í ímynd lands og þjóðar. Stærstu ósnortnu víðerni Vestur-Evrópu geta í því tilliti verið Íslendingum jafn mikilvæg og Frelsisstyttan Bandaríkjamönnum, Eiffelturninn Frökkum eða pýramídarnir Egyptum.

Höfundar skýrslunnar telja að mannvirki Kárahnjúkavirkjunar mundu þrengja svo að ósnortnum víðernum á hálendinu að þau mundu skerðast um 925 ferkílómetra. Sú staðreynd ein og sér er nægileg röksemd fyrir því að hafna þessum virkjanaáformum.

Gríðarleg áhrif Hálslóns á náttúru og umhverfi

Samkvæmt áformum Landsvirkjunar er ætlunin að byggja 190 metra háa stíflu við Fremri-Kárahnjúk, sem yrði ein stærsta stífla í Evrópu, og auk þess hliðarstíflur beggja vegna, þ.e Desjarárstíflu, sem yrði um 60 metra há, og Sauðárdalsstíflu, sem yrði um 25 metra há. Þannig yrði til hið svonefnda Hálslón, allt að 57 ferkílómetrar að flatarmáli. Þessar framkvæmdir hefðu gríðarleg áhrif á náttúru og umhverfi. Þær mundu skerða ósnortin víðerni og rýra verndargildi þeirra og þær mundu spilla notagildi svæðisins með tilliti til gróðurfars og dýralífs. Lónið mundi kaffæra landsvæði sem hefur mikið vísindalegt gildi og er gróðurfarslega og ekki síður jarðfræðilega mikilvægt. Þessar aðgerðir mundu tæma Hafrahvammagljúfrin að mestu af vatni neðan lónsins og spilla varanlega mögnuðustu gljúfrum landsins. Þetta yrði algjörlega dæmalaus framkvæmd sem vafasamt er að yrði liðin nokkurs staðar meðal vestrænna þjóða.

Í matsskýrslunni er bent á að vatnsborð Hálslóns mundi sveiflast meira en þekkist í öðrum miðlunarlónum hér á landi eða um 45 metra í meðalári , en “…um allt að 75 metra miðað við ýtrustu miðlunarþörf”. Af þessu leiðir að stór hluti af flatarmáli lónsins yrði á þurru fram eftir sumri. Þetta er auðvitað skelfileg tilhugsun og gagnrýni vert hvernig reynt er að gera lítið úr áhrifum þessa, sem mundi rjúfa og skemma gróðurþekjuna umhverfis lónið og hafa víðtæk áhrif á allt umhverfið. Þá er í matsskýrslunni aðeins lauslega farið yfir sambúð Hálslóns og Brúarjökuls, en af sérfræðiskýrslu Raunvísindastofnunar um það efni er ljóst að stórfengleg jakahlaup gætu valdið miklum usla. Þar eru færðar líkur fyrir því að 10 – 20 metra breiðir ísjakar og allt að 1000 rúmmetrar að stærð muni brotna úr jöklinum og mynda flóðbylgjur þegar þeir hrynja í lónið. Varla draga slíkar hamfarir úr eyðileggingu lands umhverfis lónið.

Að öllu samanlögðu verður augljóslega um gríðarlega landeyðingu að ræða sem býður heim hættu á stórauknu sand- og moldroki og sífellt meiri jarðvegseyðingu, eins og t.d. má lesa um í Viðauka II og sérfræðiskýrslu RALA um jarðveg og jarðvegsrof. Boðaðar mótvægisaðgerðir minna helst á sóskinsburð Bakkabræðra.

Þöggun fjölda fossa

,,Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílówattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.” (Sigurður Þórarinsson, Fossar á Íslandi, Fjölrit Náttúruverndarráðs, 1978.)

Aðeins þaulkunnugir geta með vissu sagt fyrir um áhrif fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar á fossa á þessu víðáttumikla áhrifasvæði virkjunarinnar, en víst er að þeir skipta a.m.k. tugum og eru þó hugsanlega eitthvað á annað hundrað. Nokkrir fossar mundu hverfa algjörlega, þar á meðal háir og sérlega glæsilegir fossar eins og Kringilsárfoss, stundum nefndur Töfrafoss, sem hyrfi í Hálslón ef það yrði myndað. Sama er að segja um Eyjabakkafoss, sem hyrfi að mestu við myndun Ufsarlóns. Fjöldi annarra fossa skertist misjafnlega mikið og yrðu vart svipur hjá sjón þegar verulega hefur verið dregið úr rennsli þeirra. Nokkrir þeirra eru nefndir í matsskýrslunni og m.a. bent á “…að á um 20 km kafla frá Eyjabökkum niður að Kleif í Fljótsdal eru um 15 fossar allt að 30 metra háir og bera einungis fáir þessara fossa nafn.” Bæði í skýrslu og viðauka er sérstaklega bent á að þessir fossar séu lítt þekktir og læðist að manni sá grunur að skýrsluhöfundum þyki það til marks um lágt verndargildi, sem er auðvitað algjörlega fráleitt.

Hver svo sem heildartala fossa er á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar er ljóst að aldrei fyrr hafa uppi verið önnur eins áform um eyðileggingu fossa á Íslandi og ekki yrði það til vegsauka íslenskri þjóð ef þau yrðu að veruleika.

Óafturkræf inngrip í þróun náttúrufars

Áhrifasvæði virkjunarframkvæmdanna er geysilega víðfemt. Það nær frá Brúarjökli allt til sjávar við Héraðsflóa og tekur til a.m.k. 16 vatnsfalla auk minni árspræna og vatna. Aldrei fyrr hafa komist svo langt hugmyndir um svo umfangsmikla vatnaflutninga né svo mikil heildarinngrip í þróun náttúrufars á svo stóru svæði.

Það er svo enn einn þáttur þessa máls að raforkan sem þessari risaframkvæmd er ætlað að skila dygði ekki til að knýja fyrirhugað álver á Reyðarfirði með allt að 420 þús. tn. afkastagetu á ári. Þar yrðu að koma til fleiri virkjanir og er samkvæmt skýrslunni horft til bæði Kröflu og Bjarnarflags í því skyni með tilheyrandi möstrum og línum og enn frekari umhverfisspjöllum.

Allt er þetta af slíkri stærðargráðu að mörgum reynist erfitt að átta sig á umfanginu. Niðurstaðan hlýtur að vera sú að slík stórfelld óafturkræf inngrip í þróun náttúrufars samkvæmt eigin lögmálum eru óvinunandi með öllu. Það yrði náttúru landsins til óbætanlegs skaða og þjóðinni til ævarandi vansæmdar ef af þeim yrði.

Skýrslan er áfellisdómur

Hér hafa verið settar fram athugasemdir við nokkur þeirra atriða sem mér finnst skipta mestu máli í sambandi við þessi virkjanaáform. Margt fleira í matsskýrslunni verðskuldar miklu nánari umfjöllun. Má þar sérstaklega nefna áhrif á ferðaþjónustu og útivist, áhrif á jarðfræðiminjar, áhrif á búsvæði jurta og dýra og tengsl við alþjóðasamninga um náttúruvernd. Öll sú umfjöllun í skýrslunni styður niðurstöðu mína.

Hér verður þó staðar numið, en að lokum ítrekað að skýrslan er í raun samfelldur áfellisdómur um þessi framkvæmdaáform. Ég legg til að Skipulagsstofnun leggist gegn þeim í úrskurði sínum.

Kristín Halldórsdóttir

201039-4529

Fornuströnd 2

170 Seltjarnarnesi

Námsstefna VG-smiðjunnar

VG-smiðjan stóð fyrir námsstefnu um Rammaáætlun, Reyðarál og Kárahnjúkavirkjun laugardaginn 21. apríl sl. Tilgangurinn var að gefa fólki kost á að fræðast um hinar hrikalegu framkvæmdir sem áformaðar eru á hálendinu norðan Vatnajökuls í því skyni að vinna orku til að knýja álverksmiðju á Reyðarfirði. En svo er að heyra að áhugamenn um þessi áform telji að þau muni snúa öllu á betri veg fyrir íbúa Austurlands og jafnvel landsmenn alla. Margir reyndust fræðslufúsir, því að um 70 manns sóttu námsstefnuna, sem var öllum opin.

Rammaáætlun

Tryggvi Felixson, framkvæmdarstjóri Landverndar, fór yfir starfið við Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem ríkisstjórnin hleypti af stokkunum fyrri hluta árs 1999. Þar er á ferðinni umfangsmikið, afar þarft og merkilegt verkefni, sem er eitt af því góða sem leitt hefur af þátttöku okkar í svokölluðu Ríó-ferli, þ.e.a.s. sem bein afleiðing af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992. Tryggvi lýsti hvernig því starfi vindur fram, hvernig það skiptist milli starfshópa og hvenær og hvernig ætlunin er að leiða það til lykta. Svo virðist sem að flestu leyti sé vel að verki staðið, árlegur kostnaður er um 50 milljónir króna, og margir einstaklingar og stofnanir leggja hönd á plóg. Verður fróðlegt að kynnast áfangaskýrslu, sem væntanleg er um verkefnið í árslok 2002, þar sem kynna á hugmyndir um 25 virkjanir.

Erindi Tryggva var vel tekið og var hann margs spurður að því loknu. Ekki síst veltu menn fyrir sér hvert verður gildi Rammaáætlunar og hver stjórnsýsluleg staða hennar verður. Og auðvitað var spurt um samhengi hlutanna og tvískinnung stjórnvalda, þegar unnið er af fullum krafti að undirbúningi Kárahnjúkavirkjunar og virkjunum í jaðri Þjórsárvera í stað þess að bíða eftir niðurstöðum Rammaáætlunar.

Reyðarál

Geir A. Gunnlaugsson og Sigfús Jónsson fóru yfir niðurstöður mats á umhverfisáhrifum vegna álverksmiðju á Reyðarfirði með þeim fyrirvara þó að matsskýrslan verður ekki birt fyrr en í fyrsta lagi eftir 3 vikur. Ekkert skorti þó á fullyrðingar þeirra félaga um ágæti vinnunnar sem fram hefur farið og þeirra niðurstaðna sem hún hefur leitt í ljós. Þeir lögðu sig að sjálfsögðu fram við að draga fram jákvæða þætti þessa risaverkefnis og skautuðu létt yfir þá neikvæðari. Kynning Sigfúsar á könnun hans á félagslegum áhrifum á mannlíf og umhverfi þar eystra vakti mikla athygli og fyrirspurnir að erindunum loknum.

Augljóst var að fundargestir höfðu ýmislegt að athuga við þá fyrirætlun Reyðarálsmanna að reisa og reka álverksmiðju með allt að 420 þúsund tonna framleiðslugetu. Má raunar furðu sæta að menn skuli hafa farið svo langt með þessa hugmynd og eytt jafn gríðarlegu fé sem raun ber vitni í undirbúning jafn áhættusamrar framkvæmdar, þegar litið er til áhrifa hennar á atvinnulíf og mannlíf á Austurlandi. Það virðist t.d. ljóst að þessi nýja atvinnugrein hefði mikil neikvæð áhrif á aðrar greinar í fjórðungnum og er m.a.s. gert ráð fyrir að á annað hundrað starfa, sem nú eru fyrir hendi, leggist af ef álverksmiðjan kemst á skrið. Gert er ráð fyrir að það muni einkum bitna á loðnubræðslu og málmiðnaði, auk þess sem reiknað er með að fá verði erlent vinnuafl til að gegna drjúgum hluta þeirra starfa sem skapast. Marga hreinlega hryllir við þeirri tilhugsun að atvinnulíf og byggð á Austurlandi kunni í framtíðinni að vera háð þessari einu verksmiðju.

Kárahnjúkavirkjun

En hafi fundargestum verið um og ó þegar þeir hlýddu á mál þeirra Geirs og Sigfúsar þá féll þeim mörgum allur ketill í eld að hlusta á það sem ráðgjafar Landsvirkjunar, þeir Sigurður St. Arnalds, Gísli Gíslason og Kristinn Haukur Skarphéðinsson, höfðu að segja um fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun. Þar er verið að efna til svo tröllslegra framkvæmda að þær munu gjörbreyta landslagi og náttúru, ef af verður. Um það eru menn sammála, en hitt verður vafalaust langvinnt og heitt deiluefni, hvort landinu og náttúrunni sé fórnandi fyrir þann hagnað sem hugsanlega er að hafa. Á þessu svæði er náttúran lítt snortin af mannlegum völdum, þótt nú þegar hafi ýmsu verið bylt við undirbúning og rannsóknir vegna mats á umhverfisáhrifum, vegir lagðir og boruð göt í landið. Þrátt fyrir það er svæðið norðan Vatnajökuls stærsta ósnortna víðerni landsins og þótt víðar væri leitað og sá skaði óbætanlegur ef framkvæmdaáform ná fram að ganga. Þarna eru jarðfræðilegar náttúruminjar í voða, svo og gróðurlendi og dýralíf. Óviðjafnanlegt landslag biði af mikinn skaða, og hugmyndir um þjóðgarð á þessu svæði biðu alvarlegan hnekki.

Námsstefna VG-smiðjunnar varð mörgum kærkomið tækifæri til að átta sig á þessum risastóru verkefnum sem verið er að efna til. Matsskýrslurnar verða auglýstar í maímánuði og verða síðan aðgengilegar á heimasíðum Reyðaráls, www.reydaral.is, og Kárahnjúkavirkjunar, www.karahnjukar.is. Er ekki að efa að margir verða til þess að gera athugasemdir við það sem fram kemur í skýrslunum, enda er hér um slíkt stórmál að ræða, að það varðar ekki aðeins íbúa svæðisins og ekki aðeins landsmenn alla, heldur nær það langt út fyrir íslenska landsteina.

Námsstefna sett

Setning námsstefnu VG-smiðjunnar um Rammaáætlun, Reyðarál og Kárahnnjúkavirkjun 21. apríl 2001 í Borgartúni 6:

Góðir fundargestir! Gleðilegt sumar!

Ég býð ykkur öll velkomin á þennan fund VG-smiðjunnar, fund, sem við höfum kosið að kalla námsstefnu, vegna þess að hér er ætlunin að fræðast og tileinka sér vitneskju um þau risastóru verkefni sem hafa verið í undirbúningi á Austurlandi um alllanga hríð og reyndar tekið miklum breytingum í tímans rás.

Hér eru engin smámál á ferðinni og brýnt að kynna sér þau út í hörgul og nota sinn lögvarða rétt til að láta sig þau varða. Hér er stefnt að byggingu og rekstri enn stærri álverksmiðju en þær sem fyrir eru í landinu og afkastameiri en þær til samans. Og hér eru á borðinu áform um umfangsmestu vatnsaflsvirkjun sem um getur í landi okkar og meiri vatnaflutninga, meira jarðrask og meiri landslagsbreytingar en áður hafa þekkst. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að þessar miklu framkvæmdir munu hafa gríðarlega mikil áhrif, ef af þeim verður, áhrif á náttúru og umhverfi, áhrif á atvinnulíf, efnahagslíf og mannlíf.

Skáldið og athafnamaðurinn Einar Benediktsson hefði orðið kátur yfir þessum stórvöxnu hugmyndum. Hann sem orti óþreyjufullur um aflið “frá landsins hjartarót, sem kviksett er í klettalegstað fljótsins”. Hann fyllti flokk þeirra manna sem vilja fyrir hvern mun beisla náttúruöflin hvar sem því verður við komið. “Hér mætti leiða líf úr dauðans örk / og ljósið tendra í húmsins eyðimörk / við hjartaslög þíns afls í segulæðum.” orti Einar, bergnumin af feiknarafli Dettifoss.

Steinn Steinarr hefði ekki orðið jafn hrifinn. Hann fyllti flokk þeirra sem sjá allt önnur verðmæti í vötnum og fossum og víðernum landsins. “Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá, hún vakir og lifir þó enn”, orti Steinn og er ekki einn á þeim báti skálda og rithöfunda þjóðarinnar, látinna og lifandi, sem gjalda varhug við ofnotkun á afli tækninnar.

Menn kunnu ekki til verka á blómaskeiði Einars Benediktssonar á sama hátt og nú. Tækninni hefur fleygt fram og nú hanna menn risavirkjanir og skipuleggja vatnaflutninga sem aldrei fyrr. Og menn ýmist dást að eða hryllir við.

En það er fleira sem hefur breyst en tæknin til að hanna og framkvæma. Viðhorfin hafa breyst og möguleikar almennings til að hafa eitthvað að segja um framgang mála. Aðstöðumunurinn er eftir sem áður mikill og stór. Annars vegar eru öflug og fjársterk fyrirtæki, oftar en ekki með þéttan pólitískan stuðning ríkisstjórnar og jafnvel þrýsting að baki, og hins vegar févana einstaklingar, félög og samtök með lítið annað en sannfæringuna að liði. Sannfæringin og samtakamátturinn hafa reyndar oft reynst sú þúfa sem velt getur þungu hlassi eins og dæmin sanna.

En hvað um það, með lögum um mat á umhverfisáhrifum er okkur tryggður rétturinn til að fylgjast með og tjá okkur um gang mála. Það er gríðarlega mikils virði að nýta þann rétt. Það er til lítils að fá okkur amboð í hendur, ef við notum þau ekki.

Á tölvuöld er auðveldara en nokkru sinni að fylgjast með, og ég vænti að margir hér inni hafi heimsótt heimasíður þeirra aðila sem hér eru komnir til að fræða okkur. En þær fréttir og myndir sem þar birtast segja ekki nándar nærri allt, heldur verða kannski fyrst og fremst til að kveikja áhuga á að fá meira að vita. Það tækifæri gefst hér á þessari námsstefnu. Markmið hennar er ekki að efna til harðra skoðanaskipta og deilna, heldur að fræðast og leggja grunn að áliti okkar hvers og eins á þessum stórbrotnu áformum, sem hafa svo gríðarleg áhrif á náttúru og umhverfi lands og þjóðar.

Ég segi þessa námsstefnu setta.

Borgaraleg ferming

Í dag fór fram borgaraleg ferming í 13. skipti hér á landi. Árið 1989 voru það 16 ungmenni sem létu ferma sig á þennan hátt, en síðan hefur þátttakan aukist ár frá ári. Nú voru þau 73 sem fengu afhent skírteini til staðfestingar á þátttöku í námskeiði Siðmenntar. Eins og nærri má geta á slíkur fjöldi marga aðstandendur og því dugði ekkert minna en stærsti salurinn í Háskólabíói fyrir þessa athöfn.

Elsta barnabarnið okkar var í hópnum sem útskrifaðist að þessu sinni og gafst því kærkomið tækifæri til að kynnast nánar en ella þessu fyrirbrigði sem hefur opnað mörgum leið til þess að marka með eftirminnilegum hætti skilin milli barnæsku og fullorðinsára. Því miður ber enn talsvert á ákveðinni tortryggni og jafnvel lítilsvirðingu gagnvart borgaralegri fermingu, sem e.t.v. byggist fyrst og fremst á því að fólk hefur ekki kynnt sér hvað um er að ræða. Kirkjuleg ferming er hið viðtekna form og kristilegt umburðarlyndi virðist ekki öllum jafn nærtækt þrátt fyrir kenningu Krists.

Fermingarnámskeið Siðmenntar er fólgið í 12 tvöföldum kennslustundum, þar sem fjallað er um hvað felst í því að vera fullorðin og taka ábyrgð á eigin hegðun og skoðunum. Fjallað er meðal annars um mannleg samskipti, siðfræði, að taka ákvarðanir, um mismunandi lífsskoðanir og lífsstíl, trúarheimspeki, tilfinningar, skaðsemi fíkniefna, ofbeldi og einelti, samskipti kynjanna, hvað gefur lífinu gildi, í hverju hamingjan felst, að bera virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu og að vera unglingur í auglýsinga- og neyslusamfélagi. Þátttakendur eru ekki mataðir á svörum, heldur leiðbeint í leitinni að þeim. Frekari upplýsingar má fá á heimasíðu Siðmenntar, sidmennt.is

Athöfnin í Háskólabíói var bæði falleg og skemmtileg, einlæg og laus við yfirdrepsskap. Á dagskránni voru fjölmörg stutt atriði, tónlist, ávörp og ljóðalestur og að lokum afhending skírteina. Fermingarbörnin tóku virkan þátt í athöfninni, sungu, léku á píanó, þverflautur og klarinett, fluttu ávörp og lásu ljóð, bæði frumort og eftir vini sína. Þau stóðu sig með mikilli prýði og báru þess vitni að hafa fengið góðan stuðning og örvandi uppeldi.

Antoinette Nana Gyedu-Adomako félagsfræðingur og Óskar Dýrmundur Ólafsson sagnfræðingur fluttu ávörp. Antoinette er frá Ghana, en hefur búið nokkur ár hér á landi og flutti mál sitt á íslensku á sérlega lifandi og skemmtilegan hátt. Ávarp hennar setti skemmtilegan svip á athöfnina og minnti okkur á að “…hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu”, eins og Tómas kvað forðum.

Sveinn Kristinsson kennari stjórnaði dagskránni og Jóhann Björnsson heimspekingur og leiðbeinandi á námskeiðinu afhenti fermingarbörnunum skírteini. Allt gekk þetta rösklega og fumlaust fyrir sig og gleðin ljómaði af hverju andliti í þessum stóra hópi ungmenna sem fyllti svið Háskólabíós í dagskrárlok.

Indlandsferð IV

Mörgum Vesturlandabúanum reynist erfitt að standast og umbera allt áreitið sem fylgir því að ferðast um Indland, sjá það sem auganu mætir, umbera betlarana, svara öllum spurningunum sem þeir fá yfir sig, sniðganga sölumennina, hrista af sér skóburstarana, venjast kúnum sem spranga um stræti og hnusa af matnum á útimörkuðunum og leggja frá sér mykjudellurnar á götur og gangstéttir. Áreitið er stöðugt og ágengnin ótrúleg. Sumum finnst þetta skelfilegt, öðrum heillandi. Ég tilheyri síðari hópnum, þótt stundum keyri óneitanlega um þverbak.

Allir að selja eitthvað

Eitt af því sem fólk þarf að hafa í huga og vara sig á er sú gríðarlega sölumennska sem Indverjum virðist svo í blóð borin að manni finnst allir vera að selja eitthvað, vörur, þjónustu, akstur, leiðsögn, og það eins dýrt og þeir mögulega komast upp með. Amet leiðsögumaður, sem ég hef vitnað til áður í Indlandspistlum mínum, ráðlagði hvernig best væri að haga sér ef maður vildi ekki eiga viðskipti við götusala. Ekki segja já og ekki segja nei, sagði hann. Hvað á maður þá að segja? spurði ég. Ekki neitt, sagði Amet, og alls ekki láta þá ná augnsambandi. Ég fór eftir þessu ráði eins og ég frekast gat, en götusalarnir eru ótrúlega ágengir, hvort sem þeir eru að bjóða vöru eða þjónustu. Ráðið dugði því ekki alltaf og gat verið verulega erfitt að hrista þá af sér.

Þeir sletta drullu

Leigubílstjórar eru vísir til að sleppa því að setja gjaldmælinn í gang, ef ekki er að gáð. Burðarmenn í flughöfnum og á járnbrautarstöðvum eru útsmognir að ná viðskiptum og plokka ferðamanninn. Skóburstararnir eru sér á parti og eiga það til að sletta drullu á skó ferðamanna til að sanna þá fullyrðingu sína að þeir þurfi á burstun að halda. Korta- og minjagripasalar hengja sig á ferðamenn og eru ótrúlega þrautseigir að ota sínu fram. En kannski er óþægilegast að standast betlarana sem eru firna ágengir og oft erfitt að greina á milli hvort þeir eru að leika eða raunverulega illa staddir. Ferðabækur ráðleggja þeim sem vilja láta gott af sér leiða að gefa frekar í valda sjóði. Slíkt komi frekar að tilætluðum notum en að gauka aurum að betlurum.

Þau prúttuðu grimmt

Fólkið sem var með okkur í ferðinni um Rajasthan var ekki jafn staðfastlega á móti því að eiga viðskipti við götusala eins og við. Sumir ferðafélaga okkar stóðu í sífelldu prangi, þeir létu götusalana fúslega trufla sig og drógust að hverri búðarholunni af annarri eins og mý að mykjuskán. Þeim virtist þykja gaman að prútta um verð og freista þess að gera góð kaup og birgðu sig upp af útskornum guðalíkneskjum, fílum og úlföldum, marglitum armböndum, skóm úr úlfaldaskinni og sjölum úr kasmírull – að sögn sölumannanna! Ég velti því fyrir mér hvort allt þetta dót sem þau drösluðu út úr landinu hafi í raun og veru veitt þeim einhverja ánægju þegar heim var komið.

Hins vegar er sannarlega hægt að kaupa margt eigulegt í Indlandi ef fólk er í verslunarhugleiðingum. Til dæmis fást kasmírsjöl og silkiklútar af vandaðri gerð og taka ekki alltof mikið pláss í farangri á heimleiðinni. Erfiðara er með ýmsa stærri hluti svo sem teppi sem fást af öllum stærðum og gerðum og mörg hver afar vönduð, falleg og eiguleg. Það er þó lítill friður til að skoða þau sér til ánægju því óðara og minnsti áhugi er sýndur svífa að sölumenn með heilu fyrirlestrana á vörum um framleiðslumáta og gæði hinna margvíslegu teppa og getur verið þrautin þyngri að sleppa frá því með sæmilega kurteislegu móti.

Sjal á hálfa milljón

Til eru sérstakar verslanir, svokallaðar “emporium”, sem ferðamönnum er ráðlagt að nýta sér ef þeir vilja vera vissir um að fá góða vöru á réttu verði. Við fórum í eina slíka í Udaipur og keyptum nokkra ósvikna silkiklúta til gjafa. Elskulegur piltur sá von í okkur til frekari viðskipta og sýndi okkur gersemar frá heimahéraði sínu, kasmírsjöl af margvíslegum gæðastaðli og verðið eftir því. Það er til marks um kurteislega ýtni hans og sölumannshæfileika að honum tókst að freista mín með ótrúlega fallegum kasmírsjölum með marglitu mynstri sem hann sagði að hefði tekið marga mánuði að sauma og sum jafnvel ár. Ég dró það ekki í efa eftir að hafa grandskoðað saumaskapinn. Þvílíkt handbragð! Og verðið var eftir því, það dýrasta var verðsett á tæplega hálfa milljón íslenskra króna!

Naumlega sloppið

Eitt þessara sjala var slík gersemi að ég gat ekki hætt að dást að því. Það var öllum hinum fallegra að mínum dómi, en uppsett verð hugnaðist ekki minni pyngju, þótt það væri ekki einu sinni í námunda við það alhæsta. Mér fannst ég býsna hefðarkonuleg sveipuð þessu dýrindi og ungi maðurinn smurði mig lofi og hætti ekki fyrr en hann fékk mig til að segja hvað ég gæti hugsað mér að greiða fyrir dýrgripinn. Honum lá við yfirliði þegar ég nefndi helmingi lægri tölu en upp var sett, en hann gafst ekki upp og við prúttuðum fram og til baka, sem á reyndar ekki að vera hægt í verslun af þessu tagi, og eiginmaðurinn skemmti sér heil ósköp yfir þessari klemmu sem ég var komin í. Á endanum lagði sölumaðurinn málið fyrir bróður sinn sem var verslunarstjóri, og þegar hann hristi höfuðið yfir þessu smánarlega tilboði mínu varð mér ljóst að ég hefði ekki verið svikin af þessari vöru. En ég var fegin að við náðum ekki saman, það er auðvitað ekkert vit að eyða tugum þúsunda í eitt stykki sjal, hversu ótrúlega fallegt og vandað sem það er. Þar slapp ég naumlega.

Og læt ég hér með Indlandspistlum lokið.

Bókun í útvarpsráði

Íslendingum er það mikil nauðsyn að vegast á með orðsins brandi um hin margvíslegustu mál og sjaldan nokkur ládeyða í þeim efnum. Eftir margra vikna deilur um kjör öryrkja og dóm Hæstaréttar um tekjutengingu greiðslna við maka þeirra tók við annað stórmál, nefnilega forsendur fyrir þátttöku landans í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Deilan snerist um það hvort framlag Ríkisútvarpsins til Söngvakeppninnar (þ.e. Eurovision eða Júróvisjón ef einhver skyldi ekki kannast við íslenska heitið) skyldi sungið á móðurmálinu, sem skv. nýlegri ályktun Bandalags íslenskra listamanna er merkingarlaust og óskiljanlegt í eyrum útlendinga, eða á tungumáli sem gerir listamönnum kleift að “gera sig skiljanlega og koma listaverkum sínum á framfæri þannig að innihald þeirra skili sér óskert til neytenda”, svo að vitnað sé beint í hina merku ályktun BÍL.

Forsaga málsins er sú að útvarpsráð samþykkti á fundi sínum 24. október 2000 þá tillögu Marðar Árnasonar að framlag RÚV til söngvakeppninnar yrði flutt á íslensku í aðalkeppninni. Gæslumenn tjáningarfrelsis tóku þó ekki almennilega við sér fyrr en mörgum vikum síðar, en þá svo hraustlega að svo virtist sem ekki hefði í annan tíma önnur eins vá borið að höndum. Og þar kom að meiri hluti útvarpsráðs sá sitt óvænna og samþykkti á fundi 27. febrúar sl. gagnstæða tillögu frá Merði, m.a. vegna hinnar þungorðu ályktunar Bandalags íslenskra listamanna eða Federation of Icelandic Artists. Ályktun BÍL var reyndar furðu seint á ferðinni miðað við mikilvægi og alvöru málsins. Hún barst ekki Ríkisútvarpinu fyrr en 22. febrúar eða tæpum 4 mánuðum eftir að ljóst var hvílík höft hér átti að setja á tjáningarfrelsi listamanna, svo að aftur sé sótt í orðasjóð BÍL.

Tillaga Marðar Árnasonar hin síðari hljóðaði svo:

“Útvarpsráð samþykkir að listamaðurinn sem vann í forkeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva ráði því sjálfur á hvaða tungumáli lag hans verður sungið í Kaupmannahöfn í vor.

Útvarpsráð samþykkir einnig að kanna að nýju forsendur og framkvæmd þessarar söngvakeppni meðal annars með samráði við samtök þeirra listamanna sem helst koma við sögu.”

Þetta samþykktu 5 útvarpsráðsmenn. Tveir ráðsmenn reyndust þrjóskari en aðrir. Formaður ráðsins sat hjá við atkvæðagreiðslu um afturbatatillöguna og lét bóka að hann teldi þennan viðsnúning varhugaverðan og alls ekki til eftirbreytni. Undirrituð greiddi hins vegar atkvæði gegn fyrri hluta tillögunnar, en með síðari hluta hennar með vísan til eftirfarandi bókunar:

“Undirrituð getur ekki fallist á að rétt sé að breyta reglum um flutning framlags Ríkisútvarpsins til Söngvakeppni sjónvarpsstöðva Evrópu nú að lokinni forkeppni. Hins vegar er sjálfsagt og réttmætt að fara yfir málið að aðalkeppni lokinni og endurskoða allar forsendur fyrir þátttöku með tilliti til þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á tilhögun keppninnar.

Útvarpsráð tók þá ákvörðun á fundi ráðsins 24. október sl. að keppnislagið yrði flutt á íslensku nú í ár og kom það skýrt fram þegar keppnin var auglýst. Þátttakendur vissu því fullvel að hverju þeir gengu. Þegar var ljóst að ekki voru allir sáttir við þessar forsendur keppninnar og var jafnvel látið að því liggja að einhverjir lagahöfundar tækju ekki þátt í henni af þeim sökum. M.a. með tilliti til þess er ósanngjarnt að breyta reglum á miðju ferli.

Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa núgildandi keppnisreglur Ríkisútvarpsins eru Félag íslenskra tónlistarmanna og Bandalag íslenskra listamanna, sem hafa nýlega ályktað um málið og jafnvel látið það álit í ljósi að reglur RÚV um flutning keppnislagsins feli í sér atlögu að tjáningarfrelsi listamanna. Vegna þessarar gagnrýni er eðlilegt að fara yfir málið með fulltrúum listamanna að söngvakeppninni lokinni og freista þess að ná sátt um þátttökureglur til frambúðar.

Undirrituð er þeirrar skoðunar að gengi lagsins sem RÚV sendir til þátttöku í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöða ráðist af gæðum lagsins, útsetningu þess og flutningi, en er reiðubúin að hlusta á rök listamanna fyrir því að textinn vegi jafn þungt og margir vilja vera láta. Hins vegar er það fullkomin hringavitleysa að breyta forsendum keppninnar í miðju kafi og orkar jafnvel tvímælis lagalega. Því greiði ég atkvæði gegn fyrri hluta framkominnar tilllögu, en styð síðari hluta hennar.”