Til hamingju RÚV!

Ríkisútvarpið okkar á afmæli dag. Það er 70 ára. Eins og vera ber hefur þessara merku tímamóta verið minnst á ýmsan hátt, aðallega á flaggskipinu, Rás eitt, sem segja má að hafi haldið margra daga afmælisveislu. Engin leið hefur verið að hlusta á það allt, en nógu oft og mikið til að geta staðfest að veislan hafi tekist með ágætum.

Það er afskaplega gaman að rifja upp gömul kynni við útvarpsfólk liðinna ára, sem voru sannkallaðir heimilisvinir. Manni hlýnar um hjartaræturnar að heyra raddir þessa fólks sem skemmti og fræddi og stytti landsmönnum stundir, og manni verður á að bera sitthvað af þessu endurflutta efni við blaður- og síbyljuþætti hinna “frjálsu” stöðva nútímans, þar sem engin krafa virðist gerð um fagmennsku og vönduð vinnubrögð. Og þá þakkar maður hátt og í hljóði fyrir að Ríkisútvarpið er enn á sínum stað.

En hversu lengi fær það að vera a.m.k. í friði, að ekki sé nú minnst á að efla það? Ríkisútvarpið á verulega í vök að verjast um þessar mundir. Að því er sótt úr ýmsum áttum, en aðallega úr áttum einkavæðingar og frjálshyggju. Þar étur hver upp eftir öðrum að útvarps- og sjónvarpsrekstur sé best kominn í höndum einkaaðila og um leið er alið á óánægju með lögbundin afnotagjöld sem standa að drjúgum hluta undir rekstri RÚV. Með jöfnu millibili birtast lesendabréf í dagblöðunum, þar sem fólk kvartar yfir því að þurfa að greiða afnotagjöld af einhverju sem það notar aldrei, og sífellt er nöldrað yfir dagskrárliðum, einkum sjónvarpsins.

Rás eitt virðist reyndar njóta mikillar virðingar meðal landsmanna og það með réttu. Þar heyrist margt mjög gott og vel unnið efni. Rás tvö er umdeildari, en gegnir þó mikilvægu hlutverki. Hún á að ná til þeirra sem finnst efni Rásar eitt fullþungt og hámenningarlegt á köflum. Henni tekst það býsna vel, en er dálítið farin að hjakka í sama farinu og væri nauðsynlegt að gefa dagskrárgerðarfólki þar færi á að efla sig og bæta. Þegar metnaðarlausa bullið, sem kallað er dagskrárgerð á “frjálsu” stöðvunum, er borið saman við dagskrárgerð Rásar tvö eru yfirburðir hennar þó augljósir. Það vekur hins vegar ugg í brjósti að nú er að vaxa upp kynslóð sem hlustar mest og jafnvel eingöngu á síbyljuna og bullustrákana á “frjálsu” stöðvunum.

Samanburður sjónvarpsstöðvanna er erfiðari. Sjónvarp RÚV þyrfti svo sannarlega að bjóða upp á fleiri íslenska dagskrárliði og fyrst og fremst metnaðarfyllri dagskrá, sem einkennist um of af amerískum sápuóperum og kvikmyndum úr þeirri sömu átt. Þó eru þar margir vel unnir íslenskir dagskrárþættir sem hafa skapað sér sess á heimilum landsmanna, s.s. Mósaík, og aðrir nýtilkomnir sem vekja athygli, s.s. OK. Í þessum stutta pistli verður ekki fleira nefnt né farið í neinn samanburð. Þó vil ég nefna að mér finnst dæmalaust hvað Stöð 2 og einkanlega unglingurinn Skjár einn sleppa við gagnrýni á það dagskrárefni sem þessar stöðvar bjóða upp á. Sá misskilningur virðist t.d. afar útbreiddur að Skjár einn sé með nánast eingöngu íslenska dagskrá, og er það með ólíkindum þegar litið er yfir dagskrárkynningar í blöðunum, að ekki sé minnst á blygðunarlausa markaðshyggjuna sem þar ríður húsum.

Mig hefur oft undrað hversu lítið heyrist í hollvinum Ríkisútvarpsins, sem ég er reyndar sannfærð um að eru miklu fleiri en óvinir þess. Þeir ættu að slá skjaldborg um þessa menningarstofnun sem gegnir svo mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Heilög hamingjan forði okkar frá því að sitja uppi með eintóma lágkúru bullustöðvanna. Til hamingju Ríkisútvarp allra landsmanna!