Ólíkt höfðust þeir að æðstu ráðamenn á Íslandi eða í Noregi um aldamótin. Forystumenn íslensku stjórnarflokkanna sýndu að þeir hafa ekki þokast upp úr hjólförum gamaldags nýtingarstefnu, þegar náttúran er annars vegar. Að svo miklu leyti sem þeir viku orðum að þeim málaflokki var ljóst að þeim er ekki aukið tillit til náttúrunnar í huga. Í áramótaávörpum norskra ráðamanna kvað hins vegar við annan tón og nútímalegri. Sérstaka athygli vakti yfirlýsing norska forsætisráðherrans um að tími stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn og að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hætta við þrjár umdeildar virkjanir sem búið var að heimila.
Yfirlýsingunni var vel tekið af meirihluta fólks í Noregi og hún virðist njóta stuðnings allra þarlendra stjórnmálaflokka. Annað er uppi á tengingnum, þegar leitað er álits íslenskra ráðamanna, sem þykjast ekki skilja samhengi hlutanna. Norsk Hydro er að stórum hluta í eigu norska ríkisins, sem þarna hefur markað alveg nýja stefnu í virkjanamálum og til varðveislu ósnortinna víðerna. Norska ríkið getur því tæpast staðið að starfsemi hér á landi með þátttöku Norsk Hydro, sem hefði í för með sér önnur eins spjöll í íslenskri náttúru og fyrirhuguð Kárahnjúkavirkjun óhjákvæmilega ylli.
En íslenskir ráðamenn berja höfðinu við steininn. “Við eigum nóg víðerni”, segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Austurlandi og virðist þykja lítið til slíkra landsvæða koma. Aðrir taka í sama streng og láta að því liggja að hér sé lítið í húfi og staða Norðmanna allt önnur. Og reyndar er hún það. Ennþá. Þeir áttuðu sig hins vegar á því fyrir um áratug að þeir væru búnir að ganga svo á ósnortna náttúru lands síns að hún næði ekki yfir nema um 12% landsins. Þeir naga sig í handarbökin nú fyrir þá skammsýni og yfirgang að hafa ráðist í Alta-virkjun í Norður-Noregi þrátt fyrir harða andstöðu heimamanna þar. Gro Harlem Brundtland hefur viðurkennt að það voru mistök. En slík mistök verða ekki aftur tekin hversu mjög sem menn vildu. Stórvirkjanir og risastíflur marka varanleg skemmdarverk í ásjónu lands og náttúru.
Fyrir nokkrum árum fékk ég samþykkt á Alþingi að hugtakið “ósnortið víðerni” yrði skilgreint og síðan kortlögð þau svæði sem teldust falla undir slíka skilgreiningu. Tilgangurinn var auðvitað sá að hægt væri að gera sér grein fyrir umfangi þeirra og varðveislugildi.
Sérstakri nefnd var falið að skilgreina hugtakið og studdist þar við bandarískar og norskar skilgreiningar. Niðurstaðan rataði inn í ný lög um náttúruvernd og mun öðlast traustari sess þegar lögboðin náttúruverndaráætlun hefur séð dagsins ljós. En ekkert er enn farið að vinna að kortlagningu. Af einhverjum ástæðum virðist umhverfisráðherra ekki hafa áhuga á að hrinda því verki í framkvæmd þrátt fyrir einróma samþykkt Alþingis 1999. Það er auðvitað óviðunandi með öllu. Ekki einungis vegna þess að með því er ráðherra að hunsa vilja Alþingis, heldur ekki síður vegna þess að það vantar nákvæmar tölur og upplýsingar að vinna með.
Ósnortin víðerni Íslands eru fjársjóður sem aðrar þjóðir hafa glatað. Þær hafa flestar nýtt og manngert nánast hvern lófastóran blett í löndum sínum og geta ekki lengur notið þeirra lífsgæða sem felast í ósnortnum víðernum. Þau gæði eru ómetanleg með tilliti til rannsókna og vísinda, fræðslu og ferðamennsku og sem þáttur í ímynd lands og þjóðar. Við megum ekki láta stórvirkjanastefnuna eyðileggja þennan fjársjóð. Við eigum að læra af mistökum Norðmanna og taka stefnubreytingu þeirra til fyrirmyndar.
Við teljum okkur geta státað af stærsta ósnortna víðerni í Vestur-Evrópu og þótt víðar væri leitað. En hversu stór eru þessi svæði? Það eigum við að kanna og kortleggja.