Bókun í útvarpsráði

Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur og forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands skrifaði grein í Morgunblaðið 17. janúar sl. undir fyrirsögninni “Missagnir um áfanga í sögu kvenna”. Hún fjallaði þar um þátt Ómars Ragnarssonar um atburði 20. aldar, sem sendur var út 14. janúar sl. Í þættinum var m.a. fjallað um árið 1915, og því miður komu þar fram alvarlegar missagnir um kosningarétt kvenna og hvenær fyrstu sérframboð kvenna voru. Ég sá ekki þáttinn sjálf, en hefði annars tekið málið upp á næsta útvarpsráðsfundi 2 dögum síðar. Næsta fund þar á eftir, sem var 30. janúar, gat ég ekki sótt þar sem ég var erlendis. Hins vegar sendi ég ráðsmönnum bréf áður en ég fór og bað þá að fjalla um málið sem augljóslega þarfnaðist leiðréttingar. Það var gert, en eftir að ráðsmenn höfðu tekið fyrir athugasemdir Erlu Huldu og svör Ómars Ragnarssonar við þeim, komust þeir að þeirri niðurstöðu að málið væri á misskilningi byggt. Ekki var ég sátt við þessa afgreiðslu og lét því bóka eftirfarandi á fundi útvarpsráðs 13. febrúar sl:

“Þar sem ég gat ekki sótt fund útvarpsráðs 30. janúar sl. óska ég að fram komi eftirfarandi athugasemd við a)-lið 4. liðar í fundargerð þess fundar:

Að beiðni minni var á fundinum fjallað um missagnir í þætti Ómars Ragnarssonar frá 14. janúar sl. um atburði 20. aldar. Fyrir lágu grein Erlu Huldu Halldórsdóttur í Morgunblaðinu 17. janúar sl. svo og greinargerð Ómars Ragnarssonar um sama efni. Að því hvoru tveggja athuguðu er niðurstaða mín sú, að annað atriðið sem gagnrýnt var, þ.e. um fyrstu sérframboð kvenna, er þannig framsett, að það getur auðveldlega valdið misskilningi um tímasetningu þegar hlýtt er á það í upplestri. Hvað hitt atriðið varðar þá er í greinargerð ÓÞR viðurkennt réttmæti athugasemdar um þá fullyrðingu í þættinum að íslenskar konur hefðu fengið kosningarétt til jafns við karla árið 1915 og lýsir hann þeirri ætlan sinni að breyta textanum í endurflutningi. Þrátt fyrir þetta kemst ráðið að þeirri niðurstöðu að málið sé á misskilningi byggt.

Þar sem málið er tekið fyrir að mér fjarstaddri, en að minni beiðni, tel ég rétt að fram komi að ég er ekki sammála ofangreindri afgreiðslu ráðsins. Ég tel athugasemdirnar réttmætar og ekki á misskilningi byggðar.

Kristín Halldórsdóttir”.

Því er svo við að bæta að mér þótti leitt að sjá Ómar Ragnarsson svara grein Erlu Huldu með þeim hætti sem hann gerði í Morgunblaðinu. Svargrein hans var bæði yfirlætisleg og lítilsvirðandi í garð Erlu Huldu og ekki sæmandi svo ágætum og vel virtum sjónvarpsmanni sem ÓÞR vissulega er.