Fyrir fjórum árum var ég fulltrúi Alþingis á ráðstefnu um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum sem Alþjóða þingmannasambandið hélt í Delhi á Indlandi. Ráðstefnan var bæði þörf og skemmtileg, og um leið tókst mér að fá örlitla nasasjón af landinu og þeirri litríku þjóð sem það byggir. Mér fannst þetta heillandi heimur og óskaði þess að mér gæfist færi á að kynnast honum betur. Það tækifæri kom þó fyrr en mig grunaði þar sem alþjóðasamtök ritstjóra,IPI, héldu þar sína árlegu ráðstefnu 27. – 30. janúar sl. Eiginmaðurinn er virkur félagi í IPI og ég fer stundum með honum á þessar ráðstefnur. Þær eru oft mjög áhugaverðar og skarta heimsfrægum ræðumönnum. Í þetta sinn vöktu mesta athygli tveir Nóbelsverðlaunahafar, sjálfur Dalai Lama, æðsti prestur útlagastjórnar Tíbeta, og hagfræðingurinn Amartya Sen, sem hefur breytt sýn margra á hagfræðina.
Jörðin skalf í Gujarat
Jarðskjálftinn ógurlegi í Gujarat 26. janúar setti svip sinn á ráðstefnuna eins og allt annað í Indlandi þessa dagana. Við urðum hans greinilega vör, stödd á 5. hæð hótels í Delhi, þótt við tryðum því tæplega að um jarðskjálfta væri að ræða. Þennan dag voru mikil hátíðahöld í gangi vegna lýðveldisdagsins, skrúðgöngur og hersýningar, fílatraðk og þotuflug. Við kenndum því um, þar til við sáum fréttirnar í sjónvarpinu. Og þvílíkar fréttir! Þær þöktu síður blaðanna hvern einasta dag, og smám saman varð ljóst hvílíkt manntjón og eyðilegging hefur átt sér þarna stað. Í fyrstu var talið að rúmlega þúsund manns hefðu farist, en sú tala hækkaði dag frá degi eftir því sem fyllri mynd fékkst af ástandinu. Hún er þó furðu brotakennd ennþá hálfum mánuði eftir hamfarirnar.
Fyrstu dagana eftir jarðskjálftann snerist umfjöllun fjölmiðla um tjónið á mönnum og mannvirkjum, og síður blaðanna voru þaktar reynslusögum einstaklinga og heilla fjölskyldna, sögum af hörmungum eða giftusamlegri björgun. Fljótlega fór svo að bera á gagnrýni vegna ótrúlega seinna viðbragða og ómarkvissra aðgerða stjórnvalda. Sú gagnrýni virðist sannarlega á rökum reist, því enn hefur t.d. engin opinber aðstoð borist til nokkurra staða sem þó er vitað að urðu fyrir tjóni.
Óhæfir stjórnmálamenn
Merkilegt var að fylgjast með umræðuþætti á vegum BBC, þar sem fjórum lykilpersónum var stillt uppi frammi fyrir fullum sal af fólki frá jarðskjálftasvæðunum. Þarna var innanríkisráðherra Gujarat, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, talsmaður björgunarsveita sjálfboðaliða og talskona kvennasamtaka, sem hvor tveggja þykja hafa unnið ómetanlegt starf og nutu augljósrar virðingar viðstaddra. Stjórnmálamennirnir riðu hins vegar ekki feitum hesti frá þessum umræðum. Fólkið í salnum var reitt og spurði vægðarlausra spurninga um reglur og eftirlit með byggingum, um óhæfa stjórnendur og fálmkennd viðbrögð. Stjórnandi umræðnanna fylgdi spurningunum fast eftir (væri gaman að sjá svipuð tilþrif hér!) og píndi stundum fram svör, en oftar en ekki fékkst ekki annað en tafs og rugl og ábyrgð vísað út og suður. Og fólkið í salnum gerði hróp að þessum augljóslega óhæfu pólitíkusum svo að þeir máttu oft vart mæla fyrir hávaða.
Margar sögur voru sagðar af heimskulegum stjórnarháttum. Einn sagði m.a. frá því hvernig skrifræðið hefði tafið losun flutningabíls með hjálpargögn í lengri tíma, þar sem krafist hefði verið uppáskriftar embættismanns, sem reyndist hafa farið heim að sofa. Hópur manna beið verklaus á meðan, en tilbúinn að tæma bílinn um leið og embættismaðurinn hefði skrifað nafnið sitt!
Spilling, ringulreið, skipulagsleysi
Sú staðreynd er hrikaleg að tugir þúsunda mannslífa fóru forgörðum í þessum hamförum fyrst og fremst vegna mannlegra mistaka, vegna brota á reglum og eftirliti með byggingum, vegna spillingar, ringulreiðar og skipulagsleysis. Í þessu stóra landi þessarar fjölmennu þjóðar, sem oft hefur mátt þola náttúruhamfarir af margvíslegu tagi, virðast stjórnvöld ófær um að bregðast við slíkum aðstæðum. Það er ótrúlegt. Sama dag og versti jarðskjálftinn reið yfir fór fram glæsileg skrúðganga eftir megin breiðstræti höfuðborgarinnar að viðstöddum erlendum gestum og helstu framámönnum þjóðarinnar. Hvert hérað Indlands sýndi hermenn í búningum síns fylkis, sumir þrammandi, aðrir ríðandi hestum eða fílum, auk þess sem hópar dansandi kvenna og barna í litskrúðugum klæðum settu svip á hátíðahöldin. Hermennirnir kunnu svo sannarlega að þramma í takt og snúa andlitinu allir sem einn á réttu augnabliki að stúku forsetans og tignargesta hans. Og flugmennirnir sýndu glæsileg tilþrif á þotunum sínum þegar þeir settu lokapunktinn aftan við þessa skrautsýningu. Á meðan kvaldist fólkið í Gujarat tugþúsundum saman undir rústum húsanna, sem fæst voru byggð samkvæmt settum reglum. Og það mátti sumt bíða lengi eftir hjálpinni, sem í mörgum tilvikum barst of seint. Margir misstu limi og jafnvel lífið vegna þess að læknishjálp var ónóg. Sums staðar hafði sjúkrahús hreinlega hrunið og læknar og hjúkrunarlið farist. Stórvirk tæki vantaði til að lyfta stoðum og vegghlutum ofan af fólki, og þá var helsta ráðið að aflima á staðnum til að ná manneskjunni undan farginu.
Munu þeir læra?
Forsætisráðherra Indlands heimsótti jarðskjálftasvæðin á þriðja degi. Hann fór um í fylgd fjölda eigin starfsmanna og embættismanna í Gujarat, sem á meðan sinntu ekki bráðnauðsynlegum aðgerðum. Fleiri stjórnmála- og embættismenn fylgdu í kjölfarið og að lokum voru slíkar heimsóknir eindregið afþakkaðar þar eð þeir þvældust bara fyrir og tefðu björgunarstarfið.
Talskona kvennasamtakanna sagði nauðsynlegt að læra af þessu öllu saman, það yrði að vera til áætlun og brýnt væri að koma á fót varasjóði að grípa til við slíkar aðstæður. Talsmaður björgunarsveitanna talaði um nauðsyn samræmdra aðgerða og manni varð hugsað til náttúruhamfara hér heima, viðbragða við þeim og allrar umræðunnar um tengsl eða tengslaleysi t.d. milli Almannavarna ríkisins og björgunarsveitanna. En þótt alltaf megi gera betur hér heima sem annars staðar getum við verið nokkuð viss um að við erum betur búin undir viðlíka hamfarir og áttu sér stað í Indlandi 26. jan. sl. heldur en systur okkar og bræður þar eystra.