Stækkun álvers óráð

Norðurál hf vill stækka verksmiðju sína á Grundartanga upp í allt að 300 þúsund tonna framleiðslugetu. Fyrirtækið hefur af því tilefni sett fram tillögu að áætlun um mat á umhverfisáhrifum, sem allir hafa rétt til að gera athugasemdir við. Eftirfarandi eru þær athugasemdir sem ég sendi Skipulagsstofnun:

Undirrituð gerir eftirfarandi athugasemdir við tillögu Norðuráls hf að matsáætlun fyrir 300 þúsund tonna álver á Grundartanga:

1.

Nú stendur yfir vinna á vegum stjórnvalda við svonefnda Rammaáætlun. Í henni er gert ráð fyrir víðtæku mati á verndun og nýtingu orkuauðlinda hér á landi. Þar til niðurstöður þeirrar vinnu liggja fyrir er tvímælalaust rétt að fresta öllum ákvörðunum og undirbúningi að frekari framkvæmdum á sviði stóriðju og tilheyrandi stórvirkjunum. Með tilliti til þess gerir undirrituð þá kröfu að mati á umhverfisáhrifum stækkaðrar álverksmiðju á Grundartanga verði frestað a.m.k. þar til Rammaáætlun liggur fyrir. Í því sambandi er vert að minna á að með tilliti til náttúruverndar við nýtingu orkulinda, svo og almennrar þarfar fyrir aukna orku vegna mannfjölgunar og vegna vistvænnar framleiðslu, er alls óvíst að hægt verði að auka orkuframleiðslu til stóriðjuverksmiðja.

2.

Í tillögu Norðuráls hf að matsáætlun kemur fram að til þess að fullnægja orkuþörf fyrirhugaðrar 300 þúsund tonna álframleiðslu þurfi um 3100 Gwst. til viðbótar þeirri orku sem notuð verður hjá Norðuráli á Grundartanga þegar stækkuninni í 90 þúsund tonna ársframleiðslu verður lokið. Einnig kemur fram að ekki liggur fyrir hvaðan né hvernig öll þessi orka gæti fengist. Ef ráðist verður í mat á umhverfisáhrifum vegna 300 þúsund tonna álframleiðslu á Grundartanga er það skýlaus krafa að samtímis fari fram mat á þeim virkjunum og orkuflutningi sem óhjákvæmilegur er vegna slíkrar álframleiðslu svo að hægt sé að gera sér grein fyrir málinu í heild sinni.

3.

Í tillögu Norðuráls hf að matsáætlun kemur fram hversu gríðarlega aukningu losunar á gróðurhúsalofttegundum fyrirhuguð álframleiðsla hefði í för með sér. Íslendingar eru nú þegar komnir fram úr þeim mörkum sem Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar gerir ráð fyrir. Losun gróðurhúsalofttegunda frá 300 þúsund tonna álveri á Grundartanga myndi samkvæmt framsetningu Norðuráls auka heildarlosun hér á landi um meira en 30%. Það er vitaskuld algjörlega óviðunandi og ljóst að með slíkar áætlanir í farteskinu næðist lítill árangur í samningum um útfærslu Kýótóbókunar.

4.

Í tillögu Norðuráls hf er sagt að kannað verði hvort ástæða sé til að setja upp vothreinsibúnað. Það er auðvitað sjálfsagt mál. Hérlendum stóriðjufyrirtækjum hefur hingað til tekist að koma sér hjá því að setja upp vothreinsibúnað, og orðalagið í tillögunni bendir til þess að Norðurál hf muni reyna að feta í þau fótspor. Verði af þessari miklu stækkun verksmiðjunnar er þó ljóst að gríðarleg aukning verður á losun brennisteinstvíoxíðs út í andrúmsloftið. Ekkert getur hamlað gegn því að neinu marki annað en vothreinsun. Í því sambandi má minna á umsögn Veðurstofu Íslands, þar sem gerð er krafa um vothreinsun til viðbótar við þurrhreinsun fyrir slíkt risaálver sem þarna er fyrirhugað. Taka ber undir álit Veðurstofunnar í þessu efni og gera vothreinsibúnað að ófrávíkjanlegri kröfu.

5.

Í tillögu Norðuráls hf að matsáætlun er lítillega vikið að losun PAH-efna, þungmálma og díoxíns og þess getið að um þessa þætti verði fjallað ef ástæða þyki til. Sú ástæða er þó sannarlega þegar fyrir hendi og má um það vísa til umsagnar Veðurstofu Íslands svo og til greinar eftir Berg Sigurðsson í Mbl. 6. desember sl. Er þar m.a. fjallað um PAH-mengun frá álverum. Nauðsynlegt er að fjalla af alvöru og vandlega um þessa þætti.

6.

Í tillögu Norðuráls hf er gert ráð fyrir að úrgangur eins og kerbrot verði nýttur til gerðar landfyllingar við Grundartangahöfn. Slík áform vekja furðu sé litið til þeirrar stefnu í förgun kerbrota sem hefur verið að þróast að undanförnu hérlendis sem erlendis. Meðal annars Hafrannsóknarstofnun hefur lýst því viðhorfi að slík meðferð kerbrota standist engan veginn lög um mengunarvarnir og náttúruvernd. Undir það er eindregið tekið.

7.

Í tillögu Norðuráls hf að matsáætlun er ekki ljóst hvernig ætlað er að standa að nauðsynlegum rannsóknum á lífríki Hvalfjarðarsvæðisins og eftirliti með mengunarmælingum og annarri vöktun. Það verður að koma skýrt fram.

8.

Loks er rétt að vekja athygli á þeirri tímaáætlun sem virðist eiga að vinna eftir. Gert er ráð fyrir að matsskýrslan verði auglýst í janúar 2001 og úrskurður Skipulagsstofnunar liggi fyrir í apríl á sama ári. Svo fráleit tímaáætlun fær engan veginn staðist ef ætlunin er að standa sómasamlega að verki.

Seltjarnarnesi, 14. desember 2000

Kristín Halldórsdóttir.