Rajasthan heitir eitt hinna sögufrægu héraða Indlands, þar sem mógúlar og maharajar ríktu öldum saman og skildu eftir sig stórkostlegar minjar um veldisdaga sína. Þegar Indland varð lýðveldi árið 1947 var öllum smákóngunum í landinu gert að láta lönd sín af hendi, þeim var bannað að nota titla, en þeir máttu halda híbýlum sínum og höllum, sem margar hverjar eru nú nýttar í þágu ferðaþjónustunnar, t.d. sem söfn og/eða hótel. Um þetta hérað, Rajasthan, ferðuðumst við hjónin nýlega að lokinni alþjóðlegri ráðstefnu ritstjóra í Delhi dagana sem jörðin skalf í Gujarat eins og ég lýsti í síðasta pistli. Í Delhi urðum við mjög vör við umfjöllun um hamfarirnar miklu og viðbrögð við þeim og m.a. söfnunarátak til aðstoðar fórnarlömbum, en ekkert slíkt varð á vegi okkar um Rajasthan, þótt héraðið sé nær Gujarat.
Minnisvarði um ást
Agra er sá staður sem flestir vitja sem til Indlands koma, því þar er grafhýsið fræga, Taj Mahal, sem sumir kalla “ástarhofið”. Taj Mahal er með sanni eitt af sjö undrum veraldar og ber fagurt vitni um ást mógúlsins Shah Jahan til konu sinnar, Mumtaz Mahal, sem dó af barnsförum, þegar hún ól honum 14. barn þeirra. Hann syrgði hana svo ákaft að hann reisti henni þennan óbrotgjarna minnisvarða á árunum 1632 til 1654. Sagt er að 20 þúsund manns hafi unnið að byggingu Taj Mahal. Aðalarkitektinn, Isa Khan, var frá Persíu. 1000 fílar fluttu mjallhvítan marmarann 300 km. leið. Eðalsteinar voru fluttir alla leið frá Afríku, Persíu, Sri Lanka og Kína og perlumóður úr Indlandshafi. Í þessu undurfagra grafhýsi hvíla þau svo hlið við hlið, stórmógúllinn og hans elskaða eiginkona.
Djásnið dýrt og rusl í haugum
Sitthvað fleira merkilegt má sjá í Agra, sem er milljón íbúa borg og reyndar skelfing óræstileg, jafnvel á indverskan mælikvarða. Mannabústaðir eru þar hrörlegir og götur slæmar og hvarvetna moldryk, skítur og rusl í haugum, sem stingur illilega í stúf við við djásnið dýra, Taj Mahal. Og þannig er því miður víða í indverskum bæjum og borgum. Mannmergðin er gríðarleg og á götunum ægir öllu saman, gangandi fólki, stórum og smáum bílum, hestakerrum, úlföldum, reiðhjólum, fílum, mótorhjólum, hundum, geitum, grísum og kúm.
Ekkert bann við lausagöngu búfjár!
Þar um slóðir gildir ekkert bann við lausagöngu búfjár og eins gott að varast allan úrganginn úr blessuðum skepnunum. Tími hinnar heilögu kýr er öldungis ekki liðinn, menn nytja kýrnar sínar meðan þær gefa eitthvað af sér, en að svo búnu er þeim sleppt lausum. Þær lötra svo um götur og gangstéttir, garða og tún og þiggja það sem að þeim er vikið, þær leggjast til hvílu þar sem þær lystir, jafnvel á miðri umferðargötu og umferðin hlykkjast í kringum þær.
Engin leið er að skilja hvernig umferðin gengur fyrir sig í Indlandi, og reyndar sagði Amet, leiðsögumaður okkar, að bílstjórar þyrftu aðeins að hafa þrennt í lagi, nefnilega flautuna, bremsurnar og eigin heppni. Hvað sem því líður þá sáum við aldrei árekstur eða slys í þessari ótrúlegu ringlureið, en hér kemst maður varla nokkurn tíma Miklubrautina á enda án þess að sjá árekstur.
“Draugabærinn” Fatehpur Sikri
Best varðveitti bærinn frá tímum mógúlanna heitir Fatehpur Sikri og er aðeins 40 km. frá Agra. Einn mógúlanna lagði grunninn að bænum á 16. öld og ætlaði að gera hann að höfuðborg ríkisins. Vegna vatnsskorts var hann hins vegar aðeins nýttur til búsetu í fáein ár og er nú “draugabær”. Stórkostlegar byggingar standa þarna auðar og gagnslausar nema til yndisauka gestum. Ég hreifst mjög af Fatehpur Sikri, sem ég skoðaði þegar ég var í Indlandi 1997, en ekki í þetta sinn.
“Bleika borgin”
Jaipur er stundum kölluð “bleika borgin”, þar sem mörg húsanna í miðborginni eru með bleikum lit. Jaipur telur vel á 2. milljón manna og er höfuðborg Rajasthan. Þar eru hallir og kastalar og þar er stórmerkileg tímamælinga- og stjörnuathugunarstöð og ekki síst litríkt og iðandi mannlíf á götunum, smáverslanir og götusala við hvert fótmál. Uppi í hæðunum skammt utan borgarmarkanna er Amber-kastali, sem merkilegt er að skoða. Þangað er gjarna riðið á fílum, sem við og gerðum, og sennilega nægir mér sú fílareið fyrir lífstíð. Er ólíkt ljúfara að tölta á íslenskum hesti. Indverski fíllinn er annars stórmerkilegt dýr, skapgóður og auðtaminn og þjónar húsbændum sínum dyggilega ef vel er með hann farið.
“Bláa borgin”
Jodhpur er nær milljón íbúa borg nánast í jaðri mikillar eyðimerkur og gjarna kölluð “bláa borgin” vegna áberandi blámálaðra húsa. Þar er stærsta virkið í Rajasthan, Meherangarh, sannarlega heimsóknar virði með öllum sínum safngripum frá tímum maharajanna. Og ekki er síður skemmtilegt að ganga þaðan niður í borgina eftir þröngum götum, þar sem konur og börn sitja fyrir dyrum úti við margvíslega iðju. Í Jodhpur gistum við í stórglæsilegri höll, sem reyndar var byggð á fyrri hluta 20. aldar og hýsir nú bæði hótel og safn, auk þess sem afkomendur maharajanna eiga þar heimili.
Undir stjörnum og fullu tungli
Síðasta borgin sem við heimsóttum heitir Udaipur (pur þýðir borg). Á leiðinni þangað komum við að Jainshofi, en jainisminn á rætur sínar í hindúatrúnni. Fylgjendur leggja mikið upp úr heilbrigðu líferni og hafna öllu ofbeldi, og þangað sótti Mahatma Gandhi hugmyndafræði sína sem dugði til þess að frelsa Indland undan yfirráðum Breta. Við fengum að fylgjast með lokamessu dagsins við kertaljós og tunglskin og skoðuðum þetta stórkostlega hof með óteljandi mismunandi súlum undir leiðsögn æðsta prestsins. Þak var ekki yfir nema hluta hofsins, og fegurra hvolfþak gerist ekki í guðshúsi en heiður himinninn settur stjörnum og fullu tungli eins og þar og þá. Það var ógleymanleg stund.
“Borg vatnanna”
Udaipur er lítil borg á indverskan mælikvarða með aðeins nær 400 þús. íbúa. Vötnin þar setja svip á borgina, en þau eru nú með minnsta móti vegna þurrka undanfarin ár. Munar fleiri metrum á yfirborði vatnanna frá því sem best lætur. Eftir skoðunarferðir fyrri daga um kastala, virki og hallir reyndist höllin í Udaipur ekkert sérlega minnisverð. Hins vegar var gaman að ganga um bæinn og skoða t.d. glæsilegt Shiva-hof frá miðri 17. öld. Hápunkturinn var að gista á Lake Palace, sem er heimsfrægt hótel innréttað í fyrrum sumarhöll, byggðri um miðja 18. öld. Hótelið stendur á eyju í stóru vatni beint fram af aðalhöllinni. Hótelið er með glæsilegu útsýni og ótrúlega fallegt í sjálfu sér, þar sem nostrað hefur verið við hvert einasta smáatriði, hvern dyraumbúnað, hverja smátjörn, hverja veggskreytingu, allt. Ég á varla á minni ævitíð eftir að dvelja á fegurri gististað, gjörðum af manna höndum.