Indland er ekki bara hallir og hof, kastalar, virki og grafhýsi. Indland er umfram allt mannlífið og menningin sem þar þrífst. Indland er suðupottur hefða og trúarbragða, landið þar sem gull og gimsteinar glóa í hróplegu ósamræmi við sóðaskap og ruslahauga. Indland er land öfganna, þar sem fólk býr við ótrúlegt ríkidæmi og sára örbyrgð og allt þar á milli.
P-in þrjú
Á ferð okkar um Rajasthan, sem ég lýsti í Indlandsferð II, höfðum við frábæran leiðsögumann, Amet að nafni. Hann reyndist hvers manns hugljúfi og varð vel við hvers kyns kröfum þessa margbreytilega hóps, sem samanstóð af fólki frá 9 þjóðlöndum. Auk þess var hann léttur og gamansamur og óþreytandi að fræða okkur um forna og nýja menningu og siði, um stjórnmál og brúðkaupssiði og hvaðeina sem okkur fýsti að vita. Hann lá t.d. ekki á þeirri skoðun sinni að ýmislegt mætti betur fara í indversku þjóðfélagi og sum vandamálanna illviðráðanleg. Stærstu vandamál Indlands eru p-in þrjú, sagði Amet, þ.e. “population, politicians og police” eða mannfjöldinn, stjórnmálamennirnir og lögreglan. Að hans mati þrífst mikil spilling meðal stjórnmálamanna og lögreglunnar.
Farsæld hennar í hans valdi
Sum okkar höfðu áhuga á að fræðast um stöðu kvenna á Indlandi, um möguleika þeirra til áhrifa á eigið líf og annarra, um tilhugalíf, brúðkaupssiði og sambúð hjóna. Enda vorum við rækilega minnt á þessi efni nánast daglega á ferð okkar, þar sem indversk brúðkaup eru mikil og langvinn hátíðahöld sem berast um götur og garða með skrúðgöngum, lúðrasveitum, dansi og háreysti. Þar er brúðguminn í aðalhlutverki, en brúðurinn situr heima og bíður þess að vera sótt og lætur lítið á sér bera. Með því er sleginn tónninn í lífi hennar að brúðkaupi loknu. Hennar hlutverk er að hugsa um heimilið, annast börnin og elda góðan mat handa manni sínum. Farsæld hennar er í hans valdi.
Hitti konuefnið í 2 mín. fyrir brúðkaupið
Amet fullyrti að 95 – 98 % indverskra hjónabanda væru skipulögð og umsamin af foreldrum hjónanna. Þar tíðkast að auglýsa eftir maka, t.d. í margra síðna fylgiriti helsta dagblaðs landsins á sunnudögum. Þar auglýsir t.d. myndarlegur, vel menntaður ungur maður, hindúatrúar með góða tekjumöguleika, eftir fallegri stúlku, sem er vel að sér í matreiðslu og heimilishaldi og ekki hærri en 1.60 á hæð! Mynd óskast. Svo streyma inn tilboðin og fjölskyldan sest á rökstóla, og ef saman gengur með foreldrum er væntanlegum hjónum stundum gefinn kostur á að hittast svolitla stund, jafnvel fara saman út að borða í fylgd með öðrum eða fara saman í bíó. Amet er sjálfur kvæntur og tveggja barna faðir og ákaflega ánægður með konu sína og syni. Hann hitti konuna aðeins í 2 mínútur fyrir brúðkaupið og leist bara vel á. Fjölskylda hans setti það fyrir sig hvað stúlkan var lágvaxin. Fjölskyldu hennar þótti það hins vegar ókostur að hann skyldi vera með gleraugu! Niðurstaðan varð að einn galli á hvoru þeirra væri viðunandi, og óðara var blásið til brúðkaups.
Skilnaðir fátíðir í Indlandi
Amet virtist mjög sáttur við þetta fyrirkomulag og benti á að skilnaðir væru fátíðir í Indlandi, hjónabönd þar héldu sem sagt mun betur en á Vesturlöndum þar sem fólk paraði sig á forsendum ástar. Hins vegar viðurkenndi hann að indversk hjón ættu ekki mikið val. Skilnaðir væru litnir hornauga, og slíkt háttalag spillti t.d. fyrir afkomendum sem væru þar með taldir óæskilegri á hjónabandsmarkaðinum þegar þar að kæmi. Þeir kynnu að vera óstöðugir í rásinni og ekki trausts verðir að mati hugsanlegs tengdafólks. Sem sagt fallnir í verði! Auðvitað blasir svo við að fráskilin kona er illa sett á Indlandi, en um það vildi Amet lítið ræða. Hins vegar lýsti hann blátt áfram og heiðarlega vinnudegi húsmóðurinnar, sem færi fyrst allra á fætur og gengi síðust allra til náða og virtist þykja þetta allt saman sjálfsagt og óumbreytanlegt.
Misrétti, svik og ofbeldi
Hvað stöðu kvenna varðar almennt eru öfgarnar miklar eins og á svo mörgum sviðum. Mörg dæmi eru þess að konum sé mikil virðing sýnd, þær láta til sín taka í stjórnmálum og á ýmsum öðrum sviðum, en svo virðist reyndar sem þar ráði fremur stéttarstaða, fjölskyldu- og ættartengsl en það hvort um karl eða konu er að ræða. Hin dæmin eru miklu, miklu fleiri, þar sem konur eru meðhöndlaðar sem annars flokks og annarra manna eign. Blöð og tímarit voru full af skelfilegum sögum um misrétti, svik og ofbeldi gagnvart konum. Löggjöf og lögregla breyta litlu þar um.
Innilokun eða lífið
Indverskar og erlendar kvennahreyfingar heyja harða baráttu fyrir réttindum og bættum hag kvenna, en mega sín sorglega lítils gagnvart aldagömlum hefðum. Í helstu borgum hafa þó orðið breytingar til batnaðar, en ævagamlir siðir eru rótgrónir í minni borgum, þorpum og sveitum landsins. Þar gefa foreldrar dætur sínar stráklingum og gömlum körlum og allt þar á milli og heimanmundur fylgir eftir efnum og ástæðum. Ef fjölskylda karlsins er ekki ánægð með heimanmundinn, kunnáttu stúlkunnar og þjónustu sætir hún oft illri meðferð og stundum hroðalegri. Lögregla og önnur stjórnvöld veita sjaldnast nokkurt skjól, og takist konunni að flýja kvalara sína er hún í raun dæmd til ævilangrar innilokunar ef hún vill halda lífi.
Eins og litskrúðug blóm
Ævi margra indverskra kvenna er í hróplegu ósamræmi við eðlislæga fegurð þeirra og yndisþokka. Þær eru eins og litskrúðug blóm í iðandi mannhafinu, alltaf vel greiddar og sveipaðar síðum marglitum klæðum, hvað sem þær eru að bjástra. Jafnvel sölukonurnar sem sátu á skítugri götunni í Jaipur að vigta hvítauk og baunir og gulrætur handa viðskiptavinunum. Jafnvel konurnar á ökrunum sem bogruðu við vinnu sína. Jafnvel konurnar í vegavinnunni sem báru steinahrúgu í körfu á höfði sér. Allar þessar konur báru hreinleg, litskrúðug klæði sem stungu í stúf við allt rykið og ruslið í kring. Að öllum líkindum áttu þær fyrir höndum að elda mat handa fjölskyldunni að vinnu lokinni.