Dómur Hæstaréttar í málefnum öryrkja snýst um mannréttindi og sjálfsvirðingu. Hann snýst um rétt hvers einstaklings til lágmarks lífeyris og efnalegs sjálfstæðis óháð stöðu og tekjum maka. Og hann er í eðli sínu kvennapólitískur vegna þess að hann varðar fyrst og fremst stöðu kvenna. Það eru einkum konur sem eru látnar gjalda þess sem einstaklingar, ef makar þeirra hafa tekjur yfir ákveðnu marki.
Um þetta snýst dómur Hæstaréttar. Hann snýst hins vegar ekki um það að greiðslur til öryrkja eru almennt of lágar. Þær eru svo lágar að það er þjóðfélaginu til vansa. Og sama er að segja um ellílífeyrisgreiðslur. En um það snýst ekki dómurinn. Það var ekki tilefni málssóknar Öryrkjabandalagsins, enda er það ekki Hæstaréttar að úrskurða um slíkt. Það er pólitískt úrlausnarefni.
Málið er tiltölulega einfalt og þess vegna alveg með ólíkindum hvernig sumir bregðast við dómi Hæstaréttar. Ráðherrarnir, einkum formenn stjórnarflokkanna, eru augljóslega sneyptir og móðgaðir yfir þeirri ráðningu sem í dómnum felst og leggja sig í líma við að lesa út úr honum eitthvað annað en þar stendur. Þeir reyna að slá ryki í augu almennings og tönnlast á því að menn hafi ekki áttað sig á að þetta mál varði aðeins lítinn hluta öryrkja, eða um 700 þeirra rúmlega 8 þúsund öryrkja sem eru í landinu. Þeir ásaka jafnvel forystumenn öryrkja og stjórnarandstöðuna um að hafa skapað væntingar meðal öryrkja um að þeir muni allir fá greiðslur aftur í tímann og verulega hærri greiðslur í framtíðinni. Ásakanir þessara manna eiga ekki við nein rök að styðjast. Þvert á móti eru það þeir sem gera sig seka um að drepa málinu á dreif, flækja það og snúa út úr. Það er ljótur leikur og ómerkilegur. Hins vegar er það hlálegt þegar þeir setja upp geislabaug og segjast vilja flýta endurskoðun laga og reglna til þess að tryggja að þeir sem minnst mega sín fái meira í sinn hlut! Einkennilegt að allt þetta skyldi þurfa til að þeir létu sér detta það í hug.
Kjarni málsins er sá að núverandi lágmarksgreiðsla, þ.e. sjálfur grunnlífeyririnn, er svo lág að hún getur ekki talist grunnlífeyrir. Greiðslur til öryrkja eru nú inntar af hendi í fjórum liðum, þ.e. grunnlífeyrir, tekjutrygging, heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót. Grunnlífeyririnn stendur engan veginn undir nafni, þar sem hann er nú aðeins kr. 18.424, en að viðbættri tekjutryggingu skríða þessar greiðslur yfir 50 þús. kr. Dómur Hæstaréttar gengur í raun út á það að þessir tveir liðir myndi það lágmark sem hverjum skuli ætlað til grunnlífeyris. Tekjur maka eigi ekki að hafa nein áhrif á þær greiðslur. Heimilisuppbætur eru svo greiddar einhleypingum og ekki öðrum, þannig að í því efni er tekið tillit til hjúskaparstöðu viðkomandi. Heimilisuppbæturnar geta nú numið allt að 22.556 kr., og það er sú upphæð sem einhleypingurinn tapar við það að efna til sambúðar eða hjónabands.
Málið er ekki flóknara en þetta. Sérkennileg viðbrögð ráðherra ríkisstjórnarinnar stafa annars vegar af skömmustu þeirra sem skynja sekt sína og hins vegar drambsemi þeirra sem aldrei þola að lúta í lægra haldi.