“Meinvill í myrkrunum”

Ungliðahreyfing Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs var stofnuð 18. nóvember sl. og hyggst láta til sín taka með ýmsu móti. Eitt það fyrsta sem unga fólkið á suðvesturhorninu tók sér fyrir hendur var að sanka að sér leikföngum við hæfi barna á ýmsum aldri og pakka þeim inn eina skemmtilega kvöldstund í desemberbyrjun. Það kom síðan í hlut undirritaðrar ásamt einum galvöskum ungliða að koma nokkrum pappakössum fullum af jólagjöfum til Mæðrastyrksnefndar í Reykjavík, sem sér um að þær lendi þangað sem þörfin er fyrir.

Ekki veit ég hvort þetta er algengt verkefni ungliðahreyfinga innan íslenskra stjórnmálaflokka, en er þó nær að halda að svo sé ekki. Illar tungur segja að þar sé aðaláherslan á æfingar í kappræðum og glasalyftingum sem séu nauðsynlegar til undirbúnings þátttöku í “alvöru” stjórnmálum. En svona eru þessir vinstri grænu, alltaf dálítið sér á parti. Sem betur fer.

Það var merkileg reynsla að fara með jólagjafakassana til Mæðrastyrksnefndar á Sólvallagötu 48. Við fórum með kassana baka til. Þar ægði saman ótal kössum með matföngum, fatnaði og jólagjöfum. Önnum kafnar konur smeygðu sér milli kassanna í leit að því sem við átti hverju sinni. Þær þökkuðu okkur og blessuðu í bak og fyrir og sögðu að ekki veitti nú af, slík væri aðsóknin og þörfin.

Það voru orð að sönnu. Tugir ef ekki hundruð manna mynduðu langa biðröð sem náði út á götu og fram með næstu húsum. Sumir voru niðurlútir og úr baksvipnum mátti lesa: Afsakið að ég skuli vera til. Aðrir voru með hörkusvip eins og þeir vildu segja: Mér er fjandann sama hvað aðrir segja, þetta er eina leiðin til að við getum haldið sæmileg jól.

Eftir götunni óku bílar. Einn þeirra stansaði og út vatt sér miðaldra vel búinn karlmaður. Hvað er hér um að vera?, spurði hann hátt. Ég varð fyrir svörum. Hann horfði á mig og svipur hans lýsti takmarkalausri undrun. En hann sagði ekki orð. Svo settist hann inn í fína bílinn sinn og ók á brott.

Af einhverjum ástæðum duttu mér í hug ljóðlínurnar úr sálminum “Heims um ból” sem vöfðust svo mjög fyrir mér í bernsku: “…en gjörvöll mannkind meinvill í myrkrunum lá”.