Kryddsíld karla

Hefðbundinn reiðtúr á hinsta degi ársins varð að þessu sinni að víkja fyrir hálsbólgu og kvefi. Í staðinn horfði ég á Kryddsíldina á Stöð 2 og fannst hún satt að segja leiðinleg. Fúlast fannst mér að horfa upp á þann eindregna karlasvip sem á þættinum var. Þarna sátu þeir Karl og Sigmundur Ernir, sem börðust nýlega um fréttastjóratitilinn þegar Páll Magnússon fékk vel launað djobb hjá Kára klára, og spurðu fimm stjórnmálakarla hefðbundinna áramótaspurninga. Svörin voru fyrirsjáanleg og vöktu nákvæmlega engin hughrif. Hefur þessi þáttur virkilega alltaf verið svona leiðinlegur?

Edda var eina konan sem sást á skerminum milli auglýsinga og fyrir utan brosið, sem hún fór ekki spart með frekar en venjulega, hafði hún það hlutverk að taka á móti manni ársins að mati Stöðvarinnar. Sá var merkilegt nokk af karlkyni og hafði pabba sinn með sér. Að þættinum loknum datt einhverjum á heimilinu í hug að skipta yfir á Skjáinn, og sat þá ekki Egill súperspyrill þar umkringdur jakkafataklæddum fulltrúum fjögurra stjórnmálaflokka. Hvað er eiginlega að þessum körlum? Finnst þeim þeir vera ómissandi? Líklega er það svo.

Þá var nú Kastljósþátturinn kvöldið áður betri. Meirihluti þátttakenda var reyndar af karlkyni, en konur gegndu þar svo sannarlega veigamiklum hlutverkum. M.a. var maður ársins þar Vala Flosadóttir, sem hefði reyndar mátt fá betri spurningar. Af hverju fær þetta afreksfólk okkar í íþróttum alltaf svona ófrumlegar spurningar? “Segðu mér Vala, hvað hugsaðirðu eiginlega þegar þú stökkst yfir 4.50?”. “Hvað æfirðu marga klukkutíma á viku?”. “Og hvað tekur nú við hjá þér? Ha?”

Vala Flosadóttir á svo sannarlega inni fyrir öllum þeim heiðri og aðdáun sem hún hefur hlotið. Ekki einasta er hún afrekskona á sínu sviði, heldur er hún geislandi persónuleiki, einbeitt, jákvæð, dugleg, einlæg og hógvær í senn. Í einu orði sagt frábær, sem er líklega það lýsingarorð sem hún sjálf hefur notað hvað mest um reynslu sína á liðnu ári.

Satt að segja var ég ekki alveg í rónni fyrr en ljóst var orðið að Vala hafði verið kjörin íþróttamaður ársins. Það hefði verið alveg eftir þessum körlum að kjósa frekar karlkyns íþróttamann. En þeir stóðust mátið. Og það merkilegasta og sögulegasta við þetta kjör var sú staðreynd að í þremur af fjórum efstu sætunum voru að þessu sinni konur. Það er stórkostlegur árangur. Hver og ein þeirra, og Örn sundkappi að sjálfsögðu líka, hafði í raun unnið til þess að hampa þessum eftirsótta titli, ekki síst Kristín Rós, sem minnir um margt á Völu bæði hvað varðar afrek og persónuleika.

Konur sækja svo sannarlega sífellt í sig veðrið á öllum sviðum. En þvílík barátta! Viðhorfin og umhverfismótunin eru svo sterk að það má aldrei slaka á. Það fennir svo fljótt í sporin. Fyrir fáeinum árum hefði Kryddsíldin t.d. ekki litið út eins og nú síðast. Fyrir aðeins örfáum árum sátu þar þrjár konur og þrír karlar sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna. Var Kryddsíldin betri þá? Var hún skemmtilegri? Ég veit það ekki. En hún gaf altént réttari mynd af þessu samfélagi okkar.

Mikið vildi ég hafa komist í reiðtúrinn í þessu kalda en fallega veðri sem prýddi hinsta dag ársins. Það er ekki hollt að hleypa svona mikilli gremju inn á sig.