Breki hjálpar ömmu

JÚIÍDAGAR 2012

1.7. SUNNUDAGUR

Lokadagur Landsmóts hestamanna var ekki alveg jafn notalegur og fyrri daga. Veðrið sendi okkur rigningu af miklum ákafa og spillti svolítið skemmtuninni þennan daginn. En allt komst þetta til skila og ánægjan var ekki lítil í lokin.

2.7. MÁNUDAGUR

Fórum snemma morguns á Kaldbak og sóttum hestana. Skömmu síðar mætti Birkir. Hann járnaði upp 8 hesta og lagfærði hófa þriggja hestanna, sem eru orðnir gamlir og bera okkur ekki lengur á baki, blessaðir karlarnir. Meðan Birkir járnaði fórum við á bak þeirra járnuðu.

Veðrið var milt og gott, en sólin lét ekki sjá sig fyrr en nær kvöldi. Við gistum á Grund eins og fyrri daginn. Kunnum vel við okkur þar.

3.7. ÞRIÐJUDAGUR

Um nóttina rigndi myndarlega á Flúðum og vonandi víða. Það kemur sér vel. Og fyrr en varði var komin sól og hiti, augljóslega allmikill, en ekki veit ég hversu mikill. Hestarnir svitnuðu í hitanum.

4.7. MIÐVIKUDAGUR

Og áfram hélt blíðan og talsverður hiti. Við létum hestana ráða för. Kvöddum þá um miðjan dag og héldum heim, þar sem veðrið var líka gott.

5.7. FIMMTUDAGUR

Fallegur og hlýr dagur. Mestur hiti mældur 14° og rigning sögð nær kvöldinu. Á Seltjarnarnesi skín sólin og sést ekki rigning. Þannig er það oft.

Við Bakkatjörn er aragrúi af mávum og aðeins fáar endur. Kríurnar eru ekki mjög áberandi, en tjaldurinn nýtur síns vel.

Það er fallegt í garðinum okkar þrátt fyrir frekjugang í asparglittunni. Nú er flest í blóma, og rósirnar í sínu fegursta skarti.

6.7. FÖSTUDAGUR

Rúmlega 7 gerði ærlega rigningu, og ekki sást sólin fyrr en nálgaðist hádegi. Veðrið var svo ágætt mestallan daginn. Mestur hiti var 15°.

Hér var lagtækur piltur nánast allan daginn að koma lagi á nýtt sjónvarp. Greinilega kúnst.

7.7. LAUGARDAGUR

Veður var þungbúið í fyrstu, síðan kom ágætis veður og hreinlega yndislegt að kvöldi í sólskini og logni. Mestur hiti mældist 15°.

Ég þurfti aðstoð með sitthvað í tölvunni minni í dag og þarf reyndar alloft á slíku að halda. 11 ára pilturinn Breki er algjör snillingur og enginn nýgræðingur í því efni. Hann sér ekki eftir að hjálpa ömmu sinni.

Spenna og fjör í Víðidalnum

JÚNÍDAGAR 2012

25.6. MÁNUDAGUR

Gott veður, sól og blíða. Mestur hiti 13°.

Forsetakosningarnar eru í fullum gangi og margir sem vilja kjósa utan kjörfundar. Enda má búast við að ýmsir vilji njóta góðviðris og fegurðar landsins umfram allt. Þeir séu á leið um landið, fótgangandi, hjólandi, akandi eða á hestbaki. Við fórum til að kjósa í dag svo að það væri búið áður en mesta spennan verður á Landsmótinu. Ekki væri gaman að missa af því.

26.6. ÞRIÐJUDAGUR

Frábært veður, sólskin frá morgni til kvölds. Talsverður vindur, en hann var hlýr. Mestur hiti sagður 13°.

Gaman er að fara í Víðidalinn í góða veðrinu að fylgjast með Landsmótinu. Þar er margt skemmtilegt að sjá, búið að gera allt hreinlega glæsilegt og sem þægilegast fyrir alla aðila, bæði áhorfendur og þann mikla fjölda af keppendum sem kunna sannarlega að meta góða aðstöðu. Skemmtilegast finnst mér að fylgjast með forkeppninni sem mest ber á fyrstu dagana. Og ekki er síst gaman að fylgjast með unga fólkinu, sem fer sífellt fram.

27.6. MIÐVIKUDAGUR

Vel byrjaði dagurinn í sólskini og hlýju veðri. Mestur hiti mældist 15°.

Á leiðinni í Víðidalinn áttað ég mig á því að betur hefði ég haft með mér meiri fatnað í poka, því ekki var jafn hýrlegt í Víðidalnum og á Seltjarnarnesinu. Skýin voru þar þungbúin og virtust líkleg til að skella yfir rigningu. Mjög gaman var að fylgjast með ungmennaflokknum í milliriðlunum. Flestir hestarnir voru glæsilegir á vellinum, og knaparnir stóðu sig vel. En svo lenti ég í rigningu og varð óþægilega blaut. Læt mér að kenningu verða.

28.6. FIMMTUDAGUR

Ljómandi veður í allan dag, engin rigning, ekkert rok. Mestur hiti 16°. Ekkert nema notalegheit í stúkunni þar sem ég horfði á hvern glæsihestinn af öðrum á Hvammsvellinum. Hrein ánægja.

29.6. FÖSTUDAGUR

Prýðilegt veður, sólin skein mestallan daginn. Mestur hiti mældist 15°.

Mikil stemmning í Víðidalnum og mikil ánægja að hitta gamla kunninga á rólinu. Reyndar virðist fólk njóta sér hvað best í brekkunum þar sem sólin gerir það brúnt milli þess sem hestar og knapar sýna sig. Verður nú sífellt ljósara hvaða hross og hvaða knapar komast til úrslita, og spenningin vex.

Hera og hennar fjölskylda buðu til gleðskapar síðdegis í tilefni þess að hún er nú nýlega orðin stúdent. Flotta borðið hennar Sigrúnar var þakið góðgæti, sem heimilisfólkið bjó til af snilld sinni. Við sátum flest í sólskininu á svölunum, spjölluðum og nutum veðurs og umhverfis.

30.6. LAUGARDAGUR

Frábært veður. Sólin skein í allan dag.

Mættum snemma í Víðidalnum og vorum til kvölds, enda má ekki missa af neinu þessa síðustu daga. Margt verður mér ógleymanlegt af því sem sýnt var í dag, ekki síst þegar Álfur tók á móti Sleipnisbikarnum, umkringdur glæsilegum afkvæmum sínum. Það var svo stórkostlegt og fallegt að margir voru hrærðir. Og þegar allur hópurinn reið í burtu stóðu áhorfendur upp og klöppuðu þeim lof í lófa.

Margt mætti skrá hér um merkilega viðburði á Landsmótinu. Slíkir viðburðir verða sem betur fer víða geimdir annars staðar og nýtast mörgum.

Gaukur hristi haus

JÚNÍDAGAR 2012

21.6. FIMMTUDAGUR

Fórum á Kaldbak að vera með hestunum. Nú eigum við ekki lengur hlut í Kaldbak, en hestar okkar eiga þar aðgang. Gaman hvað þeir tóku vel á móti okkur og við ekki síður ánægð.

Fórum í þrjá reiðtúra, og allt var gott og skemmtilegt að undanteknu miklu flugnageri, sem angraði okkur og þó sérstaklega hestana. Gaukur minn hristi hausinn án afláts, hundpirraður út í flugnaskammirnar.

Veðrið var þó ljómandi gott. Það rigndi svolítið með köflum, sem var gott og gagnlegt, því þurrkurinn hefur verið til baga. Hefði mátt fá enn myndarlegri dembur.

Við gistum næstu daga á Grund á Flúðum. Það er lítið snoturt Gistiheimili, engin íburður, en notalegur staður og ágætur matur.

22.6. FÖSTUDAGUR

Sváfum eins og sveskjur alla nóttina. Yndislegt veður, sól og meiri sól, en því miður flugur og enn fleiri flugur. Þrátt fyrir flugnagerið voru hestarnir í góðu stuði, og við fórum lengra en í gær. Við svo búið gáfum við þeim öllum góðan slurk af ormalyfi og mola í verðlaun. Nauðsynleg aðgerð.

23.6. LAUGARDAGUR

Frábært veður, sólskin allan daginn. Talsvert heitt, en nú hef ég engan hitamæli.

Enn lengdum við reiðtúrana og létum hestana sulla svolítið í ánni. Það kom sér vel í hitanum.

Til stóð að Birkir á Hæl kæmi til að járna hestana, en það fór út um þúfur þennan daginn vegna anna Birkis. Það gerði raunar ekkert til, niðurstaðan varð að járningin yrði viku síðar. Kemur sér bara betur, þá nálgast hestaferðin yfir Kjöl sem okkar bíður í júlí, og þá er gott að hestarnir séu nýjárnaðir.

24.6. SUNNUDAGUR

Enn skein sólin og enn var verulega hlýtt. Hestarnir voru sveittir í góða veðrinu og eins gott að gefa þeim frí næstu dagana. Svipað veður mun hafa verið í Suðvestrinu. Vonandi verður áfram gott veður a.m.k. vikuna sem Landsmótið stendur yfir. Það hefst á morgun.

Lengsti dagur ársins

JÚNÍDAGAR 2012

15.6. FÖSTUDAGUR

Sama veðrið. Mestur hiti 3°. Varla hægt að vera innan dyra.

Fór í gönguferð kringum golfvöllinn á Suðurnesi. Þar var aldeilis fjörið, fullt af fólki að slá sínar kúlur, og fuglarnir létu ekki hrekja sig af vellinum. Grágæsirnar eru sallarólegar í þessu ati, og tjaldurinn lét ekki trufla sig þar sem hann tíndi upp í sig í rólegheitum. En kríurnar vori ekki í neinum rólegheitum og flugu sumar nánast niður á haus mér. Eins gott að hafa með sér pottlok í næstu ferð.

Hannes Bjarnason sat fyrir í gær og var bara ágætur. Virðist hressilegur maður. Sá ég þó ekki né heyrði nema brot af spjallinu, því svefnin tók af mér völdin. Sofnaði auðvitað með bros á vör, því í ljós kom að Hannes hafði stundað nám á Laugum og þótt þar gott að vera. Ekki var ég hissa á því. Og gaman var að sjá umhverfið í myndum þar, að meðtaldri Varmahlíðinni okkar.

16.6. LAUGARDAGUR

Góður dagur. Skýin voru svo sérstaklega óvenjuleg og falleg að ég gat eiginlega ekki synt nema á bakinu til að missa ekki af þessu. Mestur hiti var 11°. Hótað var rigningu, en hún barst ekki til okkar.

Það var annasamt á lóðinni og gekk á ýmsu. Áhöldin voru að stríða okkur. Dóra þurfti sífellt að lagfæra orfið, sem ég réð ekki við. En verra var með sláttuvélina, sem komin er á gamalsaldur og ætlar alla að klára við að koma henni áfram. Við Dóra og Sindri fórum að lokum í BÝKÓ og keyptum spánýja sláttuvél, sem á að létta okkur bæði lund og vinnuþrek.

Eftir allt þetta vesen og brölt er nauðsynlegt að hvílast í heitum potti!

17.6. SUNNUDAGUR

Veðrið var betra en spáð var. Mjög lítil rigning. Mestur hiti 12°. Voru því hinar ágætustu aðstæður á þjóðhátíðinni víðast hvar.

Ekki eru þó allir jafn spenntir fyrir hátíðum. Ég minnist þess þegar ég bauð tveimur yngstu börnum mínum að fara með þeim í bæinn í tilefni af þjóðhátíðinni. Þau voru strax mjög tortryggin og vildu vita hvað í boði væri. Ég reyndi að tína til eitthvað sem gæti skemmt þeim í bænum, en viðbrögðin voru athyglisverð: “Mér finnst leiðinlegt að skemmta mér”, sagði þá Pétur minn, og var ekki oftar rætt um það.

18.6. MÁNUDAGUR

Gott veður. Mestur hiti 12°.

Nýja sláttuvélin gerði ekkert gagn á laugardaginn. Dóra setti allt saman eins og til stóð, en svo vildi vélin ekki fara að vinna. Við urðum að bíða meðan fólk fagnaði þjóðhátínni í gær, en nú biðum við ekki boðanna að fá leiðsögn frá BÝKÓ. Dóra stóð í ströngu að ræða málin, en loks leystust öll vandræði og varð nú kátt í höllinni. Lóðin hefur tekið stakkaskiptum.

Hlustaði á Ara Trausta Guðmundsson í kynningarþættinum í kvöld. Hann var ágætur, en svolítið dreyssugur.

19.6. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður, þótt lítið sæist til sólar þennan daginn. Mesti hitinn mældist 10°. Aðeins rigndi dropum og þeir hefðu mátt vera fleiri vegna þurrkans.

Í kvöld var rætt við Ólaf forseta. Ég lét mig hafa það að fylgjast með þótt ég vissi mæta vel að það yrði mér ekki til skemmtunar. Fátt kom svo sem á óvart. Forsetinn talaði hraðar og meira en nokkru sinni, talaði mest um sjálfan sig og sitt ágæti. Hann sneri út úr fyrirspurnum Margrétar og Heiðars og svaraði minnst því sem þau spurðu um. Hann var hortugur og ókurteis við þau. Tími þessa forseta er löngu liðinn.

20.6. MIÐVIKUDAGUR – SUMARSÓLSTÖÐUR

Gott veður. Regnskúrir öðru hverju. Stundum hellirigning í kapp við sólina og ljómandi fallegir regnbogar. Mestur hiti 11°.

Sumarsólstöður eru í dag. Nú er lengstur sólargangur, lengsti dagur ársins og sól hæst á lofti á norðurhveli jarðar. Sólin kom upp þegar klukkuna vantaði sex mínútur í þrjú í morgun, og hún sest fimm mínútur yfir miðnætti. Daginn tekur síðan að stytta, en lofthiti helst ekki í hendur við sólarganginn því að meðaltali er hvað hlýjast í lok júlí.

Var að ljúka þeirri merku bók Málverkið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Mjög sérstök bók og vel gerð.

Síðasta kynningarþátturinn var í kvöld. Þar sat Andrea Jóhanna Ólafsdóttir með þeim Margréti og Heiðari. Það var bara gaman og athyglisvert að hlusta á Andreu, sem hefur frá mörgu óvenjulegu að

segja um það sem hún vill koma á framfæri.

Snælda uppi á þaki

JÚNÍDAGAR 2012

8.6. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður, þótt sólin skini ekki allan daginn. Mestur hiti 13 °.

Snælda litla brá sér upp á þakið hjá nágrönnunum í góða veðrinu. Dálítið bíræfin sú stutta og hefði varla komist aftur niður, ef Dóra hefði ekki sótt hana.

Snæddum háðegisverð með Þórði og Sólu á nýja staðnum hans Friðriks, sem var afar vinsæll á Akureyri fyrr á árum. Honum og fjölskyldunni bregðast ekki bogalistinn. Maturinn var ljúffengur og ótrúlega ódýr. Við eigum trúlega eftir að koma oftar á þennan ágæta stað.

Var að lesa Einvígið eftir Arnald Indriðason. Hann bregst aldrei.

9.6. LAUGARDAGUR

Gott veður. Mestur hiti mældist 11°.

Fór á nokkra staði í leit að fallegum blómum til að setja á leiði mömmu. Ekki veit ég hvers vegna blómin eru svo léleg að mér fannst, en ég gafst upp á leitinni og sætti mig við það sem til var. Mamma og Ása frænka fengu það skásta sem ég fékk. Vonandi braggast blómin í sæmilegri mold.

10.6. SUNNUDAGUR

Gott veður í dag. Mestur hiti 11°.

Bar blákorn á blóm, víði og tré og jós vatninu yfir öll beðin. Vona að þeim líði betur.

11.6. MÁNUDAGUR

Ágætt veður. Mestur hiti 12°.

Fengum Jón pípara í morgun. Sá var ekki lengi að laga það sem þurfti. Þá var hins vegar brýnt að ræða kosningabaráttu og forsetaframbjóðendur um drikklanga stund. Þar var margt gáfulegt sagt, og ekki nóg með það, því Bónfús kom skömmu síðar og sótti grútskítugu bílana okkar til yfirferðar. Á þeim bænum þurfti ekki síður að ræða af miklum ákafa um kosningabaráttu og frambjóðendur. Sannarlega nóg á þessum degi.

12.6. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður. Mestur hiti 11°.

RÚV reynir að tryggja almúganum nóg tækifæri til að kynnast forsetaframbjóðendum um þessar mundir, enda ekki langt til kosningar. Næstu daga verður rætt við hvern og einn þeirra og í kvöld varð Herdís Þorgeirsdóttir fyrst þeirra. Ekki skorti hana það sem hún vildi koma á framfæri.

13.6. MIÐVIKUDAGUR

Enn er sama veðrið. Mestur hiti 11°.

Fréttirnar á RÚV eru satt að segja oft og tíðum óttalega leiðinlegar. Upp á síðkastið er hins vegar farið í spor útvarpsins, sem segir oft skemmtilegar fréttir af hinu og þessu, t.d. um háttarlag fugla. Á RÚV hefur undanfarið verið sagt frá háttalagi lóunar, hrafnanna og nú síðast tjaldsins. Þetta kunna margir að meta.

Í kvöld var rætt við Þóru Arnórsdóttur. Hún stóð sig jafn vel og við mátti búast.

14.6. FIMMTUDAGUR

Gott veður. Mestur hiti 13°. Síðari hluta dagsins kom dynjandi rigning. Hún var vel þegin.

Lítið um að vera á Bakkatjörn. Álftirnar eru alltaf jafn virðulegar og annast ungana sína vel. Hef ekki séð þar aðra unga, hvorki hjá öndum né æðarfugli. Kríurnar láta þó til sín heyra eins og þeirra er vani, og ungar þeirra hljóta að sýna sig brátt.

Vantar vætu og meiri grósku

JÚNIDAGAR 2012

1.6. FÖSTUDAGUR

Frábært veður, sólskin og ljúfir vindar. Mestur hiti 15°.

Nóg að gera á Fornuströnd. Pétur undirbýr flutninginn og Dóra málar hillur. Ég sturtaði heilum ósköpum af grænsápu yfir brekkuvíðinn og vona að það reki burt allar pöddurnar sem hafa allt í einu orðið svo svakalega margar. Síðan tók við heilmikið stúss við skrúbb og smurningu á hnakka, beisli og múla með leðursmyrsli og býflugnavaxi. Ekkert rusl, þegar þrífa þarf fyrir dýrindin okkar.

Svana á afmæli í dag, hress og kát. Ekki slæmt að fá þetta ljómandi veður á slíkum degi.

2.6. LAUGARDAGUR

Öndvegisveður, sól og blíða. Mestur hiti 14°. Mikill mannfjöldi í sundlauginni.

Um hádegið voru Vortónleikar í Melaskóla hjá Margréti Þóru Gunnarsdóttur. Það var gaman að hlusta á píanónemendurna, sem eru nokkrir virkilega efnilegir. Kristínu gengur alveg prýðilega. Hún spilaði bæði ein og með öðrum og gerði mjög vel.

Allt á hvolfi hér á Fornuströnd. Enn var pakkað og allt til reiðu, þegar flutningabíllinn mætti. Vinir og vandamenn hjálpuðu til við að lesta bílinn og aðstoða síðan við að koma öllu inn í íbúðina langþráðu. Hún er á Barðastöðum nr.15 og er bara örstutt frá Mosfellsbæ. Trúi að þar verði gott að búa.

3.6. SUNNUDAGUR

Enn einn dýrðardagurinn. Sól og blíða, mestur hiti 15°. Og kvöldið er eins og ævintýri.

4.6. MÁNUDAGUR

Gott og fallegt veður. Mestur hiti 15°. Mætti vökva jörðina öðru hverju.

Fórum upp á Kaldbak að vita hvernig hestarnir hafa það, og þar var talsvert heitara en hér við sjávarmálið. Hestarnir tóku vel á móti okkur og fengu mola úr vasa. Fegnust vorum við að sjá að Dugur og Breki virðast vera alveg í sátt við hópinn.

5.6. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður, en dálítið hvasst. Mestur hiti 11°.

Kári var að kveðja Snælandsskóla og fá einkunnirnar. Þær eru mjög góðar eins og við mátti búast. Kári sækir um Menntaskólann við Hamrahlíð, eða MH eins og hann er oftast nefndur. Þar lærðu Kristján, Katrín og Katla, og væri hrein furða ef Kára væri ekki tekið jafn vel.

6.6. MIÐVIKUDAGUR

Mestur hiti mældist 10° þennan daginn. Talsvert hvassviðri dró svolítið úr útivist, þótt ekki væri beinlínis kalt.

Sindri og Breki voru við skólaslit í dag. Þeir fengu báðir ágætar einkunnir. Það er gaman að fylgjast með unga fólkinu sem sem stendur sig svo vel.

7.6. FIMMTUDAGUR

Langt er síðan rigning hefur sýnt sig – að minnsta kosti á Seltjarnarnesi. Mestur hiti í dag mældist 11°. Rigningin gerir sitt gagn þótt hún sé hógvær, og vonandi gleymir hún ekki hestunum okkar á Kaldbaki. Þar vantar vætu og meiri grósku.

Fordinn minn gamli góði bilaði. Stýrisdæla lak, og bíllinn hreinlega kveinaði, þegar ég varð að taka beygjur. Fékk góða þjónustu í morgun á Bíldshöfða 2. Þar fékk ég þær fréttir að dælan kostaði drjúgt, og vinnan tæki væntanlega a.m.k. 5 klukkustundir. Ég fór andvarpandi heim, en fékk svo upphringingu klukkustund síðar. Stjórnandinn var jafn glaður og ég, því bilunin var ekki svo slæm sem við var búist. Gott mál.

Sindri í fótspor Péturs

MAÍDAGAR 2012

24.5. FIMMTUDAGUR

Nú rigndi myndarlega þennan daginn. Blóm, tré og runnar njóta þess fegin. Á lóðinni er komið kafgras. Eins gott að slá þetta sem fyrst.

Það var fjör við Bakkatjörn í morgun. Fullt af kríum sem spöruðu ekki raddböndin. Og sérlega gaman að sjá rauðhöfðaönd, sem ég hef ekki fyrr séð á Bakkatjörn. Herrann er aldeilis flott og sæll með frúna þar sem þau synda á tjörninni.

25.5. FÖSTUDAGUR

Svo hvasst var í morgun að ég var næstum fokin út í sundlaug. Hins vegar var veðrið ekki vont, þótt ég nennti ekki að berjast um úti. Mestur hiti mældist 11°.

26.5. LAUGARDAGUR

Skikkanlegt veður, en engin dýrð. Sólin lét varla sjá sig. Mestur hiti mældist 10°. Um kvöldið kom demba.

27.5. SUNNUDAGUR

Fínt veður í dag á sjálfan Hvítasunnudaginn. Sól og blíða.

Ég baukaði lengi í beðum og á þó eftir mikið puð. Skemmtilegast var þegar Pétur kenndi Sindra á sláttuvélina okkar. Sá var ekki lengi að læra sláttinn og hagaði sér eins og þaulvanur sláttumaður. Pétur hefur slegið lóðina hér árum saman, en er nú að flytja ásamt Marcelu í nýja íbúð, svo að Sindri rennir sér í fótspor Péturs.

28.5. MÁNUDAGUR

Öndvegis veður í allan dag. Getur varla betra verið til sláttar og við annað stúss utan dyra. Veðurstofan hélt því fram að mestur hiti hefði ekki orðið meiri en 11° þennan daginn.

29.5. ÞRIÐJUDAGUR

Sólin gleður mann hvern dag. Mestur hiti mældist 13°.

Katla á afmæli í dag. Katla og Kolbeinn hafa alltaf mikið að gera, svo að það gladdi mig að heyra að þau ætluðu að halda rækilega upp á afmælið. Þeim veitir ekki af að slaka stöku sinnum.

30.5. MIÐVIKUDAGUR

Prýðis veður daginn langan. 11° hiti mestur í dag samkvæmt Veðursstofunni.

Hér var unnið látlaust í dag. Pétur og Marcela pökkuðu búslóð sinni í miklum móð. Dóra er enn að betrumbæta aðstöðuna í kjallaranum, sem átti að vera bílageymsla. Þar hefur aldrei komið bíll inn fyrir þröskuldinn.

Illa fór fyrir Snældu. Hún ætlaði að fá sér vatn í krana, en tókst ekki betur en svo að hún datt ofan í klósettið. Sem betur fór var Sindri til taks og við hjálpuðumst við að þvo ungfrúnni í baðkerinu. Sú var ekki kát. Síðla dagsins kúrði hún sig í góðum stól og svaf í þrjá tíma. Veitti ekki af hvíldinni eftir ósköpin.

31.5. FIMMTUDAGUR

Sólin vakti mig fyrir kl. 6. Heiðríkja og sólskin frá morgni til nætur. Mestur hiti 14°. Í slíku veðri er ekki hægt að vera innan dyra.

Við fórum í Grasagarðinn og fengum okkur frábæra máltíð um hádegið. Humarsalat. Getur varla betra verið.

Pétur heldur áfram að undirbúa flutninginn, Dóra málar kassa, sem eiga að verða hillur undir bækur, og ég hreinsa hnakka. Allt ákaflega gagnlegt!

Glaðir hestar á Kaldbak

MAÍDAGAR 2012

15.5. ÞRIÐJUDAGUR

Enn er mjög kalt í lofti, en hefur þó skánað verulega. Sólin skein í dag og mestur hiti mældist 6°. Himinninn er heiðskýr í kvöld og komið frost. Það sér víða á gróðri og ekki síst útsprungnum blómum.

Pálmi á afmæli í dag, orðinn hvorki meira né minna en 44 ára. Ég er alltaf jafn yfir mig undrandi á því hvað börnin mín leyfa sér að verða sífellt fullorðnari. Svona er víst lífið. Við heimsóttum Pálma og fjölskyldu í kvöld og fengum auðvitað nýbökuð brauð og fínirí. Stelpurnar eru snjallar og hafa gaman af að baka.

16.5. MIÐVIKUDAGUR

Fallegt veður, en fjári kaldur vindurinn.

Átti annríkt í dag. Sund, sjúkraþjálfun, jarðarför, hestastúss, út að borða með Þórði og Sólrúnu. Ekki mikið hlé inn á milli.

Guðrún Halldórsdóttir lést 2. maí eftir langvinn og erfið veikindi. Útför Guðrúnar var gerð frá Hallgrímskirkju í dag og var þar margt um manninn. Kvennalistakonur eiga Guðrúnu margt að þakka. Hún starfaði mikið með okkur og sat nokkrum sinnum á Alþingi. Guðrún var afar merkileg kona og okkur kær.

17.5. FIMMTUDAGUR

Ágætt veður í dag, en hitinn fór ekki hærra en 5°.

Gaukur og Stormur eru orðnir nokkuð órólegir. Vorið kallar á hestana okkar. Held að þá sé farið að langa að bíta grasið á Kaldbak.

18.5. FÖSTUDAGUR

Sólin var hógvær í dag, en veðrið var ágætt. Mestur hiti mældist 7°.

Stormur fór með mig í einum spretti í dag og var öðru hverju að reyna að taka af mér ráðin. Allt fór það vel og var sérlega skemmtilegur sprettur.

Nú stendur til að ferja hestana alla leið á Kaldbak á sunnudaginn. Þá verður gaman að sjá þá taka til fótanna þegar þeim verður sleppt á tún.

19.5. LAUGARDAGUR

Enn batnaði veðrið og var bara notalegt með köflum. Hitinn mældist mest 11°.

Reiðtúrarnir í dag verða þeir síðustu í bili.

20.5. SUNNUDAGUR

Gott veður. Mestur hiti mældist 11°. Engin úrkoma.

Mættum kl. 8 í hesthúsinu. Gáfum hestunum hey til að seðja morgunsvengdina áður en þeir færu austur á Kaldbak. Allt gekk vel, það tók aðeins 10 mínútur að raða þeim á bílinn hjá Kristjáni bílstjóra. Við Jónas ókum austur og þurftum ekki lengi að bíða eftir flutningnum. Það er alltaf jafn gaman að sjá hestana koma á gamlar slóðir. Þeir hlupu í kátínu um grundir og fóru strax að bíta grösin. Þeir eru himinlifandi að éta grösin ný, þótt nokkuð vanti gnóttina.

21.5. MÁNUDAGUR

Sólskin og gott veður í dag. Að kvöldi var þó komið mistur svo að ek

Gengum um Grasagarðinn í Laugardalnum í góða veðrinu. Blómin þar og trén verða æ fallegri með hverjum degi. Og fuglarnir kvaka og syngja. Þeir eru svo skemmtilega óhræddir þarna. Þeir virðast treysta fólkinu, sem fer um svæðið í róleghitum.

22.5. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður, mestur hiti 12°. Svolítið rigndi, en reyndar næstum ekkert á Nesinu.

Gaman er að fylgjast með lífinu í og við Bakkatjörnina. Álftaparið syndir stolt með 3 spánnýja unga og verður gaman að sjá þá dafna. Aðra unga sá ég ekki, vonandi hafa máfarnir ekki gleypt þá. Nokkrar margæsir voru á tjörninni, en þær hljóta að taka brátt flugið til kanadísku Íshafseyjanna þar sem þær verpa.

23.5. MIÐVIKUDAGUR

Dálítið hvasst í dag, en frekar hlýtt. Mestur hiti mældist 12°.

Snælda og Snepla fengu frelsið

MAÍDAGAR 2012

8.5. ÞRIÐJUDAGUR

Napur er garrinn að norðan. Sólin gerir sitt til að efla hlýjuna, en hefur varla við.

Snælda og Snepla fengu frelsið í dag. Þær eru himinlifandi, sérstaklega Snælda, sem þoldi illa að vera innilokuð. Þær hoppa og skoppa og snuðra allt um kring, finnst afar spennandi að kanna umhverfið. Vonandi verða þær ekki of gálausar.

9.5. MIÐVIKUDAGUR

Um síðustu nótt var við frostmark. Í dag var veðrið ágætt, en mestur hiti var um 5°.

Léttir var ekki sjálfum sér líkur þegar ég setti hestana út. Lagðist hvað eftir annað og lá eins og klessa með lokuð augu. Ég hífði hann upp og fór með hann í göngutúr þar til Katrín mátti vera að því að líta á sjúklinginn. Honum batnaði sem betur fór þegar Katrín hafði skoðað hann og gefið honum sprautu. Frábært að geta fengið aðstoð Katrínu á næsta leiti. Litum aftur til Léttis í kvöld og hann virtist í góðu standi.

Ég fór stuttan túr á Dug, en eitthvað vantar upp á hjá okkur. Við þurfum líklega kennslu.

10.5. FIMMTUDAGUR

Það var hlýtt í sólinni, en kalt þar sem veðrið náði að blása. Mestur hiti 7°.

Breki var ekki í besta skapinu sínu í dag, vantaði líklega betri félaga en mig. Hann var nú vissulega mjúkur þessi ljúfi hestur, þótt hann eigi til tiktúrur. Stormur minn var hins vegar í hörku stuði og endaði á fljúgandi ferð. Það var sko gaman.

11.5. FÖSTUDAGUR

Það rigndi alltaf öðru hverju í dag. Það kom sér í rauninni vel því það var orðið mjög þurrt og mikið ryk. Mestur hiti mældist 8°.

Fór í góðan túr með Gauki og seinna með Breka, sem var í góðu stuði þennan daginn.

12.5. LAUGARDAGUR

Veðrið var nokkuð gott, að minnsta kosti þegar ekki rigndi. Mestur hiti 7°.

Nú kemur senn að lokum hjá elstu börnunum í leikskólanum í Skildinganesi. Áslaug er þar í hópi sex barna sem fara líklega flest í Melaskólann í haust. Það var svolítil hátíð í leikskólanum fyrir hádegið. Glæsilegast var þegar börnin sex stilltu sér upp á tröppur og sungu þrjú lög fyrir okkur. Þvílíkt flott! Þau fengu svo blóm og fleiri gjafir.

13.5. SUNNUDAGUR – MÆÐRADAGURINN

Hvasst var hér í dag, en mun verra veður blés um Norður- og Austurland. Þar var talsverð snjókoma, verulega hvasst og kalt. Vonandi stendur þetta veðurfar ekki lengi. Hef áhyggjur af fuglunum, sem flestir liggja á hreiðri og allmargir ungar komnir úr eggjum. Spurning hvort ungarnir hafi það af í kuldanum.

Kristín mín kom með mér í hesthúsið í dag. Hún er mjög dugleg og hefur gaman af að sinna hestunum. Hún fór á bak Stormi, sem var reyndar lítið kátur í rokinu. Þau fóru nokkra hringi í einu gerðinu og það dugði til að gleðja nöfnu mína.

Börnin mín mundu mæðradaginn, hringðu í mig, gáfu mér góðgæti og báru glæsilega tertu á borð. Ég er dekruð ;)

14.5. MÁNUDAGUR

Nú er næturfrost víðast hvar og óttalega kalt í hvassviðrinu. Hitinn mjakaðist upp í 2°. Nokkur snjókorn féllu hér, en verra er fyrir norðan þar sem enn er frost og kalt.

Skínandi dagar

MAÍDAGAR 2012

1.5. ÞRIÐJUDAGUR

Fínt veður fyrsta maí. Mestur hiti mældist 7°.

2.5. MIÐVIKUDAGUR

Góður dagur. Mestur hiti 7°.

Halldór hefur nú unnið með hesta Jónasar, Loga, Djarfa og Létti, og náð allgóðum árangri. Hann fór með okkur þrjá síðustu dagana í reiðtúra og lærðum ýmislegt hjá Halldóri. Ég var með Breka og reyndi að fiska hollráð og tókst reyndar að læra talsvert.

3.5. FIMMTUDAGUR

Fallegt og ljómandi gott veður. Mestur hiti 8°.

Fór á Læknastöðina að hitta Gunnar B. Gunnarsson, sem séð hefur um viðgerðirnar á bæði hægri og vinstri mjöðmum síðustu árin. Hann vill fylgjast með þessum viðgerðum, og er það bæði gott og uppörvandi. Gunnar er snillingur og honum þykir gott að eiga við svona granna konu, eins og hann segir, en ég kalla mig nú ekki granna konu, heldur nær að segja að hér sé um horgemling að ræða.

Þorgrímur, sem járnar hestina nú orðið, gerir það á kvöldin og ég aðstoða. Í kvöld járnaði hann síðustu þrjá, og mikið var ég fegin. Þetta er talsvert puð.

4.5. FÖSTUDAGUR

Frábær dagur í góða veðrinu. Mestur hiti 8°. Reyndar var kalt þar sem vindurinn náði að blása, en það var ekki til skaða.

Við Breki erum að ná saman góðum takti. Hann er talsvert ólíkur stóru hestunum mínum og það tók mig tíma að átta mig á Breka. Nú finnst mér mjög gaman að sitja hann, enda er hann einkar mjúkur og lipur.

5.5. LAUGARDAGUR

Veðrið var í rauninni gott í dag, nema vindurinn var kaldur og hvass. Mestur hiti mældist 7°.

Mikið er um að vera í Víðidalnum, þar sem fjöldi manns tekur þátt í Reykjavíkurmeistaramóti Fáks. Við höfum ekki mikið fylgst með mótinu, höfum enda nóg að gera með okkar ágætu hesta. Kringum Elliðavatn lá leiðin, Jónas á Dug og ég á Gauk. En svo illa fór, að Dugur og Jónas steyptust í grýttri brekku og veltust þar um báðir tveir. Við snerum við og riðum til baka. Jónas fór beint á móttökuna í Fossvogi, og í ljós kom að viðbein hafði brotnað. Er hætt við að ekki fari þeir félagar saman í reiðtúr alveg á næstunni.

6.5. SUNNUDAGUR

Sama ágæta veðrið, nema hvað að hitinn varð ekki meiri en 6°. En umhverfið var allt hið fegursta.

Kisurnar litlu, Snælda og Snepla, eira ekki endalaust innan dyra og ýmiskonar vandamál komin upp. Nú er aldeilis verið að ala þær upp. Sindri og Breki héldu þeim selskap í garðinum og pössuðu þær í 2 tíma. Mikið bústang.

Og ekki er minna að gera með hestana átta, þar sem Jónas er úr leik næstu vikur. Nú þarf ég sem sagt að sinna þessu öllu saman ein. Verst er að ég legg ekki í að hreyfa hesta Jónasar. Þeir eru allt öðru vísi en mínir hestar.

7.5. MÁNUDAGUR

Sólin skein frá morgni til kvölds, en ekki var notalegt þar sem veðrið blés. Norðangarrinn sendi naprar kveðjur.

Ég brá mér á Prinsinn í dag, fannst ég hafa vanrækt hann og ætlaði að vanda mig. Prinsinn sjálfur kunni ekki að meta þessi almennilegheit, svo að ég var því fegnust að koma aftur að húsi. Gaukur var hins vegar ekkert nema notalegheit.