MAÍDAGAR 2012
15.5. ÞRIÐJUDAGUR
Enn er mjög kalt í lofti, en hefur þó skánað verulega. Sólin skein í dag og mestur hiti mældist 6°. Himinninn er heiðskýr í kvöld og komið frost. Það sér víða á gróðri og ekki síst útsprungnum blómum.
Pálmi á afmæli í dag, orðinn hvorki meira né minna en 44 ára. Ég er alltaf jafn yfir mig undrandi á því hvað börnin mín leyfa sér að verða sífellt fullorðnari. Svona er víst lífið. Við heimsóttum Pálma og fjölskyldu í kvöld og fengum auðvitað nýbökuð brauð og fínirí. Stelpurnar eru snjallar og hafa gaman af að baka.
16.5. MIÐVIKUDAGUR
Fallegt veður, en fjári kaldur vindurinn.
Átti annríkt í dag. Sund, sjúkraþjálfun, jarðarför, hestastúss, út að borða með Þórði og Sólrúnu. Ekki mikið hlé inn á milli.
Guðrún Halldórsdóttir lést 2. maí eftir langvinn og erfið veikindi. Útför Guðrúnar var gerð frá Hallgrímskirkju í dag og var þar margt um manninn. Kvennalistakonur eiga Guðrúnu margt að þakka. Hún starfaði mikið með okkur og sat nokkrum sinnum á Alþingi. Guðrún var afar merkileg kona og okkur kær.
17.5. FIMMTUDAGUR
Ágætt veður í dag, en hitinn fór ekki hærra en 5°.
Gaukur og Stormur eru orðnir nokkuð órólegir. Vorið kallar á hestana okkar. Held að þá sé farið að langa að bíta grasið á Kaldbak.
18.5. FÖSTUDAGUR
Sólin var hógvær í dag, en veðrið var ágætt. Mestur hiti mældist 7°.
Stormur fór með mig í einum spretti í dag og var öðru hverju að reyna að taka af mér ráðin. Allt fór það vel og var sérlega skemmtilegur sprettur.
Nú stendur til að ferja hestana alla leið á Kaldbak á sunnudaginn. Þá verður gaman að sjá þá taka til fótanna þegar þeim verður sleppt á tún.
19.5. LAUGARDAGUR
Enn batnaði veðrið og var bara notalegt með köflum. Hitinn mældist mest 11°.
Reiðtúrarnir í dag verða þeir síðustu í bili.
20.5. SUNNUDAGUR
Gott veður. Mestur hiti mældist 11°. Engin úrkoma.
Mættum kl. 8 í hesthúsinu. Gáfum hestunum hey til að seðja morgunsvengdina áður en þeir færu austur á Kaldbak. Allt gekk vel, það tók aðeins 10 mínútur að raða þeim á bílinn hjá Kristjáni bílstjóra. Við Jónas ókum austur og þurftum ekki lengi að bíða eftir flutningnum. Það er alltaf jafn gaman að sjá hestana koma á gamlar slóðir. Þeir hlupu í kátínu um grundir og fóru strax að bíta grösin. Þeir eru himinlifandi að éta grösin ný, þótt nokkuð vanti gnóttina.
21.5. MÁNUDAGUR
Sólskin og gott veður í dag. Að kvöldi var þó komið mistur svo að ek
Gengum um Grasagarðinn í Laugardalnum í góða veðrinu. Blómin þar og trén verða æ fallegri með hverjum degi. Og fuglarnir kvaka og syngja. Þeir eru svo skemmtilega óhræddir þarna. Þeir virðast treysta fólkinu, sem fer um svæðið í róleghitum.
22.5. ÞRIÐJUDAGUR
Ágætis veður, mestur hiti 12°. Svolítið rigndi, en reyndar næstum ekkert á Nesinu.
Gaman er að fylgjast með lífinu í og við Bakkatjörnina. Álftaparið syndir stolt með 3 spánnýja unga og verður gaman að sjá þá dafna. Aðra unga sá ég ekki, vonandi hafa máfarnir ekki gleypt þá. Nokkrar margæsir voru á tjörninni, en þær hljóta að taka brátt flugið til kanadísku Íshafseyjanna þar sem þær verpa.
23.5. MIÐVIKUDAGUR
Dálítið hvasst í dag, en frekar hlýtt. Mestur hiti mældist 12°.