MAÍDAGAR 2012
1.5. ÞRIÐJUDAGUR
Fínt veður fyrsta maí. Mestur hiti mældist 7°.
2.5. MIÐVIKUDAGUR
Góður dagur. Mestur hiti 7°.
Halldór hefur nú unnið með hesta Jónasar, Loga, Djarfa og Létti, og náð allgóðum árangri. Hann fór með okkur þrjá síðustu dagana í reiðtúra og lærðum ýmislegt hjá Halldóri. Ég var með Breka og reyndi að fiska hollráð og tókst reyndar að læra talsvert.
3.5. FIMMTUDAGUR
Fallegt og ljómandi gott veður. Mestur hiti 8°.
Fór á Læknastöðina að hitta Gunnar B. Gunnarsson, sem séð hefur um viðgerðirnar á bæði hægri og vinstri mjöðmum síðustu árin. Hann vill fylgjast með þessum viðgerðum, og er það bæði gott og uppörvandi. Gunnar er snillingur og honum þykir gott að eiga við svona granna konu, eins og hann segir, en ég kalla mig nú ekki granna konu, heldur nær að segja að hér sé um horgemling að ræða.
Þorgrímur, sem járnar hestina nú orðið, gerir það á kvöldin og ég aðstoða. Í kvöld járnaði hann síðustu þrjá, og mikið var ég fegin. Þetta er talsvert puð.
4.5. FÖSTUDAGUR
Frábær dagur í góða veðrinu. Mestur hiti 8°. Reyndar var kalt þar sem vindurinn náði að blása, en það var ekki til skaða.
Við Breki erum að ná saman góðum takti. Hann er talsvert ólíkur stóru hestunum mínum og það tók mig tíma að átta mig á Breka. Nú finnst mér mjög gaman að sitja hann, enda er hann einkar mjúkur og lipur.
5.5. LAUGARDAGUR
Veðrið var í rauninni gott í dag, nema vindurinn var kaldur og hvass. Mestur hiti mældist 7°.
Mikið er um að vera í Víðidalnum, þar sem fjöldi manns tekur þátt í Reykjavíkurmeistaramóti Fáks. Við höfum ekki mikið fylgst með mótinu, höfum enda nóg að gera með okkar ágætu hesta. Kringum Elliðavatn lá leiðin, Jónas á Dug og ég á Gauk. En svo illa fór, að Dugur og Jónas steyptust í grýttri brekku og veltust þar um báðir tveir. Við snerum við og riðum til baka. Jónas fór beint á móttökuna í Fossvogi, og í ljós kom að viðbein hafði brotnað. Er hætt við að ekki fari þeir félagar saman í reiðtúr alveg á næstunni.
6.5. SUNNUDAGUR
Sama ágæta veðrið, nema hvað að hitinn varð ekki meiri en 6°. En umhverfið var allt hið fegursta.
Kisurnar litlu, Snælda og Snepla, eira ekki endalaust innan dyra og ýmiskonar vandamál komin upp. Nú er aldeilis verið að ala þær upp. Sindri og Breki héldu þeim selskap í garðinum og pössuðu þær í 2 tíma. Mikið bústang.
Og ekki er minna að gera með hestana átta, þar sem Jónas er úr leik næstu vikur. Nú þarf ég sem sagt að sinna þessu öllu saman ein. Verst er að ég legg ekki í að hreyfa hesta Jónasar. Þeir eru allt öðru vísi en mínir hestar.
7.5. MÁNUDAGUR
Sólin skein frá morgni til kvölds, en ekki var notalegt þar sem veðrið blés. Norðangarrinn sendi naprar kveðjur.
Ég brá mér á Prinsinn í dag, fannst ég hafa vanrækt hann og ætlaði að vanda mig. Prinsinn sjálfur kunni ekki að meta þessi almennilegheit, svo að ég var því fegnust að koma aftur að húsi. Gaukur var hins vegar ekkert nema notalegheit.