Hugsað til Óla afa

OKTÓBERDAGAR 2012

13.10. LAUGARDAGUR

Það var gott að koma heim og jafna sig eftir góða viku í Berlín, og þá var nú gott að komast í sundlaugina.

Veðrið var dálítið úfið í dag, hvasst og rigning með köflum.

Miðvikudaginn 10. varð Kári 16 ára. Í dag var haldin afmælisveisla á Birkigrund 42, og við vorum auðvitað fegin að missa ekki af veislunni, nýkomin heim. Þar voru kræsingar góðar og gaman að hitta gesti og heimafólk.

14.10. SUNNUDAGUR

Veðrið var gott í dag, þótt ekki sé beint hlýtt. Sem betur fór var ekki hvasst og sólin leyfði sér að skína.

15.10. MÁNUDAGUR

Gluggaveðrið bregst ekki. Ljómandi fallegt og ekkert óhóflega hvasst. Hitinn fór meira að segja upp í 7°.

16.10. ÞRIÐJUDAGUR

Dýrðlegur dagur. Þegar næturfrostið lét undan var gott að koma út þótt hitinn kæmist ekki hærra en 5° þennan dag. Himinninn var heiðríkur og logn fram að miðjum degi. Getur ekki betra verið um miðjan október.

Ég gekk um Kotagrandann í þessu fallega veðri og hugsaði til Óla afa, sem var jarðsettur í dag. Ólafur G. Jónsson hét hann, en í okkar hópi kallaðist hann Óli afi. Hann var seinni eiginmaður Önnu, móður Jónasar. Þau bjuggu lengi í New York og voru svo góð að bjóða öllum börnum okkar til sín. Þau fóru til þeirra hvert fyrir sig, þegar þau voru á fermingaraldri. Það var hverju þeirra mikið ævintýri, sem engum gleymist og eru öll mjög þakklát fyrir. Anna lést 1976, en Óli afi hætti ekki að taka á móti börnunum okkar. Óli var svo lánsamur að eignast vinkonu síðar, sem reyndist honum vel og tók ekki síður vel á móti krökkunum. Gerður Jóhannesdóttir Torberg heitir konan, en er alltaf kölluð Systa. Óli og Systa hafa nú alllengi búið í Florida og hafa átt þar góð ár.

17.10. MIÐVIKUDAGUR

Fallegt er veðrið, en ekki sérlega notalegt utan dyra í hvassviðrinu. Mestur hiti mældist 4°.

18.10. FIMMTUDAGUR

Sólin skein í dag frá morgni til kvölds, en mestur hiti var ekki meiri en 3°.

Við brugðum okkur á Kaldbak að líta eftir hestunum. Þeir tóku okkur vel og fengu mola úr vasa á meðan við athuguðum hvernig þeim liði. Þeir virtust allir vel á sig komnir, enda góðar aðstæður og yfirleitt ágætt veðurfar til þessa. Alltaf notalegt að sjá þeim líða vel.

19.10. FÖSTUDAGUR

Kalt er veðrið þessa dagana, en fallegt er horfa út um gluggana. Heiðríkjan og blessuð sólin sjá um það. Merkilegast í þessum kulda finnst mér hvað blómin eru enn litfögur og falleg. Sérstaklega stjúpur og fjólur eru sannarlega furðu brattar þótt frostið kæli talsvert um nætur.

Góð vika í Berlín

OKTÓBERDAGAR 2012

5-12

Eldsnemma að morgni 5. október var flogið til Berlínar. Flughræðsla mín var ekki verri en svo að ég svaf næstum alla leiðina. Og fegin var ég að hvílast á hóteli sem heitir Gat Point Charlie. Gott hótel á góðum stað og ekki of dýrt.

Mig hafði lengi langað að koma til Berlínar á þennan merkilega stað. Jónas stúderaði þar við háskóla fyrir 50 árum og ekki fengi ég betri leiðsögumann. Við þrömmuðum vítt og breytt um borgina og nutum þess vel þótt ganglimirnir væru satt að segja harla aumir að kvöldi. Sem betur fer er mjög gott og þægilegt að nota strætisvagna og lestir í Berlín. Fyrstu tvo dagana var talsverð rigning öðru hverju, og þá var gott að fá sér sæti í strætisvagni og kynna sér umhverfið úr hásæti.

Margt athyglisvert er að sjá í Berlín. Alexanderplatz, Brandenburger Gate, Soni Center á Potsdamer Platz, stórkostlegar kirkjur, minjasöfn, dýragarðar o.s.frv. Og að sjálfsögðu fórum við í háskólann sem Jónas sótti fyrir hálfri öld! Þar var gaman að ganga um.

Ekki má gleyma að við áttum erindi í Sendiráð Íslands. Var okkur þar vel tekið og gaman að sjá hvernig þessi híbýli eru. Starfsmenn eru þarna 8 talsins, en við hittum þar aðeins konur, hressar og elskulegar.

Vikan í Berlín var mjög ánægjuleg. Þegar við komum heim föstudaginn 12., fann ég hvað útsýni er mikils virði. Útsýnið í Berlín er engin víðátta, enda mest á flötu. Hús og aðrar byggingar, flestar háar, þurfa að hafa sitt svæði, og lítið opnast fjær. Það skiptir svo miklu að sjá vítt um land og fjöll. Það vantar ekki hér.

Berlín bíður okkar

OKTÓBERDAGAR 2012

1.10. MÁNUDAGUR

Vindurinn blés hressilega í dag eins og svo oft, en hvorki rigndi né felldi snjó. Hitinn fór upp í 8 stig. Og nú skín máninn hátt á himni.

Sindri og Breki fengu báðir slæmt kvef í september, hálsbólgu og afleitan hósta. Breka er batnað, en Sindri hefur ekki komist í skólann í þrjár vikur. Vonandi hörfar pestin á næstu dögum. Í tilefni dagsins dreif ég mig í Heilsugæsluna og fékk sprautu gegn inflúensu, sem ég vil ekki fá, hef fengið áður afar slæma flensu.

2.10. ÞRIÐJUDAGUR

Enn er kalt, hvasst og napurt. Mestur hiti 6°.

3.10. MIÐVIKUDAGUR

Aðeins hlýrra veður í dag. Mestur hiti 8°, og heldur hægari vindur.

4.10. FIMMTUDAGUR

Ágætis veður. Heiðríkt og sólskin. Mestur hiti mældist 9°.

Og nú er rétt að fá sér blund, sem ekki leyfist lengi, því nú er Berlín fram undan. Við þurfum að mæta í Leifsstöð um miðja nótt!

Enn grafið fé úr snjónum

SEPTEMBERDAGAR 2012

22.9. LAUGARDAGUR

Þokkalegt veður í dag þrátt fyrir svolitla skúra. Mestur hiti 10°.

Það var glatt á hjalla í árbítnum um hádegið. Þar mættu Kristján, Katrín og Kári, Pálmi, Sigrún, Auður, Kristín og Áslaug, Pétur og Marcela, Dóra, Sindri og Breki, og auðvitað við gamla fólkið! Vantaði bara Kötlu og Heru, sem hamast við að læra og vinna blessaðar. Kári er kominn í MH. Áslaug komin í Melaskólann. Sigrún er komin í Listaháskólann. Og Marcela er komin í Menntaskólann í Kópavogi að læra að reka Hótel. Hin halda áfram á sinni braut. Mikið fjör og dugnaður í mannskapnum.

23.9. SUNNUDAGUR

Talsverður blástur í dag og rigning öðru hverju. Mestur hiti 10°. Ekkert nema leti allan daginn.

24.9. MÁNUDAGUR

Skikkanlegt veður þótt sólin léti lítið sjá sig. Mestur hiti mældist 10°.

25.9. ÞRIÐJUDAGUR

Einkar millt og fallegt veður langt fram eftir degi. Sólskin og blíðalogn. Upplagt að njóta útivistar. Mestur hiti 9°.

26.9. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður. Svolítil rigning öðru hverju. Mestur hiti 9°.

Fór í gær til fundar við ágæta konu, sem sögð er vel að sér um mat og át. Bertha María Arsaelsdóttir er reyndar ekki sú fyrsta sem reynir að kenna mér orkumikið mataræði með það fyrir augum að fita mig svolítið. Hún benti mér á ýmsa möguleika til að hressa upp á þessa mjónu, flestir aðrir þurfa hins vegar að fara hóflega í orkumikinn mat og drykk. Ég skundaði strax í búð og fékk mér bláberjaskyr með rjóma og fleira gómsæti. Þetta er auðvitað mikill lúxus og gerir mér vonandi gott.

27.9. FIMMTUDAGUR

Dálítið hvasst, talsverð rigning öðru hverju, mestur hiti mældist 6°.

28.9. FÖSTUDAGUR

Sæmilegt veður, svolítið sólskin og fallegt á að líta, en seinnipartinn hvessti. Mestur hiti mældist 6°.

29.9. LAUGARDAGUR

Frost um nótt. Að morgni var heiðríkt og fallegt, en fljótlega þjöppuðust skýin yfir himininn og hvessti hressilega. Mestur hiti mældist 8°, sem ekki dugði til að ylja manni.

30.9. SUNNUDAGUR

Ágætt veður í dag. Mestur hiti mældist 9°. Og nú er máninn fullur og fallegur.

Enn er leitað fjár á Norðurlandi. Ótrúlegt hvað sauðfé þolir að hafast við undir snjónum vikum

Gulur, rauður, grænn og blár

SEPTEMBERDAGAR 2012

15.9. LAUGARDAGUR

Fallegt og allgott veður í dag. Mestur hiti mældist 7°.

16.9. SUNNUDAGUR – DAGUR ÍSLENSKRAR NÁTTÚRU

Gaman að fá gott veður á þessum sérstaka degi, en því miður var það ekki alls staðar jafn gott. Hér skein sólin og hitinn mældist mest um 7 stig.

Í tilefni dagsins brugðum við okkur á Þingvöll. Í himinblámanum skartaði gulur víðirinn, berjalyngið fagurrautt og trén að mestu græn. Þar var svo yndislega fallegt að ég var dáleidd.

17.9. MÁNUDAGUR

Fallegt veður og nokkuð gott. Mestur hiti mældist 8°.

18.9. ÞRIÐJUDAGUR

Yndislega fallegur dagur í dag. Skínandi heiðríkur allan daginn, og lítt blés vindur. Hitinn mældist 8°. Sjálfri fannst mér miklu hlýrra, en veðurfræðingarnir hljóta að vita betur.

Það var margt manna á Kotagranda í góðviðrinu og fallegt um að litast. Ekki hefur fjölgað öndum né gæsum á Bakkatjörninni. Máfarnir ráða þar ríkjum. Mér sýnist þeir flestir bjartmáfar eða hvítmáfar, en ég er ekki nógu glúrin að geta fullyrt þetta.

Gat naumast hætt að horfa á næturhimininn áður en ég skreið í rúmið mitt. Skínandi stjörnur blikkuðu vingjarnlega til mín. Fegurð himinsins er margbreytilegur.

19.9. MIÐVIKUDAGUR

Mikið var dagurinn fallegur. Heiðríkur himinn allan daginn og blankalogn fram yfir miðjan dag. Þá fyrst hreyfðist vindur. Mestur hiti mældist 8° eins og síðustu daga.

Síðla kvölds horfðum við á leiftrandi norðurljós og stjörnur himinhvolfsins.

20.9. FIMMTUDAGUR

Gott og fallegt veður í dag. Mestur hiti mældist 8°. En nú má víst búast við breytilegri átt og heldur hlýrra veðri og vonandi betra á Norðurlandi.

21.9. FÖSTUDAGUR

Hann er ansi blautur þessi dagur. Mikil rigning. Mestur hiti 10°.

Hamfarir á Norðurlandi

SEPTEMBERDAGAR 2012

8.9. LAUGARDAGUR

Ágætis veður í dag. Mestur hiti 9°.

Á Bakkatjörn úir og grúir af máfum. Ekki hef ég á móti þeim, en því miður fækkar þar með fuglum af ýmsu tagi. Sá þar fáeinar gæsir og nokkrar endur í morgun, en máfarnir voru miklu fleiri. Vonandi gengur fuglunum betur að sinna ungunum sínum á Bakkatjörninni næsta sumar.

9.9. SUNNUDAGUR

Bærilega tók veðrið á móti okkur í morgun. En um miðjan daginn tóku rigningar við, einmitt þegar við Jónas vorum komin á Kaldbak til að fylgja tveimur hestum í jörðina. Katrín og Kristján komu skömmu síðar.

Það er alltaf erfitt að sjá á eftir okkar góðu hestum, en ég hugga mig við að það gerir maður einmitt þeirra vegna svo að þeim líði ekki illa þegar ellin hefur tekið völd. Nú var orðið ljóst að tveir hestanna okkar ættu ekki góða daga næsta vetur. Kári var orðinn gamall og þreyttur, 26 ára. Garpur var mikill skeiðgarpur á sinni tíð, en virtist ekki njóta lífsins þegar hann var ekki lengur á skeiðinu. Hann var orðinn 22 ára. Katrín kann að hjálpa blessuðum hestunum inn í eilífðina fljótt og án þjáninga.

10.9. MÁNUDAGUR

Hvasst var í allan dag, en ekki bar á rigningu, hvað þá snjó. Við getum ekki kvartað hér á höfuðborgarsvæðinu, en versta verðið var fyrir norðan og er enn. Staurar brotnuðu, rafmagnslínur slitnuðu og víða var rafmagnslaust. Þar snjóar mikið og hætt við að bændur verði fyrir miklum skaða.

11.9. ÞRIÐJUDAGUR

Veðrið var ágætt hjá okkur í dag. Þurrt og mestur hiti 8°.

Veðrið hefur vissulega skánað eitthvað Norðanlands, en enn er erfið færð og víða ófærð. Ekki er heldur alls staðar búið að lagfæra rafmagnsleysið, sem er mjög erfitt alls staðar. Ástandið er mun verra en í fyrstu var talið á Norðausturlandi og engan veginn ljóst hversu mikið sauðfé hefur tapast. Virðist sem umfang vandans sé mun meira en áður var talið. Enn er unnið hörðum höndum við að bjarga fé undan snjó með aðstoð manna í Björgunarsveitunum.

12.9. MIÐVIKUDAGUR

Talsvert hefur rignt í dag, en reyndar mældist mesti hiti 9°.

Enn er unnið að því að grafa fé úr fönn á mörgum stöðum fyrir norðan. Margir leggja sitt af mörkum, Björgunarsveitir, Hjálparsveitir skáta og fjölmargir sjálfboðaliðar.

13.9. FIMMTUDAGUR

Það rigndi hressilega í morgun og öðru hverju í dag.

Ég fylgist oft á dag með upplýsingunum í http://www.641.is/. Þar eru sagðar fréttir úr Þingeyjarsýslu, og þessa dagana er sagt frá hvernig gengur að bjarga fénu. Fólk er orðið afar þreytt og vonlítið að það geti bjargað nema litlum hluta fjárins. Rafmagn er nú víðast komið í notkun, en mikil vinna eftir við lagfæringar. Tré hafa farið illa víða og girðingar eru ónýtar á morgum stöðum. Þetta er skelfilegt ástand.

14.9. FÖSTUDAGUR

Enn rignir hann hér í dag, en hitinn mældist mestur 10°. Vonandi fer að batna verulega Norðanlands.

Guðmundur gleymist ekki

SEPTEMBERDAGAR 2012

1.9. LAUGARDAGUR

Mörgu þarf að sinna eftir heimkomuna. Fyrsta verkið var náttúrlega að sinna hestunum. Það var gaman að hitta blessaða hestana og sjá hvað þeir eru vel á sig komnir. Höfðu enda getað hvílt sig vel og lengi eftir tveggja vikna ferðalagið yfir Kjöl fram og til baka. Birkir á Hæli tók undan hestunum, en það er meira en við getum gert. Allt gekk það vel, þótt mikil rigning helltist öðru hverju yfir okkur.

2.9. SUNNUDAGUR

Góður dagur, sól og blíða. Ég tók mig til og krafsaði öll ósköp í öllum beðum, sem voru orðin ansi rytjuleg. Þó höfðu Marcela og Pétur greinilega bjargað nokkru. Og Marcela gætti að inniblómunum. Mátti þar þekkja handbrögðin hjá henni.

3.9. MÁNUDAGUR

Vaknaði við rok og rigningu. Þannig var veðrið allan daginn. Við brugðum okkur í hádegismat í Sjávargrillið á Skólavörðustíg 14 og vorum þar fyrst á ferð. Stuttu síðar varð uppi fótur og fit því eitthvað hafði komið fyrir í eldhúsinu og varð hreinlega að loka staðnum eitthvað fram eftir degi. En við ein vorum svo heppin að maturinn okkar var tilbúin og dæmalaust góður eins og alltaf hjá Sjávargrillinu.

4.9. ÞRIÐJUDAGUR

Rækilega blés vindurinn með morgninum, en þegar leið að hádegi var allt í góðu. Ég tók aðra rispu í beðunum og fyllti poka af ansi dapurlegum stórum stönglum og illa förnum blómum. Ég fór með pokana miklu í Sorpu og fannst ég hafa verið svo dugleg að ég kom við í Hagkaupum og keypti mína uppáhalds köku: Myllu pecan pie! Veðrið var glimrandi fínt og ég var fegin að taka mér hvíld. Fékk mér ljúfan blund í góða veðrinu. Má víst búast við slagviðri á morgun, svo að um er að gera að njóta þess besta sem veðurguðirnir bjóða upp á.

5.9. MIÐVIKUDAGUR

Ausandi rigning í allan dag. Mestur hiti 9°. Sportistarnir létu ekki rigninguna miklu hindra sig í hlaupum hér á sjávarbakkanum. Sumir eru hraustari en aðrir.

6.9. FIMMTUDAGUR

Dálítið rysjótt veðrið í dag. Nokkuð var gott öðru hverju, en svo rauk upp vindurinn fyrr en varði og svolítil rigning í ofanálag.

Guðmundur Páll Ólafsson, náttúrufræðingurinn, rithöfundurinn, ljósmyndarinn og náttúruverndarinn, var kvaddur í dag í Dómkirkjunni. Þar var þéttskipað, enda Guðmundur mörgum kær. Hann gerði fjöldamörgum ljóst hver okkar siðferðileg skylda er gagnvart unhverfinu. Honum eigum við mikið að þakka. Stórkostlegar bækur hans í bókahillum okkar, Perlur, Ströndin, Hálendið, Fuglar, eru mikið notaðar. Einstakur maður Guðmundur. Hann gleymist ekki.

7.9. FÖSTUDAGUR

Fallegur föstudagur. Heiðríkt í háloftum og skikkanlegur vindur. Mestur hiti 8°.

Heitur hnúkaþeyr á Norðurlandi eystra

Þá er ég komin á Fornuströndina eftir heilan mánuð á Norðurlandi eystra. Þar áttum við mörg góða daga í Varmahlíðinni okkar í Reykjadalnum. Var mikið gaman að koma á þessar slóðir, en þangað hafði ég ekki komist allar götur síðan í júní 2010.

Við Jónas dvöldum á þessum góða stað allan ágúst. Kristján, Katrín og Kári voru með okkur fyrstu vikuna, og nokkru síðar komu Dóra, Sindri og Breki og voru tvívegis með okkur, þurftu að sinna ýmsu milli heimsókna.

Þarna var frábært að vera eins og alltaf. Við nutum sólar og hlýinda dögum saman. Hitinn var oftsinnis um 20-25 stig, en hitinn var stundum meiri. Einn daginn var mestur hitinn 27 stig. Allmarga daga blés vindurinn ákaft að sunnan, og ekki skorti hitann þá daga. Þetta kallast hnjúkaþeyr.

Eins og venjulega fórum við að skoða okkur um nokkuð víða. Vorum reyndar meira heima í Varmahlíð, enda margt þar við að vera. Við vorum mikið úti við í góða veðrinu og ekki laust við að við urðum bærilega brún og hressileg.

Sundlaugin í Reykjadal er sérlega góð, vel gerð, falleg, hreinleg og vel um hana séð. Við Jónas syntum daglega á morgnana og kunnum vel að meta laugina. Potturinn á túninu við Varmahlíð er minna notaður eftir að nýja sundlaugin kom til, en sum okkar kunna enn vel að meta pottinn góða, sem mamma blessuð lét setja niður á túninu.

Í Varmahlíð truflar ekki hávaði frá útvarpi eða sjónvarpi. Enginn kvartar yfir því. Þar er meira setið yfir bókum og margt annað til afþreyingar. Til dæmis stunduðum við Dóra, Sindri og Breki spilamennsku á kvöldin. Spiluðum aðallega Kana og Tíu og skemmtum okkur konunglega.

Og ekki má gleyma fuglunum sem vöktu okkur snemma á morgnana, glaðir í bragði. Þrestir, maríuerlur, þúfutittlingar og gæsir létu mikið til sín sjást og heyra. Hrossagaukar flugu upp snögglega að vanda, en furðu lítið heyrðist í lóum, spóum og stelkum. Himbrima sá ég ekki, en hann lét eitt kvöldið til sín heyra með sín langdregnu vein og köll. Það var mikil músík.

Því miður komst ég aðeins tvisvar í berjamó. Beið spennt eftir að komast í góðan mó hjá Fremstafelli, en kuldinn síðustu dagana kom í veg fyrir það. Það örlaði á frosti um nætur og snjórinn þakti fjallstoppana.

Hópur þrasta lét morgunkulið ekkert á sig fá. Þeir gæddu sér á rifsberjum og sólberjum kringum Varmahlíð, yfir sig ánægðir. Gaman að fylgjast með þeim. Og eru núna sjálfsagt farnir að éta reyniberin.

Reykjadalurinn kvaddi okkur í ágústlok með ótrúlegri fegurð. Ég er farin að hlakka til að koma aftur í Varmahlíð í júní 2013!

“Sæl eru þau hjörtu er sigri ná”

JÚLÍDAGAR 2012

14. – 28.

Fátt er skemmtilegra en að fara í hestaferðir. Við Jónas gátum ekki nægilega sinnt slíku síðustu tvö árin, fyrra árið vegna veikinda hesta, það síðara vegna veikinda Jónasar. En nú var svo sannarlega að því komið þetta árið. Og nú dugði ekki minna en hálfsmánaðar hestaferð.

Hjalti Gunnarsson, “Kóngurinn á Kjóastöðum”, hefur árum saman staðið fyrir hestaferðum frá Kjóastöðum til Skagafjarðar og aftur til Kjóastaðar, sem er skammt frá Geysi á aðra hönd og Gullfossi á hina. Hjalti fékk Kóngsnafnið fyrir 5 árum þegar ljóst var að hann hefði stjórnað þessum ferðum yfir Kjöl í ríflega 100 skipti. Þeir eru ekki margir sem hafa komið slíku í verk.

Við Jónas höfum farið Kjöl oftar en einu sinni og alltaf þótt einkar gaman að fara ýmsar leiðir þar um. Þar kom nú í þetta sinn að við gerðumst rekstrarfólk ásamt nokkrum öðrum, enda veitir ekki af 6–8 í mannskapinn þegar reka þarf meira en 100 lausum hestum réttar leiðir. Allmikið gekk á marga dagana og sjaldnast voru rólegheit. Oftast var farið á harðaspretti. En það var yfirleitt alltaf ótrúlega gaman.

Talsverður hópur erlends fólks hefur ákaflega gaman af þessum hestaferðum og njóta góðs aðstoðarfólks. Merkilegt reyndar að erlendir karlmenn eru þar sárafáir. Konurnar eru langflestar og eru yfirleitt mjög ánægðar, að minnsta kosti á Kili. Sumar reyndust engir viðvaningar og þótti mikið púður í að taka þátt í rekstrinum.

Ég var með Gauk, Prins, Storm og Breka. Þeir stóðu sig glimrandi vel, og merkilegast var að finna fjörið í nýliðanum Breka, sem ég hafði ekki búist við. Nær að segja að hann hafi flogið en hlaupið. Jónas var með Loga, Djarf, Létti og Dug. Djarfur fékk bólgu í fót og varð því að láta hlaupin duga og virtist ekki verða illt af. Hinir voru góðir að vanda, og Dugur sannaði dugnað sinn. Við erum lánsöm með hestana okkar.

Við gistum á nokkrum stöðum auk Kjóastöðum, í Árbúðum, Hveravöllum, Ströngukvísl, Galtará og Lauftúni. Slökuðum einn dag eftir fyrri vikuna og fórum vítt og breytt um Skagafjörðinn, þ.e.a.s. við, en ekki hrossin, sem kunnu vel að meta að geta hvílt sig eftir hlaupin og búið sig undir næsta sprett.

Þessi ágæta hestaferð milli Langjökuls og Hofsjökuls, milli stórbrotinna fjalla og hamra, lækjardraga og áa, stundum ógnandi. Allt kallar á hesta og menn. Þetta er upplifun, og sú upplifun gleymist ekki.

“Sæl eru þau hjörtu er sigri ná

og svala í náttúrunni innri þrá”

segir Hákon Aðalsteinsson í ljóði sínu um Fjallgönguna. Hann hefur rétt að mæla.

Kisurnar áttu erfiðan dag

JÚLÍDAGAR 2012

8.7. SUNNUDAGUR

Hlýtt og gott veður. Mestur hiti 15°. Síðla dags kom rigning. Sindri var svo heppinn að vera búinn að slá lóðina. Nýja sláttuvélin munar öllu.

Í dag fór ég á hátíðarsamkomu á Alþingi ásamt fjölda kvenna sem setið hafa á Alþingi. Tilefnið er að Ingibjörg H. Bjarnason var fyrst kvenna kosin til setu á Alþingi árið 1922 og sat til 1930. Ásta R. Jóhannesdóttir forseti Alþingis ávarpaði konurnar, Kristín Ástgeirsdóttir flutti skemmtilegt erindi um æviskeið Ingibjargar og þá einkun um reynslu hennar sem þingkona í hópi karlanna, Helga Guðrún Jónasdóttir flutti einnig erindi, og Margrét Pálmadóttir stjórnaði Kvennakórnum Vox feminae, sem söng nokkur lög. Að því loknu biðu okkar síðan veitingar, og var gaman að hitta konurnar, sem ég þekki margar frá fyrri tíð.

9.7. MÁNUDAGINN

Veðrið var í rauninni gott í dag þrátt fyrir hvassviðri. Sjórinn er úfur og sjófuglarnir virðast skemmta sér við slíkar aðstæður. Sólin skein glatt í dag og hvassa veðrið var hlýtt. Mestur hiti mældist 15°.

10.7. ÞRIÐJUDAGUR

Enn skín sólin og himinninn heiðríkur frá morgni til kvölds. Dálítið hvasst, en hlýtt. Mestur hiti mældist 16°. Og kvöldið er oft svo ótrúlega fallegt. Dýrðin, dýrðin, eins og blessuð lóan segir.

11.7. MIÐVIKUDAGUR

Veðurstofan fullyrðir að mestur hiti í dag hafi verið 16°. Ekki get ég neitað því, en það er svo hlýtt flest alla daga að ég hef undrað mig á því að ekki væri sagður meiri hiti.

Pétur og Marcela buðu okkur til kvöldmatar, og fengum við aldeilis góðan kvöldverð eins og búast mátti við. Ekki var síður gaman að sjá hvernig þau eru búin að hreiðra um sig. Þau eru fjarska ánægð með íbúðina og hafa mjög gaman af að koma sér fyrir. Og nú er væntanlegt barn eftir 6-7 mánuði. Ekkert er merkilegra en að sjá og kynnast ungu barni. Við höfum verið svo lánsöm með öll þessi fallegu og vel gerðu barnabörn okkar, sem fagna má á degi hverjum. Við hlökkum til að sjá nýunda barnabarnið. Lífið getur sannarlega verið skemmtilegt.

12.7. FIMMTUDAGUR

Hlýtt og gott veður. Mestur hiti mældist 16°. Síðla dags hvarf sólin fyrir þéttum skýjum. Það stóð ekki lengi, himinninn varð heiður og sólin skein fram eftir.

Var orðin áhyggjufull yfir stóru hvönnunum, sem ég óttaðist að gerðu óskunda, en vissi ekki hvort þetta væri bjarnakló, tröllahvönn eða hestahvönn. Steinunn Árnadóttir garðyrkjustjóri var svo væn að líta á hvannirnar og sagði bjarnaklóna ekki hjá okkur og óþarfi að hafa of miklar áhyggjur. Fegin er ég.

13.7. FÖSTUDAGUR

Ágætis veður í dag, en sólin skein ekki. Mestur hiti mældist 16°.

Snælda og Snepla, kisurnar þeirra Sindra og Breka, áttu erfiðan dag. Þær voru geldar á Dýraspíalanum í Víðidalnum í morgum. Það stóð alltaf til, því ekki væri hægt að hlaða upp fleiri kisum. Þær voru ósköp vesælar litlu krílin, þegar þær komu heim, varla gangfærar, ringlaðar, og listarlausar. Þær verða orðnar brattari á morgun.

14.7. LAUGARDAGUR

Ágætt hlýtt veður. Mestur hiti mældist 13°.

Snælda og Snepla jafna sig óðum. Þær háma í sig matinn sinn og svolgra í sig vatn. Þær verða reyndar að bíða ögn eftir að komast út, en þetta er allt á góðri leið. Sindri og Breki eru á staðnum og gæta vel að kisunum sínum.