JÚNIDAGAR 2012
1.6. FÖSTUDAGUR
Frábært veður, sólskin og ljúfir vindar. Mestur hiti 15°.
Nóg að gera á Fornuströnd. Pétur undirbýr flutninginn og Dóra málar hillur. Ég sturtaði heilum ósköpum af grænsápu yfir brekkuvíðinn og vona að það reki burt allar pöddurnar sem hafa allt í einu orðið svo svakalega margar. Síðan tók við heilmikið stúss við skrúbb og smurningu á hnakka, beisli og múla með leðursmyrsli og býflugnavaxi. Ekkert rusl, þegar þrífa þarf fyrir dýrindin okkar.
Svana á afmæli í dag, hress og kát. Ekki slæmt að fá þetta ljómandi veður á slíkum degi.
2.6. LAUGARDAGUR
Öndvegisveður, sól og blíða. Mestur hiti 14°. Mikill mannfjöldi í sundlauginni.
Um hádegið voru Vortónleikar í Melaskóla hjá Margréti Þóru Gunnarsdóttur. Það var gaman að hlusta á píanónemendurna, sem eru nokkrir virkilega efnilegir. Kristínu gengur alveg prýðilega. Hún spilaði bæði ein og með öðrum og gerði mjög vel.
Allt á hvolfi hér á Fornuströnd. Enn var pakkað og allt til reiðu, þegar flutningabíllinn mætti. Vinir og vandamenn hjálpuðu til við að lesta bílinn og aðstoða síðan við að koma öllu inn í íbúðina langþráðu. Hún er á Barðastöðum nr.15 og er bara örstutt frá Mosfellsbæ. Trúi að þar verði gott að búa.
3.6. SUNNUDAGUR
Enn einn dýrðardagurinn. Sól og blíða, mestur hiti 15°. Og kvöldið er eins og ævintýri.
4.6. MÁNUDAGUR
Gott og fallegt veður. Mestur hiti 15°. Mætti vökva jörðina öðru hverju.
Fórum upp á Kaldbak að vita hvernig hestarnir hafa það, og þar var talsvert heitara en hér við sjávarmálið. Hestarnir tóku vel á móti okkur og fengu mola úr vasa. Fegnust vorum við að sjá að Dugur og Breki virðast vera alveg í sátt við hópinn.
5.6. ÞRIÐJUDAGUR
Ágætt veður, en dálítið hvasst. Mestur hiti 11°.
Kári var að kveðja Snælandsskóla og fá einkunnirnar. Þær eru mjög góðar eins og við mátti búast. Kári sækir um Menntaskólann við Hamrahlíð, eða MH eins og hann er oftast nefndur. Þar lærðu Kristján, Katrín og Katla, og væri hrein furða ef Kára væri ekki tekið jafn vel.
6.6. MIÐVIKUDAGUR
Mestur hiti mældist 10° þennan daginn. Talsvert hvassviðri dró svolítið úr útivist, þótt ekki væri beinlínis kalt.
Sindri og Breki voru við skólaslit í dag. Þeir fengu báðir ágætar einkunnir. Það er gaman að fylgjast með unga fólkinu sem sem stendur sig svo vel.
7.6. FIMMTUDAGUR
Langt er síðan rigning hefur sýnt sig – að minnsta kosti á Seltjarnarnesi. Mestur hiti í dag mældist 11°. Rigningin gerir sitt gagn þótt hún sé hógvær, og vonandi gleymir hún ekki hestunum okkar á Kaldbaki. Þar vantar vætu og meiri grósku.
Fordinn minn gamli góði bilaði. Stýrisdæla lak, og bíllinn hreinlega kveinaði, þegar ég varð að taka beygjur. Fékk góða þjónustu í morgun á Bíldshöfða 2. Þar fékk ég þær fréttir að dælan kostaði drjúgt, og vinnan tæki væntanlega a.m.k. 5 klukkustundir. Ég fór andvarpandi heim, en fékk svo upphringingu klukkustund síðar. Stjórnandinn var jafn glaður og ég, því bilunin var ekki svo slæm sem við var búist. Gott mál.