APRÍLDAGAR 2012
22.4. SUNNUDAGUR
Veðrið var fallegt þennan skemmtilega sunnudag. Hefði svo sem mátt vera ögn hlýrra, en það var samt ágætt, og sæmilega þvegnir gluggar gerðu kleyft að njóta útsýnisins.
Kl. ellefu hófst borgaraleg ferming í Salnum í Kópavogi. Alltaf gaman að verða vitni að því og ekki síst núna á nýjum stað, góðum stað fyrir hæfilegan fjölda. Sindri Snær flutti ávarp og gerði það mjög vel. Við vorum hreykin af framgöngu Sindra. Hann lýsti ánægju sinni með borgaralega fermingu og rökstuddi hvers vegna hann valdi þá leið. Hann sagði margt fleira, en hafði það stutt og skýrt. Að síðustu sagði hann: “Að lokum vil ég þakka foreldrum mínum fyrir að styðja þessa ákvörðun mína að fermast borgaralega”.
Seinna um daginn komu ættingar og vinir á Fornaströndina og glöddust með Sindra. Dóra var aldeilis búin að skipuleggja veisluna síðustu vikur, breyta ýmsu á staðnum, skreyta með blómum, baka kökur og sjá til þess að nóg var á boðstólum. Sindri og Breki hjálpuðu mikið til, Ómar lagði sitthvað í púkkið, Ester mamma hans kom með kökur, Marcela og Pétur voru miklar hjálparhellur, og svo mætti áfram telja. Á einu borðinu gekk stanslaust tölva með myndum af Sindra, Breka, Dóru og fleirum, og var það mjög skemmtilegt.
23.4. MÁNUDAGUR
Það var svo mikið að gerast á heimilinu að ég gleymdi algjörlega að fylgjast með veðurfari. Fólkið slappaði af og svaf fram eftir, nema við Jónas, sem kunnum ekki lengur að sofa fram eftir. Fórum að sjálfsögðu í Víðidalinn og sprettum úr spori með hestunum. Og þegar við komum heim var allt á fullu við tiltekt og þrif. En það er mikið eftir.
24.4. ÞRIÐJUDAGUR
Ágætt veður, þótt sólin væri öðru hverju í felum. Mestur hiti mældist 8°.
25.4. MIÐVIKUDAGUR
Veður gott, en sólin lét lítið sjá sig. Mestur hiti 7°.
Gaukur minn var heldur óþægur í dag. Hefur kannski fundið á sér að nú ætti að gera honum einhvern grikk. Ég fór með hann á Dýraspítalann og þar tók Katrín á móti okkur. Hún hafði þar ágætis tól sem hún gat beitt til að raka allt skeggið undarlega á Gauki. Er það vegna sjúkdóms sem kallast Cushing Sindrom og veldur því að það hleðst mikil loðna á allan kroppinn. Ég hef stritað við að skrapa og bursta þetta af Gauki nú síðustu 3 mánuði. Það hefur verið ótrúlega erfitt, og nú er klárt að næsta vetur verð ég að hafa aðra ráðstöfun á takteinum. Þessi sjúkdómur orsakast vegna röskunar á magni hormóna í blóðrásinni, nánar til tekið of mikið af hormóninu Cortisol samkvæmt upplýsingum sem ég fann á Google. Vonandi kemur þetta ekki illa við Gaukinn minn, þann góða hest, sem hefur lengi verið besti reiðhesturinn minn.
26.4. FIMMTUDAGUR
Kalt var um morguninn. Frekar hvasst fram yfir hádegi. Mestur hiti 6° seinnipartinn. Lítils háttar rigning og ágætt veður með kvöldinu.
27.4. FÖSTUDAGUR
Ágætis veður. Rétt örlaði á rigningu. Mestur hiti 6°.
Einkar gaman að fylgjast með fuglunum á þessum tíma. Þeir vekja mann snemma morguns og eru alveg að springa úr hamingju. Held að eitt staraparið sé að búa um sig hér nálægt. Og þrastapar heimsækir okkur í garðinn, hvað sem úr því verður.
28.4. LAUGARDAGUR
Grenjandi rigning allan liðlangan daginn og skildi eftir stærðar polla út um allt.
29.4. SUNNUDAGUR
Góða veðrið var bæði fallegt og notalegt. Ekta vorveður.
Fórum tvær ferðir um Elliðavatn. Það er mikill kostur hversu fjölbreyttar leiðir má fara í nágrenni hesthúsanna í Víðidalnum og víða annars staðar.
30.4. MÁNUDAGUR
Lokadagur Apríl hefði mátt vera notalegri. Hitastigið fór upp í 7°, en það dugði lítið gagnvart hvassviðrinu. Seinnipartinn rigndi talsvert.