Sindri flutti gott ávarp

APRÍLDAGAR 2012

22.4. SUNNUDAGUR

Veðrið var fallegt þennan skemmtilega sunnudag. Hefði svo sem mátt vera ögn hlýrra, en það var samt ágætt, og sæmilega þvegnir gluggar gerðu kleyft að njóta útsýnisins.

Kl. ellefu hófst borgaraleg ferming í Salnum í Kópavogi. Alltaf gaman að verða vitni að því og ekki síst núna á nýjum stað, góðum stað fyrir hæfilegan fjölda. Sindri Snær flutti ávarp og gerði það mjög vel. Við vorum hreykin af framgöngu Sindra. Hann lýsti ánægju sinni með borgaralega fermingu og rökstuddi hvers vegna hann valdi þá leið. Hann sagði margt fleira, en hafði það stutt og skýrt. Að síðustu sagði hann: “Að lokum vil ég þakka foreldrum mínum fyrir að styðja þessa ákvörðun mína að fermast borgaralega”.

Seinna um daginn komu ættingar og vinir á Fornaströndina og glöddust með Sindra. Dóra var aldeilis búin að skipuleggja veisluna síðustu vikur, breyta ýmsu á staðnum, skreyta með blómum, baka kökur og sjá til þess að nóg var á boðstólum. Sindri og Breki hjálpuðu mikið til, Ómar lagði sitthvað í púkkið, Ester mamma hans kom með kökur, Marcela og Pétur voru miklar hjálparhellur, og svo mætti áfram telja. Á einu borðinu gekk stanslaust tölva með myndum af Sindra, Breka, Dóru og fleirum, og var það mjög skemmtilegt.

23.4. MÁNUDAGUR

Það var svo mikið að gerast á heimilinu að ég gleymdi algjörlega að fylgjast með veðurfari. Fólkið slappaði af og svaf fram eftir, nema við Jónas, sem kunnum ekki lengur að sofa fram eftir. Fórum að sjálfsögðu í Víðidalinn og sprettum úr spori með hestunum. Og þegar við komum heim var allt á fullu við tiltekt og þrif. En það er mikið eftir.

24.4. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður, þótt sólin væri öðru hverju í felum. Mestur hiti mældist 8°.

25.4. MIÐVIKUDAGUR

Veður gott, en sólin lét lítið sjá sig. Mestur hiti 7°.

Gaukur minn var heldur óþægur í dag. Hefur kannski fundið á sér að nú ætti að gera honum einhvern grikk. Ég fór með hann á Dýraspítalann og þar tók Katrín á móti okkur. Hún hafði þar ágætis tól sem hún gat beitt til að raka allt skeggið undarlega á Gauki. Er það vegna sjúkdóms sem kallast Cushing Sindrom og veldur því að það hleðst mikil loðna á allan kroppinn. Ég hef stritað við að skrapa og bursta þetta af Gauki nú síðustu 3 mánuði. Það hefur verið ótrúlega erfitt, og nú er klárt að næsta vetur verð ég að hafa aðra ráðstöfun á takteinum. Þessi sjúkdómur orsakast vegna röskunar á magni hormóna í blóðrásinni, nánar til tekið of mikið af hormóninu Cortisol samkvæmt upplýsingum sem ég fann á Google. Vonandi kemur þetta ekki illa við Gaukinn minn, þann góða hest, sem hefur lengi verið besti reiðhesturinn minn.

26.4. FIMMTUDAGUR

Kalt var um morguninn. Frekar hvasst fram yfir hádegi. Mestur hiti 6° seinnipartinn. Lítils háttar rigning og ágætt veður með kvöldinu.

27.4. FÖSTUDAGUR

Ágætis veður. Rétt örlaði á rigningu. Mestur hiti 6°.

Einkar gaman að fylgjast með fuglunum á þessum tíma. Þeir vekja mann snemma morguns og eru alveg að springa úr hamingju. Held að eitt staraparið sé að búa um sig hér nálægt. Og þrastapar heimsækir okkur í garðinn, hvað sem úr því verður.

28.4. LAUGARDAGUR

Grenjandi rigning allan liðlangan daginn og skildi eftir stærðar polla út um allt.

29.4. SUNNUDAGUR

Góða veðrið var bæði fallegt og notalegt. Ekta vorveður.

Fórum tvær ferðir um Elliðavatn. Það er mikill kostur hversu fjölbreyttar leiðir má fara í nágrenni hesthúsanna í Víðidalnum og víða annars staðar.

30.4. MÁNUDAGUR

Lokadagur Apríl hefði mátt vera notalegri. Hitastigið fór upp í 7°, en það dugði lítið gagnvart hvassviðrinu. Seinnipartinn rigndi talsvert.

Sólskin heila viku

APRÍLDAGAR 2012

15.4. SUNNUDAGUR

Fallegt veður frá morgni til kvölds. Sólin skein, en svolítið var hvasst. Mestur hiti mældist 7°.

Fermingarveislur eru nú í algleymingi. Við Svana fórum saman í eina slíka í dag. Veislan var að Skógarflöt 25 á Akranesi, þar sem Rún og Reynir búa með sonum sínum þremur, Halldóri, Páma og Erlendi. Sá síðastnefndi fermdist borgaralega í Háskólabíó í dag. Margt fólk kom að gleðjast með fjölskyldunni og vantaði ekki kræsingar á borðum. Skemmtileg veisla og gaman að hitta fólkið.

16.4. MÁNUDAGUR

Veðrið var fallegt, en óþægilega hvasst allan daginn. Að öðru leiti var veðrið ágætt. Hitinn mældist mest 8°.

17.4. ÞRIÐJUDAGUR

Mestur hiti 5° í dag. Ha, getur það verið? Veðrið var gott í allan dag, sólin skein frá morgni til kvölds, og ekki angraði blástur né kalsi. Hefði haldið að hitinn hefði orðið a.m.k. 8° um miðjan daginn. En Veðurstofan ræður.

Svona veður skiptir svo miklu. Ég safnaði saman klipptu greinunum af víðirunnunum og trjánum og kom þessu öllu í Sorpu. Tók skorpu við þrif og þvott. Svona getur góða veðrið haft mikið áhrif.

Fór tvær ferðir um Rauðhólana. Frábær dagur.

18.4. MIÐVIKUDAGUR

Kaldara var í dag, en þó ágætt veður. Hitinn náði 5° um miðjan daginn. Himininn nánast heiður að kvöldi. Gæti orðið frost í nótt.

19.4. FIMMTUDAGUR – SUMARDAGURINN FYRSTI

Svona á sumardagurinn fyrsti að vera! Fallegt veður, sól og sæmilega hlýtt. Mestur hiti mældist 7°. Létt yfir mannskapnum og margt á boðstólnum í tilefni dagsins.

20.4. FÖSTURDAGUR

Ágætis veður, sólskin og ekkert of hvasst. Mestur hiti 6°.

Það er einkar líflegt og skemmtilegt í reiðtúrunum þegar vorið ræður ríkjum. Það er urmull af smáfuglum út um allt. Þeir tísta í trjánum og syngja af gleði. Lóan kveður ljóðin sín og hrossagaukurinn lætur til sín heyra, en lætur ekki svo glatt láta vita hvar hann er að pukrast.

21.4. LAUGARDAGUR

Fallegt veður, en kalt í lofti.

Við Sindri vorum á sprettinum frá því snemma morguns. Undirbúningur og æfingar fyrir borgaralega fermingu 26 unglinga í Salnum í Kópavogi. Eftir það allt saman var næsti sprettur í Mosfellssveitina að sækja fagurlit blóm. Svona leið dagurinn.

Snælda og Snepla slá í gegn

APRÍLDAGAR 2012

8.4. PÁSKASUNNUDAGUR

Sæmilegt veður, m.a.s. sólskin góðan hluta dagsins.

Hangikjöt, kartöflustappa og baunir, hnetusteik með sólberjasósu, og að sjálfsögðu páskaegg handa öllum. Það vantaði aðeins Auði, Pétur og Marcelu í stórfjölskylduna. Það var glatt á hjalla á Fornuströndinni fram eftir kvöldi. Kristín og Áslaug sátu lengst af með kisurnar, Snældu og Sneplu, og eiga áreiðanlega eftir að heimsækja þessar sætu kisur þeirra Sindra og Breka.

9.4. MÁNUDAGUR

Fínt veður í dag. Sólskin mest allan daginn. Mestur hiti 7°. Og páskaliljurnar opna sig hver eftir annarri.

Sindri Snær er 14 ára í dag, þessi stóri piltur. Gnæfir m.a.s. yfir ömmu sína ;)

Dugur og Breki eru betri með hverjum degi. Dugur virðist ætla að taka fljótt við sér. Jónasi gengur betur að stjórna honum, ég er ekki með nógu sterkar hendur, en það kemur vonandi. Breki er léttur og þægilegur.

10.4. ÞRIÐJUDAGUR

Nokkuð gott veður, en dálítið hvasst. Mestur hiti mældist 8°, og sólin skein. Um kvöldið rigndi.

Halldór heitir ungur maður, einn þeirra sem sinnir hestum í hesthúsinu í Faxabóli. Hann er laginn við hesta og hefur tekið að sér að athuga og prófa hestana okkar. Hann leiðbeinir okkur ef honum finnst við megum gera betur. Hann hefur prófað Gauk og Storm og var ánægður með þá. Ekki var ég hissa á því, en það er alltaf gaman að fá góða umsögn.

11.4. MIÐVIKUDAGUR

Veðrið hefði mátt vera betra. Það var frekar hvasst og rigndi talsvert. Mestur hiti var 4°.

Halldór prófaði Dug og Breka í dag og leist mjög vel á þá báða. Dugur þarf góða meðhöndlun meðan hann er að venjast umhverfinu og hinum hestana.

12.4. FIMMTUDAGUR

Gott veður í dag. Mestur hiti 6°. Og ekki er verra að fuglarnir kvaka og syngja, eru alveg komnir í vorstemninguna.

Fór þrjár ferðir kringum Rauðavatn, á Breka, Gauki og Stormi. Allir í góðu formi, hvort sem þetta ágæta veður hafði þessi góðu áhrif. En þeir eru reyndar allir góðir.

13.4. FÖSTUDAGUR

Ágætis veður þótt ögn hafi kólnað hér. Það er kaldara fyrir norðan og austan, þar er nú frost, en verður vonandi orðið notalegra á sumardaginn fyrsta.

Fórum tvisvar reiðtúra um Rauðhólana, skemmtilegustu leiðina. Breki gerði mér aldeilis bilt við á heimleiðinni, tók allt í einu viðbragð og hentist með mig drjúgan spöl, án þess að ég gæti að gert. Kannski var hann orðinn leiður á stjórnsemi minni. Hann er afar mjúkur og góður hestur, en á það til að hoppa svolítið, og ég þykist vera að laga það. Þarf sennilega að fara varlega í þetta.

14.4. LAUGARDAGUR

Kvöldið er fagurt. Sólin skín á svo til heiðbjörtum himni og roðar bæði fjöll og sjó. Ekki var dýrðin jafn mikilfengleg fyrr um daginn. Ekki sást þá sólin, og rigningin lét öðru hverju á sér bera. En það er ekki þörf að kvarta.

Fall er fararheill

APRÍLDAGAR 2012

1.4. SUNNUDAGUR

Gott veður í dag – ekkert aprílgabb með það. Veðrið var fallegt og sólin skein. Mestur hiti mældist 5°.

2.4. MÁNUDAGUR

Gott og fallegt veður. Að vísu heldur kaldara en síðustu daga. Mestur hiti 3°.

Í dag kom nýr hestur í hópinn okkar, Breki frá Auðholtshjáleigu, 8 vetra. Fallegur hestur, alrauður, ber sig vel. Faðir Þyrnir frá Þóroddsstað, móðir Vordís frá Auðholtshjáleigu. Hann hefur fengið góða umsögn og við vonum að það muni standa, þótt ekki byrjaði vel í dag. Jónas sat hann og lenti í því að detta tvisvar af baki. Í fyrra skiptið varð Breka eitthvað illt við og henti Jónasi af, en nokkru síðar hrasaði Breki og féll við. Jónas féll aftur af baki, og það var öllu verri bylta. Fall er fararheill, segir máltækið, eins gott að hafa það í huga.

Pétur og Marcela óku Norður í dag. Ætla að eiga góða daga í Varmahlíð næstu viku. Pétur hringdi í kvöld. Reykjadalur var alhvítur af snjó og sólin skein á heiðum himni.

3.4. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður í dag, sæmilega hlýtt, lítils háttar úrkoma.

Sindri og Breki komu með mér í hesthúsið. Breki fór stuttan túr á nafna sínum og brá sér einnig aðeins á bak Stormi, er hrifinn af honum eins og hinir krakkarnir. Það var ekki auðvelt að koma Breka (hestinum!) í stíuna sína eftir útivistina. Þurfti að reyna ótal klæki áður en það gekk. Hann er hvergi banginn við hina hestina, en er ekki alveg sáttur við nýja staðinn. Það kemur áreiðanlega fljótt.

Í kvöld var hringt og upplýst að Dugur væri á leiðinni. Við tókum að sjálfsögðu virðulega á móti honum og buðum honum í stíu með Stormi og Loga. Dugur var greinilega svangur og hugsaði um lítið annað en að skófla í sig heyið. Dugur frá Kálfhóli er 13 vetra, rauðskjóttur, stór og fallegur hestur. M.a.s. stærri en Stormur! Faðir er Kveikur frá Miðsitju, móðir Fluga frá Skálholti.

4.4. MIÐVIKUDAGUR

Veðrið var ágætt í dag, en sólin lét ekki sjá sig. Lítils háttar úrkoma lét á sér bera. Mestur hiti mældist 7°.

Í dag fórum við á þessa nýkomnu hesta, Jónas á Breka, ég á Dug. Við erum bjartsýn á framgang þeirra, en það tekur tíma að venjast þeim. Dugur er sérlega háfættur, en af einhverjum ástæðum hef ég yfirleitt verið með stóra hesta og kann því vel. Dugur er viljugur og vill ríða hratt.

5.4. FIMMTUDAGUR – SKÍRDAGUR

Það rigndi nánast látlaust í dag. Veðrið var stillt og rigningin svo hófleg að ég áttaði mig ekki á því hvað ég var orðin blaut fyrr en á heimleiðinni.

Ég á erfitt með að halda aftur af Dug, það er svo mikið kapp í honum. Líklega þyrfti ég að fá kennara í smátíma til að ná réttri stillingu.

Sindri og Breki hafa eignast tvær litlar kisur, Snældu og Sneplu. Þær hafa verið í kjallaranum, en nú hafa þær verið hér uppi og ráða sér varla fyrir fjöri.

6.4. FÖSTUDAGURINN LANGI

Þokusúld allan daginn og dálítil rigning. Annars lítill vindur og þokkalega hlýtt. Mestur hiti 6°.

Pálmi og Sigrún buðu upp á foreldra”bröns”, þ.e.a.s. Ásdísi og Kristjáni, Jónasi og mér, í hádeginu. Pálmi og Sigrún eru svo flink að búa sjálf til alls konar góðgæti, sem rann ljúflega niður. Skemmtilegt spjall í ofanálag.

Nú fór ég í reiðtúr á Breka og gekk vel. Hann er ótrúlega mjúkur og verður væntanlega enn betri eftir því sem við venjumst honum. Jónas ætlaði að prófa Dug, en hann var þá búinn að tapa skeifu.

7.4. LAUGARDAGUR

Það rigndi nánast allan daginn og stundum mikið. Mestur hiti 8°.

Þorgrímur setti skeifu undir Dug, svo að nú fórum við góðan túr, Jónas á Dug og ég á Breka. Dugur er talsvert stirður, enda ekki notaður um nokkurt skeið. Hann verður góður eftir dálitla þjálfun. Gengur vel með Breka.

Fimleikar í bleytunni!

MARSDAGAR 2012

23.3. FÖSTUDAGUR

Allgott veður í dag. Engin úrkoma, en dálítið sterkur vindur. Mestur hiti 10°.

Mikið hefur snjóað og enn meira rignt. Það leynir sér ekki vítt og breytt. Rauðavatnið hefur fengið sinn skammt, ég hef ekki séð þar annað eins háflæði. Tré og runnar standa úti í vatninu, og sums staðar þarf að þræða sig eftir öðrum leiðum.

24.3. LAUGARDAGUR

Ágætt veður í dag, mestur hiti 9°. Betra hefði þó verið ef ekki hefði verið svo fjári hvasst. Og með kvöldinu kom dynjandi rigning.

25.3. SUNNUDAGUR

Gott veður í dag, þótt nokkuð blési og rigndi öðru hverju. En það var hlýtt í rigningunni og mestur hiti var 9°. Það var vorlegt síðari hluta dagsins, sólin skein og blómin bættu við sig, og fólkið spásseraði fram og aftur með gleðibragði.

26.3. MÁNUDAGUR

Það var verulega hvasst í dag og heldur leiðinlegt veðrið þess vegna, þótt hitinn mældist mest 9°. Um kvöldið rigndi heilmikið.

Mikið er búið að rigna þessa daga og vatnið flæðir út um allt. Fór nýlega að huga að fuglum á Bakkatjörn og brá í brún hvað tjörnin hefur bætt við sig. Þar er nú mikið af álftum, öndum hefur fjölgað og tjaldurinn lætur til sín taka.

27.3. ÞRIÐJUDAGUR

Nokkuð hvasst sem fyrri daginn, en þó betra veður. Mestur hiti mældist 7°. Öðru hverju rigndi. Nú voru engin vandkvæði á því að hreyfa hestana, og reyndar höfum við oftast getað farið reiðtúra þótt veðrið hefði verið af ýmsu tagi.

Kristján okkar er 48 ára í dag. Það er alltaf jafn gaman að rifja upp gömlu dagana, þegar börnin voru lítil. Er ekki viss um að þeim þyki jafn gaman að minnast þess.

28.3. MIÐVIKUDAGUR

Enn rignir talsvert. Mestur hiti mældist 6°. Létum ekki rigninguna hefta okkur frá því að bregða okkur á hestbak. Prinsinn hrasaði í bleytunni og skítnum svo rækilega að ég sturtaðist fram af honum á hausinn. Vorum eiginlega bæði jafn hissa á þessum fimleikum, og sem betur fór vorum við jafn góð eftir.

29.3. FIMMTUDAGUR

Þoka allan daginn. Það grillti vart í húsin í Höfuðborginni og alls ekki í fjöllin. Veðrið var annars bara ágætt. Mestur hiti mældist 7°.

Mokað út úr hesthúsinu í dag. Það er alltaf heilmikið stúss þótt mesta fyrirhöfnin sé hjá manninum með bobbkattinn. Gott að sjá hestana koma aftur inn í snyrtilegri stíur.

30.3. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður í dag, lítill vindur og mestur hiti 6°.

Við Dóra og Ómar skemmtum okkur í morgun í Snælandsskóla. Þar sýndu krakkarnir leikrit og sungu af hjartans list. Við höfðum auðvitað hvað mest gaman af að sjá Breka, sem stendur sig alltaf vel við slíkar aðstæður.

31.3. LAUGARDAGUR

Góður dagur. Frekar hlýtt og lítill vindur. Mestur hiti mældist 5°. Vantaði bara sólina, enda var þoka nánast allan daginn.

Tjaldurinn kominn til leiks

MARSDAGAR 2012

15.3. FIMMTUDAGUR

Frábært veður, sólskin allan daginn, lítill vindur. Mestur hiti mældist 2°.

16.3. FÖSTUDAGUR

Talsvert fjör í veðrinu. Öðru hverju var haglél eða þétt snjódrífa, en inn á milli skein sól í heiði. Hiti fór upp í 2°, en var eins oft um frostmark.

Við leitum nú að hestum, því sumir hesta okkar eru farnir að eldast og þreytast og eiga skilið senn hvað líður að hafa það náðugt. Skoðuðum einn átta vetra í dag, sem okkur líst vel á. Aðstaðan hefði mátt vera betri, því auðvitað lentum við í mikilli snjódrífu. Hesturinn þekkti sig heldur ekki í Víðidalnum og var hálf ruglaður. Við prófum hann við betri skilyrði.

17.3. LAUGARDAGUR

Ekki var nú beinlínis blíða þennan daginn. Lengst af mátti þó njóta sólar þótt kalt væri. Frost mældist mest -3°.

Við Jónas fórum upp á Kaldbak að líta á hestana okkar, Prúð, Kára og Garp. Þeir eru þarna með hestum Ævars og fjölskyldu og virðast í ágætu formi þrátt fyrir kulda og rysjótt veðurfar. Heimsóttum því næst húsráðendur í Holtsmúla, sem höfðu boðið okkur að líta á gæfulegan hest. Við féllum fyrir hestinum, sem Dugur nefnist, og hlökkum til að kynnast honum betur.

18.3. SUNNUDAGUR

Óttaleg læti í veðrinu. Hvasst og kalt, frost mældist -3° í dag, en um kvöldið var það komið um frostmark. Nú er blindbylur og mikill skafrenningur.

Merkilegt hvað vetrargosinn spjarar sig í frostinu.

19.3. MÁNUDAGUR

Nú hefur hlýnað, en það hefur verið hvasst og mikil rigning með köflum í allan dag. Ég brá mér á bak Stormi, en áttaði mig fljótt á því að ekki var veður til þess arna. Stormur minn kann ekki vel að meta storm! Hann var feginn að snúa aftur í hús.

20.3. ÞRIÐJUDAGUR

Þokkalegt veður í dag, þótt rigningin kæmi við sögu öðru hverju. Heldur hvessti þegar leið á daginn. Mestur hiti 5°.

Nú gátum við kynnst betur hestinum sem við prófuðum á föstudaginn var. Álitlegur hestur af góðum ættum, sem heitir því skemmtilega nafni Breki. Fórum hringinn um Rauðavatn ásamt Gauk og vorum ánægð með reiðtúrinn. Líklegt að Breki komi í hópinn.

Gladdi mig að sjá tjaldur trítla um sjáfarbakka hér rétt neðan Fornustrandar í morgun. Fyrir mér veit það á vorið fyrr en varir.

21.3. MIÐVIKUDAGUR

Sæmilegt veður, en dálítið var kalt í vindinum. Lítils háttar úrkoma. Mestur hiti mældist 3°.

Gaukur er ennþá alveg ótrúlega loðinn á skrokkinn eins og hvítabjörn. Ég eyði miklum tíma í að ná af honum lubbanum, sem mundi hæglega duga í sængurver að þessu loknu. Blessaður kallinn stendur grafkyrr meðan ég bursta og reyti og plokka.

22.3. FIMMTUDAGUR

Nær stanslaus rigning í dag og talsverður vindur. Mestur hiti var 7° og bara ágætt að vera úti. Hestarnir voru hressir í rigningunni og skemmtilega sprettharðir á heimleiðinni.

Vorið teygir sig upp úr blómabeðinu

MARSDAGAR 2012

8.3. FIMMTUDAGUR

Talsvert hefur snjóað og virðist fram undan mikil úrkoma næstu dagana, ýmist rigning eða snjókoma. Reiðtúrar eru lítið spennandi þegar veðurfarið er sitt á hvað og oftar en ekki ansi kalt. Mælingar voru ýmist undir frostmarki eða aðeins yfir.

9.3. FÖSTUDAGUR

Enn er frost og talsverður snjór. Sólin skín öðru hverju, en vindurinn rýkur hvað eftir annað upp og sendir okkur snjófjúk.

Nú stendur hér við hús okkar gámur með búslóð Dóru. Hafa þær farið víða, bæði Dóra og búslóðin. Flest keypt í Naples, þegar hún var þar að læra flug. Þaðan fór góssið til Belgíu, og nú er það komið hingað.

10.3. LAUGARDAGUR

Rigningin réði ríkjum í dag og hvassviðrið með. Hitinn fór alla leið upp í 7°, en ólíklegt að svo verði næstu daga.

Dóra hefur fengið góða aðstoð við að tæma gáminn þessa dagana, en nú er aldeilis puð við að koma þessu öllu fyrir. Sindri og Breki eru heldur betur ánægðir að fá rúmin sín. Eru þó svo óheppnir að verða báðir lasnir, Sindri með kvef og hita og Breki með magapínu.

11.3. SUNNUDAGUR

Mjög hvasst í morgun. Mikill öldugangur í sundlauginni. Lægði þó nokkuð eftir hádegið. Mestur hiti í dag reyndist 6°.

Í því leiðindaveðri sem verið hefur höfum við látið okkur nægja að horfa á hestana í gerðinu, nenntum sem sagt ekki að berjast við rigningu eða snjófjúk. Í dag komumst við loks í tvo reiðtúra, og mikið voru hestarnir hressir og kátir, virtust fegnir að spretta úr spori. Merkilegast að Prinsinn, sem hefur löngum verið mér ögn erfiður, var svona líka ágætur að ég var bara himinlifandi. Eftir að vita hvort ánægjan endist.

12.3. MÁNUDAGUR

Ágætt veður í dag, en æsti sig talsvert að kvöldi. Herti þá vindinn og hitinn fór upp í 6°. Má nú búast við rigningunni, sem spáð hefur verið meira og minna allan daginn, en ekki rigndi á Nesinu. Heldur ekki meðan við vorum í Víðidalnum að hreyfa hestana okkar.

13.3. ÞRIÐJUDAGUR

Veðrið var sæmilegt í dag. Dálítill vindur og stöku sinnum rigningardemba, sem stóð ekki lengi. Mestur hiti 5°.

Prinsinn fallegi er merkilega duglegur og þýður þessa síðustu daga. Ég hef lengi glímt við hann og mikið reynt að liðka hann. Og nú finnst mér hann sannarlega betri en áður. Vonandi heldur hann áfram að bæta sig.

14.3. MIÐVIKUDAGUR

Sæmilegt veður í dag, en nokkuð kalt. Mestur hiti 2°.

Enn engist ég tvisvar í viku á bekknum hjá Ísak. Hætt við að svo verði lengi enn. Finnst þó axlir og handleggir skárri.

Þrestirnir og stararnir koma enn að fá sér í gogginn hjá mér, þótt þeir eigi nú auðveldar með að afla sér matar. Alltaf gaman að fygjast með þeim og ekki síður gaman að sjá blómstönglana rjúka upp í beðinu undir suðurglugganum. Vetrargosinn er alveg að springa út, og páskaliljurnar lofa góðu. Átti eiginlega ekki von á svona mikilli grósku á þessum tíma, eins og veðrið hefur verið. Vorið teygir sig upp úr blómabeðinu.

Með illu skal illt út reka

MARSDAGAR 2012

1.3. FIMMTUDAGUR

Á ýmsu gengur á Fróni. Jarðskjálftar urðu við Helgafell um síðustu nótt, óvenju nálægt höfuðborgarsvæðinu. Margir urðu þess varir, en litlar skemmdir urðu. Allt var snjóhvítt og kalt hér að morgni. Fordinn var hélaður, og ég þurfti mikið að skafa til að komast í morgunsundið.

Er nú komin í sjúkraþjálfun með aumar axlir, herðablöð og handleggi, hvernig sem mér tókst að afla mér þess arna. Með illu skal illt út reka hugsa ég meðan Ísak þjálfari glímir við bólgna og auma vöðva. Hef trú á Ísak.

2.3. FÖSTUDAGUR

Það rigndi mikið í dag. Öllu verra var hvassviðrið. Svo hvasst var í Víðidal að við áttum bágt með að opna stíurnar og koma hestum okkar inn í húsið. Þeir voru hressir og kátir meðan þeir viðruðu sig í gerðinu. Hitt var verra.

Sá forsýningu á Vesalingunum í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Þegar ég var krakki las ég þá miklu bók um Vesalingana og er alveg hissa hvað ég man úr þeirri sögu. Söngleikurinn Vesalingarnir er mikið verk og hefur óneitanlega talsvert önnur áhrif en sagan sjálf. En mér fannst þetta vel gert og hafði mjög gaman af.

3.3. LAUGARDAGUR

Gott og fallegt veður í dag. Glaða sólskin, en reyndar svolítill vindur og þar með ögn kalt. Mestur hiti mældist 3°.

Hestamenn voru harla ánægðir með veðrið og notuðu það óspart. Við fórum tvo reiðtúra kringum Rauðavatn. En þegar ég ætlaði að leggja á Storm kom ég auga á ljótt sár á fæti hans. Hreinsaði sárið eins og ég gat með sérstöku hreinsivatni, þarf að bera betur á hann seinna. Hann var ekki alveg sáttur við þetta fikt í mér.

4.3. SUNNUDAGUR

Veðrið var stundum gott, stundum sólskin, en stundum snjókoma og býsna kalt. Hitinn fór lítið yfir frostmark.

Óvenju margt var í Víðidalnum og allt um kring. Mættum heilum hópi hestafólks í kringum Rauðavatn. Stormur minn er lítið hrifinn af tilraunum mínum til að lækna sár hans á afturfætinum. Þarf að fá Katrínu til að líta á sárið.

Í kvöld var sameiginleg afmælisveisla Áslaugar 6 ára 9.2. og Kristínar 10 ára 7.3. Miklar kræsingar fylltu borðin og var vel notið. Og ekki var minni kátína þegar gáð var að afmælisgjöfunum.

5.3. MÁNUDAGUR

Dynjandi rigning í mestallan dag og vaxandi hvassviðri. Mestur hiti mældist 4°.

Stormur leyfði mér að þvo sárið sitt og bera þar á smyrsl. Mér sýnist það vera að skána, og á morgun getur Katrín vonandi litið á báttið, eins og börnin segja.

6.3. ÞRIÐJUDAGUR

Leiðinlegt veður í dag, rigning, frekar hvasst og kalt. Mestur hiti mældist 2°.

Katrín skoðaði sárið á Stormi og taldi það á góðum batavegi. Ég ber á það smyrsl daglega þar til það getur talist alveg batnað.

Síðla kvöld hvessti sífellt meira og skyndilega var orðið mjög hált. Ég sat hér við tölvuna og heyrði allt í einu hávaða og brak og sá bíl hendast í loftköstum eftir Norðurströndinni. Þetta var hrikalegt að sjá. Bíllinn í klessu, en sem betur fer mun bílstjórinn ekki hafa meiðst. Ótrúleg heppni.

7.3. MIÐVIKUDAGUR

Allt er nú snjóhvítt, fremur hvasst og úfinn sjór. Öðru hverju snjóar hraustlega. Sólin rembist við að skína þegar færi gefst.

Í dag veitti DV Menningarverðlaunin, sem hafa verið við lýði síðan árið 1978. Jónas kom þessum ágætu Menningarverðlaunum á legg í samstarfi við Aðalstein Ingólfsson, meðan þeir voru báðir starfandi á DV. Þeim hefur verið vel tekið allan þennan tíma. Í þetta sinn er Jónas sjálfur tilnefndur til verðlauna í flokki fræða fyrir árið 2011. Auðvitað er þar um að ræða bókina góðu “Þúsund og ein þjóðleið”.

Vinir okkar hestarnir

FEBRÚARDAGAR 2012

22.2. MIÐVIKUDAGUR

Ágætis veður í dag. Hiti 3° frá morgni til kvölds. Stöku skúrir.

Elsti hestanna sex, sem nú eru í hesthúsi hjá okkur, er Logi frá Húnavöllum, hestur Jónasar. Logi er fæddur 1988, alrauður og algjör hríðskotabyssa á töltinu, ef hann fær að ráða hraðanum. Eftirminnilegt er þegar við vorum mörg saman í hestaferð fyrir alllöngu og lentum í því, að hestahópurinn skiptist í tvennt. Annar fór rétta leið, en hinn á þeysispretti til baka leiðina daginn áður. Jónas var á Loga, sem fór á harðaspretti langa leið fram úr öllum hópnum og þeir félagar gátu stöðvað strokuhestana. Logi fékk að hvíla sig eftir ósköpin, en virtist reyndar ekki þreyttur eftir lætin. Hann er nú 24 vetra, ennþá ótrúlega þolinn og fús til að taka sprettinn. Jónas heldur honum gjarna fyrir aftan mig á einhverjum minna hesta, svo að Logi sé aðeins stilltari. Merkilegur hestur.

23.2. FIMMTUDAGUR

Ekki sérlega notalegt veður. Hvasst og rigning öðru hverju. Mestur hiti 2°.

Djarfur heitir annar hestur Jónasar, rauður með stjörnu, hágengur og ber sig vel. Djarfur er frá Kálfholti, vel ættaður og fallegur hestur. Faðir hans var Toppur frá Eyjólfsstöðum og móðir Nótt frá Kálfholti. Djarfur er viljugur og fer mjög fallega á töltinu. Hann er nú 21 vetra og í góðu formi. Katrín er mjög ánægð með Djarf. Hún kemur stundum með okkur í reiðtúra, og þá kemur ekki annar til greina en Djarfur.

24.2. FÖSTUDAGUR

Rok og rigning og öldugangur í morgunsundinu. Eftir hádegi var svo bara ágætis veður. Fór í þrjá reiðtúra í þessu ágæta veðri.

Léttir heitir enn einn af ágætum hestum Jónasar. Léttir er undan Flygli frá Votmúla, flottur hestur og gangmikill. Hann var ódæll framan af, hélt sig frá hinum hestunum, vildi ekki láta ná sér og vék sér undan fólki. Hann skarst illa á enni fyrsta veturinn í hesthúsi og kom það í minn hlut að hlúa að honum, bera á sárin og líta eftir. Það varð til þess að við urðum vinir, hann virtist treysta mér og mér tókst að ná honum í haga. Léttir kom til okkar 11 vetra og er nú orðinn 18 vetra.

Var á flokksráðsfundi VG seinnipartinn og fram yfir kl. 11 um kvöldið. Það var gaman að hitta þar fullt af fólki, sem ég áður vann með, en sem betur fer er þar mikið af nýjum félögum og ekki síst ungum. Ekki eru allir ánægðir með gang mála, en andrúmsloftið er miklu betra en ég átti von á.

25.2. LAUGARDAGUR

Gott veður í dag. Og nú hittumst við frænkurnar í morgunsundinu og höfðum mikið að spjalla eftir langan tíma þar sem við höfðum ekki náð saman. Svo fórum við Jónas skemmtilega reiðtúra í góða veðrinu.

Nú er ég búin að segja lítillega frá reiðhestum Jónasar, sem eru allir eldri en mínir hestar. Minn elsti er Gaukur undan Páfa á Kirkjubæ og því stundum kallaður Páfagaukur. Mjög góður hestur, einn af þeim bestu. Ungur var hann býsna æstur og reif stundum af manni ráðin. Smám saman varð hann minn hestur og líkar mér afar vel. Gaukur er stór hestur, alrauður, með frekar lítið fax, en myndarlegur og ber sig vel. Eitt sinn fór ég með hann á ísilögðu Rauðavatni og urðum við þá fyrir því að honum skrikaði fótur og féllum við saman á ísinn. Eins gott að lenda ekki í vatninu. Hann virtist alveg undrandi og raunar hálf beygður að liggja þar á ísnum, en í ljós kom að hann hafði tapað skeifu, sem er afleitt á ís. Okkur varð þó hvorugu meint af. Gæti sagt margar sögur af samvistum okkar Gauks, en það þyrfti of mikið pláss hér. Gaukur hefur mjög þægilegan gang, töltir vel og án afláts, er duglegur, röskur og þolinn. Er frábær á skeiði, en heldur sér yfirleitt við töltið. Hann er nú orðinn 19 vetra.

26.2. SUNNUDAGUR

Veðrið bæði vont og gott í dag. Tíðir skúrir, og sólin skein öðru hverju. Stórkostlegir regnbogar sýndu sig. Mestur hiti mældist 5°.

Prins heitir einn af mínum hestum. Jónas fékk hann sendan einn góðan veðurdag frá Brynjari á Feti, en ég tók hann seinna að mér. Rauðblesóttur er Prinsinn, frekar stór og myndarlegur, mikið átvagl og oftast alltof feitur. Ekki er hægt að segja að hann sé röskur og lipur blessaður. Hann var seinn til og þarf að hafa fyrir honum. Ég hef alltaf á tilfinningunni að hann geti gert betur og baksa við að ná betra lag á honum. Einn er sá galli að hann reisir helst ekki höfuðið. Prins er af góðum ættum, faðir hans Kraflar frá Miðsitju, móðirin Gifta frá Hurðarbaki. Prins er orðin 18 vetra og verður víst aldrei einn af þeim bestu, en mér þykir samt vænt um hann.

27.2. MÁNUDAGUR

Kólnaði talsvert í dag og var komið niður fyrir frostmark í kvöld.

Það er alltaf erfitt að missa hesta og allra mest þá sem hafa verið manni sérstaklega kærir. Þannig var með hann Víking minn, afar sérstakan hest, sem spattaðist illa og varð að fella fyrir nokkrum árum. Þegar ljóst varð vorið 2005 að Víkingur minn færi ekki fleiri langferðir fór ég fljótlega að svipast um eftir hesti í hans stað. Ég var frekar neikvæð til að byrja með og sannfærð um að aldrei fengi ég jafnoka Víkings til langferða. Leitin stóð þó ekki lengi, við fundum strax álitlegan 7 vetra hest, og ég var nokkuð fljót að ákveða mig. Hesturinn heitir Stormur og er undan Hágangi frá Sveinatungu og Fjöður frá Steinum í Borgarfirði. Stormur er fallegur og myndarlegur,

leirljós hestur með nokkuð breiða blesu, prúður á fax og tagl. Hann reyndist strax vel í ferðum sumarsins og hefur farið fram í öllum gangi. Stormur er með stærstu hestum og ég vil gjarna hafa hesta stóra. Hann er nú orðinn 14 vetra og þar með lang yngstur af okkar hestum. Við munum eiga mörg góð ár enn.

28.2. ÞRIÐJUDAGUR

Undarlegt veðurfar í dag. Ógnandi dökk ský sendu öðru hverju beljandi úrkomu, en sólin lét ekki snúa á sig, heldur skein hin glaðasta inn á milli.

Hef nú sagt lítillega frá hestunum sex, sem við getum enn notað sem reiðhesta. Þegar hestar eru ekki lengur nothæfir leyfum við þeim að eiga það náðugt. Nú eru þrír slíkir að njóta frelsisins í túnum Kaldbaks. Einn af mínum allra bestu hestum, Prúður, hætti allt í einu fyrir 4 árum að vilja bera mig. Eftir nokkra glímu ákvað ég að leyfa honum að njóta ellinar í þökk fyrir stórkostlegar samvistir. Prúður er orðinn 25 vetra. Þar er einnig Kári, sem ég reið mikið í ótal ferðum. Viljugur, þægilegur og mjög góður ferðahestur. Orðinn 26 vetra. Sá þriðji er Garpur, sem Jónas á. Garpur var frábær á skeiði og gaman að sjá hann á glæsilegu flugi um grundir eða á Löngufjörum, sem við höfum ótal sinnum farið. Garpur er 22 vetra og orðinn þreyttur kappi.

Dóra og synir komu heim að utan í nótt. Voru að ganga frá í Gent og Brüssel, þar sem þau höfðu verið sitt á hvað hálft þriðja ár. Komu við í London, fóru á fótbolta og sáu uppáhaldsliðið Arsenal vinna mikinn sigur á Tottenham. Komu himinlifandi heim.

29.2. MIÐVIKUDAGUR – HLAUPÁRSDAGUR

Aldrei hægt að reiða sig á veðrið. Vont í morgun. Gott og fallegt eftir hádegið. Rauk svo upp með hörkulegu éli þegar við vorum í miðjum reiðtúr.

Þórður og Sólrún komu til okkar í kvöld. Við spiluðum bridds í miklum móð, og ég fékk hvað eftir annað slík spil að ég varð að segja eiginlega meira en ég réð við. En það var gaman.

Sólin gerir sitt besta

FEBRÚARDAGAR 2014

15.2. MIÐVIKUDAGUR

Sól og regn skiptu veðurfari dagsins kurteislega sín á milli. Kl. sex í morgun var hitinn 6°, en hann minnkaði smám saman og frostmarkið er nálægt.

16.2. FIMMTUDAGUR

Veður var við frostmark þennan daginn. Öðru hverju kom snjóbylur, og inn á milli skein sól.

Við gáfum hestunum frí, nenntum ekki að giska á hvenær éljagangurinn riði yfir okkur. Eins gott, því okkar ágætu vinir, Ævar og Lóa, birtust einmitt á réttum tíma til að spjalla á kaffistofunni. Eins og nærri má geta snerist spjallið mest um hesta

17.2. FÖSTUDAGUR

Í dag var allt svo fallega hvítt, og sólin skein. Vindurinn var ekki með nein læti og kuldinn beit ekki þrátt fyrir frostið, sem mældist mest -5°. Við riðum áleiðis inn í Heiðmörk. Snjórinn glitraði á trjánum. Sólin og snjórinn sáu um dýrðina. Frábær dagur.

Marsela, sem heitir reyndar fullu nafni Miriam Pacheco Velasques, á afmæli í dag.

18.2. LAUGARDAGUR

Heldur hráslagalegra var í dag en í gær. Vindurinn var napur og sólin komst lítið að. Mest frost mældist -7°. Fórum stutta reiðtúra í kuldanum.

Fuglarnir biðu eftir matnum fyrir hádegi, og fjórir þrestir hófu máltíðina meðan ég var enn að gefa þeim. Og nú birtust loksins snjótittlingar aftur í garðinum, enda allt snjóhvítt og lítinn mat að hafa.

19.2. SUNNUDAGUR

Ekki skorti rigninguna í dag, og sést nú lítið af fannhvíta snjónum. Mestur hiti mældist 4°.

20.2. MÁNUDAGUR

Ljómandi veður í dag. Sólin gerði sitt besta og vindurinn var frekar stilltur. Hitastigið fór ekki hátt, komst aldrei hærra en 1°, var svo komið niður fyrir frostmark í kvöld.

Hef ekki stundað sund síðan í nóvember og var farin að halda að ég væri orðin ga ga! Fékk allt í einu kast og hentist í Neslaugina ómissandi. Hún tók einkar vel á móti mér. Sama er að segja um þau sem ég kannast við eftir margra ára laugaferðir. Töldu sig hafa saknað mín.

21.2. ÞRIÐJUDAGUR

Hrollkalt í morgun, en lagaðist með deginum. Lítils háttar úrkoma. Mest mældist hitinn 5°.

Fátt var um fugla á Bakkatjörn, þegar ég gáði að í morgun. Þar voru aðeins svanir, sautján talsins.