Lengsti dagur ársins

JÚNÍDAGAR 2012

15.6. FÖSTUDAGUR

Sama veðrið. Mestur hiti 3°. Varla hægt að vera innan dyra.

Fór í gönguferð kringum golfvöllinn á Suðurnesi. Þar var aldeilis fjörið, fullt af fólki að slá sínar kúlur, og fuglarnir létu ekki hrekja sig af vellinum. Grágæsirnar eru sallarólegar í þessu ati, og tjaldurinn lét ekki trufla sig þar sem hann tíndi upp í sig í rólegheitum. En kríurnar vori ekki í neinum rólegheitum og flugu sumar nánast niður á haus mér. Eins gott að hafa með sér pottlok í næstu ferð.

Hannes Bjarnason sat fyrir í gær og var bara ágætur. Virðist hressilegur maður. Sá ég þó ekki né heyrði nema brot af spjallinu, því svefnin tók af mér völdin. Sofnaði auðvitað með bros á vör, því í ljós kom að Hannes hafði stundað nám á Laugum og þótt þar gott að vera. Ekki var ég hissa á því. Og gaman var að sjá umhverfið í myndum þar, að meðtaldri Varmahlíðinni okkar.

16.6. LAUGARDAGUR

Góður dagur. Skýin voru svo sérstaklega óvenjuleg og falleg að ég gat eiginlega ekki synt nema á bakinu til að missa ekki af þessu. Mestur hiti var 11°. Hótað var rigningu, en hún barst ekki til okkar.

Það var annasamt á lóðinni og gekk á ýmsu. Áhöldin voru að stríða okkur. Dóra þurfti sífellt að lagfæra orfið, sem ég réð ekki við. En verra var með sláttuvélina, sem komin er á gamalsaldur og ætlar alla að klára við að koma henni áfram. Við Dóra og Sindri fórum að lokum í BÝKÓ og keyptum spánýja sláttuvél, sem á að létta okkur bæði lund og vinnuþrek.

Eftir allt þetta vesen og brölt er nauðsynlegt að hvílast í heitum potti!

17.6. SUNNUDAGUR

Veðrið var betra en spáð var. Mjög lítil rigning. Mestur hiti 12°. Voru því hinar ágætustu aðstæður á þjóðhátíðinni víðast hvar.

Ekki eru þó allir jafn spenntir fyrir hátíðum. Ég minnist þess þegar ég bauð tveimur yngstu börnum mínum að fara með þeim í bæinn í tilefni af þjóðhátíðinni. Þau voru strax mjög tortryggin og vildu vita hvað í boði væri. Ég reyndi að tína til eitthvað sem gæti skemmt þeim í bænum, en viðbrögðin voru athyglisverð: “Mér finnst leiðinlegt að skemmta mér”, sagði þá Pétur minn, og var ekki oftar rætt um það.

18.6. MÁNUDAGUR

Gott veður. Mestur hiti 12°.

Nýja sláttuvélin gerði ekkert gagn á laugardaginn. Dóra setti allt saman eins og til stóð, en svo vildi vélin ekki fara að vinna. Við urðum að bíða meðan fólk fagnaði þjóðhátínni í gær, en nú biðum við ekki boðanna að fá leiðsögn frá BÝKÓ. Dóra stóð í ströngu að ræða málin, en loks leystust öll vandræði og varð nú kátt í höllinni. Lóðin hefur tekið stakkaskiptum.

Hlustaði á Ara Trausta Guðmundsson í kynningarþættinum í kvöld. Hann var ágætur, en svolítið dreyssugur.

19.6. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður, þótt lítið sæist til sólar þennan daginn. Mesti hitinn mældist 10°. Aðeins rigndi dropum og þeir hefðu mátt vera fleiri vegna þurrkans.

Í kvöld var rætt við Ólaf forseta. Ég lét mig hafa það að fylgjast með þótt ég vissi mæta vel að það yrði mér ekki til skemmtunar. Fátt kom svo sem á óvart. Forsetinn talaði hraðar og meira en nokkru sinni, talaði mest um sjálfan sig og sitt ágæti. Hann sneri út úr fyrirspurnum Margrétar og Heiðars og svaraði minnst því sem þau spurðu um. Hann var hortugur og ókurteis við þau. Tími þessa forseta er löngu liðinn.

20.6. MIÐVIKUDAGUR – SUMARSÓLSTÖÐUR

Gott veður. Regnskúrir öðru hverju. Stundum hellirigning í kapp við sólina og ljómandi fallegir regnbogar. Mestur hiti 11°.

Sumarsólstöður eru í dag. Nú er lengstur sólargangur, lengsti dagur ársins og sól hæst á lofti á norðurhveli jarðar. Sólin kom upp þegar klukkuna vantaði sex mínútur í þrjú í morgun, og hún sest fimm mínútur yfir miðnætti. Daginn tekur síðan að stytta, en lofthiti helst ekki í hendur við sólarganginn því að meðaltali er hvað hlýjast í lok júlí.

Var að ljúka þeirri merku bók Málverkið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Mjög sérstök bók og vel gerð.

Síðasta kynningarþátturinn var í kvöld. Þar sat Andrea Jóhanna Ólafsdóttir með þeim Margréti og Heiðari. Það var bara gaman og athyglisvert að hlusta á Andreu, sem hefur frá mörgu óvenjulegu að

segja um það sem hún vill koma á framfæri.