Breki hjálpar ömmu

JÚIÍDAGAR 2012

1.7. SUNNUDAGUR

Lokadagur Landsmóts hestamanna var ekki alveg jafn notalegur og fyrri daga. Veðrið sendi okkur rigningu af miklum ákafa og spillti svolítið skemmtuninni þennan daginn. En allt komst þetta til skila og ánægjan var ekki lítil í lokin.

2.7. MÁNUDAGUR

Fórum snemma morguns á Kaldbak og sóttum hestana. Skömmu síðar mætti Birkir. Hann járnaði upp 8 hesta og lagfærði hófa þriggja hestanna, sem eru orðnir gamlir og bera okkur ekki lengur á baki, blessaðir karlarnir. Meðan Birkir járnaði fórum við á bak þeirra járnuðu.

Veðrið var milt og gott, en sólin lét ekki sjá sig fyrr en nær kvöldi. Við gistum á Grund eins og fyrri daginn. Kunnum vel við okkur þar.

3.7. ÞRIÐJUDAGUR

Um nóttina rigndi myndarlega á Flúðum og vonandi víða. Það kemur sér vel. Og fyrr en varði var komin sól og hiti, augljóslega allmikill, en ekki veit ég hversu mikill. Hestarnir svitnuðu í hitanum.

4.7. MIÐVIKUDAGUR

Og áfram hélt blíðan og talsverður hiti. Við létum hestana ráða för. Kvöddum þá um miðjan dag og héldum heim, þar sem veðrið var líka gott.

5.7. FIMMTUDAGUR

Fallegur og hlýr dagur. Mestur hiti mældur 14° og rigning sögð nær kvöldinu. Á Seltjarnarnesi skín sólin og sést ekki rigning. Þannig er það oft.

Við Bakkatjörn er aragrúi af mávum og aðeins fáar endur. Kríurnar eru ekki mjög áberandi, en tjaldurinn nýtur síns vel.

Það er fallegt í garðinum okkar þrátt fyrir frekjugang í asparglittunni. Nú er flest í blóma, og rósirnar í sínu fegursta skarti.

6.7. FÖSTUDAGUR

Rúmlega 7 gerði ærlega rigningu, og ekki sást sólin fyrr en nálgaðist hádegi. Veðrið var svo ágætt mestallan daginn. Mestur hiti var 15°.

Hér var lagtækur piltur nánast allan daginn að koma lagi á nýtt sjónvarp. Greinilega kúnst.

7.7. LAUGARDAGUR

Veður var þungbúið í fyrstu, síðan kom ágætis veður og hreinlega yndislegt að kvöldi í sólskini og logni. Mestur hiti mældist 15°.

Ég þurfti aðstoð með sitthvað í tölvunni minni í dag og þarf reyndar alloft á slíku að halda. 11 ára pilturinn Breki er algjör snillingur og enginn nýgræðingur í því efni. Hann sér ekki eftir að hjálpa ömmu sinni.