Spenna og fjör í Víðidalnum

JÚNÍDAGAR 2012

25.6. MÁNUDAGUR

Gott veður, sól og blíða. Mestur hiti 13°.

Forsetakosningarnar eru í fullum gangi og margir sem vilja kjósa utan kjörfundar. Enda má búast við að ýmsir vilji njóta góðviðris og fegurðar landsins umfram allt. Þeir séu á leið um landið, fótgangandi, hjólandi, akandi eða á hestbaki. Við fórum til að kjósa í dag svo að það væri búið áður en mesta spennan verður á Landsmótinu. Ekki væri gaman að missa af því.

26.6. ÞRIÐJUDAGUR

Frábært veður, sólskin frá morgni til kvölds. Talsverður vindur, en hann var hlýr. Mestur hiti sagður 13°.

Gaman er að fara í Víðidalinn í góða veðrinu að fylgjast með Landsmótinu. Þar er margt skemmtilegt að sjá, búið að gera allt hreinlega glæsilegt og sem þægilegast fyrir alla aðila, bæði áhorfendur og þann mikla fjölda af keppendum sem kunna sannarlega að meta góða aðstöðu. Skemmtilegast finnst mér að fylgjast með forkeppninni sem mest ber á fyrstu dagana. Og ekki er síst gaman að fylgjast með unga fólkinu, sem fer sífellt fram.

27.6. MIÐVIKUDAGUR

Vel byrjaði dagurinn í sólskini og hlýju veðri. Mestur hiti mældist 15°.

Á leiðinni í Víðidalinn áttað ég mig á því að betur hefði ég haft með mér meiri fatnað í poka, því ekki var jafn hýrlegt í Víðidalnum og á Seltjarnarnesinu. Skýin voru þar þungbúin og virtust líkleg til að skella yfir rigningu. Mjög gaman var að fylgjast með ungmennaflokknum í milliriðlunum. Flestir hestarnir voru glæsilegir á vellinum, og knaparnir stóðu sig vel. En svo lenti ég í rigningu og varð óþægilega blaut. Læt mér að kenningu verða.

28.6. FIMMTUDAGUR

Ljómandi veður í allan dag, engin rigning, ekkert rok. Mestur hiti 16°. Ekkert nema notalegheit í stúkunni þar sem ég horfði á hvern glæsihestinn af öðrum á Hvammsvellinum. Hrein ánægja.

29.6. FÖSTUDAGUR

Prýðilegt veður, sólin skein mestallan daginn. Mestur hiti mældist 15°.

Mikil stemmning í Víðidalnum og mikil ánægja að hitta gamla kunninga á rólinu. Reyndar virðist fólk njóta sér hvað best í brekkunum þar sem sólin gerir það brúnt milli þess sem hestar og knapar sýna sig. Verður nú sífellt ljósara hvaða hross og hvaða knapar komast til úrslita, og spenningin vex.

Hera og hennar fjölskylda buðu til gleðskapar síðdegis í tilefni þess að hún er nú nýlega orðin stúdent. Flotta borðið hennar Sigrúnar var þakið góðgæti, sem heimilisfólkið bjó til af snilld sinni. Við sátum flest í sólskininu á svölunum, spjölluðum og nutum veðurs og umhverfis.

30.6. LAUGARDAGUR

Frábært veður. Sólin skein í allan dag.

Mættum snemma í Víðidalnum og vorum til kvölds, enda má ekki missa af neinu þessa síðustu daga. Margt verður mér ógleymanlegt af því sem sýnt var í dag, ekki síst þegar Álfur tók á móti Sleipnisbikarnum, umkringdur glæsilegum afkvæmum sínum. Það var svo stórkostlegt og fallegt að margir voru hrærðir. Og þegar allur hópurinn reið í burtu stóðu áhorfendur upp og klöppuðu þeim lof í lófa.

Margt mætti skrá hér um merkilega viðburði á Landsmótinu. Slíkir viðburðir verða sem betur fer víða geimdir annars staðar og nýtast mörgum.