Sindri í fótspor Péturs

MAÍDAGAR 2012

24.5. FIMMTUDAGUR

Nú rigndi myndarlega þennan daginn. Blóm, tré og runnar njóta þess fegin. Á lóðinni er komið kafgras. Eins gott að slá þetta sem fyrst.

Það var fjör við Bakkatjörn í morgun. Fullt af kríum sem spöruðu ekki raddböndin. Og sérlega gaman að sjá rauðhöfðaönd, sem ég hef ekki fyrr séð á Bakkatjörn. Herrann er aldeilis flott og sæll með frúna þar sem þau synda á tjörninni.

25.5. FÖSTUDAGUR

Svo hvasst var í morgun að ég var næstum fokin út í sundlaug. Hins vegar var veðrið ekki vont, þótt ég nennti ekki að berjast um úti. Mestur hiti mældist 11°.

26.5. LAUGARDAGUR

Skikkanlegt veður, en engin dýrð. Sólin lét varla sjá sig. Mestur hiti mældist 10°. Um kvöldið kom demba.

27.5. SUNNUDAGUR

Fínt veður í dag á sjálfan Hvítasunnudaginn. Sól og blíða.

Ég baukaði lengi í beðum og á þó eftir mikið puð. Skemmtilegast var þegar Pétur kenndi Sindra á sláttuvélina okkar. Sá var ekki lengi að læra sláttinn og hagaði sér eins og þaulvanur sláttumaður. Pétur hefur slegið lóðina hér árum saman, en er nú að flytja ásamt Marcelu í nýja íbúð, svo að Sindri rennir sér í fótspor Péturs.

28.5. MÁNUDAGUR

Öndvegis veður í allan dag. Getur varla betra verið til sláttar og við annað stúss utan dyra. Veðurstofan hélt því fram að mestur hiti hefði ekki orðið meiri en 11° þennan daginn.

29.5. ÞRIÐJUDAGUR

Sólin gleður mann hvern dag. Mestur hiti mældist 13°.

Katla á afmæli í dag. Katla og Kolbeinn hafa alltaf mikið að gera, svo að það gladdi mig að heyra að þau ætluðu að halda rækilega upp á afmælið. Þeim veitir ekki af að slaka stöku sinnum.

30.5. MIÐVIKUDAGUR

Prýðis veður daginn langan. 11° hiti mestur í dag samkvæmt Veðursstofunni.

Hér var unnið látlaust í dag. Pétur og Marcela pökkuðu búslóð sinni í miklum móð. Dóra er enn að betrumbæta aðstöðuna í kjallaranum, sem átti að vera bílageymsla. Þar hefur aldrei komið bíll inn fyrir þröskuldinn.

Illa fór fyrir Snældu. Hún ætlaði að fá sér vatn í krana, en tókst ekki betur en svo að hún datt ofan í klósettið. Sem betur fór var Sindri til taks og við hjálpuðumst við að þvo ungfrúnni í baðkerinu. Sú var ekki kát. Síðla dagsins kúrði hún sig í góðum stól og svaf í þrjá tíma. Veitti ekki af hvíldinni eftir ósköpin.

31.5. FIMMTUDAGUR

Sólin vakti mig fyrir kl. 6. Heiðríkja og sólskin frá morgni til nætur. Mestur hiti 14°. Í slíku veðri er ekki hægt að vera innan dyra.

Við fórum í Grasagarðinn og fengum okkur frábæra máltíð um hádegið. Humarsalat. Getur varla betra verið.

Pétur heldur áfram að undirbúa flutninginn, Dóra málar kassa, sem eiga að verða hillur undir bækur, og ég hreinsa hnakka. Allt ákaflega gagnlegt!