Gaukur hristi haus

JÚNÍDAGAR 2012

21.6. FIMMTUDAGUR

Fórum á Kaldbak að vera með hestunum. Nú eigum við ekki lengur hlut í Kaldbak, en hestar okkar eiga þar aðgang. Gaman hvað þeir tóku vel á móti okkur og við ekki síður ánægð.

Fórum í þrjá reiðtúra, og allt var gott og skemmtilegt að undanteknu miklu flugnageri, sem angraði okkur og þó sérstaklega hestana. Gaukur minn hristi hausinn án afláts, hundpirraður út í flugnaskammirnar.

Veðrið var þó ljómandi gott. Það rigndi svolítið með köflum, sem var gott og gagnlegt, því þurrkurinn hefur verið til baga. Hefði mátt fá enn myndarlegri dembur.

Við gistum næstu daga á Grund á Flúðum. Það er lítið snoturt Gistiheimili, engin íburður, en notalegur staður og ágætur matur.

22.6. FÖSTUDAGUR

Sváfum eins og sveskjur alla nóttina. Yndislegt veður, sól og meiri sól, en því miður flugur og enn fleiri flugur. Þrátt fyrir flugnagerið voru hestarnir í góðu stuði, og við fórum lengra en í gær. Við svo búið gáfum við þeim öllum góðan slurk af ormalyfi og mola í verðlaun. Nauðsynleg aðgerð.

23.6. LAUGARDAGUR

Frábært veður, sólskin allan daginn. Talsvert heitt, en nú hef ég engan hitamæli.

Enn lengdum við reiðtúrana og létum hestana sulla svolítið í ánni. Það kom sér vel í hitanum.

Til stóð að Birkir á Hæl kæmi til að járna hestana, en það fór út um þúfur þennan daginn vegna anna Birkis. Það gerði raunar ekkert til, niðurstaðan varð að járningin yrði viku síðar. Kemur sér bara betur, þá nálgast hestaferðin yfir Kjöl sem okkar bíður í júlí, og þá er gott að hestarnir séu nýjárnaðir.

24.6. SUNNUDAGUR

Enn skein sólin og enn var verulega hlýtt. Hestarnir voru sveittir í góða veðrinu og eins gott að gefa þeim frí næstu dagana. Svipað veður mun hafa verið í Suðvestrinu. Vonandi verður áfram gott veður a.m.k. vikuna sem Landsmótið stendur yfir. Það hefst á morgun.