Snælda uppi á þaki

JÚNÍDAGAR 2012

8.6. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður, þótt sólin skini ekki allan daginn. Mestur hiti 13 °.

Snælda litla brá sér upp á þakið hjá nágrönnunum í góða veðrinu. Dálítið bíræfin sú stutta og hefði varla komist aftur niður, ef Dóra hefði ekki sótt hana.

Snæddum háðegisverð með Þórði og Sólu á nýja staðnum hans Friðriks, sem var afar vinsæll á Akureyri fyrr á árum. Honum og fjölskyldunni bregðast ekki bogalistinn. Maturinn var ljúffengur og ótrúlega ódýr. Við eigum trúlega eftir að koma oftar á þennan ágæta stað.

Var að lesa Einvígið eftir Arnald Indriðason. Hann bregst aldrei.

9.6. LAUGARDAGUR

Gott veður. Mestur hiti mældist 11°.

Fór á nokkra staði í leit að fallegum blómum til að setja á leiði mömmu. Ekki veit ég hvers vegna blómin eru svo léleg að mér fannst, en ég gafst upp á leitinni og sætti mig við það sem til var. Mamma og Ása frænka fengu það skásta sem ég fékk. Vonandi braggast blómin í sæmilegri mold.

10.6. SUNNUDAGUR

Gott veður í dag. Mestur hiti 11°.

Bar blákorn á blóm, víði og tré og jós vatninu yfir öll beðin. Vona að þeim líði betur.

11.6. MÁNUDAGUR

Ágætt veður. Mestur hiti 12°.

Fengum Jón pípara í morgun. Sá var ekki lengi að laga það sem þurfti. Þá var hins vegar brýnt að ræða kosningabaráttu og forsetaframbjóðendur um drikklanga stund. Þar var margt gáfulegt sagt, og ekki nóg með það, því Bónfús kom skömmu síðar og sótti grútskítugu bílana okkar til yfirferðar. Á þeim bænum þurfti ekki síður að ræða af miklum ákafa um kosningabaráttu og frambjóðendur. Sannarlega nóg á þessum degi.

12.6. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður. Mestur hiti 11°.

RÚV reynir að tryggja almúganum nóg tækifæri til að kynnast forsetaframbjóðendum um þessar mundir, enda ekki langt til kosningar. Næstu daga verður rætt við hvern og einn þeirra og í kvöld varð Herdís Þorgeirsdóttir fyrst þeirra. Ekki skorti hana það sem hún vildi koma á framfæri.

13.6. MIÐVIKUDAGUR

Enn er sama veðrið. Mestur hiti 11°.

Fréttirnar á RÚV eru satt að segja oft og tíðum óttalega leiðinlegar. Upp á síðkastið er hins vegar farið í spor útvarpsins, sem segir oft skemmtilegar fréttir af hinu og þessu, t.d. um háttarlag fugla. Á RÚV hefur undanfarið verið sagt frá háttalagi lóunar, hrafnanna og nú síðast tjaldsins. Þetta kunna margir að meta.

Í kvöld var rætt við Þóru Arnórsdóttur. Hún stóð sig jafn vel og við mátti búast.

14.6. FIMMTUDAGUR

Gott veður. Mestur hiti 13°. Síðari hluta dagsins kom dynjandi rigning. Hún var vel þegin.

Lítið um að vera á Bakkatjörn. Álftirnar eru alltaf jafn virðulegar og annast ungana sína vel. Hef ekki séð þar aðra unga, hvorki hjá öndum né æðarfugli. Kríurnar láta þó til sín heyra eins og þeirra er vani, og ungar þeirra hljóta að sýna sig brátt.