Snælda og Snepla fengu frelsið

MAÍDAGAR 2012

8.5. ÞRIÐJUDAGUR

Napur er garrinn að norðan. Sólin gerir sitt til að efla hlýjuna, en hefur varla við.

Snælda og Snepla fengu frelsið í dag. Þær eru himinlifandi, sérstaklega Snælda, sem þoldi illa að vera innilokuð. Þær hoppa og skoppa og snuðra allt um kring, finnst afar spennandi að kanna umhverfið. Vonandi verða þær ekki of gálausar.

9.5. MIÐVIKUDAGUR

Um síðustu nótt var við frostmark. Í dag var veðrið ágætt, en mestur hiti var um 5°.

Léttir var ekki sjálfum sér líkur þegar ég setti hestana út. Lagðist hvað eftir annað og lá eins og klessa með lokuð augu. Ég hífði hann upp og fór með hann í göngutúr þar til Katrín mátti vera að því að líta á sjúklinginn. Honum batnaði sem betur fór þegar Katrín hafði skoðað hann og gefið honum sprautu. Frábært að geta fengið aðstoð Katrínu á næsta leiti. Litum aftur til Léttis í kvöld og hann virtist í góðu standi.

Ég fór stuttan túr á Dug, en eitthvað vantar upp á hjá okkur. Við þurfum líklega kennslu.

10.5. FIMMTUDAGUR

Það var hlýtt í sólinni, en kalt þar sem veðrið náði að blása. Mestur hiti 7°.

Breki var ekki í besta skapinu sínu í dag, vantaði líklega betri félaga en mig. Hann var nú vissulega mjúkur þessi ljúfi hestur, þótt hann eigi til tiktúrur. Stormur minn var hins vegar í hörku stuði og endaði á fljúgandi ferð. Það var sko gaman.

11.5. FÖSTUDAGUR

Það rigndi alltaf öðru hverju í dag. Það kom sér í rauninni vel því það var orðið mjög þurrt og mikið ryk. Mestur hiti mældist 8°.

Fór í góðan túr með Gauki og seinna með Breka, sem var í góðu stuði þennan daginn.

12.5. LAUGARDAGUR

Veðrið var nokkuð gott, að minnsta kosti þegar ekki rigndi. Mestur hiti 7°.

Nú kemur senn að lokum hjá elstu börnunum í leikskólanum í Skildinganesi. Áslaug er þar í hópi sex barna sem fara líklega flest í Melaskólann í haust. Það var svolítil hátíð í leikskólanum fyrir hádegið. Glæsilegast var þegar börnin sex stilltu sér upp á tröppur og sungu þrjú lög fyrir okkur. Þvílíkt flott! Þau fengu svo blóm og fleiri gjafir.

13.5. SUNNUDAGUR – MÆÐRADAGURINN

Hvasst var hér í dag, en mun verra veður blés um Norður- og Austurland. Þar var talsverð snjókoma, verulega hvasst og kalt. Vonandi stendur þetta veðurfar ekki lengi. Hef áhyggjur af fuglunum, sem flestir liggja á hreiðri og allmargir ungar komnir úr eggjum. Spurning hvort ungarnir hafi það af í kuldanum.

Kristín mín kom með mér í hesthúsið í dag. Hún er mjög dugleg og hefur gaman af að sinna hestunum. Hún fór á bak Stormi, sem var reyndar lítið kátur í rokinu. Þau fóru nokkra hringi í einu gerðinu og það dugði til að gleðja nöfnu mína.

Börnin mín mundu mæðradaginn, hringðu í mig, gáfu mér góðgæti og báru glæsilega tertu á borð. Ég er dekruð ;)

14.5. MÁNUDAGUR

Nú er næturfrost víðast hvar og óttalega kalt í hvassviðrinu. Hitinn mjakaðist upp í 2°. Nokkur snjókorn féllu hér, en verra er fyrir norðan þar sem enn er frost og kalt.